Ferill 100. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 100 —  100. mál.Tillaga til þingsályktunarum framleiðslu íslenskra matvæla á forsendum sjálfbærrar þróunar.

Flm.: Gísli S. Einarsson, Egill Jónsson, Svanfríður Jónasdóttir,


Ísólfur Gylfi Pálmason, Kristín Halldórsdóttir, Hjörleifur Guttormsson,
Sigríður Jóhannesdóttir.

    Alþingi ályktar að stefna beri að því að öll hefðbundin matvælaframleiðsla skuli vottuð á forsendum sjálfbærrar þróunar fyrir árið 2001. Á framangreindum forsendum skal stefnt að því að 20% landbúnaðarframleiðslunnar verði vottuð lífræn.
    Þá skal unnið að því ötullega að koma á vottunarkerfi sjávarafurða sem byggist á stjórnun­arkerfi og vinnslu sjávarafurða þar sem sjálfbær þróun er höfð að leiðarljósi.

Greinargerð.


    Nágrannalönd okkar hafa flest sett sér markmið hvað varðar framleiðslu lífrænna land­búnaðarafurða. Þau búa þó við þann ókost að á mörgum svæðum er jörð mengaðri af völdum áburðarnotkunar en þekkist hér á landi. Íslendingar geta margt lært af nágrannaþjóðunum í þessu efni, en möguleikar okkar eru ekki síðri, m.a. vegna legu landsins. Hins vegar getur Ísland verið forustuland hvað varðar vottun sjávarafurða, ekki þarf annað að gera en að byggja á því stjórnunarkerfi sem nú er unnið eftir í landinu og er meðal þeirra fremstu í heim­inum. Ísland hefur þá sérstöðu að 82% gjaldeyristekna vegna vöruútflutnings koma úr sjávar­útvegi og það undirstrikar mikilvægi málsins sem hér er fjallað um. Við getum ekki beðið eftir að aðrar þjóðir setji okkur leikreglur um hvernig skuli fara með sjávarafurðir heldur eigum við að setja upp vottunarkerfi á þeim grunni sem við höfum byggt upp í landinu. Það má ljóst vera að neytendur gera æ meiri kröfur um að vita um uppruna þeirra matvæla sem þeir kaupa, hvaða tegund sem um er að ræða. Það verður spurt um alla þætti, frá veiðum á fiski eða fram­leiðslu landbúnaðarvara til þess þegar afurðirnar eru komnar á borð neytenda. Því verður að vinna ötullega að framgangi vottunar íslenskra matvæla um heilbrigði, hreinleika og hollustu.
    Miklar breytingar eiga sér stað á aðferðum við framleiðslu matvæla. Ástæðan er aukin krafa neytenda til umhverfisþátta og siðferðisþátta í umgengni við dýr, svo og um aukin gæði framleiðslunnar og hollustu fæðunnar. Mikilvægt er að koma á jafnvægi milli náttúruverndar­sjónarmiða, gæða með tilliti til heilsufars og góðrar meðferðar á skepnum og þjóðhagslegra sjónarmiða sem lúta að arðbærum rekstri atvinnugreinanna.
    Á Íslandi er lítið um lífræna framleiðslu en þó hefur í nokkurn tíma verið stunduð slík ræktun og náðst mjög góður árangur. Má þar nefna starf bænda í Pétursey í nágrenni Víkur í Mýrdal, Skaftholti í Gnúpverjahreppi, Sólheimum í Grímsnesi, Dyrhólum, Mýrdal, Neðri-Hálsi í Kjós og Vallarnesi á Héraði sem dæmi. Afurðir þessara bænda eru mjög eftirsóttar, þær hafa vakið athygli fyrir hollustu og seljast vel þegar þær eru í boði.
