Ferill 654. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.
122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1127 – 654. mál.Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 12/1997.

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)1. gr.

    5. tölul. 2. gr. laganna orðast svo: Hafa í upphafi bótatímabils verið skráðir sem atvinnu lausir í þrjá daga samfellt. Ákvæði þetta gildir ekki um starfsfólk í fiskvinnslu sem ekki hefur rétt til að gera kauptryggingarsamning samkvæmt kjarasamningi VMSÍ og VSÍ/VMS.

2. gr.

    3. gr. laganna orðast svo:
    Sá sem uppfyllir skilyrði um bótarétt en hverfur af innlendum vinnumarkaði af ástæðum sem valda því að ekki ber að skila af launum hans tryggingagjaldi heldur í allt að tuttugu og fjóra mánuði, frá því að hann hvarf af vinnumarkaði, þeim bótarétti sem hann hafði áunnið sér. Að tuttugu og fjórum mánuðum liðnum fellur réttur hans samkvæmt þessari grein að fullu niður. Með sama hætti skal farið með þann sem tekur að stunda hlutastarf eða hverfur af vinnumarkaði vegna töku fæðingarorlofs. Ákvæði þetta gildir ekki um þá sem fara í atvinnu leit til annars EES-ríkis í allt að þrjá mánuði og fá á þeim tíma greiddar atvinnuleysisbætur samkvæmt lögum þessum.

3. gr.

    1. mgr. 4. gr. laganna orðast svo:
    Ef sá sem hefur áunnið sér rétt til bóta verður óvinnufær af völdum sjúkdóms eða slyss og verður að hverfa frá vinnu heldur hann þeim bótarétti þegar hann verður vinnufær á ný, enda sanni hann að hann hafi verið óvinnufær með læknisvottorði þegar hann sækir um at vinnuleysisbætur að loknum veikindum. Sama rétt til geymslu bótaréttar á sá sem sviptur hefur verið frelsi sínu með dómi.


4. gr.

    Á eftir 6. gr. laganna kemur ný grein, 6. gr. a, sem orðast svo:
    Hafi umsækjandi um atvinnuleysisbætur misst starf sitt að hluta og haldið fastráðningu í hlutastarfi eða ráðist í fast hlutastarf, sem að starfshlutfalli er minna en bótaréttur hans, er úthlutunarnefnd heimilt að ákvarða honum bætur sem nema mismun bótaréttar hans og þess starfshlutfalls sem hann gegnir.
    Ef samanlagðar tekjur af hlutastarfi og atvinnuleysisbótum umsækjanda, sbr. 1. mgr., eru hærri en fullar bætur samkvæmt bótarétti hans að viðbættu frítekjumarki, sbr. 4. mgr. 7. gr., skal skerða atvinnuleysisbætur hans um það sem umfram er.     
    Leiði ákvæði 2. mgr. til þess að umsækjandi verði fyrir skerðingu bóta skal farið með bóta rétt hans eins og um geymdan bótarétt væri að ræða skv. 3. gr.
    Heimilt er að greiða bætur á móti hlutastarfi í allt að tuttugu og fjóra mánuði á hverju bóta tímabili. Að þeim tíma liðnum getur ekki komið til greiðslu hlutabóta samkvæmt þessari grein fyrr en að loknum tólf mánuðum í starfi sem gefur rétt til hærra bótahlutfalls en heildarhlutfall þess sem umsækjandi átti áður rétt til.
    Kjósi umsækjandi að segja starfi sínu lausu, innan tuttugu og fjögurra mánaða tímabilsins, fremur en að missa hinn skerta bótarétt sinn, eiga ákvæði 4. tölul. 5. gr. laga þessara ekki við.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      Í stað „2.433 kr.“ í 1. mgr. kemur: 2.752 kr.
     b.      4. mgr. orðast svo:
             Atvinnuleysisbætur þess sem nýtur elli- eða örorkulífeyris, svo og örorkustyrks frá Tryggingastofnun ríkisins, skulu skerðast, á mánaðargrundvelli, um það sem umfram er frítekjumark tekjutryggingar einstaklings vegna almennra tekna eins og það er ákveðið á hverjum tíma. Sama gildir um elli- og örorkulífeyri úr lífeyrissjóðum og tekjur af hluta starfi.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein sem orðast svo:
             Úthlutunarnefnd starfar í umboði sjóðstjórnar og undir eftirliti hennar.
     b.      7. mgr. orðast svo:
             Úthlutunarnefnd ákveður fyrirkomulag á afgreiðslu bóta í samráði við sjóðstjórn.


7. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Gildandi lög um atvinnuleysistryggingar, nr. 12/1997, tóku gildi 1. júlí 1997. Í frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á þeim lögum sem ætlað er að vera til ívilnunar fyrir atvinnulausa.
    Frumvarpið er samið með hliðsjón af tillögum stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs til félagsmálaráðherra.
    Helstu breytingar á gildandi lögum sem felast í frumvarpinu eru eftirfarandi:
     1.      Lagt er til að jafnaður verði réttur fiskvinnslufólks sem ekki á rétt á að gera kauptryggingarsamning skv. 16. kafla kjarasamnings VMSÍ og VSÍ/VMS og þeirra sem eiga þann rétt.
     2.      Kveðið er á um rétt manna til geyma áunninn bótarétt í allt að 24 mánuði. Ákvæðið felur í sér umtalsvert svigrúm fyrir þá sem misst hafa vinnu sína til að leita að nýrri vinnu án milligöngu vinnumiðlunar og án þess að sjálfstæð leit þeirra leiði til skerðingar bótaréttar. Samkvæmt gildandi lögum leiðir það til skerðingar bótaréttar skrái hinn at vinnulausi sig ekki strax hjá vinnumiðlun þegar starfslok verða. Þetta fyrirkomulag hefur sætt mikilli gagnrýni bæði af hálfu þeirra sem atvinnulausir eru og þeirra sem starfa við atvinnuleysistryggingar og vinnumiðlun.
     3.      Lagt er til að sá sem hverfur af vinnumarkaði vegna töku fæðingarorlofs öðlist rétt til að geyma áunninn bótarétt í allt að 24 mánuði. Gildandi lög kveða á um að réttur til atvinnu leysisbóta geymist aðeins á meðan á töku fæðingarorlofs stendur eða í sex mánuði að meginreglu.
     4.      Mælt er fyrir um rýmkun á rétti fanga gagnvart atvinnuleysisbótakerfinu. Samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar geymir fangi áunninn rétt meðan hann er í afplánun en þó að hámarki í 24 mánuði. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að fangar geymi áunninn rétt sinn til atvinnuleysisbóta svo lengi sem afplánun varir.
     5.      Einnig er í frumvarpinu að finna ákvæði um rétt manna sem gegna hlutastarfi til hlutabóta. Í gildandi lögum er ekki kveðið á um tilvist þessa réttar og hefur það leitt af sér réttaróvissu. Er lagt til að réttur þessi verði takmarkaður með tvennum hætti; annars vegar að réttur þessi geti verið til staðar í allt að tvö ár á bótatímabili og hins vegar að réttur til hlutabóta falli niður fari tekjur af hlutastarfi yfir ákveðin viðmiðunarmörk. Þá er einnig gert ráð fyrir í frumvarpinu að þeir sem stunda hlutastörf geti geymt áunninn bótarétt í allt að 24 mánuði hafi starfshlutfall þeirra verið hærra áður en þeir réðu sig í viðkomandi starf. Er þetta ákvæði til rýmkunar á réttarstöðu fólks sem gegnir hluta störfum þar sem gildandi lög hafa verið túlkuð á þann veg að þessir einstaklingar verði að skrá sig sem umsækjendur um atvinnuleysisbætur á móti hlutastarfinu en sæta skerð ingu áunnins bótaréttar ella.
     6.      Að lokum er skýrt kveðið á um hvaða greiðslur úr Tryggingastofnun eða lífeyrisjóðum komi til frádráttar atvinnuleysisbótum. Vísast að öðru leyti til athugasemda við einstakar greinar frumvarpsins.


Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Ákvæði þetta er samhljóða 5. tölul. 2. gr. gildandi laga að öðru leyti en því að lagt er til að nýjum málslið verði bætt við greinina vegna starfsfólks í fiskvinnslu sem ekki á rétt til að gera kauptryggingarsamning skv. 16. kafla kjarasamnings VMSÍ og VSÍ/VMS.
    Í 16.3 gr. kjarasamnings VMSÍ og VSÍ/VMS segir að eftir fjögurra mánaða starf í sama fyrirtæki fari um réttindi og skyldur starfsmanns samkvæmt kauptryggingarákvæðum samn ingsins, enda hafni hann ekki gerð kauptryggingarsamnings. Skv. 1. gr. laga nr. 51/1995, um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks, skal vinnuveitandi greiða starfsfólki, sem nýtur réttar til kauptryggingar samkvæmt almennum kjarasamningum, föst laun fyrir dagvinnu í tímabundinni vinnslustöðvun í samræmi við ákvæði kjarasamnings um kauptryggingu verkafólks í fiskvinnslu. Fyrirtækið á síðan rétt á greiðslu úr Atvinnuleysis tryggingasjóði eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum nr. 51/1995 og reglugerð settri sam kvæmt þeim.
    Fiskvinnslufólk sem á ekki rétt til að gera kauptryggingarsamning skv. 16. kafla kjara samnings VMSÍ og VSÍ/VMS, þar sem starfstími þess nær ekki fjórum mánuðum, verður að uppfylla það skilyrði 5. tölul. 2. gr. gildandi laga, að hafa verið atvinnulaust í þrjá daga sam fellt í upphafi bótatímabils til að eiga rétt á atvinnuleysisbótum. Ef hráefnisskortur í fiskiðju veri leiðir ekki til vinnslustöðvunar og atvinnuleysis viðkomandi einstaklinga í þrjá daga sam fellt ná þeir aldrei að uppfylla þetta lágmarksskilyrði. Með ákvæðinu er réttur þessara tveggja hópa samræmdur.

Um 2. gr.

