Ferill 225. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 252  —  225. mál.




Frumvarp til laga



um Orkusjóð.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)



1. gr.

    Orkusjóður er eign ríkisins og ber það ábyrgð á skuldbindingum hans. Yfirumsjón með sjóðnum er í höndum iðnaðarráðherra.

2. gr.

    Hlutverk Orkusjóðs er að stuðla að hagkvæmri nýtingu orkulinda Íslands með fjármögnun grunnrannsókna á sviði orkumála annars vegar og fjárhagslegum stuðningi við ýmsar fram­kvæmdir og verkefni hins vegar.
    Úr Orkusjóði er heimilt:
     1.      að fjármagna yfirlits- og undirbúningsrannsóknir á orkulindum landsins samkvæmt áætlun sem sjóðurinn gerir til fimm ára á grunni rannsóknaáætlana Orkustofnunar; áætlunina skal endurskoða árlega og skal hún hljóta samþykki ráðherra,
     2.      að styrkja gerð yfirlitsathugana á möguleikum til að auka hlutdeild innlendra orkulinda í orkubúskap þjóðarinnar,
     3.      að veita opinberum aðilum, félögum og einstaklingum lán til að leita og afla jarðvarma með jarðvísindalegum forrannsóknum, jarðborunum og vinnslurannsóknum til að meta árangur borana,
     4.      að styrkja sérstök verkefni á sviði hagkvæmrar orkunotkunar, þar með talda fræðslu- og upplýsingastarfsemi,
     5.      að veita fyrirtækjum eða einstaklingum styrki eða áhættulán til hönnunar eða smíði frumgerðar tækja og búnaðar sem ætla má að leiði til þess að dregið verði úr notkun jarðefnaeldsneytis.

3. gr.

    Stjórn Orkusjóðs er í höndum orkuráðs undir yfirstjórn iðnaðarráðherra. Orkuráð skal skipað fimm mönnum. Alþingi kýs þrjá stjórnarmenn, sem skulu kosnir hlutfallskosningu eftir hverjar alþingiskosningar, en ráðherra skipar tvo menn. Ráðherra skipar jafnframt for­mann.
    Orkuráð semur árlega fjárhags- og greiðsluáætlun fyrir Orkusjóð, m.a. á grundvelli áætl­unar skv. 1. tölul. 2. mgr. 2. gr., og sendir ráðherra svo snemma að fylgt geti fjárlagafrum­varpi til Alþingis.
    Orkumálastjóri skal veita orkuráði ráðgjöf eftir því sem um verður beðið.

4. gr.

    Orkusjóður skal vera í vörslu Seðlabanka Íslands sem hefur á hendi daglegan rekstur hans, bókhald, ársuppgjör og skýrslugerð.
    Seðlabankinn skal hafa lokið gerð reikninga Orkusjóðs fyrir 1. mars ár hvert og hafa af­hent þá orkuráði til samþykktar.
    Heimilt er orkuráði að semja við aðra aðila en Seðlabankann um umsjón og trygga vörslu á fé sjóðsins.
    Allur kostnaður við rekstur Orkusjóðs greiðist af tekjum sjóðsins.

5. gr.

    Tekjur Orkusjóðs eru:
     1.      vextir af fé sjóðsins,
     2.      fé það sem veitt er í fjárlögum hverju sinni,
     3.      endurgreiddur kostnaður af rannsóknum og áætlanagerð, jarðhitaleit og jarðborunum skv. 6. gr.

6. gr.

    Ef ráðist er í orkuframkvæmdir sem undirbúnar hafa verið með rannsóknum og áætlana­gerð sem kostaðar hafa verið með fé ríkisins, þar með töldu fé Orkusjóðs, skal framkvæmd­araðili endurgreiða Orkusjóði þennan kostnað við veitingu virkjunar- eða nýtingarleyfa.
    Endurgreiðslu skal að fullu lokið eigi síðar en sjö árum eftir að leyfi hefur verið gefið út. Endurgreiddu fé skal varið skv. 1. tölul. 2. mgr. 2. gr. laga þessara.

7. gr.

    Orkuráð gerir tillögur til ráðherra um lánveitingar og einstakar greiðslur úr Orkusjóði samkvæmt fjárhags- og greiðsluáætlun sjóðsins.
    Áður en tillaga er gerð um lánveitingu úr Orkusjóði skal orkuráð leita umsagnar sérfróðra aðila um jarðfræðilegar og vinnslutæknilegar líkur á árangri og um fjárhagslegan ávinning af öflun jarðvarma.

8. gr.

