Ferill 613. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 613 . mál.


1189. Frumvarp til laga



um breytingu lagaákvæða um aðgang að sjúkraskrám o.fl.

Frá heilbrigðis- og trygginganefnd.



I. KAFLI


Breyting á læknalögum, nr. 53/1988, sbr. lög nr. 50/1990 og lög nr. 50/1996.


1. gr.


    16. gr. laganna orðast svo:
    Um skyldu læknis og annarra sem færa sjúkraskrá til þess að afhenda sjúklingi eða umboðsmanni hans afrit skrárinnar, í heild eða að hluta, fer eftir ákvæðum laga um réttindi sjúklinga.

II. KAFLI


Breyting á lögum um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, nr. 121/1989.

2. gr.


    Við 1. mgr. 1. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Jafnframt taka lögin til skýrslna sálfræðinga og félagsráðgjafa hvort sem þær teljast skrár í skilningi 2. mgr. eða ekki.

3. gr.


    10. gr. laganna orðast svo:
    Um skyldu læknis og annarra sem færa sjúkraskrá til þess að afhenda sjúklingi eða umboðsmanni hans afrit skrárinnar, í heild eða að hluta, fer eftir ákvæðum laga um réttindi sjúklinga.

III. KAFLI


Breyting á upplýsingalögum, nr. 50/1996.


4. gr.


    2.–4. málsl. 2. mgr. 8. gr. laganna falla brott.

5. gr.


    4. mgr. 9. gr. laganna orðast svo:
    Um aðgang sjúklings að upplýsingum úr sjúkraskrá fer eftir ákvæðum laga um réttindi sjúklinga.





Prentað upp.

IV. KAFLI


Gildistaka.


6. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1997.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta er lagt fram samhliða því að heilbrigðis- og trygginganefnd hefur ákveðið að mæla með samþykkt frumvarps til laga um réttindi sjúklinga, 260. máls. Breytingar þessar er nauðsynlegar til samræmis ef framangreint frumvarp og breytingartillögur við það verða að lögum, en í IV. kafla frumvarpsins er kveðið á um aðgang að upplýsingum úr sjúkraskrám.
    Í frumvarpi til laga um réttindi sjúklinga er í 2. mgr. 15. gr. gert ráð fyrir að þeim sem standa að vísindarannsókn sé heimill aðgangur að sjúkraskrám ef rannsókn krefst þess og hún uppfyllir skilyrði vísindarannsóknar samkvæmt skilgreiningu í 4. mgr. 2. gr. frumvarpsins. Í frumvarpinu er hins vegar ekki kveðið á um hver eigi að meta hvort þeim skilyrðum sé fullnægt og ekki er gert ráð fyrir heimildum til að setja aðgangi að slíkum upplýsingum og meðferð þeirra ákveðin skilyrði eða takmörk, svo sem að umfjöllun í niðurstöðum rannsóknar sé með þeim hætti að ekki verði unnt að þekkja eða persónugreina þá einstaklinga sem rannsakaðir eru.
    Við umfjöllun allsherjarnefndar um frumvarp til upplýsingalaga á 120. löggjafarþingi 1995–96 varð það niðurstaða nefndarinnar að fella takmarkanir á almennum aðgangi að sjúkraskrám og skýrslum sálfræðinga og félagsráðgjafa ekki niður en veita úrskurðarnefnd um upplýsingamál, sem til var stofnað með V. kafla upplýsingalaga, nr. 50/1996, heimildir til að leyfa aðgang að þeim í rannsóknarskyni þegar þær hefðu verið afhentar skjalasafni, sbr. 2. mgr. 8. gr. laganna. Jafnframt var nefndinni heimilað að binda slík leyfi þeim skilyrðum sem hún mæti nauðsynleg hverju sinni, þar á meðal þeim sem að framan getur, svo og þagnarskyldu þeirra sem aðgangurinn væri veittur. Þessi leið varð fyrir valinu m.a. vegna þess að þá hafði ekki verið mótuð heildarstefna um hvernig aðgangi að þessum upplýsingum yrði best fyrir komið. Í ljósi þess að í frumvarpi til laga um réttindi sjúklinga er leitast við að safna á einn stað öllum helstu réttarreglum er varða réttarstöðu sjúklinga virðist ekki hjá því komist að taka heildstætt á aðgangi að þeim upplýsingum sem hér um ræðir þannig að samræmis verði gætt um skilyrði og framkvæmd lagareglna á þessu sviði.
    Samkvæmt 1. gr. reglugerðar um sjúkraskrár og skýrslugerð varðandi heilbrigðismál, nr. 227/1991, með síðari breytingum, er sjúkraskrá safn sjúkragagna sem unnin eru eða fengin annars staðar frá vegna meðferðar einstaklinga hjá lækni eða á heilbrigðisstofnun. Þá hvílir skv. 2. gr. sú skylda á öllum læknum sem taka einstaklinga til greiningar og meðferðar að halda sjúkraskrá um hvern þeirra og færa í hana komu-, innlagnar- og útskriftardag, heilsufars- og sjúkrasögu, upphafsgreiningu, rannsóknaráætlun, meðferðaráform, niðurstöður rannsókna og umsagnir ráðgefandi sérfræðinga. Við útskrift sjúklings af heilbrigðisstofnun ber síðan skv. 10. gr. að flytja öll rituð sjúkragögn saman í eina sjúkraskrá og flytji sjúklingur milli starfssvæða heilsugæslustöðva skal heilsugæslustöð svæðisins sem hann flytur frá senda heilsufarsskrá viðkomandi til heilsugæslustöðvar svæðisins sem hann flytur til. Af þessum réttarreglum um tilurð, söfnun og meðferð upplýsinga í sjúkraskrám má ljóst vera að hver sjúkraskrá er dæmigerð fyrir þá kerfisbundnu skráningu ákveðinna og afmarkaðra upplýsinga í skipulagsbundna heild sem skírskotað er til í gildissviðsákvæði 2. mgr. 1. gr. laga um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, nr. 121/1989 (tölvulaga), en þau lög gilda eingöngu um upplýsingagjöf úr skrám sem hafa að geyma persónuupplýsingar. Um leið falla sjúkraskrár sem slíkar utan gildissviðs og meginreglu upplýsingalaga, sbr. 2. mgr. 2. gr. og 1. og 2. mgr. 3. gr. þeirra laga, með því að þau gilda almennt ekki um aðgang að upplýsingum í skrám, en á þessum greinarmun eru lagaskilin á milli upplýsingalaga og tölvulaga m.a. reist. Að auki er gildissvið tölvulaganna víðtækara en upplýsingalaga að því leyti að þau taka ekki einungis til skráningar á vegum hins opinbera heldur ná þau einnig til einkaaðila.
     Af þessum sökum er í breytingartillögu við 15. gr. frumvarps til laga um réttindi sjúklinga lagt til að tölvunefnd, sem starfar skv. X. kafla tölvulaga, verði falið það hlutverk að afgreiða umsóknir um aðgang að upplýsingum úr sjúkraskrám í þágu vísindarannsókna, en í breytingartillögu við 2. gr. frumvarpsins er því jafnframt bætt við skilgreiningu þess hugtaks að mat vísindasiðanefndar eða siðanefndar, sem stofnað er til með breytingartillögu við 29. gr. frumvarpsins, hafi leitt í ljós að vísindaleg og siðfræðileg sjónarmið standi framkvæmd rannsóknar ekki í vegi. Með þessu móti verður aðgangur að sjúkraskrám í rannsóknarskyni ávallt háður opinberu eftirliti án tillits til þess hvort skráarhaldari eða vörslustaður telst til hins opinbera eða ekki. Um leið er í þessu frumvarpi lagt til að þetta hlutverk úrskurðarnefndar um upplýsingamál varðandi aðgang að sjúkraskrám falli brott.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í frumvarpi til laga um réttindi sjúklinga er leitast við að safna á einn stað öllum helstu réttarreglum er varða réttarstöðu sjúklinga, þar á meðal um aðgang sjúklings að upplýsingum í sjúkraskrá sinni, sbr. 14. gr. frumvarpsins. Sams konar ákvæði hefur til skamms tíma verið í 16. gr. læknalaga, nr. 53/1988, sbr. nú 3. gr. laga nr. 50/1990 og 4. tölul. 25. gr. laga nr. 50/1996, en það var þangað flutt úr 10. gr. laga um kerfisbundna skráningu á upplýsingum er varða einkamálefni, nr. 63/1981. Til að auðvelda lagatúlkun og í samræmi við það markmið frumvarps til laga um réttindi sjúklinga að auka yfirsýn yfir gildandi lagareglur á því sviði er í þessari grein lagt til að 16. gr. læknalaga vísi um rétt sjúklings til aðgangs að upplýsingum úr sjúkraskrá sinni til þeirra laga. Millitilvísanir í lögum eru hin hefðbundna leið þegar svona háttar til og því einungis um lagatæknilega breytingu að ræða.