    Ákvæði þetta felur í sér verulegar breytingar á ákvæðum gildandi laga að því er snertir reglur um geymdan bótarétt. Í fyrsta lagi felur ákvæðið í sér að maður getur geymt áunninn rétt sinn til atvinnuleysisbóta í allt að 24 mánuði. Gildandi lög kveða á um að maður geti aðeins geymt áunninn rétt sinn ef tilteknar lögbundnar ástæður valda því að hann getur ekki mætt til skráningar hjá svæðisvinnumiðlun. Ef ekki er um að ræða þessar ástæður skerðist áunninn bótaréttur þann tíma sem viðkomandi mætir ekki til skráningar hjá svæðisvinnu miðlun og staðfestir rétt sinn samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Ákvæði gildandi laga hefur ýtt undir að einstaklingar sem farið hafa úr fullu starfi í hlutastarf skrái sig vikulega hjá svæðisvinnumiðlun og sæki um atvinnuleysisbætur á móti hlutastarfinu til þess eins að viðhalda bótarétti sínum. Ákvæði þetta felur hins vegar í sér að áunninn bótaréttur geymist í allt að 24 mánuði sem þýðir að á þessu tímabili getur maður, uppfylli hann önnur skilyrði bótaréttar samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, sótt um atvinnuleysisbætur með því að leggja fram umsókn hjá svæðisvinnumiðlun. Réttur manna er því rýmkaður til muna með ákvæðinu. Þá felur ákvæðið í sér að menn munu hafa frjálsar hendur með að leita atvinnu án milligöngu svæðisvinnumiðlunar í allt að 24 mánuði án þess að áunninn réttur þeirra til bóta skerðist.
    Í öðru lagi er kveðið á um að að liðnum 24 mánuðum falli þessi áunni réttur niður. Það þýðir að réttur þessi helst óbreyttur í 24 mánuði en fellur síðan alfarið niður.
    Í þriðja lagi er kveðið á um að ákvæði þessu verði einnig beitt í þeim tilvikum þegar einstaklingur hverfur af vinnumarkaði vegna töku fæðingarorlofs. Gildandi lög kveða á um að áunninn réttur til atvinnuleysisbóta geymist meðan á töku fæðingarorlofs stendur. Skv. 2. gr. laga um fæðingarorlof, nr. 57/1987, eins og þeim var breytt með lögum nr. 51/1997, eiga foreldrar, sem gegna launuðum störfum og eiga lögheimili á Íslandi, rétt á fæðingarorlofi í allt að sex mánuði vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur, sbr. þó ákvæði 15. og 16. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, um lengingu fæðingarorlofs af sérstökum ástæðum. Samkvæmt þessu geymist áunninn réttur meðan fæðingarorlof varir. Ákvæði þetta hefur leitt til þess að konur hafa mætt til skráningar hjá svæðisvinnumiðlun strax að loknu þessu tímabili þó að hugur þeirra hafi í mörgum tilvikum ekki staðið til þess að fara út á vinnumarkaðinn. Tilgangurinn með skráningu hjá svæðisvinnumiðlun hefur því fyrst og fremst verið sá að koma í veg fyrir skerðingu á rétti þeirra til atvinnuleysisbóta. Gildandi lög taka ekki nægilegt tillit til þessara atvika og er því mælt með að áunninn bótaréttur geymist í allt að 24 mánuði. Það þýðir að áunninn bótaréttur geymist meðan á töku fæðingarorlofs stendur og í allt að 18 mánuði því til viðbótar.
    Í fjórða lagi er lagt til að sá sem tekur að stunda hlutastarf haldi áunnum rétti til atvinnu leysisbóta. Hafi maður verið í hlutastarfi á síðustu 12 mánuðum áður en hann varð atvinnulaus er réttur hans til atvinnuleysisbóta reiknaður út samkvæmt gildandi lögum miðað við starfshlutfall hans á því tímabili. Ákvæðið felur hins vegar í sér að umsækjandi um atvinnu leysisbætur getur byggt umsókn sína á rétti sem hann ávann sér fyrir allt að 24 mánuðum hafi hann á þeim tíma verið í hærra starfshlutfalli en hann var í áður en hann sótti um bætur. Ný mæli þetta felur því í sér ákveðna réttarbót fyrir þá sem gegna hlutastörfum þegar þeir verða atvinnulausir.
    Í fimmta lagi er kveðið á um að réttur samkvæmt ákvæðinu eigi ekki við um þá sem fara í atvinnuleit til annars EES-ríkis og flytja með sér rétt til atvinnuleysisbóta á grundvelli reglugerðar Evrópusambandsins nr. 1408/71, um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og fjölskyldum þeirra sem flytjast milli aðildar ríkjanna. Skv. 69. gr. þessarar reglugerðar getur atvinnulaus maður sem nýtur atvinnu leysisbóta hér á landi flutt þann rétt með sér að uppfylltum ákveðnum skilyrðum til annars EES-ríkis í allt að þrjá mánuði. Ekki er gert ráð fyrir að ákvæðið eigi við um þá einstaklinga sem nýta sér rétt samkvæmt framansögðu. Þeir geta því ekki dvalið erlendis í framhaldi af atvinnuleit sinni og viðhaldið óskertum bótarétti.

Um 3. gr.

