Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1531, 122. löggjafarþing 436. mál: dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr (heildarlög).
Lög nr. 66 15. júní 1998.

Lög um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr.


I. KAFLI
Almenn ákvæði.

1. gr.

     Lög þessi taka til hvers þess dýralæknis sem er skipaður, settur eða ráðinn til starfa í þágu ríkisins og þeirra dýralækna sem starfa samkvæmt leyfi þar að lútandi sem veitt er eftir lögum þessum.

2. gr.

     Dýralæknar skulu standa vörð um heilsu dýra í landinu, stuðla að bættu heilsufari þeirra, aukinni arðsemi búfjár og góðum aðbúnaði og meðferð dýra. Þeir skulu vera á verði gagnvart því að einstaklingar eða samfélagið í heild bíði tjón af völdum dýrasjúkdóma. Með starfi sínu skulu þeir leitast við að girða fyrir hættur sem stafað geta af sjúkum dýrum og neyslu spilltra búfjárafurða, af innflutningi lifandi dýra og búfjárafurða, efna, áhalda eða hluta sem borið geta með sér smitefni.

II. KAFLI
Yfirstjórn.

3. gr.

     Landbúnaðarráðherra fer með mál sem þessi lög varða.

4. gr.

     Landbúnaðarráðherra skipar dýralæknaráð sem skipað er fjórum dýralæknum til fimm ára í senn og er yfirdýralækni til ráðuneytis. Skal einn tilnefndur af Bændasamtökum Íslands, annar af stjórn Dýralæknafélags Íslands, þriðji af stjórn Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og fjórði án tilnefningar og skal hann jafnframt vera formaður ráðsins. Varamenn skulu tilnefndir á sama hátt.
     Ráðið skal ávallt fjalla um innflutning búfjár og erfðaefnis þess sé hans óskað. Einnig skal ráðið fjalla um innflutning annarra dýra, búfjárafurða og aðra þætti er snerta heilbrigðismál dýra og dýraafurða þegar þess er óskað af ráðherra eða yfirdýralækni. Ráðinu er heimilt, ef aðstæður krefja, að kalla sérfræðinga til ráðuneytis.
     Sömu aðilar og taldir eru í 2. mgr. geta vísað ágreiningsmálum varðandi dýralæknisþjónustu til ráðsins. Við úrlausn þeirra ágreiningsmála skal ráðherra kalla til starfa með ráðinu lögfræðing sem fullnægir skilyrðum um skipan til starfa héraðsdómara.
     Ráðið skal halda gerðabók um störf sín.

5. gr.

     Yfirdýralæknir er ráðherra og ríkisstjórn til ráðuneytis um allt er varðar heilbrigðismál dýra og hollustuhætti við framleiðslu og meðferð búfjárafurða. Aðstoðaryfirdýralæknir, sem valinn er úr hópi sérgreinadýralækna, skal vera yfirdýralækni til aðstoðar og staðgengill hans.
     Yfirdýralæknir hefur með höndum:
  1. yfirstjórn og eftirlit með störfum héraðsdýralækna, sérgreinadýralækna og annarra dýralækna sem leyfi hafa til að stunda dýralækningar,
  2. yfirumsjón með öllu er varðar heilbrigðismál dýra; hann skal einnig afla upplýsinga um heilbrigðisástand dýra og hollustu dýraafurða í öðrum löndum eftir því sem nauðsyn krefur,
  3. yfirumsjón með sjúkdómavörnum dýra, forvörnum, fræðslustarfi varðandi búfjársjúkdóma, innflutningi og útflutningi lifandi dýra, erfðaefnis og búfjárafurða og fylgist með hollustu dýrafóðurs í samvinnu við Aðfangaeftirlit ríkisins,
  4. yfirumsjón með heilbrigði sláturdýra, heilbrigðiseftirliti í sláturhúsum og framleiðslu mjólkur, auk yfirumsjónar með heilbrigði annars búfjár og afurða þess,
  5. skipulagningu, gagnaöflun og skýrslugerð varðandi dýrasjúkdóma, heilbrigðisskoðun sláturafurða og heilbrigðiseftirlit með framleiðslu mjólkur; hann sér um árlega útgáfu heilbrigðisskýrslna.