    Ráðherra ákveður, að fengnum tillögum orkuráðs, vexti og önnur útlánakjör Orkusjóðs. Lán sem veitt eru skv. 3. tölul. 2. mgr. 2. gr. skulu verðtryggð og til hæfilega langs tíma. Lánstími skal þó ekki vera lengri en tíu ár.
    Ef tiltekin borun, sem lánað hefur verið til skv. 3. tölul. 2. mgr. 2. gr., reynist árangurs­laus eða árangur til muna lakari en gert var ráð fyrir samkvæmt áætlunum sérfræðinga eða kostnaður óeðlilega hár og ávinningur af notkun borholunnar til vinnslu jarðvarma því minni en upphaflega var gert ráð fyrir og fjárhagslegri afkomu lántaka stefnt í hættu af þessum sökum er ráðherra heimilt, að fenginni tillögu orkuráðs, að fella niður að hluta eða öllu leyti endurgreiðsluskyldu lántaka, skv. 3. tölul. 2. gr.

9. gr.

    Orkuráð getur haft eftirlit með þeim framkvæmdum sem Orkusjóður veitir fé til. Er skylt að láta fyrir fram í té fullnægjandi upplýsingar um fyrirhugað verk og gefa ráðinu kost á að fylgjast í hvívetna með framkvæmd þess. Orkuráð getur sett þau skilyrði um framkvæmd verksins sem það telur þörf á til að stuðla að sem bestum árangri. Ber að hlýða fyrirmælum þess í þeim efnum. Ber að stöðva greiðslur úr Orkusjóði til verksins ef út af er brugðið og orkuráð óskar þess.

10. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi ákvæði X. kafla orkulaga, nr. 58/1967, um Orkusjóð. Þá fellur brott 2. mgr. 66. gr. þeirra laga.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með orkulögum, nr. 58/1967, voru raforkusjóður og jarðhitasjóður sameinaðir í Orku­sjóð. Með þessari ráðstöfun var ætlunin að koma á fót öflugri og sveigjanlegri sjóði.
    Frumvarpið byggist að stóru leyti á ákvæðum núgildandi orkulaga en hefur að geyma nokkur nýmæli. Í fyrsta lagi gert ráð fyrir að Orkusjóður fjármagni yfirlits- og undirbúnings­rannsóknir á orkulindum landsins. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að ráðherra skipi tvo ráðsmenn en Alþingi kjósi þrjá ráðsmenn hlutfallskosningu eftir hverjar alþingiskosningar. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að orkumálastjóri gegni ekki stöðu framkvæmdastjóra Orkusjóðs en veiti orkuráði ráðgjöf eftir því sem um er beðið. Í fjórða lagi er gert ráð fyrir heimild orkuráðs til að semja við aðra aðila en Seðlabankann um umsjón og trygga vörslu á fé sjóðsins. Í fimmta lagi er gert ráð fyrir að tekjuafgangur af rekstri Rafmagnsveitna ríkisins renni ekki til sjóðs­ins. Í sjötta lagi er lagt til að ef ráðist er í orkuframkvæmdir, sem undirbúnar hafa verið með rannsóknum og áætlanagerð sem kostaðar hafa verið með fé ríkisins, þar með töldu fé Orku­sjóðs, skuli framkvæmdaraðili endurgreiða Orkusjóði þann kostnað við veitingu virkjunar- eða nýtingarleyfa. Gert er ráð fyrir að endurgreiðslu verði að fullu lokið eigi síðar en sjö árum eftir að leyfi hefur verið gefið út. Lagt er til að fé vegna slíkra endurgreiðslna skuli varið skv. 1. tölul. 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Hér er kveðið á um stöðu Orkusjóðs innan ríkisins. Skýrt er kveðið á um að ríkissjóður beri ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins. Þá er kveðið á um að yfirumsjón með sjóðnum sé í höndum iðnaðarráðherra. Sjóðurinn er ekki lánastofnun í skilningi laga nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði.

Um 2. gr.

    Greinin fjallar um hlutverk Orkusjóðs. Almennt hlutverk Orkusjóðs er að stuðla að hag­kvæmri nýtingu orkulinda Íslands. Þessu hlutverki er sjóðnum ætlað að mæta með fjármögn­un grunnrannsókna á sviði orkumála annars vegar og fjárhagslegum stuðningi við ýmsar framkvæmdir og verkefni hins vegar.
    Í 1. tölul. 2. mgr. er nýmæli. Þar er kveðið á um fjármögnun yfirlits- og undirbúningsrann­sókna á orkulindum landsins samkvæmt áætlun sem sjóðurinn gerir til fimm ára á grunni rannsóknaáætlana Orkustofnunar. Samkvæmt núgildandi skipulagi Orkustofnunar er það hlutverk orkumálasviðs stofnunarinnar að gera slíka áætlun. Gert er ráð fyrir að áætlun Orkusjóðs skuli endurskoða árlega og að hún skuli hljóta samþykki ráðherra. Í 6. gr. frum­varpsins er kveðið á um endurgreiðslu kostnaðar samkvæmt þessum lið og ráðstöfun endur­greiðslna.
    Að öðru leyti er greinin efnislega samhljóða 2. mgr. 74. gr. núgildandi orkulaga.

Um 3. gr.

