Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1562, 122. löggjafarþing 524. mál: tekjuskattur og eignarskattur (vaxtabætur).
Lög nr. 97 16. júní 1998.

Lög um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á B-lið 69. gr. laganna:
  1. Á eftir 1. málsl. 4. mgr. koma tveir nýir málsliðir er orðast svo: Framangreint hlutfall skal þó lækkað um 0,5 á hverju ári sem maður á rétt á vaxtabótum samfellt vegna sama íbúðarhúsnæðis umfram 25 ár. Hafi maður fengið vaxtabætur samfellt vegna sama íbúðarhúsnæðis í 36 ár skal frádráttur á grundvelli tekjuskattsstofns falla niður.
  2. Á eftir 5. málsl. 4. mgr., er verður 7. málsl., koma tveir nýir málsliðir er orðast svo: Við ákvörðun vaxtabóta á því ári þegar maður aflar sér íbúðarhúsnæðis, en hefur ekki fengið vaxtabætur árið áður, skal þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. þessarar málsgreinar reikna vaxtabætur frá og með þeim ársfjórðungi sem fyrsta fasteignaveðlán vegna kaupanna er tekið. Skal hámark vaxtagjalda, tekjuskattsstofn og hámark vaxtabóta þá ákveðið hlutfallslega miðað við það.
  3. Á eftir 8. mgr. koma fjórar nýjar málsgreinar er orðast svo:
  4.      Heimilt er að greiða fyrir fram ársfjórðungslega áætlaðar vaxtabætur til þeirra sem festa kaup á íbúðarhúsnæði til eigin nota á árinu 1999 og síðar. Skulu áætlaðar vaxtabætur greiddar út fjórum mánuðum eftir lok hvers ársfjórðungs.
         Áætlaðar vaxtabætur skal miða við gjaldfallna og greidda vexti hvers ársfjórðungs af þeim veðlánum sem tekin eru til öflunar íbúðarhúsnæðis, þó ekki meira en fjórðung af hámarki vaxtagjalda, sbr. 3. mgr.
         Frádrátt frá vaxtagjöldum hvers ársfjórðungs, sbr. 4. mgr., skal miða við fjórðung af staðgreiðsluskyldum tekjum síðustu 12 mánaða á undan honum að viðbættum þeim tekjum utan staðgreiðslu sem fram koma á skattframtali fyrra árs. Fyrirframgreiddar vaxtabætur fyrir hvern ársfjórðung skulu eigi vera hærri en fjórðungur af hámarki vaxtabóta, sbr. 4. mgr.
         Sá sem rétt kann að eiga til fyrirframgreiðslu vaxtabóta á því ári sem hann aflar sér íbúðarhúsnæðis skal sækja um fyrirframgreiðsluna og leggja fram tilskildar upplýsingar. Lánastofnanir, lífeyrissjóðir og aðrir aðilar sem veita lán til íbúðarkaupa gegn veði í fasteign skulu veita skattyfirvöldum nauðsynlegar upplýsingar til að ákvarða fyrirframgreiðslu vaxtabóta. Ráðherra skal með reglugerð setja nánari reglur um ákvörðun og fyrirframgreiðslu vaxtabóta.
  5. Á eftir orðunum „Innheimtustofnunar sveitarfélaga“ í 10. mgr. kemur: svo og gjaldföllnum afborgunum og vöxtum af lánum Íbúðalánasjóðs.


2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við útborgun vaxtabóta vegna ársfjórðungs er hefst 1. janúar 1999.

Samþykkt á Alþingi 5. júní 1998.