    Ákvæðið kveður á um geymslu áunnins bótaréttar og er hliðstætt 4. gr. gildandi laga. Þó eru lagðar til nokkrar breytingar.
    Lagt er til að í stað orðanna „vegna veikinda“ í 1. mgr. gildandi laga komi orðin „af völdum sjúkdóms eða slyss“ og verði þannig kveðið skýrt á um að ekki sé gerður greinarmunur eftir því hvort maður verður óvinnufær vegna vinnuslyss eða annarra atvika. Þá hefur ákvæðið að geyma það nýmæli að áunninn réttur til atvinnuleysisbóta geymist þann tíma sem viðkomandi einstaklingur sætir frelsissviptingu samkvæmt dómi en gildandi lög kveða á um að réttur þessi verði aðeins geymdur að hámarki í 24 mánuði. Felst í þessu ákvæði réttarbót fyrir fanga.

Um 4. gr.

    Með ákvæði þessu er lagt til að lögfest verði heimild úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta til að ákvarða umsækjanda rétt til bóta þó að hann gegni á sama tíma hlutastarfi. Skal réttur hans til bóta nema mismun áunnins bótaréttar hans og þess starfshlutfalls sem hann gegnir. Ekki er kveðið á um hvert hlutfall bótaréttar geti lægst verið í slíkum tilfellum. Eina tak mörkunin á rétti umsækjanda til hlutabóta felst því í 2. mgr. og tekjutengingarákvæði 4. mgr. 7. gr.
    Í 2. mgr. felst að tekjur af hlutastarfi og atvinnuleysisbótum geta að hámarki orðið samtala fullra atvinnuleysisbóta samkvæmt bótarétti viðkomandi að viðbættu frítekjumarki, 78.974 kr. Fari tekjur viðkomandi af hlutastarfi að viðbættum fullum og óskertum bótarétti hans fram úr þessum mörkum eru bætur hans skertar sem því nemur, sbr. 4. mgr. 7. gr. Er að öðru leyti vísað til athugasemda með 5. gr. frumvarpsins og þeirra dæma sem sýnd eru í töflu. Á það er bent að leiði 2. mgr. til skerðingar eða niðurfellingar á rétti til greiðslu atvinnuleysisbóta geymir viðkomandi einstaklingur engu að síður áunninn rétt sinn, sbr. 3. gr. laganna.
    Í 4. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að heimilt sé að greiða hlutabætur á móti hlutastarfi í allt að tuttugu og fjóra mánuði á hverju bótatímabili sem er fimm ár, sbr. 9. gr. gildandi laga. Samkvæmt því ákvæði getur nýtt bótatímabil hafist að liðnum tólf mánuðum frá því að bótatímabili lauk, enda eigi maður að baki samtals a.m.k. sex mánaða launaða vinnu eftir að því lauk. Ákvæði frumvarpsins um hlutabætur er í samræmi við ákvæði þetta en setur þann fyrirvara á áframhaldandi rétt til hlutabóta að viðkomandi hafi unnið í samtals 12 mánuði í vinnu sem gefur rétt til hærra bótahlutfalls en heildarhlutfall þess sem hann átti áður.
    Ákvæði 5. mgr. felur í sér að sá sem hefur þegið hlutabætur á móti hlutastarfi geti valið þann kost að segja upp hlutastarfi sínu og njóta atvinnuleysisbóta í samræmi við áunninn rétt sinn. Í því tilviki þarf hann ekki að sæta því að felldur sé niður bótaréttur í 40 bótadaga, sbr. 4. tölul. 5. gr. gildandi laga en því ákvæði er beitt þegar umsækjandi um atvinnuleysisbætur hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna.

Um 5. gr.

