Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1366, 121. löggjafarþing 244. mál: umboðsmaður Alþingis (heildarlög).
Lög nr. 85 27. maí 1997.

Lög um umboðsmann Alþingis.


1. gr.

Kosning umboðsmanns Alþingis.
     Alþingi kýs umboðsmann Alþingis til fjögurra ára. Hann skal uppfylla skilyrði laga til að mega gegna embætti hæstaréttardómara og má ekki vera alþingismaður.
     Ef umboðsmaður andast eða verður af öðrum sökum ófær um að gegna starfi sínu framvegis skal Alþingi kjósa umboðsmann að nýju. Sama hátt skal hafa á ef umboðsmaður fær að eigin ósk lausn frá embætti sínu eða tveir þriðju hlutar þingmanna samþykkja að víkja honum úr embætti.
     Við tímabundin forföll umboðsmanns setur forseti Alþingis staðgengil til að gegna embættinu meðan forföll vara.

2. gr.

Hlutverk umboðsmanns Alþingis o.fl.
     Hlutverk umboðsmanns er að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum þessum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal hann gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti.
     Umboðsmaður er í störfum sínum óháður fyrirmælum frá öðrum, þar með töldu Alþingi.

3. gr.

Starfssvið umboðsmanns Alþingis.
     Starfssvið umboðsmanns Alþingis tekur til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga.
     Starfssvið umboðsmanns tekur einnig til starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga.
     Starfssvið umboðsmanns tekur ekki til:
  1. starfa Alþingis og stofnana þess, sbr. þó 11. gr.,
  2. starfa dómstóla,
  3. ákvarðana og annarra athafna stjórnvalda, þegar samkvæmt beinum lagafyrirmælum er ætlast til að menn leiti leiðréttingar með málskoti til dómstóla. Þetta gildir þó ekki um mál skv. 5. gr.


4. gr.

Kvörtun til umboðsmanns Alþingis.
     Umboðsmaður getur tekið mál til meðferðar eftir kvörtun.
     Hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila, sem fellur undir ákvæði 1. eða 2. mgr. 3. gr., getur kvartað af því tilefni til umboðsmanns.
     Sá sem er sviptur frelsi sínu á rétt til að bera fram kvörtun við umboðsmann í lokuðu bréfi.

5. gr.

Frumkvæðismál.
     Umboðsmaður getur að eigin frumkvæði ákveðið að taka mál til meðferðar. Hann getur jafnframt tekið starfsemi og málsmeðferð stjórnvalds til almennrar athugunar.

6. gr.

Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.
     Kvörtun til umboðsmanns skal vera skrifleg og skal þar greint nafn og heimilisfang þess er kvartar. Í kvörtun skal lýst þeirri úrlausn eða annarri háttsemi stjórnvalda sem er tilefni kvörtunar. Öll tiltæk sönnunargögn um málsatvik skulu fylgja kvörtun.
     Kvörtun skal bera fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur.
     Ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ársfresturinn skv. 2. mgr. hefst þá frá þeim tíma.

7. gr.

Rannsókn máls.
     Umboðsmaður Alþingis getur krafið stjórnvöld um þær upplýsingar og skriflegar skýringar sem hann þarfnast vegna starfs síns, þar á meðal getur hann krafist afhendingar á skýrslum, skjölum, bókunum og öllum öðrum gögnum sem mál snerta.
     Umboðsmaður getur kvatt starfsmenn stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á sinn fund til viðræðna um málefni sem eru á starfssviði umboðsmanns, svo og til þess að veita munnlega upplýsingar og skýringar er varða einstök mál.
     Umboðsmaður á frjálsan aðgang að öllum starfsstöðvum stjórnvalda til athugana í þágu starfs síns og skulu starfsmenn láta honum í té alla nauðsynlega aðstoð af því tilefni.
     Umboðsmaður getur ekki krafist upplýsinga er varða öryggi ríkisins eða utanríkismál sem leynt skulu fara nema með leyfi ráðherra þess sem í hlut á.
     Umboðsmaður getur óskað þess að héraðsdómari kveðji mann fyrir dóm til að bera vitni um atvik sem máli skipta að dómi umboðsmanns. Við þá skýrslugjöf skal fara eftir ákvæðum laga um meðferð opinberra mála, eftir því sem við á. Ákveða má að skýrsla sé gefin fyrir luktum dyrum.
     Umboðsmanni er heimilt að leita aðstoðar sérfræðinga þegar sérstaklega stendur á og afla nauðsynlegra sérfræðilegra gagna.

8. gr.

Þagnarskylda.
     Umboðsmanni ber að gæta þagnarskyldu um þau atvik sem honum verða kunn í starfinu og leynt eiga að fara vegna lögmætra almanna- eða einkahagsmuna. Sama gildir um starfsmenn umboðsmanns. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

9. gr.

Skýringar stjórnvalda.
     Nú ákveður umboðsmaður Alþingis að taka til meðferðar kvörtun á hendur stjórnvaldi og skal þá strax skýra stjórnvaldinu frá efni kvörtunarinnar nema hætta sé á að rannsókn kunni að torveldast af þeim sökum.
     Jafnan skal gefa stjórnvaldi, sem kvörtun beinist að, kost á að skýra málið fyrir umboðsmanni áður en hann lýkur málinu með álitsgerð skv. b-lið 2. mgr. 10. gr. Hann getur sett stjórnvaldi ákveðinn frest í þessu skyni.

