Ferill 279. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 319  —  279. mál.
Frumvarp til lagaum breytingar á lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald, lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, og lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)

I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald, með síðari breytingum.
1. gr.

    2. gr. laganna orðast svo:
    Bifreiðagjald á hverju gjaldtímabili er 6,00 kr. fyrir hvert kg af eigin þyngd bifreiðar allt að 1.000 kg, 8,10 kr. fyrir hvert kg af eigin þyngd bifreiðar umfram það að 3.000 kg, en 2.000 kr. af hverju byrjuðu tonni af eigin þyngd bifreiðar umfram það. Þó skal gjaldið ekki vera lægra en 3.000 kr. og ekki hærra en 36.200 kr. á hverju gjaldtímabili.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 3/1987,
um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum.
2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á A-lið 4. gr. laganna:
     a.      Í stað fjárhæðanna „132.053 kr.“ og „7.555 kr.“ í 2. mgr. kemur: 136.675 kr., og: 7.819 kr.
     b.      3. málsl. 4. mgr. orðast svo: Skráning ökutækis samkvæmt þessari málsgrein tekur gildi um leið og heimild hefur verið veitt og gildir í a.m.k. tólf mánuði.

3. gr.

    2. mgr. B-liðar 4. gr. laganna orðast svo:
    Kílómetragjald skv. 1. mgr. þessa stafliðar skal vera sem hér segir:

Leyfð heildarþyngd
ökutækis, kg
Kílómetragjald,
kr.
Leyfð heildarþyngd
ökutækis, kg
Kílómetragjald,
kr.
4.000–4.999 6,97 18.000–18.999 13,40
5.000–5.999 7,41 19.000–19.999 14,43
6.000–6.999 8,01 20.000–20.999 15,20
7.000–7.999 8,42 21.000–21.999 16,08
8.000–8.999 8,78 22.000–22.999 17,09
9.000–9.999 9,17 23.000–23.999 17,90
10.000–10.999 9,73 24.000–24.999 18,71
11.000–11.999 10,10 25.000–25.999 19,63
12.000–12.999 11,38 26.000–26.999 20,50
13.000–13.999 12,44 27.000–27.999 21,41
14.000–14.999 10,14 28.000–28.999 22,32
15.000–15.999 10,92 29.000–29.999 23,23
16.000–16.999 11,79 30.000–30.999 24,14
17.000–17.999 12,64 31.000 og yfir 25,05

4. gr.

    C-liður 4. gr. laganna orðast svo:
    Af bifreiðum, sem skrásettar eru erlendis og nota annan orkugjafa en bensín, og af eftir­vögnum, sem eru 6.000 kg eða meira að leyfðri heildarþyngd, skal greiða þungaskatt skv. 2. mgr. Af bifreiðum, sem eru allt að 4.000 kg að leyfðri heildarþyngd, og nýttar eru í at­vinnuskyni, sbr. 2. mgr. 4. gr. A, skal vikugjaldið vera 25% hærra. Af bifreiðum, sem að leyfðri heildarþyngd eru 4.000 kg eða meira, og af eftirvögnum, sem að leyfðri heildarþyngd eru 6.000 kg eða meira, og nýtt eru í atvinnuskyni, skal ákvörðun þungaskatts fara eftir ákvæðum B-liðar 4. gr.
    Af ökutækjum skráðum erlendis skal greiða þungaskatt fyrir hverja byrjaða viku sem öku­tækið er hér á landi sem hér segir:

Eigin þyngd
ökutækis, kg
Þungaskattur
fyrir hverja
byrjaða viku, kr.
Eigin þyngd
ökutækis, kg
Þungaskattur
fyrir hverja
byrjaða viku, kr.
Allt að 1.000 1.813 2.800–2.999 3.380
1.000–1.499 2.176 3.000–3.199 3.531
1.500–1.999 2.628 3.200–3.399 3.681
2.000–2.199 2.779 3.400–3.599 3.831
2.200–2.399 2.929 3.600–3.799 3.982
2.400–2.599 3.079 3.800–3.999 4.132
2.600–2.799 3.230

    Sé eigin þyngd ökutækis meiri en 4.000 kg skal þungaskattur fyrir hverja byrjaða viku hækka um 1.000 kr. fyrir hver byrjuð 1.000 kg sem eigin þyngd er umfram 4.000 kg. Við ákvörðun þungaskatts samkvæmt þessari málsgrein reiknast brot úr viku sem heil vika.

