Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 621, 122. löggjafarþing 165. mál: háskólar.
Lög nr. 136 23. desember 1997.

Lög um háskóla.


I. KAFLI
Gildissvið og hlutverk háskóla.

1. gr.

     Lög þessi taka til þeirra menntastofnana sem veita æðri menntun. Ákvæði IV. kafla laganna taka þó einvörðungu til ríkisháskóla.
     Nánari reglur um starfsemi háskóla er að finna í sérlögum, reglugerðum, starfsreglum, samþykktum eða skipulagsskrám háskóla.

2. gr.

     Háskóli er menntastofnun sem jafnframt sinnir rannsóknum ef svo er kveðið á um í reglum um starfsemi hvers skóla. Háskóli skal veita nemendum sínum menntun til þess að sinna sjálfstætt vísindalegum verkefnum, nýsköpun og listum og til þess að gegna ýmsum störfum í þjóðfélaginu þar sem æðri menntunar er krafist. Háskólar skulu miðla fræðslu til almennings og veita þjóðfélaginu þjónustu í krafti þekkingar sinnar.

3. gr.

     Ríkisreknir háskólar eru sjálfstæðar ríkisstofnanir sem heyra stjórnarfarslega undir menntamálaráðherra og lúta stjórn samkvæmt sérstökum lögum um hvern skóla. Háskólar geta verið sjálfseignarstofnanir og starfa þá eftir staðfestri skipulagsskrá. Heimilt er einkaaðilum að stofna háskóla að fengnu samþykki menntamálaráðherra. Allir háskólar skulu hafa sjálfstæðan fjárhag gagnvart ríkissjóði.

4. gr.

     Menntamálaráðherra skal hafa eftirlit með gæðum menntunar sem háskólar veita og að þeir uppfylli ákvæði laga þessara og þeirra sérfyrirmæla sem um þá gilda.
     Menntamálaráðherra er heimilt að veita háskólum sem kostaðir eru af einkaaðilum starfsleyfi ef þeir starfa eftir samþykktum eða skipulagsskrám sem menntamálaráðherra staðfestir.
     Uppfylli háskóli sem fengið hefur starfsleyfi ekki ákvæði laga þessara, sérfyrirmæla sem um hann gilda eða þær kröfur, sem gerðar eru til kennslu og rannsókna, getur menntamálaráðherra afturkallað starfsleyfið.

5. gr.

     Menntamálaráðherra skal setja almennar reglur um eftirfarandi þætti:
 1. Með hvaða hætti hver háskóli skuli uppfylla skyldur sínar um eftirlit með gæðum kennslunnar, hæfni kennara og hvernig ytra gæðaeftirliti skuli háttað.
 2. Með hvaða hætti hver háskóli, sem hefur rannsóknarhlutverk, skuli uppfylla skyldur sínar um eftirlit með gæðum rannsóknanna og nýtingu þeirra fjármuna sem fara til rannsókna.
 3. Kærur eða málskotsrétt nemenda í málum þar sem þeir telja brotið á rétti sínum. Slíkar reglur geta falið í sér ákvæði um að kærumál nemenda skuli fara fyrir sérstaka áfrýjunarnefnd sem hafi endanlegt úrskurðarvald.


II. KAFLI
Kennarar og nemendur.

6. gr.

     Nemendur, sem hefja nám í háskóla, skulu hafa lokið stúdentsprófi, öðru sambærilegu námi eða búa yfir jafngildum þroska og þekkingu að mati stjórnar viðkomandi háskóla.
     Tryggja skal að inntökuskilyrði í háskóla og námskröfur svari jafnan til þess sem krafist er í viðurkenndum háskólum á sambærilegu sviði erlendis.
     Háskólar geta ákveðið sérstök viðbótarinntökuskilyrði ef þörf gerist, þar á meðal að láta nemendur sem uppfylla framangreind skilyrði gangast undir inntökupróf eða stöðupróf.

7. gr.

     Kennarar í háskóla skulu hafa lokið meistaraprófi hið minnsta eða hafa jafngilda þekkingu og reynslu að mati dómnefndar. Þeir skulu jafnframt hafa sýnt þann árangur í starfi að þeir njóti viðurkenningar á starfssviði sínu. Nánari fyrirmæli um dómnefndir, kröfur til kennara, hæfni þeirra og starfsskyldur eru sett í sérlög og reglugerð, samþykktir eða skipulagsskrá um hvern háskóla.

III. KAFLI
Fyrirkomulag kennslu.

8. gr.

     Yfirstjórn hvers skóla tekur ákvörðun um fyrirkomulag kennslu, náms og námsmats og um skipulag rannsókna.

9. gr.

     Kennsla í háskólum skal fara fram í námskeiðum sem metin eru í einingum. Fullt nám telst 30 einingar á námsári að jafnaði og endurspeglar alla námsvinnu nemenda og viðveru í kennslustundum.
     Námi á háskólastigi skal ljúka með prófgráðu sem veitt er þegar nemandi hefur staðist próf í öllum námskeiðum og skilað með fullnægjandi árangri þeim verkefnum sem tilheyra námi til prófgráðunnar.
     Menntamálaráðherra skal gefa út skrá um viðurkenndar prófgráður og inntak þeirra.
     Nánari fyrirmæli um kennslu, nám og prófgráður eru sett í reglugerðir, samþykktir eða skipulagsskrá um hvern háskóla.