Um 2. gr.


    Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. upplýsingalaga er úrskurðarnefnd um upplýsingamál ekki einungis falið að fjalla um aðgang að gömlum sjúkraskrám heldur einnig um skýrslur sálfræðinga og félagsráðgjafa sem afhentar hafa verið opinberu skjalasafni. Skýrslur þessar eru ýmist þess eðlis að þær geyma upplýsingar um tiltekin mál í skilningi upplýsingalaga eða safn fleiri en eins máls og teljast þá skrár í skilningi tölvulaga. Samkvæmt því færi það eftir efni hverrar skýrslu á grundvelli hvaða laga yrði leyst úr beiðni um aðgang að henni.
    Enda þótt ákvæði upplýsinga- og tölvulaga standi til að takmarka aðgang almennings að svo viðkvæmum persónuupplýsingum sem skýrslur af þessu tagi hafa yfirleitt að geyma er í þessari grein lagt til að tölvulögin taki til þeirra allra án tillits þess hvort þær myndi skrár í skilningi þeirra laga eða hvort nota á þær í rannsóknaskyni eða ekki. Sú breyting stendur í beinum tengslum við þá breytingu sem lögð er til í 4. gr. þessa frumvarps en með því móti vinnst jafnframt það að skýrslur um einstök mál í vörslu einkaaðila, sem að öðrum kosti mundu hvorki falla undir upplýsingalög né tölvulög, koma til með að heyra undir hin síðarnefndu.

Um 3. gr.


    Gildandi ákvæði vísar til læknalaga um skyldu læknis til að veita sjúklingi eða umboðsmanni hans aðgang að sjúkraskrá. Hér er lagt til að sams konar tilvísun vísi til laga um réttindi sjúklinga, sbr. athugasemdir við 1. gr. þessa frumvarps.

Um 4. gr.


    Í greinargerð með frumvarpi þessu hefur verið lýst aðdraganda þess að úrskurðarnefnd um upplýsingamál var falið það hlutverk að veita aðgang að sjúkraskrám og skýrslum sálfræðinga og félagsráðgjafa sem afhentar hafa verið skjalasafni. Jafnframt var þar lýst ástæðum þeirrar breytingartillögu sem gerð er við 15. gr. frumvarps til laga um réttindi sjúklinga. Í samræmi við hana er í þessari grein lagt til að þetta hlutverk úrskurðarnefndarinnar falli niður. Auk þess er áður greinir kemur þar tvennt til. Annars vegar það að meginhlutverk úrskurðarnefndarinnar er af öðrum toga spunnið og felst í því að þjóna sem kærustig við úrlausn ágreiningsmála um aðgang að upplýsingum samkvæmt upplýsingalögum. Hins vegar það að sjúkraskrár og sá hluti skýrslna sálfræðinga og félagsráðgjafa sem telja verður skrár í skilningi tölvulaga og komnar eru á skjalasafn hefðu að öðrum kosti fallið utan gildissviðs upplýsingalaga.

Um 5. gr.


    Gildandi ákvæði vísar til læknalaga um aðgang sjúklings að sjúkraskrá sinni. Hér er lagt til að sams konar tilvísun vísi til laga um réttindi sjúklinga, sbr. athugasemdir við 1. gr. þessa frumvarps.

Um 6. gr.


    Lagt er til að gildistökudagur verði hinn sami og laga um réttindi sjúklinga verði það frumvarp að lögum.