5. gr.

    Í stað orðanna „lögreglustjóra í skráningarumdæmi hennar til geymslu í a.m.k. 30 daga samfellt“ í 3. mgr. A-liðs 7. gr. laganna kemur: Skráningarstofunni hf. til geymslu í a.m.k. 15 daga samfellt.

6. gr.

    Í stað orðanna „30 daga“ í 3. mgr. B-liðs 7. gr. laganna kemur: 15 daga.

7. gr.

    2. mgr. 17. gr. laganna orðast svo:
    Endurákvörðun skv. 12., 14. og 15. gr. og úrskurði ríkisskattstjóra skv. 1. mgr. má skjóta til yfirskattanefndar samkvæmt ákvæðum laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

8. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:
    Gjaldskrár þungaskatts skv. A- og C-lið 4. gr. hækka um 2% 1. júlí 1999. Hækkunin nær þó ekki til ökutækja sem eru 0–1.499 kg.
    Gjaldskrá þungaskatts skv. B-lið 4. gr. hækkar um 2% 11. júní 1999, að undanskildu föstu árgjaldi samkvæmt lokamálslið 1. mgr. B-liðar 4. gr. Hækkun gjaldsins fyrir hvern ekinn kílómetra tekur gildi strax að loknu öðru álestrartímabili sem er frá 20. maí til 10. júní 1999, sbr. 2. mgr. B-liðar 7. gr. Sé ekki komið með ökutæki til álestrar á réttum tíma skal reikna út meðaltal ekinna kílómetra á dag á tímabilinu milli álestra. Af meðaltalsakstri sem sam­kvæmt þessu hefur átt sér stað eftir lok annars álestrartímabils skal innheimta hið hækkaða gjald.

III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum.
9. gr.

    2. og 3. mgr. 5. gr. laganna orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. skal vörugjald af eftirfarandi ökutækjum vera sem hér greinir:
     1.      Eftirtalin ökutæki skulu undanþegin vörugjaldi:
       a.      Dráttarbifreiðar að heildarþyngd 4 tonn eða meira sem gerðar eru til nota utan þjóðvega.
       b.      Snjóplógar.
       c.      Slökkvibifreiðar í eigu ríkis, sveitarfélaga eða stofnana á þeirra vegum.
       d.      Sjúkrabifreiðar í eigu ríkis, sveitarfélaga eða stofnana á þeirra vegum.
       e.      Sjálfhlaðandi eða sjálflosandi tengivagnar og festivagnar til landbúnaðarnota.
       f.      Bifreiðar í eigu ríkis, sveitarfélaga eða stofnana á þeirra vegum, sérstaklega búnar til flutnings á fötluðum, þ.m.t. búnar hjólastólalyftu og samþykktar af Tryggingastofnun ríkisins.
       g.      Dráttarvélar til nota á lögbýlum.
       h.      Beltabifreiðar (snjóbílar), yfir 700 kg að eigin þyngd, sérstaklega ætlaðar til aksturs í snjó.
       i.      Haffær ökutæki á hjólum fyrir láð og lög.
       j.      Ökutæki sem knúin eru rafhreyfli og flutt eru inn eða smíðuð í tilraunaskyni.
     2.      Greiða skal 10% vörugjald af hópferðabifreiðum sem eru skráðar fyrir 10–17 manns að meðtöldum ökumanni og eru í eigu hópferða- eða sérleyfishafa eða í fjármögnunarleigu vegna fjármögnunarleigusamnings við hópferða- eða sérleyfishafa. Gjaldið skal lækka í 5% frá 1. janúar 2000.
     3.      Af eftirtöldum ökutækjum skal greiða 30% vörugjald:
       a.      Ökutæki á beltum undir 700 kg sem eru sérstaklega ætluð til flutninga í snjó, á svæðum þar sem aðrar samgöngur eru erfiðleikum bundnar verulegan hluta árs.
       b.      Bifreiðar fatlaðra sem eru sérstaklega búnar til flutnings á þeim, þ.m.t. búnar hjólastólalyftu og samþykktar af Tryggingastofnun ríkisins.
       c.      Bifreiðar sem sérstaklega eru útbúnar og notaðar til líkflutninga.
       d.      Fólksbifreiðar sem falla í gjaldflokk II skv. 3. gr. og ætlaðar eru til útleigu hjá aðilum sem hafa tilskilin leyfi til reksturs bifreiðaleigu.
     4.      Vörugjald af leigubifreiðum til fólksflutninga skal lagt á samkvæmt eftirfarandi töflu miðað við sprengirými aflvélar mælt í rúmsentímetrum:

Sprengirými aflvélar
Flokkur Bensínvélar Dísilvélar Gjald í %
I 0–1.600 0–2.100 14
II 1.601–2.500 2.101–3.000 16
III yfir 2.500 yfir 3.000 21

        Skilyrði lækkunar vörugjalds af leigubifreið eru að kaupandi hennar hafi atvinnuleyfi til aksturs fólksbifreiða til leiguaksturs og hafi akstur hennar að aðalatvinnu.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari skilyrði um þau ökutæki sem falla undir 2. mgr., svo sem um notkun ökutækis, búnað þess, reglur um hvað teljist vera fullt starf í skilningi 4. tölul. greinarinnar og ákvæði um endurgreiðslu á mismuni vörugjalds skv. 3. gr. annars vegar og 2. mgr. hins vegar ef skilyrðunum er ekki fylgt.

10. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1999.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í I. kafla frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald. Bifreiðagjald tekur mið af eigin þyngd bifreiða. Það er nú 5,86 kr. fyrir hvert kg af eigin þyngd bifreiðar að 1.000 kg, 9,66 kr. fyrir hvert kg umfram það allt að 3.000 kg og 2.000 kr. af hverju byrjuðu tonni bifreiðar umfram 3.000 kg. Lágmarksgjald er 2.993 kr.
    Gjaldi fyrir hvert kíló bifreiðar undir 3.000 kg og lágmarksgjaldi var síðast breytt með lögum nr. 138/1995. Þá var framfærsluvísitala 174,3 stig en var 182,6 stig í september 1998 (hækkun 4,76%). Framreiknað er gjaldið 6,14 kr. fyrir hvert kg af eigin þyngd bifreiðar að 1.000 kg og 10,22 kr. fyrir hvert kg af eigin þyngd bifreiðar umfram það. Lágmarksgjald er framreiknað 3.135 kr.
    Með breytingunum er lagt til að lágmarksgjald verði hækkað upp að næsta heila þúsundi en það er innan við 1% hækkun. Lægra gjaldið, 5,86 kr., hækkar í 6,00 kr. eða um 2,39%. Hærra gjaldið lækkar úr 9,66 kr. í 8,10 kr. eða um 16,15%. Áfram er gert ráð fyrir að greiddar verði 2.000 kr. fyrir hvert byrjað tonn bifreiðar umfram 3.000 kg.
    Með lögum nr. 83/1998 var ákvæði um hámarksfjárhæð bifreiðagjalds afnumið en það var 26.750 kr. Það hafði í för með sér umtalsverða hækkun á bifreiðagjaldi af þyngstu öku­tækjunum. Lagt er til að sett verði inn hámark að nýju sem verði 36.200 kr.
    Samkvæmt gildandi lögum greiðir eigandi bifreiðar sem er yfir 1.000 kg 3,80 kr. meira fyrir hvert kíló sem er yfir 1.000 kg, að 3.000 kg. Lagt er til að úr þessum mun verði dregið þannig að hann verði 1,10 kr.
    Eftirfarandi tafla sýnir bifreiðagjald fyrir eitt tímabil (6 mánuði).