    Neytendur krefjast í æ ríkari mæli meira framboðs lífrænna matvæla og gera einnig kröfu um að fæðuframleiðslan taki tillit til umhverfisþátta. Einnig er þung áhersla lögð á að land­búnaður valdi sem minnstu álagi á umhverfið og að bændur framleiði gæðavöru.
    Traust neytenda á lífrænt ræktuðum vörum á sér stoð í þróuðu eftirlitskerfi og leyfis­veitingum. Nú eru fyrirliggjandi lög nr. 162/1994, um lífræna landbúnaðarframleiðslu, og reglugerð þar að lútandi, þannig að umgerðin er til, en tilgangur tillögu þessarar er að fylgja lögunum eftir.
    Ef skyggnst er fram til þess tíma sem tillaga þessi er miðuð við má gera ráð fyrir að neyt­endur muni þá gera enn stífari kröfur í þessum efnum. Því mætti telja eðlilegt að setja það markmið að árið 2002 verði hlutur lífrænna framleiðsluvara 20% af smávöruverslun á heima­markaði.
    Langtímamarkmið í landbúnaði verður að snúast um sjálfbæran búskap sem er grundvöllur lífrænnar matvælaframleiðslu og að greinin standist kröfur um vörugæði, meðferð dýra og vistvæna sambúð við náttúruna. Matvælaframleiðsluna verður að byggja á samstilltri hring­rás lífræns efnis. Ljóst er að maturinn endurspeglar umhverfið sem hann er framleiddur í. Því verður að skerpa áherslur varðandi þessi mál til að svara kröfum tímans.
    Íslendingar, íslenskir bændur, eiga að setja sér það markmið að framleiða búvörur í heims­ins hreinasta landi. Með þessu markmiði getum við mætt alþjóðasamkeppni. Við þurfum að geta gefið, og staðið við, þau skilaboð til umheimsins að Íslendingar rækti í hreinustu mold­inni, noti hreinasta vatnið, búi við hreinasta loftið og lúti ströngustu kröfum um meðferð matvæla.
    Nágrannaþjóðir okkar hafa sett sér markmið um lífræna framleiðslu. Danir stefna t.d. að því að árið 2000 verði 15–20% landbúnaðarframleiðslu þeirra viðurkennd sem slík, þar af grænmeti u.þ.b. 50%, og stefna þeir að verulegum útflutningi lífrænt ræktaðs grænmetis ásamt auknu framboði á heimamarkaði.
    Sums staðar erlendis hefur notkun áburðar og varnarefna aukist mikið frá árinu 1970 og því er framboðsaukningin mikil. Heildarframleiðsla margfaldaðist í fyrstu, dróst síðan snögg­lega saman til ársins 1980 en hefur aukist jöfnum skrefum síðan þá. Talið er að sjö alþjóðleg fyrirtæki ráði u.þ.b. 80% af matvælamarkaðinum í heiminum. Því er ekki að undra að fjár­magnið leiti út fyrir frumframleiðsluna.
    Lífrænn landbúnaður væri mótvægi við þessa þróun. Kostnaður af aðföngum og vélum minnkar og það vegur upp tekjutap af minni uppskeru. Milliliðakostnaður er miklu minni á lífrænu mörkuðunum en það skilar sér í auknum tekjum til bænda. Þetta verður tvímælalaust hagur þjóðfélagsins og landbúnaðarins í heild því að lífræn framleiðsla hlífir umhverfinu og gerir kröfu til þess að viðkvæm svæði séu ekki of nytjuð. Draga mun úr kostnaði vegna efna­mengunar en það stuðlar að betri ímynd landbúnaðarins.
    Segja má að að lífrænn landbúnaður sé lykillinn að bættri sambúð manns og náttúru, land­búnaðar og samfélagsins.


