Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1252, 121. löggjafarþing 437. mál: virðisaukaskattur (afmörkun skattskyldu o.fl.).
Lög nr. 55 22. maí 1997.

Lög um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.


1. gr.

     5. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
     Góðgerðarstarfsemi er undanþegin skattskyldu, enda renni hagnaður af henni að öllu leyti til líknarmála. Skilyrði fyrir undanþágu er að starfsemin sé á ábyrgð og fjárhagsleg áhætta aðila og hann hafi fengið staðfestingu skattstjóra um að framangreind skilyrði séu uppfyllt. Eftirtalin starfsemi telst góðgerðarstarfsemi samkvæmt ákvæðinu:
  1. basarsala, merkjasala og önnur hliðstæð sala góðgerðarfélaga, enda vari starfsemin ekki lengur en í þrjá daga í hverjum mánuði eða í fimmtán daga sé um árlegan atburð að ræða,
  2. söfnun og sala verðlítilla notaðra muna, enda sé einungis selt til skattskyldra aðila,
  3. sala nytjamarkaða á notuðum munum sem söluaðili hefur fengið afhenta án endurgjalds.


2. gr.

     2. mgr. 3. gr. laganna orðast svo:
     Aðilar, sem hafa með höndum starfsemi sem fellur undir 3. og 5. mgr. 2. gr., skulu greiða virðisaukaskatt af skattskyldum vörum og þjónustu þegar vara er framleidd eða þjónusta innt af hendi eingöngu til eigin nota og í samkeppni við skattskylda aðila skv. 1. mgr. Jafnframt skulu aðilar sem stunda byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð á eigin kostnað, þar með talið viðhald og endurbætur, greiða virðisaukaskatt af eigin vinnu, vinnu starfsmanna og efnis- og tækjanotkun, hvort sem byggt er til sölu, leigu eða til eigin nota. Eigin vinna byggingaraðila er þó ekki skattskyld þegar aðili byggir eingöngu til eigin nota, enda noti hann ekki vinnuafl launþega við hönnun eða framkvæmdir og vinnan er ekki í iðn- eða sérfræðigrein hans eða sambærilegri grein. Þá skulu ríki, sveitarfélög og stofnanir þeirra greiða virðisaukaskatt af skattskyldum vörum og þjónustu vegna eigin nota, enda sé ekki um að ræða vinnu eða þjónustu skv. 3. mgr. 42. gr. sem innt er af hendi utan sérstaks fyrirtækis eða þjónustudeildar. Fjármálaráðherra er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins, þar með talið um það hvenær starfsemi geti verið í samkeppni við atvinnufyrirtæki, skattverð, bókhald o.fl.

3. gr.

     Í stað fjárhæðarinnar „100.000 kr.“ í 3. tölul. 4. gr. laganna kemur: 220.000 kr.

4. gr.

     Í stað orðanna „framleiðslu vöru til sölu í atvinnuskyni á síðari rekstrarárum“ í 2. málsl. 5. mgr. 5. gr. laganna kemur: sölu á skattskyldri vöru eða þjónustu í atvinnuskyni á síðari rekstrartímabilum.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
  1. Við 1. tölul. 1. mgr. bætist nýr málsliður er orðast svo: Fjarskiptaþjónusta telst ekki vera veitt erlendis ef kaupandi hefur annaðhvort búsetu eða starfsstöð hér á landi.
  2. Við bætast nýir töluliðir sem orðast svo:
    1. Þjónusta sem veitt er erlendum fiskiskipum vegna löndunar eða sölu afla hér á landi.
    2. Sala á þjónustu til aðila sem hvorki hafa búsetu né starfsstöð hér á landi, enda sé hún að öllu leyti nýtt erlendis.
  3. 2. málsl. 2. mgr. fellur brott.


6. gr.

     Í stað fjárhæðarinnar „3.000 kr.“ í 7. mgr. 20. gr. laganna kemur: 6.000 kr.

7. gr.

     Í stað fjárhæðarinnar „600.000 kr.“ í 1. mgr. 24. gr. laganna kemur: 1.400.000 kr.

