Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1460, 122. löggjafarþing 558. mál: stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd.
Lög nr. 43 29. maí 1998.

Lög um stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd og stofnun sjóða í þágu síldarútvegsins.


1. gr.

     Stofna skal hlutafélag er nefnist Íslandssíld hf. Ákvæði laga nr. 2/1995, um hlutafélög, taka til Íslandssíldar hf. ef annað leiðir ekki af lögum þessum. Sjávarútvegsráðherra annast undirbúning að stofnun félagsins.

2. gr.

     Hlutverk Íslandssíldar hf. er að annast viðskipti með síldarafurðir og aðrar sjávarafurðir og hvers konar aðra starfsemi er því tengist. Heimilt er að breyta tilgangi félagsins á hluthafafundi.

3. gr.

     Íslandssíld hf. tekur við stofnun félagsins, sbr. 6. gr., við öllum eignum, skuldum og skuldbindingum síldarútvegsnefndar öðrum en þeim sem ráðstafað er á annan hátt, sbr. 8. og 9. gr.

4. gr.

     Heildarupphæð hlutafjár Íslandssíldar hf. skal nema 75% af eigin fé félagsins. Skal ráðherra skipa matsnefnd til að meta eignir og skuldir síldarútvegsnefndar til viðmiðunar um upphæð hlutafjár að teknu tilliti til ákvæða 8. og 9. gr.

5. gr.

     Þeir síldarsaltendur sem greitt hafa lögmælta söluþóknun af útfluttri síld skv. 2. gr. laga nr. 62/1962 á tímabilinu 1. janúar 1975 – 31. desember 1997 eru eigendur 85% hlutafjár félagsins við stofnun þess, Íslandssíld hf. skal eiga 10% hlutafjár félagsins og lífeyrissjóðir sjómanna, í hlutfalli við fjölda sjómanna í hverjum sjóði við gildistöku laganna, skulu eiga 5% hlutafjár félagsins.
     Félög sem slitið hefur verið fyrir gildistöku laga þessara, á annan hátt en með sameiningu við önnur félög, teljast þó ekki eigendur skv. 1. mgr. Sama á við sé gjaldþrotaskiptum á búi aðila lokið fyrir sama tíma. Eigendur sameignarfélaga sem slitið hefur verið fyrir gildistöku laga þessara skulu eiga rétt á hlutafé skv. 1. mgr., sbr. 3. mgr., í hlutfalli við eignarhlut þeirra í sameignarfélaginu við slit þess.
     Hlutdeild hvers aðila skal miðast við hlutfall verðmætis útfluttrar síldar viðkomandi aðila á vegum síldarútvegsnefndar 1. janúar 1975 – 31. desember 1997 af heildarverðmæti samanlagðs útflutnings allra aðila er teljast eigendur skv. 1. mgr., sbr. 2. mgr., þessarar greinar á sama tímabili, framreiknað til verðlags við gildistöku laga þessara á grundvelli vísitölu neysluverðs.
     Eigin hluti félagsins skal selja innan 18 mánaða frá stofnun þess. Hluthafar sem greiddu lögmælta söluþóknun, sbr. 1. mgr., á tímabilinu 1. júlí 1992 – 31. desember 1997 eiga fyrstu 18 mánuði eftir stofnun félagsins forkaupsrétt að þeim. Enn fremur er heimilt að veita þeim forkaupsrétt að hlutum sem boðnir eru til sölu vegna hlutafjárhækkunar á sama tímabili. Forkaupsrétturinn skal miðast við hlutfall verðmætis útfluttrar síldar viðkomandi aðila á vegum síldarútvegsnefndar 1. júlí 1992 – 31. desember 1997 af heildarverðmæti útflutnings allra aðila er teljast eigendur skv. 1. mgr., sbr. 2. mgr., á sama tímabili.

6. gr.

     Halda skal stofnfund fyrir 1. ágúst 1998 og skal félagið þá taka við eignum, skuldum og skuldbindingum síldarútvegsnefndar öðrum en þeim er um ræðir í 8. og 9. gr., sbr. 3. gr. Á stofnfundinum skal leggja fram drög að stofnsamningi og samþykktum fyrir félagið og kjósa stjórn þess.
     Allur kostnaður af stofnun hlutafélagsins skal greiðast af félaginu.

7. gr.

     Fastráðnir starfsmenn síldarútvegsnefndar skulu eiga kost á starfi hjá Íslandssíld hf.
     Um biðlaunarétt sem kann að hafa fylgt störfum hjá síldarútvegsnefnd gilda ákvæði laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

8. gr.

     Stofna skal sjóð sem skal renna til síldarrannsókna á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar. Sjóðurinn skal vera í vörslu Hafrannsóknastofnunarinnar. Stofnfé sjóðsins skal vera 110 millj. kr. af eigin fé síldarútvegsnefndar. Ráðstöfun fjár úr sjóðnum skal háð samþykki sjávarútvegsráðherra og skal árleg ráðstöfun miðast við að ekki sé gengið á eigið fé sjóðsins.

9. gr.

     Stofna skal sérstakan sjóð sem hefur þann tilgang að efla vöruþróun síldarafurða og afla nýrra markaða fyrir síldarafurðir. Sjóðurinn skal vera sjálfseignarstofnun. Stofnfé sjóðsins skal vera 80 millj. kr. af eigin fé síldarútvegsnefndar.
     Sjávarútvegsráðherra skal annast gerð skipulagsskrár fyrir stofnunina sem skal staðfest af dómsmálaráðuneyti, sbr. lög nr. 19/1988.

10. gr.

     Sjóður sá sem um er rætt í 8. gr. skal undanþeginn opinberum gjöldum og sköttum hverju nafni sem þeir nefnast. Framlag til sjóðs þess sem um er rætt í 9. gr. skal undanþegið tekjuskatti.

11. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Lög nr. 62/1962, um síldarútvegsnefnd og útflutning saltaðrar síldar, falla úr gildi 1. ágúst 1998.

Samþykkt á Alþingi 28. maí 1998.