Fylgiskjal I.


Dr. Nicolas Lampkin,
Rannsóknastofnun landbúnaðarins
við háskólann í Wales:


Áhrif ES-reglugerðar nr. 2078/92,


um þróun lífræns landbúnaðar í Evrópusambandinu.


(CEPFAR/IFOAM-ráðstefna um lífrænan landbúnað,


Vignola, Ítalíu, 6.–8. júní 1996.)Hvað er lífrænn landbúnaður?
    Lífrænan landbúnað má skilgreina sem búskaparhætti þar sem markmiðið er að koma á samþættum og mannúðlegum framleiðslukerfum sem eru sjálfbær, bæði efnahagslega og með tilliti til umhverfisins. Í því skyni að framleiða fullnægjandi næringu fyrir þá uppskeru sem sáð er til, bústofninn og mannfólkið, til að halda uppi vörnum gegn skaðvöldum og sjúkdóm­um og til að tryggja hámarksávinning bæði fyrir fólkið sem á búinu vinnur og fyrir auðlindirn­ar sem nýttar eru, er megináhersla lögð á ræktunar- og lífkerfi sem eru sjálfum sér nóg, endur­nýjanleg aðföng sem eru ekki aðflutt og eru jafnvel unnin eða framleidd á staðnum og stýringu á vistfræðilegum og líffræðilegum ferlum og gagnverkunum. Reynt er eftir föngum að hamla gegn notkun aðfluttra efna, hvort heldur er kemískra eða lífrænna. Í mörgum löndum Evrópu gengur lífrænn landbúnaður undir heitinu „vistfræðilegur landbúnaður“, en sú nafngift ber með sér að byggt er á stýringu vistkerfis fremur en á aðfluttum efnum.
    Sjálfbærni er meginatriði í lífrænum landbúnaði og ræður hún m.a. úrslitum um hvort til­teknar framleiðsluaðferðir fást viðurkenndar eða ekki. Orðið „sjálfbærni“ er notað í víðasta skilningi og nær ekki aðeins til verndunar óendurnýjanlegra auðlinda (jarðvegs, orku, stein­efna) heldur einnig til málefna er varða umhverfislega, efnahagslega og félagslega sjálfbærni. Best er að líta svo á að orðið „lífrænn“ lúti ekki aðeins að þeim aðföngum sem notuð eru heldur að búinu sjálfu sem lífrænni heild þar sem allir þættir — jarðefnin, lífræn efni, örver­ur, skordýr, skepnur og menn — orka hver á annan og mynda samstæða og stöðuga heild. Í sumum löndum Evrópu er lífrænn landbúnaður kallaður „vistfræðilegur“ eða „líffræðilegur“ landbúnaður, en sú nafngift ber með sér að byggt er á stýringu vistkerfis fremur en á aðflutt­um efnum, hvort heldur er kemískum eða öðrum.
    Nákvæma lýsingu á grundvallarreglum og aðferðum í lífrænum landbúnaði er að finna í ýmsum bókum sem gefnar hafa verið út um þetta málefni víða um heim á undanförnum árum (t.d. Lampkin, 1990; Neuerburg og Padel, 1992). Það sem skilur lífrænan landbúnað frá öðr­um sjálfbærum búskaparháttum er að til eru staðlar, lögboðnir og valkvæðir, og vottunarað­ferðir (t.d. EC, 1991a; IFOAM, 1995) til að greina lífrænan landbúnað með skýrum hætti frá öðrum landbúnaðaraðferðum, fyrst og fremst í markaðssetningarskyni. Það að til skuli vera sérstakur markaður fyrir matvæli sem framleidd eru með lífrænum aðferðum gerir að verkum að framleiðendur geta fengið greitt fyrir ytri kostnaðarliði sem þeir taka á sig en samfélagið mundi að öðrum kosti þurfa að greiða. Það er vöxtur þessa markaðar sem hefur leitt til þess­arar ráðstefnu, en grundvallarstefnumið lífræns landbúnaðar, sjálfbærni, umhverfisvernd, velferð dýra og félagsleg velferð, eru meginmarkmiðið; markaðurinn er aðeins tæki til að ná því.
    Á undanförnum árum hefur lífrænn landbúnaður vaxið afar hratt í Evrópusambandinu og landrýmið þar sem lífrænn búskapur er stundaður hefur stækkað úr 0,12 milljónum hektara árið 1986 í nálægt 1,2 milljónir hektara árið 1996 (sjá mynd 1), þ.e. um 25% á ári. Lífrænum búum hefur fjölgað úr 7.000 í 50.000 á sama tímabili. Á Norðurlöndum og í þýskumælandi löndum hefur lífrænn landbúnaður breyst úr því að vera jaðarbúgrein á innan við hálfum hundraðshluta alls ræktarlands og í það að vera umtalsverður hluti landbúnaðarins með þeim árangri að meðaltalið fyrir Evrópusambandið í heild nemur nú því sem næst einum af hundraði.