IV. KAFLI
Stjórn ríkisháskóla.

10. gr.

     Yfirstjórn hvers háskóla er falin háskólaráði, rektor, deildarfundum, deildarráðum og deildarforseta ef skólanum er skipt í deildir.

11. gr.

     Háskólaráð fer með úrskurðarvald í málefnum skólans og stofnana sem honum tengjast, vinnur að þróun og eflingu þeirra og markar þeim heildarstefnu. Háskólaráð er æðsti ákvörðunaraðili innan hvers skóla nema annað sé berum orðum tekið fram í lögum þessum eða í sérlögum sem gilda um hvern skóla.
     Ef háskóla er í lögum skipt upp í sjálfstæða skóla færist yfirstjórn skólans frá háskólaráði til skólastjórna. Háskólaráð fær þá það hlutverk að vera samráðsvettvangur skólanna og ráðgefandi aðili og fer með yfirstjórn í sérstaklega tilgreindum málaflokkum.

12. gr.

     Háskólaráð skal samþykkja eftirfarandi nema annað sé berum orðum tekið fram í sérlögum eða reglugerð um hvern skóla:
 1. Stjórnskipulag skólans og þar á meðal stjórnskipulag deilda.
 2. Rammafjárhagsáætlun og starfsáætlun skólans, þar á meðal rammafjárhagsáætlun og starfsáætlun hverrar deildar.
 3. Kennsluskrá.


13. gr.

     Háskólaráð hvers skóla skal skipað allt að tíu fulltrúum og þar á meðal rektor sem er sjálfkjörinn í ráðið og er forseti þess. Allt að fimm fulltrúar úr hópi kennara skólans eiga setu í ráðinu samkvæmt nánari ákvæðum í sérlögum hvers skóla. Nemendur skulu kjósa allt að tvo fulltrúa hlutfallsbundinni kosningu til tveggja ára í senn samkvæmt nánari ákvæðum í sérlögum hvers skóla. Menntamálaráðherra skal skipa allt að tvo fulltrúa til tveggja ára í senn. Í deildaskiptum háskólum, þar sem æðsta ákvörðunarvald er í höndum háskólaráðs, eru fulltrúar í háskólaráði að jafnaði hvorki kjörgengir í stöðu deildarforseta né í deildarráð og þeir geta ekki gegnt stjórnunarstöðum í deildum.
     Varaforseta og ritara kýs ráðið úr hópi fulltrúa háskólans sem setu eiga í ráðinu. Varaforseti er staðgengill rektors í forföllum hans.
     Falli atkvæði í háskólaráði jöfn ræður atkvæði rektors úrslitum.

14. gr.

     Menntamálaráðherra skipar rektor til fimm ára samkvæmt tilnefningu viðkomandi háskólaráðs eftir nánari ákvæðum í sérlögum hvers skóla. Skal staðan auglýst til umsóknar.
     Þann einan má skipa í stöðu rektors sem lokið hefur æðri prófgráðu við háskóla og öðlast hefur stjórnunarreynslu. Óheimilt er að framlengja skipunartíma rektors án auglýsingar.
     Rektor verður ekki leystur frá störfum án þess að það sé borið undir háskólaráð og hljóti samþykki meiri hluta þess.

15. gr.

     Rektor er yfirmaður stjórnsýslu háskólans og æðsti fulltrúi hans gagnvart mönnum og stofnunum innan hans og utan. Hann hefur almennt eftirlit með starfsemi háskólans og hefur frumkvæði að því að háskólaráð marki sér heildarstefnu í málefnum skólans. Rektor hefur ráðningarvald yfir öllum starfsmönnum skólans nema annað sé berum orðum tekið fram í lögum. Á milli funda háskólaráðs hefur rektor ákvörðunarvald í umboði ráðsins í öllum málum háskólans sem ekki varða veruleg fjárhagsmálefni skólans eða hafa í för með sér breytingar á skipulagi hans.

16. gr.

     Nú er háskóla skipt í háskóladeildir og telst þá hver deild grunneining skólans. Í háskóla, sem ekki er deildaskiptur, heyrir öll starfsemi skólans undir háskólaráð. Háskólaráð tekur ákvörðun um deildaskiptingu.
     Deildir eru sjálfráðar um eigin málefni innan þeirra marka sem lög og reglugerðir hvers háskóla setja. Yfirstjórn hverrar deildar er falin deildarforseta, deildarfundum og deildarráði.
     Nánar skal kveða á um kjör í deildarráð, kjör fulltrúa til setu á deildarfundum og val á deildarforseta í sérlögum eða reglugerð hvers skóla.

17. gr.

     Háskólaráð getur að fengnum tillögum deildar skipt viðkomandi deild upp í skorir. Hver skor kýs sér stjórn og formann.

18. gr.