10. gr.

Lyktir máls.
     Telji umboðsmaður þegar í upphafi að kvörtun gefi ekki nægilegt tilefni til nánari athugunar eða uppfylli ekki skilyrði laganna til frekari meðferðar skal hann tilkynna þeim sem kvartað hefur þá niðurstöðu. Er málinu þá lokið af hálfu umboðsmanns.
     Hafi umboðsmaður tekið mál til nánari athugunar er honum heimilt að ljúka því með eftirfarandi hætti:
  1. Hann getur látið mál niður falla að fenginni leiðréttingu eða skýringu stjórnvalds.
  2. Hann getur látið í ljós álit sitt á því hvort athöfn stjórnvalds brjóti í bága við lög eða hvort annars hafi verið brotið gegn vönduðum stjórnsýsluháttum. Sæti athafnir stjórnvalds aðfinnslum eða gagnrýni umboðsmanns getur hann jafnframt beint tilmælum til stjórnvalds um úrbætur.
  3. Varði kvörtun réttarágreining sem á undir dómstóla og eðlilegt er að þeir leysi úr getur umboðsmaður lokið máli með ábendingu um það.
  4. Umboðsmaður getur lagt til við dómsmálaráðherra að veitt verði gjafsókn í máli sem heyrir undir starfssvið umboðsmanns og hann telur rétt að lagt verði fyrir dómstóla til úrlausnar.
  5. Telji umboðsmaður að um sé að ræða brot í starfi er varði viðurlögum samkvæmt lögum getur hann gert viðeigandi yfirvöldum viðvart.


11. gr.

Meinbugir á lögum o.fl.
     Ef umboðsmaður verður þess var að meinbugir séu á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum skal hann tilkynna það Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórn.

12. gr.

Skýrsla umboðsmanns Alþingis o.fl.
     Umboðsmaður skal gefa Alþingi árlega skýrslu um starfsemi sína á liðnu almanaksári. Skýrsluna skal prenta og birta opinberlega fyrir 1. september ár hvert.
     Ef umboðsmaður verður áskynja stórvægilegra mistaka eða afbrota stjórnvalds getur hann gefið Alþingi eða hlutaðeigandi ráðherra sérstaka skýrslu um málið. Ef starfsmaður sveitarstjórnar á í hlut getur umboðsmaður gefið sveitarstjórn sérstaka skýrslu.
     Umboðsmaður ákveður sjálfur hvort hann gefur opinbera tilkynningu um mál og á hvern hátt hann gerir það.
     Ávallt er umboðsmaður lætur frá sér fara tilkynningu um mál skal hann greina hvað stjórnvaldið, er hlut á að máli, hefur fært fram sér til varnar.

13. gr.

Kjör umboðsmanns Alþingis o.fl.
     Forsætisnefnd Alþingis ákveður laun umboðsmanns. Að öðru leyti skal umboðsmaður njóta kjara hæstaréttardómara. Hann á rétt til biðlauna er hann lætur af starfi samkvæmt VI. kafla laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
     Umboðsmaður ræður sjálfur starfsmenn sína eftir því sem fjárveitingar leyfa. Umboðsmanni er með sama skilorði heimilt að ráða menn til að vinna að einstökum verkefnum. Ákvæði 7. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins gilda ekki um störf hjá umboðsmanni.
     Forseti Alþingis gerir kjarasamninga við starfsmenn umboðsmanns Alþingis, sbr. 3. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

14. gr.

Hæfisreglur og staðgenglar.
     Umboðsmanni er óheimilt að hafa með höndum launuð störf í þágu opinberra stofnana eða einkafyrirtækja nema með samþykki forseta Alþingis.
     Þegar umboðsmaður víkur sæti við meðferð máls setur forseti Alþingis mann til þess að fara með málið. Skal hann uppfylla sömu hæfisskilyrði og umboðsmaður að undanskildum þeim skilyrðum sem fram koma í 1. mgr. þessarar geinar.

15. gr.

Endurskoðun.
     Reikningar umboðsmanns skulu endurskoðaðir af óháðum löggiltum endurskoðanda sem tilnefndur er af forseta Alþingis.

16. gr.

Málssókn gegn umboðsmanni.
     Dómari skal vísa frá dómi einkamáli sem höfðað er gegn umboðsmanni vegna ákvarðana sem hann tekur á grundvelli 10. gr., komi fram krafa um það frá umboðsmanni.

17. gr.

Reglur um störf og starfshætti.
     Alþingi setur nánari reglur um störf og starfshætti umboðsmanns og skulu þær birtar í A-deild Stjórnartíðinda.

18. gr.

Gildistaka o.fl.
     Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla þá úr gildi lög nr. 13 20. mars 1987, um umboðsmann Alþingis.
     Jafnframt falla brott orðin „umboðsmaður Alþingis“ í 2. gr. laga nr. 120/1992, um Kjaradóm og kjaranefnd.

Samþykkt á Alþingi 16. maí 1997.