    Í a-lið greinarinnar er fjárhæð dagpeninga atvinnuleysistrygginga færð til samræmis við þá fjárhæð sem í gildi hefur verið frá 1. janúar 1998.
    Ákvæði b-liðar greinarinnar er hliðstætt 4. mgr. 7. gr. gildandi laga. Þó felur það í sér það nýmæli að skerðing atvinnuleysisbóta vegna elli- eða örorkulífeyris, svo og örorkustyrks frá Tryggingastofnun ríkisins, skuli því aðeins eiga sér stað að þessar tekjur séu umfram frítekju mark tekjutryggingar Tryggingastofnunar ríkisins vegna einstaklings með almennar tekjur. Tekjur umfram þessi mörk skerða því atvinnuleysisbætur bótaþega úr Atvinnuleysis tryggingasjóði krónu á móti krónu á mánaðargrundvelli. Þá felur ákvæðið í sér að eins skuli fara með elli- og örorkulífeyri úr lífeyrissjóðum. Ekki er gerður greinarmunur á séreignar sjóðum og sameignarsjóðum í þessu sambandi. Samkvæmt gildandi lögum skerðast atvinnu leysisbætur að fullu vegna þessara greiðslna, þó að teknu tilliti til bótahlutfalls bótaþega.      Samkvæmt lögum um almannatryggingar er grunnlífeyrir núna 15.123 kr. sem þýðir að þær greiðslur munu ekki leiða til skerðingar á atvinnuleysisbótum. Ákvæði frumvarpsins gerir þannig ráð fyrir að bótaþegi þurfi aðeins að sæta skerðingu á atvinnuleysisbótum ef hann hefur aðrar tekjur til viðbótar þeim sem ákvæðið tilgreinir.
    Þá er með því að tilgreina sérstaklega í ákvæðinu þær tegundir greiðslna sem koma til skerðingar atvinnuleysisbótum komið í veg fyrir að greiðsla makalífeyris eða aðrar greiðslur sem umsækjandi um atvinnuleysisbætur nýtur frá framangreindum aðilum geti komið til frá dráttar.
    Um heimild Tryggingastofnunar ríkisins til að kveða á um skerðingu vegna tekna bótaþega er vísað til 66. gr., sbr. 17. og 18. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, sbr. og reglugerð nr. 485/1995, um tekjutryggingu. Samkvæmt reglum þessum eru ólíkar reglur viðhafðar hjá Tryggingastofnun eftir því hvort um almennar tekjur er að ræða eða lífeyris sjóðstekjur. Enn fremur hefur það þýðingu hvort um einstakling er að ræða eða hjón. Til ein földunar er í ákvæðinu gert ráð fyrir að frádráttur vegna tekna sem bótaþegi nýtur verði byggður á reglum Tryggingastofnunar ríkisins um frádrátt vegna almennra tekna einstaklings. Frítekjumark tekjutengingar þessa hóps er nú 19.339 kr.
    Frá 1. janúar 1998 eru hámarksbætur atvinnuleysistrygginga á dag 2.752 kr. Hámarks bætur atvinnuleysistrygginga á mánuði eru því að meðaltali 59.635 kr. (21,67 x 2.752 = 59.635).
    Í 2. málsl. 4. mgr. 7. gr. laganna er kveðið á um skerðingu vegna tekna af hlutastarfi. Eins og fram kemur í 1. mgr. 6. gr. a samkvæmt frumvarpinu er heimilt að ákvarða manni sem gegnir hlutastarfi rétt til atvinnuleysisbóta. Er sá réttur reiknaður sem mismunur bótahlutfalls og þess starfshlutfalls sem hann er í. Hafi umsækjandi verið í 100% vinnu en starfshlutfall hans síðan lækkað í 50% á hann rétt á 50% atvinnuleysisbótum á móti hlutastarfinu. Þegar fyrir liggur hvert bótahlutfall umsækjanda er eftir að starfshlutfall hefur verið dregið frá er skoðað hvaða tekjur viðkomandi hefur í hlutastarfinu. Að fengnum upplýsingum um tekjur fæst niðurstaða skv. 2. mgr. 6. gr. a, sbr. 4. mgr. 7. gr., um það hvort hann skuli sæta skerðingu og þá hve mikil skerðingin skuli vera á mánaðargrundvelli.
    Í eftirfarandi töflu er því lýst nánar hvernig tekjur í hlutastarfi geta leitt til skerðingar á atvinnuleysisbótum. Nánar tiltekið er útreikningur miðaður við að fullar atvinnuleysisbætur séu 59.635 kr. Við tekjutengingu dragast tekjur fyrir hlutastarfið frá samtölu fullra atvinnu leysisbóta að viðbættu frítekjumarki samkvæmt framansögðu. Mismunurinn er greiddur sem atvinnuleysisbætur, þó að hámarki 29.817 kr., ef miðað er við að viðkomandi sé með 50% bótarétt þegar starfshlutfall hans hefur verið dregið frá. Það þýðir að tekjur af hlutastarfi að viðbættum atvinnuleysisbótum geta að hámarki orðið samtala fullra atvinnuleysisbóta (59.635 kr.) að viðbættu frítekjumarki (19.339 kr.) = 78.974 kr.