III. KAFLI
Réttindi og skyldur.

6. gr.

     Þeir einir eru samkvæmt lögum þessum taldir dýralæknar er lokið hafa prófi frá dýralæknaháskóla sem er viðurkenndur af íslenskum stjórnvöldum.
     Þeir einir mega stunda dýralækningar hér á landi sem hlotið hafa leyfi landbúnaðarráðherra samkvæmt ákvæðum sem ráðherra setur í reglugerð að fenginni umsögn yfirdýralæknis.
     Landbúnaðarráðherra gefur út leyfisbréf handa dýralækni til að stunda dýralækningar og dýralæknir undirritar eiðstaf þar að lútandi. Yfirdýralæknir heldur skrá yfir dýralækna sem hafa leyfi til að stunda dýralækningar.
     Dýralækni er skylt að tilkynna yfirdýralækni:
  1. þegar hann hyggst hefja dýralæknisstörf og aðsetur starfsemi sinnar,
  2. flutning aðseturs,
  3. starfslok sem dýralæknir.

     Dýralæknum, sem hefja störf á Íslandi, ber að kynna sér íslensk lög og reglur um dýralækningar og þeir sem starfa í opinberri þjónustu skulu hafa vald á íslenskri tungu.
     Heimilt er að fela dýralæknanemum á síðari hluta námsferils að gegna tímabundið ákveðnum dýralæknisstörfum undir stjórn dýralæknis ef yfirdýralæknir mælir með því.

7. gr.

     Eingöngu þeir dýralæknar sem hafa leyfi til að stunda dýralækningar mega framkvæma læknisaðgerðir á dýrum. Undanþegnar eru þó minni háttar aðgerðir og lyfjameðferð í samráði við dýralækni.

8. gr.

     Dýralækni er einungis heimilt að afhenda eða ávísa lyfseðilsskyldum lyfjum handa dýri þegar hann hefur greint sjúkdóminn.

9. gr.

     Dýralækni ber að sinna störfum sínum af árvekni og trúmennsku og halda við þekkingu sinni. Dýralæknir ber ábyrgð á greiningu sjúkdóms og meðferð sjúklinga sinna.
     Dýralækni ber sem kostur er að upplýsa eiganda eða umráðamann dýrs sem hann fær til meðferðar um ástand, meðferð, horfur og væntanlegan kostnað af meðhöndlun og lyfjameðferð sé þess óskað. Einnig skal hann upplýsa eiganda eða umráðamann um þær hættur sem geta fylgt viðkomandi aðgerð, algengar aukaverkanir lyfja sem notuð eru og lyfjamengun afurða.
     Dýralækni ber, sé til hans leitað eða hann nærstaddur og náist ekki í vakthafandi dýralækni, að veita fyrstu nauðsynlega læknishjálp í skyndilegum sjúkdóms- eða slysatilfellum, nema þeim mun alvarlegri forföll hamli.
     Dýralæknar, sem stunda almennar dýralækningar, eiga rétt á og þeim ber skylda til að taka þátt í vaktafyrirkomulagi sem skipulagt er á viðkomandi vaktsvæði, sbr. 12. gr., nema þeir séu sjálfir sjúkir eða hindraðir af öðrum meira aðkallandi embættisstörfum. Dýralækni er heimilt að semja við annan dýralækni um að taka við vaktskyldunni.
     Verði dýralæknir var við eða hafi hann grun um að upp sé kominn alvarlegur smitsjúkdómur í dýrum á starfssvæði hans skal hann gera nauðsynlegar bráðabirgðaráðstafanir til að staðfesta gruninn, hefta útbreiðslu sjúkdómsins og koma í veg fyrir tjón sem af honum getur leitt. Hann skal tafarlaust tilkynna yfirdýralækni um sjúkdóminn og gera þeir í samráði þær ráðstafanir sem þurfa þykir.
     Dýralækni ber að gera árlega skýrslu um læknisstörf sín og senda yfirdýralækni. Yfirdýralæknir setur reglur um hvaða upplýsingar skýrslurnar skuli geyma.
     Dýralækni ber að sýna nákvæmni í útgáfu vottorða og læknisyfirlýsinga. Hann er bundinn þagnarskyldu um þá vitneskju sem hann öðlast í starfi sínu og honum er trúað fyrir og varðar ekki almannaheill.
     Dýralækni er einungis heimilt að auglýsa læknisstarfsemi sína með efnislegum og látlausum auglýsingum.