Þyngd,
kg
Gildandi lög,
kr.
Frumvarp,
kr.
Breyting í kr. Breyting í %
800 4.688 4.800 112 2,39
1.050 6.343 6.405 62 0,98
1.300 8.758 8.430 - 328 - 3,75
1.500 10.690 10.050 - 640 - 5,99
2.000 15.520 14.100 - 1420 - 9,15
2.500 20.350 18.150 - 2.200 - 10,81
3.000 26.214 24.200 - 2.014 - 7,68
5.000 30.214 28.200 - 2.014 - 6,67
7.000 34.214 32.200 - 2.014 - 5,89
10.000 40.214 36.200 - 4.014 - 9,98
15.000 50.214 36.200 - 14.014 - 27,91
20.000 60.214 36.200 - 24.014 - 39,88

    Gert er ráð fyrir að bifreiðagjöld á árinu 1999 verði að óbreyttum lögum 2.362 millj. kr. Samkvæmt frumvarpinu má reikna með að tekjurnar lækki í 2.271 millj. kr. á ársgrundvelli eða um 91 millj. kr. Gera má ráð fyrir að skráðum bifreiðum eigi eftir að halda áfram að fjölga á næsta ári þannig að áhrif lækkunarinnar verði minni.
    Í II. kafla frumvarpsins eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum. Helst má nefna hækkun á gjaldskrá þungaskatts með tilliti til forsendna í vegáætlun fyrir árin 1998–2002, sem samþykkt var á Alþingi sl. vor, sbr. auglýsingu nr. 101 frá 23. júní 1998. Jafnframt er lögð til sú breyting að þungaskattur af er­lendum skráðum ökutækjum verði lækkaður til samræmis við þungaskatt af innlendum skráð­um ökutækjum, ásamt því að ákvæðinu verði breytt til að jafna frekar samkeppnisstöðu inn­lendra og erlendra aðila sem nýta þungaskattsskyld ökutæki í rekstri. Lagt er til að lágmarks­tími sem gefur rétt til lækkunar eða endurgreiðslu á föstu gjaldi þungaskatts verði styttur úr þrjátíu dögum samfellt í fimmtán daga samfellt. Að auki eru lagðar til smávægilegar breyt­ingar aðrar.
    Í vegáætluninni er gert ráð fyrir að markaðir tekjustofnar Vegagerðarinnar, bensíngjald og þungaskattur, verði hækkaðir um 3,5% 1. júní 1998 og í samræmi við verðlag eftir það, auk 2% hækkunar 1. júní 1999. Árið 1998 verða ekki gerðar breytingar á gjaldskrám þunga­skatts þrátt fyrir samþykkta vegáætlun. Þó er gert ráð fyrir að tekjur af þungaskatti ársins 1998 verði eins og áætlað var í vegáætlun. Breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru til að mæta hækkunum í vegáætlun svo að markaðir tekjustofnar Vegagerðarinnar árið 1999 verði ekki skertir. Þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir að markaðir tekjustofnar verði hækk­aðir um 3,5% frá miðju ári 1998 og í samræmi við verðlag eftir það, auk 2% hækkunar til viðbótar um mitt ár 1999 er lagt til í frumvarpinu að gjaldskrár hækki aðeins um 3,5% fyrri hluta ársins 1999, og um 2% seinni hluta ársins án þess að heimildir til hækkana miðað við verðlagsþróun verði nýttar. Ekki er talin ástæða til frekari hækkana vegna breytinga á verð­lagsþróun á tímabilinu þar sem gert er ráð fyrir að tekjur af þungaskatti verði í samræmi við áætlaðar tekjur í vegáætlun. Spá um verðlagsþróun á þessu tímabili miðað við byggingarvísi­tölu er um 1,8%.
    Lagt er til að gjaldskrár fasts gjalds þungaskatts og kílómetragjalds hækki 1. janúar 1999 um 3,5%. Hækkunin kæmi til framkvæmda á fyrra gjaldtímabili fasts gjalds þungaskatts fyrir árið 1999, sem er frá 1. janúar til 30. júní, en á annað gjaldtímabil kílómetragjaldsins, sem er frá 11. febrúar til 10. júní, þar sem fyrsta gjaldtímabilið hefst 11. október 1998 og stendur til 10. febrúar 1999. Þar sem vegáætlun gerir svo aftur ráð fyrir 2% hækkun er lagt til að gjaldskrár þungaskatts hækki á ný um mitt ár 1999. Ekki er lagt til að 100.000 kr. fast ár­gjald sem lagt er á ökutæki sem eru 14.000 kg og þyngri og fast gjald sem lagt er á ökutæki sem eru 0–1.499 kg hækki á sama hátt og kílómetragjaldið og fasta gjaldið almennt.