Rökin fyrir stuðningi við lífrænan landbúnað.
Umhverfisvernd.
    Mikilvægi lífræns landbúnaðar fyrir umhverfisvernd hefur nú verið rökstutt með rannsókn­um (sbr. Greenpeace, 1992, og Unwin o.fl., 1995). Af þessum rannsóknum er ljóst að búast má við töluverðum almennum ávinningi af lífrænum landbúnaði sem m.a. felst í verndun jarð­vegsauðlinda, dýralífs og óendurnýjanlegra auðlinda, svo og mengunarvörnum. Lífrænn land­búnaður hefur auk þess þann kost að markaðurinn greiðir að hluta fyrir þennan ávinning sem umhverfið nýtur fremur en að eingöngu sé um opinberan stuðning að ræða og því gæti hér ver­ið um að ræða þarflega hliðarráðstöfun við þá meginumhverfisstefnu sem mörkuð er. Endur­skipulagningin sem mundi fylgja því að koma á lífrænu landbúnaðarkerfi og það að fram­leiðslustaðlar eiga rætur sínar í kröfum neytenda gætu leitt til varanlegri skuldbindinga og þar með varanlegri ávinnings en raunin yrði við aðstæður þar sem bændur væru einfaldlega að bregðast við opinberum styrkjum, svo sem greiðslum fyrir minnkaða notkun áburðar á við­kvæmum svæðum (EC, 1985; EC, 1992b).
    Það eru hins vegar takmörk fyrir þeim ávinningi sem hægt er að hafa af lífrænum landbún­aði í núverandi mynd. Í fyrsta lagi er ekki víst að með lífrænum landbúnaði megi tryggja að tiltekin umhverfismarkmið náist, t.d. varðandi uppgræðslu beitilyngssvæða og kalkríkra gras­lenda eða viðhald laufskóga. Þótt fella mætti einhverjar viðbótarkröfur inn í framleiðslu­staðla mundu önnur sértæk markmið áfram vera liðir í öðrum áætlunum, svo sem landbúnað­ar- og umhverfisáætluninni (EC, 1992b).
    Í öðru lagi eru framleiðendur lífrænna afurða sem stendur að taka sjálfviljugir á sig hluta af kostnaði sem ellegar væri borinn af samfélaginu. Ef bændur eru ekki allir skyldaðir til þess að leggja niður búskaparhætti sem kunna að hafa hættur í för með sér verður ekki hægt að viðhalda þessari aðferð að „innbyggja“ samfélags- og umhverfiskostnað nema með markaðs­öflum (þ.e. hærra afurðaverði) eða stuðningi innan landbúnaðaráætlunarinnar. Ef ekki kemur til stuðningur úr styrkjakerfi landbúnaðarins er ekki víst að núverandi verðlag sé nógu hátt til þess að tryggja tekjur sem eru sambærilegar eða hærri en í hefðbundnum landbúnaði fyrir allar tegundir búa og kostnaður við breytingu yfir í lífræna búskaparhætti gæti orðið veruleg hindrun fyrir þá fjölmörgu bændur sem áhuga hafa á að taka upp lífrænan landbúnað (Lamp­kin og Padel, 1994). Á hinn bóginn kynnu of miklar styrkveitingar að koma alfarið í stað markaðarins og hafa þannig öfug áhrif.
    Í þessu samhengi er rétt að taka fram að stuðningur á grundvelli opinberra áætlana þarf ekki að vera í formi beingreiðslna. Kvótar, skattar eða framseljanlegar mengunarheimildir sem miða að því að takmarka notkun aðfanga (Dubgard, 1987) og reglugerðir sem miða að því að takmarka óæskilega búskaparhætti, eins og sinubruna eða óhóflega notkun áburðar, eru meðal aðferða til þess að ná fram æskilegum umhverfismarkmiðum. Slíkar aðgerðir mundu einnig styrkja samkeppnisstöðu lífræns landbúnaðar, einkum ef þeim tekjum sem til verða er dreift með þeim hætti að þær hvetji til umhverfisvænna búskaparhátta.


