Ferill 160. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.
123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 160 — 160. mál.Tillaga til þingsályktunarum markaðs- og söluátak á íslensku dilkakjöti erlendis.

Flm.: Stefán Guðmundsson, Einar Oddur Kristjánsson.    Alþingi ályktar að fela landbúnaðarráðherra að leita samstarfs við Bændasamtök Íslands, Landssamtök sláturleyfishafa, Íslenskar sjávarafurðir hf., Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hf. og Sölusamband íslenskra fiskframleiðenda um gerð þriggja ára markaðs- og söluátaks á íslensku dilkakjöti erlendis.

Greinargerð.


    Við Íslendingar eigum því láni að fagna að samtök okkar í sjávarútvegi hafa komið sér upp sölufyrirtækjum sem hafa náð miklum og góðum árangri á erlendum vettvangi. Þar hefur á undanförnum áratugum safnast saman mikil þekking sem hiklaust á að nýta í öðrum útflutn­ingsviðskiptum, sérstaklega á sviði matvæla. Flutningsmenn tillögunnar telja einsýnt að besta leiðin til að markaðssetja íslenskt dilkakjöt fyrir kröfuharða erlenda neytendur sé að nota þau kerfi í sölu- og markaðsmálum sem útflutningsfyrirtækin í sjávarútvegi hafa byggt upp.
    Sú sölustarfsemi sem unnið hefur verið að erlendis fram til þessa sýnir að gæði íslenska kjötsins eru fyllilega sambærileg við þær afurðir sem á þessum mörkuðum bjóðast. Jafnframt því að ná ásættanlegu skilaverði til framleiðenda þarf að koma til skila á markaðnum mikil­vægum upplýsingum um ferskleika kjötsins og heilbrigðisvottun, sem og að skurður og önnur meðferð kjötsins standist kröfur neytenda. Náist þetta fram er miklum áfanga náð til öflugrar markaðssóknar.
    Til að atvinnugrein geti orðið grundvöllur farsællar búsetu þarf hún að búa þeim sem við hana starfa viðunandi lífsviðurværi. Framtíð þeirra sem að landbúnaði starfa byggist öðru fremur á því starfsumhverfi sem greininni er gert að búa við. Sauðfjárbúin hér á landi eru flest svo lítil og markaður smár að þau skapa þeim sem við þau starfa hvorki ásættanlegar tekjur né atvinnu.
    Á árunum 1986–97 fækkaði lögbýlum með sauðfé um 1.532 og þar af var á 931 lögbýli eingöngu búið með sauðfé. Á síðastliðnum 20 árum hefur sauðfjárframleiðslan dregist saman um 53%, úr 896 þús. fjár í um 477 þús. Á árunum 1983–97 töpuðust í innanlandssölu um 308 tonn að meðaltali á hverju ári, og á síðustu sjö árum hefur dilkakjötsframleiðslan dregist saman um 1.300 tonn. Á árunum 1991–96 hækkuðu ráðstöfunartekjur einstaklinga á landinu öllu um 5,5% en á sama tímabili lækkuðu launagreiðslur sauðfjárbúa um hvorki meira né minna en 35%.
    Ef svo heldur fram sem horfir er veruleg vá fyrir dyrum þar sem markaðshlutdeild dilka­kjöts innan lands gagnvart öðrum kjöttegundum minnkar stöðugt, m.a. vegna breyttra neyslu­hátta. Því er ljóst að sóknarfærin í þessari grein byggjast á því að ná fótfestu á erlendum mörkuðum. Á síðustu árum hafa nokkur fyrirtæki reynt fyrir sér í sölumálum erlendis fyrir unnar kjötvörur. Þannig voru á árunum 1991–96 flutt út um 200–400 tonn á ári. Nokkur þekking hefur því fengist á ákveðnum þáttum útflutnings þótt útflutt magn sé vissulega mjög lítið.
    Þegar markaðsstaðan erlendis er metin er nauðsynlegt að gera sér fulla grein fyrir verð­myndunarþættinum, að hann sé öllum augljós og skýr. Forsenda þess sem hér er stefnt að er að skilaverð til framleiðanda verði þannig að afkoma bænda og umhverfi verði ásættanlegt. Sú skoðun flutningsmanna skal því ítrekuð að við núverandi aðstæður er öflugt sölu- og markaðsstarf erlendis, sem skilar framleiðendum ásættanlegu skilaverði, forsenda aukinnar framleiðslu sauðfjárafurða.