    Með lögum nr. 83/1998 var gerð sú breyting á lögum nr. 3/1987 að felldar voru niður af­sláttarreglur og gjaldskrá kílómetragjaldsins lækkuð um 5% af ökutækjum sem eru 4.000–13.999 kg og um 30% af ökutækjum sem eru 14.000 kg og þyngri. Jafnframt var gerð sú breyting að auk kílómetragjalds samkvæmt ökumæli þarf að greiða 100.000 kr. fast árgjald af ökutækjum sem eru 14.000 kg og þyngri. Í þessum breytingum var ekki tekið tillit til for­sendna um hækkun á mörkuðum tekjustofnum sem fram koma í vegáætlun. Í vegáætluninni og frumvarpi til fjárlaga er gert ráð fyrir að tekjur af þungaskatti fyrir árið 1999 verði um 3,5 milljarðar kr. Til að ná þeim markmiðum er nauðsynlegt að hækka gjaldskrá þungaskatts til samræmis við forsendur vegáætlunar. Miðað við forsendur hennar um hækkun á mörkuð­um tekjustofnum, auk 1,6% aukins aksturs og 4% fjölgunar bifreiða, 0–4000 kg, á föstu gjaldi er gert ráð fyrir að þungaskattstekjur fyrir árið 1999 verði um 3,5 milljarðar kr.
    Í 2. og 3. gr. frumvarpsins eru settar fram nýjar gjaldskrár að teknu tilliti til 3,5% hækk­unar samanborið við gjaldskrána eins og hún var samþykkt með lögum nr. 83/1998, að und­anskilinni hækkun á 100.000 kr. föstu árgjaldi sem lagt er á ökutæki sem eru 14.000 kg og þyngri. Um áramótin er einnig undanskilin hækkun á ökutæki á föstu gjaldi sem eru 0–1.499 kg. Í 8. gr. frumvarpsins, nýtt ákvæði til bráðabirgða, er svo gert ráð fyrir að gjaldskrár þungaskatts hækki um 2% 11. júní vegna kílómetragjalds og 1. júlí 1999 vegna fasts gjalds, að undanskilinni hækkun á 100.000 kr. föstu árgjaldi af stærri ökutækjunum og föstu gjaldi ökutækja sem eru 0–1.499 kg.
    Í kjölfar breytinganna með lögum nr. 83/1998 um álagningu 100.000 kr. fasts árgjalds hafa komið fram athugasemdir frá ýmsum hagsmunaaðilum þar sem þessari gjaldtöku er mót­mælt, enda komi hún illa niður á þeim sem aka lítið og þeim sem eiga marga eftirvagna. Vegna þessara athugasemda og ákvæðis til bráðabirgða með lögum nr. 83/1998 þar sem segir að fjármálaráðherra skuli fyrir 1. desember 1998 skila skýrslu um samkeppnishæfi fólksbíla með dísilhreyfil, framkvæmd á gjaldtöku samfara skráningu og afskráningu öku­tækja og hvaða áhrif lagabreytingin hefur á rekstrarstöðu landflutninga verður fyrrnefnd lagabreyting tekin til endurskoðunar. Ef niðurstaða hennar verður sú að þörf sé á úrbótum munu verða lagðar fram tillögur þess efnis. Hins vegar er nauðsynlegt að leggja fram þetta frumvarp svo að tryggja megi að þær tekjur af þungaskatti, sem búið er að samþykkja í veg­áætlun fyrir árin 1998–2002, skili sér.
    Í III. kafla frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum.
    Í núgildandi lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. er ráðherra heimilað að lækka vörugjald af nokkrum flokkum ökutækja, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Lækkunin hefur verið ákveðin í reglugerð. Lagt er til að í stað þess að kveða á um lækkun í reglugerð verði ákveðið í lögunum hver hlutfallstala vörugjaldsins er á ökutækjum. Er þetta gert til að tryggja að reglurnar samrýmist ákvæðum 77. gr. stjórnarskrárinnar. Hér er því ekki um efnisbreytingu að ræða. Vörugjaldi af öðrum ökutækjum en leigubifreiðum til fólksflutninga er því óbreytt.
    Síðastliðin ár hefur þróun vörugjalds verið á þann veg að álögur á atvinnutæki hafa minnkað. Með lögum nr. 83/1998 var lágmarksvörugjald af hópferðabifreiðum lækkað úr 30 í 10%. Með hópferðabifreiðum er átt við ökutæki sem aðallega eru ætluð til fólksflutn­inga og skráðar eru fyrir 10–17 farþega að meðtöldum ökumanni. Í sömu lögum var vöru­gjald af leigubifreiðum lækkað og er nú 25%. Með frumvarpi þessu er lagt til að munur á vörugjaldi af hópferðabifreiðum og leigubifreiðum verði minnkaður.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Um skýringar við greinina vísast til almennra athugasemda.

