Ferill 123. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 123  —  123. mál.
Frumvarp til lagaum afnám laga nr. 70 1. júlí 1985, um Framkvæmdasjóð Íslands, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)


1. gr.

    Lög um Framkvæmdasjóð Íslands, nr. 70 1. júlí 1985, falla úr gildi.

2. gr.

    Ríkissjóður Íslands yfirtekur eignir og skuldir Framkvæmdasjóðs Íslands miðað við stöðu þeirra 31. desember 1998.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 31. desember 1998.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Á árinu 1992 var lögum um starfsemi Framkvæmdasjóðs Íslands breytt, hætt var að veita lán úr honum og Lánasýslu ríkisins var falin umsjá hans. Ákveðið var að sjóðurinn yrði áfram sérstakur lögaðili og væri með eigið ársuppgjör en hvort tveggja þótti nauðsynlegt til þess að ekki þyrfti að taka upp sérstaka samninga við lánveitendur eins og líklegt var talið að þyrfti, ef hann yrði lagður alveg niður. Eftir gildistöku laga nr. 88/1997 um fjárreiður ríkisins hefur sjóðurinn verið flokkaður í C-hluta ríkissjóðs í fjárlögum eins og aðrar lána­stofnanir ríkisins.
    Þegar frumvarp um breytingar á starfsemi sjóðsins var lagt fram haustið 1991 var í fylgi­skjali birt uppgjör miðað við stöðu í lok maí 1991 og voru skuldir hans þá 26,2 milljarðar króna. Umsvif sjóðsins hafa síðan dregist saman ár frá ári og er nú áætlað að heildarskuldir sjóðsins verði um 3,5 milljarðar í árslok 1998. Þar af eru lán hjá Nomura International um 3,1 milljarður króna en greiðslum af þeim lýkur árið 2000. Gert er ráð fyrir að eignir Framkvæmdasjóðs Íslands verði um 2,8 milljarðar króna í árslok 1998. Þar af nemi útlán um 2,1 milljarði króna en þau lækki síðan um 0,9 milljarða króna á árinu 1999. Í ljósi minnkandi umsvifa sjóðsins þykir ekki ástæða til að hann sé til lengur sem sérstakur lögaðili og er því gert ráð fyrir að sjóðurinn verði lagður niður og eignir hans og skuldir færist yfir í A-hluta ríkissjóðs.
    Á árinu 1992 yfirtók ríkissjóður 1.700 m.kr. af skuldum Framkvæmdasjóðs Íslands sam­kvæmt heimild í 13. gr. lánsfjárlaga það ár. Var það gert til að bæta eiginfjárstöðu sjóðsins. Þrátt fyrir þá aðgerð hefur lengi verið ljóst að ríkissjóður þyrfti að leggja sjóðnum til aukið fé til þess að hann geti staðið við skuldbindingar sínar í framtíðinni. Neikvætt eigið fé Framkvæmdasjóðs er nú um 700 m.kr og er gert ráð fyrir að það verði fært til gjalda í ríkisreikningi ársins 1998.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um afnám laga nr. 70/1985,
um Framkvæmdasjóð Íslands, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er fyrirhugað að leggja niður starfsemi Framkvæmdasjóðs Íslands og að ríkissjóður yfirtaki eignir hans og skuldir. Framkvæmdasjóður Íslands er nú í C-hluta ríkissjóðs í fjárlögum en samkvæmt frumvarpinu færast eignir og skuldir sjóðsins yfir í A-hluta ríkissjóðs. Það hefur ekki í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkið en hins vegar munu tekjur og gjöld sjóðsins færast frá C-hluta til A-hluta. Þannig er áætlað að vaxtagjöld A-hlutans aukist um 230 m.kr. á næsta ári en vaxtatekjur A-hlutans aukist um 220 m.kr. Jafnframt er gert ráð fyrir að rekstrarkostnaður af umsýslu með eignir og skuldir sjóðsins færist á lið Lánasýslu ríkisins í A-hluta en sá kostnaður er áætlaður um 29 m.kr. á næsta ári.