Minnkun framleiðslu og sparnaður opinberra útgjalda.
    Möguleikar lífræns landbúnaðar til þess að draga úr umframframleiðslu stafa af tvennu: Annars vegar minni framleiðslugetu á hverja einingu lands eða á hverja skepnu og minnkun á ræktunarsvæðum og stærð bústofna. Framleiðsluminnkunin er innbyggður þáttur í þessari landbúnaðargrein og um hana gildir það sama og um hin jákvæðu umhverfisáhrif að hún er líkleg til þess að vera varanleg og þannig laus við suma megingalla annarra áætlana til að draga úr framleiðslu, svo sem áætlana um ræktunarhlé ( set-aside; EC, 1987). Gagnrýnin á slíkar áætlanir felst meðal annars í því að þær taka ekki til grundvallarvandans, sem er ójafn­vægi á markaði vegna of hás verðs; líklegt sé að ræktunarhlé verði gert á þeim jörðum sem eru undir meðallagi að því er varðar framleiðslugetu; líklegt sé að álag á það land sem eftir er eða á aðrar jarðir aukist vegna hagstæðs verðs og það vegi upp allan ávinning af fram­leiðsluminnkun (svonefnt „skrik“, e. slippage); og svo sé enginn ávinningur frá umhverfissjónarmiði (Potter, 1986; nafnl., 1992).
    Ávinningurinn af framleiðsluminnkun þeirri sem lýst er í Lampkin og Padel (1994) er slík­ur að stuðningur við lífrænan landbúnað býður upp á möguleika á sparnaði í opinberum útgjöldum, jafnvel þótt um væri að ræða beinar greiðslur til bænda til að liðka fyrir breytingum yfir í lífrænan landbúnað. Eftir umbæturnar á sameiginlegu landbúnaðarstefnunni (CAP) frá 1992 (EC, 1992a) vegur kostnaður vegna útflutnings og birgðahalds ekki jafnþungt. Lækkan­ir á opinberum útgjöldum nást enn þar sem akurlendisgreiðslur hafa lækkað eftir því sem ak­urlendum hefur verið breytt í beitiland með tilsvarandi aukningu í framleiðslu á búpeningi. Greiðslur vegna búpenings mundu ekki aukast til jafnaðar vegna þess að tilsvarandi kaup og sala á kvóta valda samsvarandi breytingum annars staðar. Á hinn bóginn munu bújarðir sem auka við akurlendi sitt ekki eiga kost á auknum greiðslum vegna akurlendis.

Markaðsbreytingar og þróun.
    Hár dreifingar- og markaðssetningarkostnaður sem fylgir því að dreifa og selja vöru í litlu magni, svo og vandamál við stöðugt framboð, hafa hægt á þróun lífræns landbúnaðar og munu halda áfram að hafa hamlandi áhrif á þróun hans. Hraðfara aukning á framleiðslugetu til að ná því vörumagni sem þarf til að halda uppi stöðugu framboði og eftirspurn mundi gera kleift að hefja markaðsþróun bæði á hefðbundnum markaði og fyrir svonefnda syllumarkaði ( niche markets). Ef meira framboð væri á lífrænu hráefni gætu matvælaframleiðendur einnig byrjað að nota lífrænar vörur í neytendavörur sem markaðssettar eru undir þekktum vörumerkjum í stað þess að leggja út í mikinn kostnað við að auglýsa upp ný vörumerki fyrir þrönga hópa neytenda. Slík þróun gæti aukið mjög á framlag markaðarins til þess að ná fram umhverfisleg­um og félagslegum markmiðum lífræns landbúnaðar. Á sama tíma er hætta á því að hraðfara aukning á framboði án tilsvarandi markaðsstarfs gæti leitt til þrýstings á lægra verð og fjár­hagslegra vandamála fyrir þá framleiðendur lífrænna afurða sem fyrir eru.

Kostnaður við umbreytingu.
    Ein meginhindrunin fyrir því að tekinn sé upp lífrænn landbúnaður, þrátt fyrir hagstætt af­urðaverð og aðra kosti, er óvissa um það hvað breytingin feli í sér. Breytingarferlið yfir í líf­ræna landbúnaðarkerfið felur í sér að endurskipuleggja verður búskaparhætti frá grunni og það er flókið mál sem hefur í för með sér miklar nýjungar og kallar á töluverða þekkingaröfl­un af hálfu bóndans (Lampkin og Padel, 1994). Því er mikil þörf á upplýsingamiðlun, þjálfun og ráðgjöf samhliða fjárhagslegum stuðningi og aðstoð við markaðsþróun. Þótt umbreyting­artíminn sé opinberlega skilgreindur (EC, 1991a) sem tvö ár (þar til markaðssetja má afurðir sem lífrænar) er hann í raun mun lengri. Tíminn sem þarf og vandamálin, sem eru samfara þeim breytingum sem nauðsynlegar eru, eru breytileg eftir þeim búskaparháttum sem fyrir eru og ástandi búsins fyrir breytinguna, eftir því að hvaða marki er ráðist í ný verkefni og nýjar markaðsaðgerðir, eftir þeim möguleikum sem eru á bættri afkomu og eftir því tekjutapi sem tengist beint breytingarferlinu. Kostnaður við breytingar getur því verið afar mismunandi eftir aðstæðum hverju sinni. Í mörgum tilvikum er erfitt að líta á þennan kostnað sem fjárfestingu viðkomandi bónda í framtíðartekjuaukningu þar sem engin trygging er fyrir bættri afkomu þegar til langs tíma er litið.