10. gr.

     Dýralæknir hefur leyfi til að kalla sig sérfræðing og starfa sem slíkur hér á landi hafi hann fengið til þess leyfi landbúnaðarráðherra eða fengið viðurkenningu á að starfa sem sérfræðingur í landi sem er aðili að samningi um Evrópskt efnahagssvæði.
     Umsóknir um sérfræðileyfi skulu lagðar fyrir dýralæknaráð til umsagnar þegar menntunar er aflað utan Evrópska efnahagssvæðisins. Við afgreiðslu einstakra umsókna er heimilt að kveðja til sérfróðan dýralækni úr þeirri sérgrein sem sótt er um viðurkenningu á.

IV. KAFLI
Skipan héraðsdýralæknisumdæma.

11. gr.

     Umdæmi héraðsdýralækna eru sem hér greinir:
  1. Gullbringu- og Kjósarumdæmi: Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Mosfellsbær, Gullbringu- og Kjósarsýsla.
  2. Borgarfjarðar- og Mýraumdæmi: Borgarfjarðarsýsla, Mýrasýsla, Akranes, Borgarbyggð.
  3. Snæfellsnesumdæmi: Stykkishólmur, Snæfellsbær, Eyrarsveit, Helgafellssveit, Hnappadalssýsla, Flatey og býli í gamla Flateyjarhreppi, Skógarstrandarhreppur.
  4. Dalaumdæmi: Dalabyggð, Saurbæjarhreppur, Austur-Barðastrandarsýsla, að undanskilinni Flatey og býlum í Flateyjarhreppi hinum gamla.
  5. Vestfjarðaumdæmi: Vestur-Barðastrandarsýsla, Ísafjörður, Bolungarvík, Vestur- og Norður-Ísafjarðarsýsla, Strandasýsla að Bæjarhreppi.
  6. Vestur-Húnaþingsumdæmi: Vestur-Húnavatnssýsla, Bæjarhreppur í Strandasýslu.
  7. Austur-Húnaþingsumdæmi: Blönduós, Austur-Húnavatnssýsla.
  8. Skagafjarðar- og Eyjafjarðarumdæmi: Akureyri, Ólafsfjörður, Dalvík, Siglufjörður, Sauðárkrókur, Skagafjarðar- og Eyjafjarðarsýslur, Svalbarðsstrandar-, Grýtubakka- og Hálshreppar í Suður-Þingeyjarsýslu.
  9. Þingeyjarumdæmi: Húsavík, Suður-Þingeyjarsýsla, að undanskildum Svalbarðsstrandar-, Grýtubakka- og Hálshreppum, Norður-Þingeyjarsýsla.
  10. Austurlandsumdæmi nyrðra: Egilsstaðir og nágrenni, Eskifjörður, Mjóifjörður, Neskaupstaður, Reyðarfjörður, Seyðisfjörður, Norður-Múlasýsla.
  11. Austurlandsumdæmi syðra: Fáskrúðsfjarðarhreppur, Búðahreppur, Stöðvarhreppur, Breiðdalshreppur, Djúpavogshreppur.
  12. Austur-Skaftafellsumdæmi: Hornafjarðarbær, Austur-Skaftafellssýsla.
  13. Vestur-Skaftafellsumdæmi: Vestur-Skaftafellssýsla, að undanskildum Mýrdalshreppi.
  14. Suðurlandsumdæmi: Árnes- og Rangárvallasýslur, Mýrdalshreppur.