Dæmi A Dæmi B Dæmi C Dæmi D
Atvinnuleysisbætur 100% 59.635 59.635 59.635 59.635
Frítekjumark 19.339 19.339 19.339 19.339
78.974 78.974 78.974 78.974
Tekjur fyrir 50% starf -35.000 - 50.000 - 60.000 - 70.000
Mismunur 43.974 28.974 18.974 8.974
Greiddar bætur 50% 29.817 28.974 18.974 8.974
Tekjur fyrir 50% starf 35.000 50.000 60.000 70.000
Atvinnuleysisbætur 50% 29.817 29.817 29.817 29.817
64.817 79.817 89.817 99.817
100% bætur + frítekjumark 78.974 78.974 78.974 78.974
Skerðing bóta - 843 10.843 20.843
Niðurstaða: 35.000 50.000 60.000 70.000
29.817 28.974 18.974 8.974
64.817 78.974 78.974 78.974

Um 6. gr.

    Í a-lið greinarinnar er lagt til að kveðið verði á um að úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta starfi í umboði stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs og undir eftirliti hennar.
    Í gildandi lögum er ekki kveðið á um stöðu úthlutunarnefnda atvinnuleysisbóta gagnvart stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs og er nauðsynlegt að bæta úr því. Samkvæmt ákvæðinu verður skýrt að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs hefur vald til að samræma störf og vinnu brögð úthlutunarnefnda og til að hafa eftirlit með störfum þeirra.
    Í b-lið greinarinnar er gert ráð fyrir að úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta skuli hafa samráð við stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs að því er snertir fyrirkomulag á afgreiðslu bóta. Er hér m.a. haft í huga að Atvinnuleysistryggingasjóður verður, vegna eftirlits og samprófunar á gögnum er varða ákvarðanir úthlutunarnefnda um útgreiðslu atvinnuleysisbóta, að geta skipulagt störf sín þannig að afgreiðsla þessara mála um land allt gangi fljótt og vel fyrir sig. Þá er einnig horft til þess að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs ber ábyrgð á kostnaði sem hlýst af störfum úthlutunarnefnda og því eðlilegt að fullt samráð sé á milli þessara aðila.

Um 7. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstof a:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum
um atvinnuleysistryggingar, nr. 12/1997.

