Ferill 253. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 286  —  253. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 18/1959, um vöruhappdrætti fyrir Samband íslenskra berklasjúklinga.

Flm.: Guðmundur Hallvarðsson, Guðjón Guðmundsson,
Árni Mathiesen, Árni Ragnar Árnason,
Sigríður Anna Þórðardóttir.

1. gr.


    Á eftir 1. gr. laganna kemur ný grein sem verður 2. gr. og orðast svo:
    Heimilt skal Sambandi íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga að reka happdrætti með peningavinningum. Dómsmálaráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um slíkt happdrætti og hefur að öðru leyti eftirlit með starfsemi þess.

2. gr.


    2. gr. laganna, sem verður 3. gr., orðast svo:
    Vinningar í happdrættinu skulu undanþegnir hvers konar opinberum gjöldum, öðrum en eignarskatti, á því ári sem þeir falla.

3. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta felur í sér heimild fyrir Samband íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga til að reka happdrætti með peningavinningum. Gert er ráð fyrir að ágóða af slíku happdrætti verði varið eins og mælt er fyrir um í lögum nr. 18/1959. Ráðgert er að heimild til reksturs slíks happdrættis verði bundin sömu tímamörkum og mælt er fyrir í lögum nr. 18/1959, þ.e. til ársloka 1999, og mælt verði nánar fyrir um starfsemi happdrættisins í reglugerð sem dómsmálaráðherra setur.
    Verði þetta frumvarp að lögum er nauðsynlegt að breyta heiti laganna og verði heiti þeirra þá: Lög um happdrætti fyrir Samband íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga, SÍBS.
    Samkvæmt núgildandi lögum er Sambandi íslenskra berklasjúklinga einungis heimilt að reka vöruhappdrætti. Frá þeim tíma er heimild til reksturs slíks happdrættis var veitt hafa starfsskilyrði happdrætta breyst mikið og samkeppni aukist gríðarlega, einkum í kjölfar aukins framboðs happdrætta þar sem vinningar eru greiddir út í peningum. Samkeppnin hefur bitnað á happdrættum SÍBS og DAS sem einungis hafa haft heimild til að greiða andvirði vinninga út í vörum. Í nágrannalöndum okkar hefur orðið svipuð þróun og er nú svo komið að vöruhappdrætti í þeirri mynd sem þekkist hér á landi heyra sögunni til og af þeim sökum hefur íslenskum vöruhappdrættum verið ómögulegt að tengjast erlendum happdrættum.
    Við þessar aðstæður hafa vöruhappdrætti á borð við happdrætti Sambands íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga, SÍBS, og Dvalarheimilis aldraðra sjómanna, DAS, átt undir högg að sækja þar sem enginn áhugi er lengur fyrir því að fá andvirði vinnings greitt út í varningi og þátttakendur leita til peningahappdrættanna á kostnað fyrrgreindra vöruhappdrætta.
    Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 6/1926, um happdrætti (lotterí) og hlutaveltur (tombólur), er óheimilt án lagaheimildar að setja á stofn „peningahappdrætti eða önnur því lík happspil“. Lagasetning í fyrrgreindu skyni er því nauðsynleg.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.     


Um 1. gr.


    Grein þessi felur í sér heimild fyrir Samband íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga til reksturs happdrættis með peningavinningum. Gert er ráð fyrir að mælt verði nánar fyrir um starfsemi slíks happdrættis í reglugerð og þar með hvernig það yrði rekið. Ekki er unnt að veita leyfi til starfrækslu happdrættis af þessi tagi nema lagaheimild komi til.

Um 2. og 3. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.