Rannsóknarhús við Háskólann á Akureyri

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 15:18:06 (868)

1998-11-04 15:18:06# 123. lþ. 20.2 fundur 132. mál: #A rannsóknarhús við Háskólann á Akureyri# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., SJS
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 123. lþ.

[15:18]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svörin en hlýt um leið að lýsa vissum vonbrigðum yfir því að í raun og veru virðist þetta mál vera í algerlega óbreyttri stöðu, þ.e. það situr fast í einhverri nefnd sem búin er að fjalla um það í hartnær ár. Í raun komu engin góð tíðindi fram í máli hæstv. ráðherra.

Annað sem kom fram um nýbyggingaráformin, skóflu\-stung\-una og fjárveitingar í fjárlagafrv. liggur fyrir. Ástæða þess að menn leggja mikið kapp á að flýta rannsóknarhúsinu er einmitt sú sem hæstv. ráðherra nefndi en í allt öðru samhengi, að Háskólinn á Akureyri og samstarf hans við rannsóknastofnanirnar er kjölfestan í því tilraunamódeli eða verkefni sem verið er að reyna að byggja upp, þ.e. að samþætta þessa rannsókn á fræðslustarfsemi. Til þess að sú þróun geti haldið áfram og megi eflast þurfa menn að fá þarna aðstöðu og það helst á einum stað. Þó svo út frá hreinum kennslufræðilegum forsendum séu kennslustofurnar og skólahúsnæðið mikilvægast er vegna annarra hagsmuna og samstarfsins við rannsóknastofnanirnar og áforma um að byggja upp þetta rannsóknaumhverfi á Akureyri mjög brýnt að þessi áfangi í rannsóknarhúsinu náist í gang. Að mínu mati er ekki við það búandi að málið sé strand. Er það t.d. vegna þess að þessir aðilar eru að ýta þessu eitthvað á milli sín eins og mér finnst hálfpartinn mega ráða af máli hæstv. menntmrh.? Enginn er að fara fram á að menntmrn. eða ríkið í þeim skilningi borgi meira en sinn hlut í þessu. Ekki er verið að fara fram á neitt slíkt og ég skil ekki að það þurfi að stranda á því að ekki megi hafa það á hreinu hver leggur hvað af mörkum í þessu samstarfi. Það er ákaflega mikilvægt. Það er ljóst að það er til góðs fyrir alla að samstarfið gangi milli skólans og rannsóknastofnananna og ég óttast að ekki verði sú framþróun í því sem menn vilja sjá og sú styrking í tengslum við uppbyggingu skólans sem þarna þarf að koma til ef ekki verður unnt að þiggja þetta boð frá Akureyrarbæ sem liggur fyrir um fjármögnun. Ég hvet hæstv. menntmrh. eindregið til þess að reka á eftir þessu máli.