8. gr.

     Á eftir orðunum „villandi gögn“ í 4. málsl. 4. mgr. 25. gr. laganna kemur: eða tilkynnt skattrannsóknarstjóra ríkisins grun um skattsvik eða refsiverð brot á lögum um bókhald og ársreikninga skv. 6. mgr. 26. gr.

9. gr.

     Við 1. mgr. 27. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo: Þá skal aðili sæta álagi ef endurgreiðsla skv. 1., 3. og 4. mgr. 42. gr. og 3. mgr. 43. gr. hefur verið of há.

10. gr.

     Í stað tölunnar „45“ í 5. mgr. 28. gr. laganna kemur: 15.

11. gr.

     35. gr. laganna orðast svo:
     Aðili, sem kaupir skattskylda þjónustu erlendis frá til nota að hluta eða öllu leyti hér á landi, skal greiða virðisaukaskatt af andvirði hennar. Sama gildir um þjónustu erlends aðila sem veitt er hér á landi, enda hafi hinn erlendi aðili hvorki starfsstöð né umboðsmann hér á landi.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er aðili sem skráður er skv. 5. gr. undanþeginn skyldu til greiðslu virðisaukaskatts skv. 1. mgr. ef hann gæti að fullu talið virðisaukaskatt vegna kaupanna til innskatts, sbr. 3. og 4. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 16. gr. Þetta gildir þó ekki þegar þjónusta er veitt eða hennar notið í tengslum við innflutning á vöru.

12. gr.

      Eftirfarandi breytingar verða á 36. gr. laganna:
  1. 3. mgr. orðast svo:
  2.      Innflutningur á rituðu máli, sem sent er til vísindastofnana, bókasafna og annarra opinberra stofnana án endurgjalds, er undanþeginn greiðslu virðisaukaskatts, án tillits til í hvaða formi efnið er, enda sé innflutningurinn ekki í viðskiptaskyni. Sama gildir um ritað mál sem öðrum aðilum er sent án endurgjalds, enda fari fob-verð sendingar ekki yfir 5.000 kr. og innflutningurinn sé ekki í viðskiptaskyni.
  3. Við greinina bætist ný málsgrein er orðast svo:
  4.      Vörur, sem fluttar eru til landsins af aðilum sem skráðir eru skv. 5. gr., eru undanþegnar virðisaukaskatti ef fob-verð sendingar nemur ekki hærri fjárhæð en 1.500 kr. Áfengir drykkir og tóbak eru þó ekki undanþegin virðisaukaskatti. Fjármálaráðherra setur nánari reglur um undanþágu virðisaukaskatts samkvæmt þessu ákvæði.


13. gr.

     3. mgr. 42. gr. laganna orðast svo:
     Endurgreiða skal ríki, sveitarfélögum og stofnunum þeirra virðisaukaskatt sem þau hafa greitt við kaup á eftirtalinni þjónustu eða vöru:
  1. Sorphreinsun, þ.e. söfnun, flutningi, urðun og eyðingu sorps og annars úrgangs, þar með talið brotamálma. Ákvæði þetta tekur einnig til leigu eða kaupa á sorpgámum vegna staðbundinnar sorphirðu.
  2. Ræstingu.
  3. Snjómokstri og snjó- og hálkueyðingu með salti eða sandi.
  4. Björgunarstörfum og öryggisgæslu vegna náttúruhamfara og almannavarna.
  5. Þjónustu verkfræðinga, tæknifræðinga, arkitekta, lögfræðinga, löggiltra endurskoðenda og annarra sérfræðinga er almennt þjóna atvinnulífinu og lokið hafa háskólanámi, sambærilegu langskólanámi eða starfa sannanlega á sviði fyrrgreindra aðila og veita sambærilega þjónustu.
  6. Þjónustu vaktstöðva vegna samræmdrar neyðarsímsvörunar.


14. gr.

     45. gr. laganna fellur brott.

15. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1997.

Samþykkt á Alþingi 13. maí 1997.