Ferill 203. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 221  —  203. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um stofnun þjóðbúningaráðs.

Flm.: Drífa Hjartardóttir, Sturla Böðvarsson.



    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að koma á fót þjóðbúningaráði til að varð­veita þekkingu á íslenskum búningum og gerð íslenskra búninga. Ráðinu verði falið að koma á fót leiðbeiningaþjónustu.

Greinargerð.


    Samstarfsnefnd um íslenska þjóðbúninga hefur starfað um árabil að varðveislu og miðlun upplýsinga um íslenska þjóðbúninga. Hún hefur verið skipuð fulltrúum frá Kvenfélagasam­bandi Íslands, Þjóðdansafélagi Reykjavíkur, Heimilisiðnaðarfélagi Íslands, Þjóðminjasafni Íslands og Árbæjarsafni. Nauðsynlegt er að efla störf nefndarinnar og festa hana í sessi og koma á leiðbeiningaþjónustu þar sem almenningur, opinberir aðilar og félagasamtök geta fengið upplýsingar um hvaðeina sem varðar íslenska búninga. Kvenfélagasamband Íslands hefur samþykkt að hýsa ráðgjafa.
    Verkefni þjóðbúningaráðs skal vera:
     a.      að varðveita þekkingu á íslenskum búningum og gerð íslenskra búninga,
     b.      að koma upp og halda skrá yfir íslenska búninga í söfnum innan lands og utan,
     c.      að safna sýnishornum af búningasniðum og halda til haga eldri sniðum,
     d.      að safna sýnishornum af efnum, garni og leggingum,
     e.      að halda til haga eldri sýnishornum af efnum, garni og leggingum,
     f.      að skrá heimildir um íslenska búninga,
     g.      að safna skyggnum, ljósmyndum o.fl.,
     h.      að koma skrám og sýnishornum í vörslu Þjóðminjasafns Íslands.
    Ráðinu verði einnig falið að koma upp leiðbeiningaþjónustu um íslenska búninga sem veitir upplýsingar um heimildir um íslenska búninga, búningagerð, efni og búningasnið, þá aðila sem sérhæfa sig í saumaskap á íslenska búningnum, svo og upplýsingar um hvar nálgast má efni og snið sem hæfa í íslenska búninga.