Áætlanir um stuðning við lífrænan landbúnað fyrir umbæturnar á sameiginlegu landbúnaðarstefnunni 1992.
    Kostnaðurinn við umbreytingar og sú staðreynd að kostnaðurinn er borinn af einstökum bændum sem leitast við að ná umhverfistengdum markmiðum og öðrum markmiðum sem koma þjóðfélaginu í heild til góða varð til þess að komið var á fót áætlunum um stuðning við umbreytingu yfir í lífrænan landbúnað og annars konar fjárhagsaðstoð við bændur sem stunda lífrænan landbúnað á árunum 1987–1992 í Austurríki, Danmörku, Finnlandi, Þýskalandi, Noregi, Svíþjóð og Sviss (Besson, 1990; Lampkin og Padel, 1994) og einnig í ýmsum löndum Mið- og Austur-Evrópu (Znaor, 1994).
     Danmörk varð fyrsta landið til að koma á áætlun um verulegan fjárstuðning við lífrænan landbúnað (Dubgaard og Holst, 1994). Áætlunin náði til aðstoðar við minnkun á álagi, svo og til upplýsinga- og markaðsþjónustu og fjárhagslegrar aðstoðar á umbreytingartíma. Í árs­lok 1992 hafði 39 millj. danskra kr. verið varið til umbreytinga en 98 millj. kr. til þróunarað­stoðar. Greiðslur til stuðnings við umbreytingar voru til þriggja ára, en umbreytingin þurfti að eiga sér stað innan sex ára samkvæmt samþykktri áætlun og greiðslur miðuðust við birgða­gjöld fyrir búfénað. 1 Einnig voru greiðslur hærri í upphafi umbreytingartímans. Eftir að stuðningsáætluninni var komið á þrefaldaðist fjöldi vottaðra búa úr 219 árið 1988 í 672 árið 1992. Á sama tímabili stækkaði landsvæðið sem umbreytt var eða sem verið var að umbreyta umtalsvert, eða úr 5.880 hekturum í 18.500 hektara. Óvissa á markaðinum varð hins vegar til þess að umsóknum um stuðning fækkaði og árið 1993 gerðist það að lítillegur samdráttur varð bæði í fjölda búa og stærð landsvæða þar sem lífrænn landbúnaður var stundaður (Dubgaard og Holst, 1994). Þetta gjörbreyttist síðan aftur þegar markaðurinn tók við sér árin 1994 og 1995.
    Í Austurríki var varið 2 millj. austurrískra skildinga árið 1989 og 6 millj. skildinga árið 1990 til þess að aðstoða stofnanir sem tengdust lífrænum landbúnaði með ráðgjöf, vottun, auglýsingastarfi og markaðssetningu. Áhersla var lögð á að byggja upp innviði markaðarins áður en ráðist væri í að veita almennan aðgang að greiðslum fyrir umbreytingu. Nokkrar til­raunir voru gerðar með greiðslu fyrir umbreytingu árið 1990 í nokkrum héruðum. Víðtækur fjárstuðningur á umbreytingarskeiði hófst ekki fyrr en 1992. Styrkupphæðir árið 1994 voru ákveðnar ATS 4.000 á hvern umsækjanda auk ATS 2.400/ha fyrir akurlendi, ATS 5.000/ha fyrir garðyrkju og ATS 1.000/ha fyrir graslendi (lækkað þegar um var að ræða mikil land­svæði). Heildarfjárveitingin til málsins var ATS 220 milljónir (Schneeberger o.fl., 1995). Greiðslurnar leiddu til þess að fjöldi lífrænna búa tólffaldaðist, frá 1.500 árið 1990 og upp í 18.000 árið 1996. Um er að ræða 7,5% af öllu ræktarlandi í Austurríki.
    Í Noregi var tekin upp áætlun um styrki vegna umbreytinga árið 1990. Sérhvert bú sem réðst í umbreytingu fékk eingreiðslu sem nam 15.000 norskum kr. fyrir bú sem voru minni en 5 ha og 20.000 norskar kr. fyrir bú sem voru stærri en 5 ha (meðalbú í Noregi er u.þ.b. 10 ha). Til viðbótar þessu komu 2.000/ha af ræktanlegu landi (þar með talin beitilönd þar sem hægt var að koma við vinnuvélum) á fyrsta ári umbreytingartímans og 1.000 norskar kr./ha árlega á öðru og þriðja ári. Árið 1991 voru greiðslur takmarkaðar við 60.000 norskar kr. á hvert bú. Frá 1992 fengu bændur 500 norskar kr./ha árlega í þrjú ár eftir umbreytinguna. Skilyrði var að búinu væri breytt innan 10 ára. Heildarfjárveitingin fyrir 1990 var 16 millj. norskra kr. og var þar innifalinn kostnaður við ráðgjafarþjónustu og rannsóknir. Árið 1990 hófu 218 bú fyrsta ár umbreytingar af 450 búum sem skráð voru í áætluninni.