     Nánar skal kveða á um starfssvið, starfshætti og tengsl háskólaráðs, rektors, deildarforseta, deildarfunda, deildarráðs og skora í sérlögum, reglugerð og starfsreglum hvers skóla.

V. KAFLI
Fjárhagur.

19. gr.

     Hver ríkisháskóli hefur sjálfstæða fjárveitingu á fjárlögum. Menntamálaráðherra gerir tillögur um fjárveitingar á grundvelli fjárhags- og starfsáætlunar hvers skóla til fimm ára. Menntamálaráðherra er heimilt að gera samning við hvern skóla um þjónustu og verkefni og greiðslur ríkisins fyrir þau í þeim tilgangi að skólarnir taki á sig aukna rekstrarábyrgð.
     Menntamálaráðherra er heimilt að gera samning við háskóla sem rekinn er af einkaaðilum og fengið hefur starfsleyfi skv. 4. gr. um að annast tiltekna menntun á háskólastigi gegn því að ríkissjóður greiði ákveðna fjárhæð fyrir þjónustuna.
     Í sérlögum, samþykktum eða skipulagsskrám hvers háskóla skal setja reglur um hvernig háttað skuli gjaldtöku af nemendum vegna náms við viðkomandi skóla. Í sérlög hvers ríkisháskóla skal setja reglur um öflun sértekna með gjaldtöku fyrir þjónustu er skólarnir bjóða.

20. gr.

     Við ákvörðun fjárveitinga til háskóla skal miða við eftirfarandi:
 1. Fjárveitingar vegna kennslu miðast við fjölda nemenda í fullu námi. Menntamálaráðherra setur reglur um kennslukostnað og þar á meðal um hvað telst fullt nám í þessu tilliti og útreikning á fjölda nemenda í fullu námi.
 2. Fjárveitingar vegna rannsókna, nýsköpunar og þróunar í þeim háskólum, sem hafa rannsóknarhlutverk, skulu taka mið af fjölda fastra kennara og sérstakra framlaga til rannsóknarverkefna og þjónustustofnana. Menntamálaráðherra setur nánari reglur um framlög til rannsókna.
 3. Fjárveitingar vegna húsnæðis skulu taka mið af fjölda fastra kennara, fjölda nemenda og sérstakrar aðstöðu sem námið krefst. Menntamálaráðherra setur nánari reglur um framlög til húsnæðismála.


21. gr.

     Í samningum sem menntamálaráðherra kann að gera við einkaaðila skv. 2. mgr. 19. gr. skal eftirfarandi koma fram:
 1. Námsframboð og námskröfur.
 2. Áætlaður fjöldi nemenda í hverri námsgrein.
 3. Hvaða þjónustustarfsemi skólinn býður.
 4. Áætlaður fjöldi kennara.
 5. Upplýsingar um námsárangur.
 6. Hvernig greiðslum úr ríkissjóði skuli hagað á samningstímabilinu.

     Samningar þessir skulu endurskoðaðir árlega með hliðsjón af fjölda nemenda og námsframboði. Þá skal fara fram uppgjör á milli samningsaðila vegna mismunar á raunverulegum og áætluðum tilkostnaði. Fyrir lok samningstímans skal menntamálaráðherra láta fara fram úttekt á starfsemi viðkomandi háskóla í heild.

22. gr.

     Ríkisháskólum er heimilt með samþykki menntamálaráðherra að eiga aðild að rannsóknar- og þróunarfyrirtækjum sem eru hlutafélög, sjálfseignarstofnanir eða félög með takmarkaða ábyrgð og stunda framleiðslu og sölu í því skyni að hagnýta og þróa niðurstöður rannsókna sem háskólinn vinnur að hverju sinni. Háskólaráð viðkomandi háskóla fer með eignarhlut skólans í slíkum fyrirtækjum.

23. gr.

     Árlega skal hver háskóli sem nýtur fjárframlaga frá ríkissjóði halda opinn ársfund þar sem fjárhagur háskólans og meginatriði starfsáætlunar eru kynnt.

VI. KAFLI
Samstarf háskóla.

24. gr.

     Háskólar skulu hafa með sér samráð og samstarf til að nýta sem best tiltæka starfskrafta og gagnakost og stuðla með hagkvæmum hætti að fjölbreyttri háskólamenntun. Í því skyni skulu háskólar m.a. setja reglur um gagnkvæma viðurkenningu námsþátta.
     Samstarfsnefnd háskólastigsins skal skipa á grundvelli þessara laga. Í henni skulu eiga sæti rektorar háskóla. Nefndin skal koma saman reglulega og fjalla um málefni háskólamenntunar. Nefndin skal veita umsögn í málum sem menntamálaráðherra eða einstakir háskólar vísa þangað.

VII. KAFLI
Gildistaka o.fl.

25. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1998.

26. gr.

     Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um skólakerfi, nr. 55/1974.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Háskólar sem nú starfa samkvæmt sérstökum lögum skulu innan tveggja ára frá gildistökudegi að telja laga starfsemi sína að lögum þessum. Á þeim tíma skal lokið við að endurskoða löggjöf um starfsemi þeirra.

Samþykkt á Alþingi 18. desember 1997.