Tilhögun þingfundar

Föstudaginn 06. mars 1998, kl. 11:39:35 (4423)

1998-03-06 11:39:35# 122. lþ. 81.91 fundur 248#B tilhögun þingfundar#, Forseti ÓE
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 122. lþ.

[11:39]

Forseti (Ólafur G. Einarsson):

Eins og sjá má á prentaðri dagskrá þessa fundar liggja einungis fyrir tvö mál til umræðu, frumvörp frá hæstv. félmrh. um húsnæðismál. Um fundarhaldið í dag vill forseti taka fram að gert er ráð fyrir að þingfundi muni ljúka eigi síðar en kl. fjögur í dag. Og ljúki ekki umræðu um frv. tvö --- forseti er svo sem ekki að gera sér sérstaklega von um það --- mun umræðu um málið haldið áfram á mánudag og er stefnt að því að ljúka umræðum þá og atkvæðagreiðslum.

Eftir að frv. fjmrh. um vaxtabætur var útbýtt á þingfundi síðdegis í gær komu fram tilmæli frá hv. 8. þm. Reykv., studd ræðum nokkurra þingmanna, að kannað yrði hvort hægt væri að fresta umræðu um húsnæðismálin fram yfir helgi, væntanlega vegna þess hversu seint vaxtabótafrumvarpið kom fram. Forseti vill af því tilefni taka fram að það stóð alls ekki til að taka það mál á dagskrá þessa fundar í dag en hafði hins vegar lagt áherslu á að því frv. yrði útbýtt hér áður en umræður um húsnæðisfrumvörpin hæfust og svo var gert.

Forseti vonast til að 1. umr. um vaxtabótafrumvarpið geti farið fram fljótlega eftir helgi.

Forseti getur ekki orðið við þeim tilmælum að fresta umræðu um dagskrármálin fram yfir helgi og hverfa þannig frá fyrri ákvörðun um skipulag þingstarfa.

Að öðru leyti vill forseti taka fram að þingflokkur jafnaðarmanna hefur óskað eftir að ræðutími verði tvöfaldaður. Sá er réttur þingflokksins og verður því svo gert.

Þá gerir forseti ráð fyrir að það verði stutt hlé, væntanlega um kl. eitt í dag eða eftir framsöguræðu hæstv. ráðherra.