    Í Finnlandi var komið á fót áætlun um stuðning við umbreytingu árið 1990. Greidd voru 2.800 finnsk mörk/ha árlega (2.200 í Mið-Finnlandi og 1.800 í Norður-Finnlandi) fyrir þrjú fyrstu ár umbreytingartímans. Umbreytingin mátti taka átta ár, en lífrænan landbúnað varð að stunda í a.m.k. fimm ár. 1.443 bú réðust í umbreytingu og náði umbreytingin til 25.249 ha, sem var sexföldun á fjölda búa þar sem lífrænn landbúnaður er stundaður. Fjárveitingin gerði einnig ráð fyrir tíu ráðgjöfum í fullu starfi. Stuðningur við rannsóknir og minnkun ræktunar- og beitarálags í lífrænum landbúnaði jókst úr 50.000 finnskum mörkum árið 1985 í 2,2 millj. finnskra marka árið 1990.
    Í Svíþjóð var ráðist í áætlun um að styrkja lífrænan landbúnað í umhverfisverndarskyni og til að grynnka á umframbirgðum árið 1989. Í áætluninni fólst meðal annars stuðningur við opinbera ráðgjafarþjónustu fyrir bændur sem stunda lífrænan búskap og einnig áætlun um ein­greiðslu fyrir umbreytingu yfir í lífrænan búskap og áframhaldandi lífrænan landbúnað, en hið síðarnefnda er einsdæmi. Styrkurinn nam allt frá 750 sænskum krónum upp í 2.900/ha á ári í allt að þrjú ár, allt eftir landgæðum, afkastagetu og landnýtingu, en styrkurinn náði ekki til alls landsins sem umbreytt var og var ekki greiddur út fyrir garðrækt. Graslendi og vistvæn áburðardreifing (þ.e. notkun grænáburðar, green manures 2 ) hlutu styrk í eitt ár. Stuðningur fékkst aðeins við jarðir sem búið var að skrá árið 1989 þótt hægt væri að fresta umbreytingu allt til 1992. 1.000 bú hófu umbreytingu árið 1989, sem gerði meira en að tvöfalda fjölda líf­rænna búa, og landnotkun undir lífrænan landbúnað fór úr 10.000 í 30.000 hektara. Vöxtur í lífrænum landbúnaði var hins vegar hægari síðar er styrkir lögðust af.
    Könnun (Svensson, 1991), sem gerð var á þeim 1.781 bónda sem breyttu yfir í lífræna bú­skaparhætti eða sem stunduðu lífrænan landbúnað fyrir og nutu styrkjanna 1989, leiddi í ljós að 97% bændanna mundu sennilega eða örugglega halda áfram lífrænum búskaparháttum eft­ir að styrktartíma lyki, en 52% þeirra sem réðust í umbreytingu árið 1989 sögðu að tilvist styrkjakerfisins hefði haft mikil eða þó nokkur áhrif á ákvörðun þeirra um að ráðast í um­breytingu og 11% sögðu að niðurgreiðslurnar hefðu verið meginástæða fyrir umbreytingunni (samanborið við 67% sem tiltóku umhverfismál, 22% fjárhagslegar ástæður og 17% starfs­ánægju).
    Í Sviss voru teknar upp stuðningsáætlanir í ýmum kantónum árið 1989. Þeirra í stað er nú komin alríkisáætlun um stuðning við lífrænan landbúnað og blandaðan búskap. Nákvæmar upplýsingar er að finna í Schmid (1994). Frá því að þessi áætlun var sett á laggirnar árið 1994 hefur fjöldi býla aukist úr 1.700 í 4.000 og landsvæði í lífrænni ræktun úr 25.000 í 60.000 ha.