     Skipa skal einn héraðsdýralækni í hvert umdæmi, að undanskildu Vestfjarðaumdæmi, Þingeyjarumdæmi og Austurlandsumdæmi nyrðra, en í hvert þeirra skal skipa tvo héraðsdýralækna.
     Héraðsdýralæknar skulu hver í sínu umdæmi hafa eftirlit með sláturdýrum, sláturafurðum og afurðastöðvum, eftirlit með heilbrigði, hirðingu, aðbúnaði og aðstöðu nautgripa á búum þar sem framleidd er mjólk til sölu og hafa með höndum framkvæmd sóttvarnaaðgerða. Einnig ber þeim að hafa eftirlit með búfé og öðrum dýrum eftir því sem lög ákveða. Ávallt skal aðskilja sem kostur er eftirlitsstörf dýralækna og almenna dýralæknisþjónustu.
     Héraðsdýralæknar í Gullbringu- og Kjósar-, Skagafjarðar- og Eyjafjarðar- og Suðurlandsumdæmum sinna eingöngu eftirlitsstörfum, en héraðsdýralæknar í öðrum dýralæknisumdæmum annast jafnframt eftirlitsstörfum almenna dýralæknisþjónustu í umdæminu, þar með er talin vaktþjónusta.
     Heimilt er að ráða dýralækna til aðstoðar ef þess er þörf vegna eftirlits og sjúkdómavarna í einstökum umdæmum.
     Yfirdýralæknir setur héraðsdýralæknum erindisbréf sem landbúnaðarráðherra staðfestir. Þar skal kveðið á um embættisfærslu, skyldur, eftirlitsstörf og heimild til annarra dýralæknisstarfa.
     Gjald, sem nemur kostnaði, skal innheimta fyrir eftirlit og skoðanir samkvæmt reglum sem ráðherra setur að fengum tillögum yfirdýralæknis.
     Landbúnaðarráðuneytið skal sjá héraðsdýralæknum fyrir skrifstofuaðstöðu í samræmi við umfang starfseminnar.

12. gr.

     Vaktsvæði dýralækna eru sem hér greinir:
  1. Gullbringu- og Kjósarumdæmi.
  2. Borgarfjarðar- og Mýraumdæmi.
  3. Snæfellsnesumdæmi.
  4. Dalaumdæmi.
  5. Vestfjarðaumdæmi.
  6. Austur- og Vestur-Húnaþingsumdæmi.
  7. Skagafjörður og Siglufjörður.
  8. Eyjafjörður, Dalvík og Ólafsfjörður.
  9. Þingeyjarumdæmi.
  10. Austurlandsumdæmi nyrðra.
  11. Austurlandsumdæmi syðra.
  12. Austur-Skaftafellsumdæmi.
  13. Vestur-Skaftafellsumdæmi.
  14. Rangárvallasýsla og Mýrdalshreppur.
  15. Árnessýsla.

     Héraðsdýralæknar skulu skipuleggja vaktir í samráði við starfandi dýralækna innan sinna vaktsvæða þannig að dýralæknir sé þar jafnan á vakt og auðvelt sé að afla vitneskju um hvaða dýralæknir er á vakt hverju sinni. Heimilt er að skipta vakt innan sama vaktsvæðis milli fleiri dýralækna samtímis.
     Við skipulagningu vakta er ætlast til að tekið sé mið af vegalengdum og umfangi þjónustu innan viðkomandi vaktsvæða.
     Komi upp ágreiningur um skiptingu vakta innan vaktsvæða skal leita úrskurðar yfirdýralæknis.
     Fyrir vaktþjónustu greiðist samkvæmt samningi Dýralæknafélags Íslands við landbúnaðar- og fjármálaráðuneyti.

13. gr.

     Í því skyni að tryggja byggðum fjarri aðsetri dýralæknis reglubundna þjónustu og bráðaþjónustu skal landbúnaðarráðherra setja reglur um greiðslu hluta ferðakostnaðar dýralæknis í samráði við yfirdýralækni, Dýralæknafélag Íslands og Bændasamtök Íslands.

V. KAFLI
Sérgreinadýralæknar.

14. gr.