    Í greininni er gert ráð fyrir að gerðar verði breytingar á skipan orkuráðs. Fram til þessa hefur orkuráð verið þingkjörið. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Alþingi kjósi þrjá ráðsmenn hlutfallskosningu eftir hverjar alþingiskosningar en ráðherra skipi tvo ráðsmenn. Ráð­herra skipar formann úr hópi ráðsmanna.
    Efnislega er 2. mgr. greinarinnar samhljóða 2. mgr. 72. gr. núgildandi orkulaga nr. 58/1967.
    Í 3. mgr. greinarinnar er gert ráð fyrir því nýmæli að orkumálasjóri skuli veita Orkuráði ráðgjöf eftir því sem um verður beðið. Samkvæmt núgildandi orkulögum er orkumálastjóri framkvæmdastjóri Orkusjóðs. Þar sem Orkustofnun kemur til með að þiggja fjárveitingar úr sjóðnum bæði vegna grunnrannsókna samkvæmt 1. tölul. 2. mgr. 2. gr. og getur einnig sótt um styrki og lán samkvæmt 2.–4. tölul. 2. mgr. 2. gr. er eðlilegast að orkumálastjóri gegni ekki jafnframt hlutverki framkvæmdastjóra sjóðsins. Orkuráð getur hins vegar kallað eftir ráðgjöf orkumálastjóra þegar um umsóknir annarra aðila en Orkustofnun er að ræða.

Um 4. gr.

    Efnislega eru 1., 2. og 4. mgr. greinarinnar samhljóða 1., 2. og 3. mgr. 73. gr. núgildandi orkulaga.
    Í 3. mgr. laganna er gert ráð fyrir því nýmæli að Orkuráði sé heimilt að semja við aðra aðila en Seðlabankann um umsjón og trygga vörslu á fé sjóðsins.

Um 5. gr.

    Í greininni er lagt til að fellt verði niður ákvæði um að rekstrarhagnaður af Rafmagnsveit­um ríkisins renni til Orkusjóðs. Að öðru leyti er greinin efnislega samhljóða núgildandi orku­lögum, með áorðnum breytingum, og þarfnast ekki skýringa.

Um 6. gr.

    Í greininni er gert ráð fyrir að ef ráðist er í orkuframkvæmdir, sem undirbúnar hafa verið með rannsóknum og áætlanagerð sem kostaðar hafa verið með fé ríkisins, þar með töldu fé Orkusjóðs, skuli framkvæmdaaðili endurgreiða sjóðnum þennan kostnað við veitingu virkj­unar- eða nýtingarleyfa. Gert er ráð fyrir að endurgreiðslu sé að fullu lokið eigi síðar en sjö árum eftir að leyfi hefur verið gefið út. Þá er enn fremur gert ráð fyrir að fé vegna slíkra end­urgreiðslna skuli varið skv. 1. tölul. 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins, sem kveður á um heimild Orkusjóðs til að fjármagna yfirlits- og undirbúningsrannsóknir á orkulindum landsins. Með þessu er komið á tengingu á flæði fjármagns frá framkvæmdum til rannsókna þannig að virkjanamöguleikar sem leyfi er veitt fyrir og þegar hafa verið rannsakaðir greiði kostnað við rannsóknir á framtíðarvirkjanamöguleikum. Þannig er stefnt að því að þessi liður í starfi sjóðsins verði sjálfbær. Í forsendum fjárlagafrumvarps fyrir árið 1999 er gert ráð fyrir fram­angreindum breytingum á lögum um Orkusjóð og er endurgreiddur kostnaður til sjóðsins vegna virkjanarannsókna áætlaður 50 millj. kr.

Um 7. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 3. mgr. 72. gr. og 2. mgr. 75. gr. núgildandi orkulaga.

Um 8. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 1. og 3. mgr. 75. gr. núgildandi orkulaga.

Um 9. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 77. gr. núgildandi orkulaga.

Um 10. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um Orkusjóð.

    Með frumvarpinu eru hlutverk og tekjur Orkusjóðs skilgreind. Þau atriði sem hafa áhrif á gjöld ríkissjóðs og breytast frá núgildandi lögum um Orkustofnun eru ákvæði 5. og 6. gr. frumvarpsins. Samkvæmt þeim er gert ráð fyrir að við leyfisveitingu endurgreiði fram­kvæmdaaðili Orkusjóði útlagðan kostnað við virkjunarrannsóknir og skal greiðslu að fullu lokið eigi síðar en sjö árum eftir að leyfi hefur verið gefið út. Með þessu er stefnt að því að virkjunar- og notkunarleyfi greiði kostnað við frekari könnun virkjanamöguleika. Í forsend­um fjárlagafrumvarps fyrir árið 1999 er gert ráð fyrir framangreindum breytingum á lögum um Orkusjóð og af innheimtum ríkistekjum er endurgreiddur kostnaður vegna virkjanarann­sókna áætlaður 50 m.kr. Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það hafi áhrif á afkomu ríkissjóðs.