     Þýskaland var fyrsta ríkið í Evrópusambandinu, árið 1989, til að taka upp áætlun um að styðja umbreytingu yfir í lífrænan landbúnað í samhengi við stefnu Evrópubandalagsins um að minnka álag á ræktarland ( extensification policy). Meginmarkmið áætlunarinnar var að minnka framleiðslu fremur en að ná fram umhverfismarkmiðum. Álagsminnkunarstefna Evr­ópubandalagsins tengdist fyrst áætluninni um ræktunarhlé ( set-aside) og gerði ráð fyrir 20% minnkun á „magni“ af umframbirgðum, einkum fjölda fjár og nautgripa á einstökum býlum (EC, 1988a). Þetta reyndist óheppileg aðferð til þess að styðja umbreytingu yfir í lífrænan landbúnað. Í endurskoðaðri löggjöf (EC, 1988b) var settur fram valkostur um „framleiðslu­aðferðir“, en tilgangur með þessum kosti var að ná fram 20% minnkun á framleiðslu með því að taka upp afkastaminni framleiðsluaðferðir og það var þessi löggjöf sem varð grunnurinn að þýsku áætluninni um að liðka fyrir umbreytingu.
    Áætlunin var mismunandi í smáatriðum frá einu ríki til annars, en bændur áttu yfirleitt um þrjá kosti að velja: að breyta yfir í lífrænan landbúnað, að rækta korn án úðunar eða áburðar (svonefnt 00 korn) og loks að breyta um korntegund, frá því að rækta hveiti og vetrarbygg yfir í að rækta rúg, vorbygg eða hveitikorn (e. spelt wheat). Greiðsla fyrir að breyta yfir í lífræna búskaparhætti var 425 þýsk mörk/ha á ári fyrir tegundir sem til voru umframbirgðir af og 300 þýsk mörk/ha á ári fyrir aðrar tegundir, mest í fimm ár. Á árunum 1991–92 voru upphæðirnar hækkaðar í 510 mörk/ha og 360 mörk/ha. Þeir sem þegar höfðu hafið lífrænan landbúnað áttu ekki kost á styrkjum. Skilyrði álagsminnkunarstefnunnar um 20% samdrátt í þeim tegundum sem til væru umframbirgðir af án þess að á móti kæmi aukning á neinum öðrum offramleidd­um vörum eins og nauta- og kindakjöti átti einnig við um umbreytingarvalkostinn. Greiðslur fyrir valkosti sem ekki fólu í sér umbreytingu yfir í lífrænan landbúnað voru ákveðnar 300 þýsk mörk/ha. Meira en 10.000 býli á 380.000 hekturum lands völdu umbreytingarkostinn samkvæmt þessari áætlun frá 1989–93. Innan við helmingur þessara býla kaus hins vegar að stofna vottuð lífræn býli.
    Reynsla Þjóðverja hefur verið rannsökuð nokkuð ítarlega (Schulze-Pals, Braun og Dabbert, 1994). Býlin sem kusu umbreytingu voru stærri en í meðallagi og minna ræktunar­álag var á þeim en á meðalbýlum, sem gæti tengst birgðastiginu sem krafist var í áætluninni og þeirri staðreynd að meira álag er yfirleitt á smærri býlum, sem þurfa þá hærri greiðslur til að vega upp tekjutap. Margir bændurnir sem breyttu yfir í lífrænan landbúnað hefðu gert það hvort sem er þótt engar greiðslur hefðu komið til og í mörgum tilvikum, einkum í suður Þýska­landi, hafa tekjur ekki lækkað í kjölfar umbreytingar vegna mikillar eftirspurnar á markaðin­um. Sumir hefðu heldur kosið umbreytingu í áföngum til þess að ráðrúm gæfist til að öðlast reynslu og til þess að lágmarka áhættu á frumstigum umbreytingarinnar. Vera kann að mikil þátttaka í Austur-Þýskalandi hafi stafað af þeirri þörf sem fyrir var á endurskipulagningu og vegna þess fjárhagslega ábata sem var af greiðslunum.
Fylgiskjal II.


Úr ES-reglugerð nr. 2078/92.
(Tvær töflur — myndaðar.)1     Ekki er ljóst hvað átt er við með „ stocking rates for livestock“. – Þýð.
2     Með þessu mun vera átt við að sjálfur gróðurinn sé notaður sem áburður, t.d. með því að slá hann og láta liggja eða með því að plægja hann ofan í jarðveginn. – Þýð.