     Ráða skal sérmenntaða dýralækna, einn á hverju eftirtalinna sérsviða: Sviði alifuglasjúkdóma, fisksjúkdóma, hrossasjúkdóma, nautgripa- og sauðfjársjúkdóma, júgursjúkdóma, loðdýrasjúkdóma og svínasjúkdóma. Auk þess skal ráða dýralækni með sérþekkingu í heilbrigðiseftirliti sláturdýra og sláturafurða og dýralækni sem hafi eftirlit með inn- og útflutningi búfjárafurða. Sérgreinadýralæknar starfa undir stjórn yfirdýralæknis sem setur þeim erindisbréf.
     Sérgreinadýralæknar skulu vinna að bættu heilbrigði búfjár og sjúkdómavörnum, hver á sínu sviði, í samráði við héraðsdýralækna, með sértækum aðgerðum, almennri fræðslu, leiðbeiningar- og forvarnastarfi. Sérgreinadýralæknum má fela önnur verkefni, enda komi slíkt fram í erindisbréfi. Sérgreinadýralækni er óheimilt að stunda almennar dýralækningar á sínu sérsviði.
     Sérgreinadýralæknar skulu hafa frumkvæði að framkvæmd nauðsynlegra rannsókna og sýnatöku í samvinnu við héraðsdýralækna, rannsóknastofnanir og afurðastöðvar og hafa eftirlit með framkvæmd sóttvarnaaðgerða.

15. gr.

     Yfirdýralæknir skal hafa aðgang að viðunandi aðstöðu, búnaði og sérþekkingu til greiningar dýrasjúkdóma vegna sjúkdómsvarna og forvarnastarfa.

16. gr.

     Ráðherra skipar yfirdýralækni, aðstoðaryfirdýralækni og héraðsdýralækna til fimm ára í senn og setur þeim erindisbréf. Laun og önnur starfskjör þeirra ákveðast af kjaranefnd. Sérgreinadýralæknar skulu ráðnir samkvæmt ákvæðum laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

VI. KAFLI
Viðurlög, gildistaka o.fl.

17. gr.

     Landbúnaðarráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

18. gr.

     Verði yfirdýralæknir þess var að dýralæknir, sem hefur læknisleyfi, vanræki skyldur sínar og störf, fari út fyrir verksvið sitt eða brjóti alvarlega í bága við fyrirmæli sem dýralæknum er skylt að starfa eftir ber yfirdýralækni að áminna hann um að bæta ráð sitt.
     Nú kemur ítrekuð áminning ekki að haldi eða sé um óhæfu í læknisstörfum að ræða og ber þá yfirdýralækni að kæra málið til ráðherra. Getur þá ráðherra úrskurðað að viðkomandi skuli sviptur lækningaleyfi að fullu eða um tiltekinn tíma.
     Uppfylli dýralæknir, sem hefur læknisleyfi, ekki lengur þær kröfur sem gerðar voru er læknisleyfi var veitt, svo sem vegna bilunar á andlegri eða líkamlegri heilsu eða misnotkunar vímuefna, ber yfirdýralækni að greina ráðherra frá málavöxtum. Ráðherra skal leita álits dýralæknaráðs um slík mál. Svipta má viðkomandi dýralækni lækningaleyfi ef dýralæknaráð leggur það til.

19. gr.

     Brot gegn lögum þessum, reglugerðum og fyrirmælum gefnum samkvæmt þeim varða sektum eða fangelsi ef sakir eru miklar. Með mál vegna brota skal farið að hætti opinberra mála.

20. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1999. Frá sama tíma falla úr gildi lög nr. 77 1. október 1981, um dýralækna, ásamt síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Meðan ekki hafa tekist samningar milli Dýralæknafélags Íslands og fjármálaráðuneytisins um endurmenntun gildir eftirfarandi ákvæði: Fyrir hver tíu ár, sem héraðsdýralæknir hefur gegnt þjónustu, á hann rétt á að hljóta sex mánaða frí frá störfum með fullum launum til framhaldsnáms í samráði við yfirdýralækni. Greiðir ríkissjóður fargjaldskostnað til þess lands þar sem hann hyggst dveljast og heim til Íslands að dvöl lokinni.

II.
     Sé starf lagt niður á dýralæknir sem skipaður hefur verið eða ráðinn í þjónustu ríkisins fyrir gildistöku laga þessara rétt til biðlauna í samræmi við ákvæði í 34. gr. laga nr. 70/1996.

Samþykkt á Alþingi 4. júní 1998.