    Frumvarpið er lagt fram í kjölfar tillagna stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs til félags málaráðherra. Breytingarnar eru umfangsmiklar og varða aukinn rétt einstaklinga til geymslu áunnins bótaréttar, rétt til hlutabóta ef menn stunda hlutastörf og breyttar reglur um hvernig elli- og örorkulífeyrir og aðrar sambærilegar greiðslur skerða rétt til atvinnuleysisbóta. Breyt ingarnar eru almennt til ívilnunar fyrir atvinnulausa.
    Þau atriði sem hafa áhrif á kostnað við atvinnuleysistryggingar eru eftirfarandi:
    Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að starfsfólk í fiskvinnslu sem ekki á rétt til að gera kaup tryggingarsamning skv. 16. kafla kjarasamnings VMSÍ og VSÍ/VMS eigi sama rétt og annað starfsfólk í fiskvinnslu til greiðslu atvinnuleysisbóta þegar stöðva verður vinnslu vegna hrá efnisskorts. Talið er að allt að 15% starfsmanna í fiskvinnslu séu án kauptryggingarsamninga og má því ætla að árlegur kostnaður Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna þessa ákvæðis geti numið allt að 9 m.kr. miðað við 50% bótarétt, en áætlað er að kostnaður vegna kauptrygg ingarsamninga verði 120 m.kr. á árinu 1998.
    Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að menn hafi rétt til geymslu áunnins bótaréttar í allt að 24 mánuði eftir að viðkomandi verður atvinnulaus. Í gildandi lögum byrjar bótaréttur að skerðast á fyrsta degi. Þessi breyting mun draga úr hvata til þess að skrá sig strax atvinnulausa. Sé tekið mið af því að 30 einstaklingar fresti því í eitt ár að skrá sig atvinnulausa mundi það spara um 22 m.kr. Í 2. gr. frumvarpsins er einnig lagt til að sá sem hverfur af vinnumarkaði vegna töku fæðingarorlofs öðlist rétt til að geyma áunninn bótarétt í allt að 24 mánuði. Meginreglan nú er sú að rétturinn geymist í sex mánuði, eða á meðan á töku fæðingarorlofs stendur. Sömu almenn rök eiga við um þetta atriði og hið fyrra. Sé tekið mið af því að 15 einstaklingar fresti því að skrá sig atvinnulausa mundi það spara um 11 m.kr. á ári. Samtals mundu þannig sparast 33 m.kr.
    Í 3. gr. er lagt til að réttur fanga gagnvart atvinnuleysisbótakerfinu verði rýmkaður en í núgildandi lögum á fangi rétt á að geyma áunninn bótarétt í 24 mánuði að hámarki. Lagt er til að fangar geti geymt rétt sinn til atvinnuleysisbóta svo lengi sem afplánun varir. Sé gert ráð fyrir því að allt að 15 einstaklingar muni að jafnaði geta nýtt sér þessa breytingu mun það þýða 11 m.kr. aukinn kostnað fyrir Atvinnuleysistryggingasjóð.
    Í 4. gr. frumvarpsins er að finna ákvæði um rétt manna sem gegna hlutastarfi til að fá at vinnuleysisbætur sem nema mismun bótaréttar og þess starfshlutfalls sem viðkomandi gegnir. Lagt er til að þessi réttur verði takmarkaður með tvennum hætti. Annars vegar þannig að hann geti verið til staðar í allt að 24 mánuði á bótatímabili. Hins vegar að réttur til hlutabóta skerð ist fari tekjur af hlutastarfi yfir ákveðin viðmiðunarmörk. Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun má gera ráð fyrir því að kostnaður Atvinnuleysistryggingasjóðs við þessa breytingu muni dragast saman um allt að 32 m.kr. Er þar miðað við að skerðingin nemi um 3.000 kr. á mánuði hjá hverjum þeirra 900 einstaklinga sem nú njóta hlutabóta.
    Loks er í 5. gr. frumvarpsins kveðið skýrar á um hvernig greiðslur frá Tryggingastofnun eða lífeyrissjóðum komi til frádráttar atvinnuleysisbótum og þannig dregið úr skerðingum. Á árinu 1997 námu skerðingar vegna þessara bóta um 34 m.kr. Viðmiðunin breytist þannig frá núgildandi lögum að sett er inn ákvæði um frítekjumark þannig að meginhluti þessa frádráttar mun falla niður eða um 29 m.kr. Eftir stendur þá um 5 m.kr. skerðing. Útgjöld At vinnuleysistryggingasjóðs munu þannig aukast um 29 m.kr.
     Mat á heildaráhrifum frumvarpsins á kostnað ríkissjóðs er ekki einhlítt og fer eftir því hversu margir nýta sér hin nýju ákvæði. Þó má ætla að kostnaður ríkissjóðs breytist óverulega, verði frumvarpið að lögum, jafnvel lækki lítils háttar.