Um 2. gr.

    Í a-lið er lögð til hækkun á gjaldskrá fasts gjalds þungaskatts með tilliti til forsendna í vegáætlun 1998–2002. Að öðru leyti vísast til almennra athugasemda.
    Í b-lið er um að ræða lagfæringu á ákvæðinu. Ef eigandi ökutækis óskar eftir að greiða kílómetragjald samkvæmt ökumæli í stað fasts gjalds þungaskatts er hann bundinn af þeirri tilhögun í a.m.k. eitt ár. Aftur á móti er ákvæðið útfært þannig að ákvörðun eiganda taki ekki gildi fyrr en á næsta gjaldtímabili þar á eftir, sem er mjög flókið í framkvæmd. Því er lögð til sú breyting að upphaf tólf mánaða tímabilsins taki mið af þeim degi sem ákvörðun um að breyta gjaldskyldu er tekin. Er sú tilhögun til hagsbóta fyrir eigendur ökutækjanna og skatt­yfirvöld.

Um 3. gr.

    Á sama hátt og í 2. gr. er lögð til hækkun á gjaldskrá kílómetragjalds þungaskatts með til­liti til forsendna í vegáætlun 1998–2002. Að öðru leyti vísast til almennra athugasemda.

Um 4. gr.

    Í C-lið 4. gr. kemur fram að af ökutækjum skráðum erlendis skuli greiða þungaskatt í formi vikugjalds, sem tekur mið af eigin þyngd. Vikugjald skal greitt ef ekki er ætlunin að ökutækið verði hér á landi lengur en fjóra mánuði í senn. Ef ætlaður tími er lengri en fjórir mánuðir skal þungaskattur greiddur skv. A- eða B-lið 4. gr. eftir því sem við getur átt. Ef tekið er mið af föstu gjaldi þungaskatts skv. A-lið 4. gr. er vikugjaldið skv. C-lið að meðal­tali 66% hærra. Aftur á móti er kílómetragjaldið það sama.
    Lögð er til sú breyting á C-lið 4. gr. að þungaskattur af erlendum skráðum ökutækjum verði sambærilegur skatti af innlendum skráðum ökutækjum. Lagt er til að vikugjaldið verði jafnhátt föstu gjaldi af innlendum skráðum ökutækjum og það hækki um 25%, ef um er að ræða leigubifreið sem ekið er gegn gjaldi samkvæmt löggiltum gjaldmæli eða sendi- og hóp­bifreiðar sem nýttar eru í atvinnuskyni. Jafnframt er lagt til að af bifreiðum sem eru 4.000 kg og þyngri og af eftirvögnum sem eru 6.000 kg og þyngri og nýtt eru í atvinnuskyni skuli þungaskattur greiddur í formi kílómetragjalds, sbr. B-lið 4. gr. Með þessari breytingu er verið að samræma gjaldtöku af dísilknúnum bifreiðum og eftirvögnum, hvort sem þau eru skráð innan lands eða utan. Með því móti er reynt að koma í veg fyrir röskun á samkeppni milli innlendra og erlendra aðila sem nota þungaskattsskyld ökutæki í rekstri sínum og koma í veg fyrir mismunandi gjaldtöku eftir þjóðerni. Ætla má að lækkun á vikugjaldi ökutækja skráðum erlendis hafi ekki áhrif á tekjur af þungaskatti í heild sinni.
    Skylda til að greiða þungaskatt af bifreiðum sem eru stærri en 4.000 kg að leyfðri heildar­þyngd og af eftirvögnum stærri en 6.000 kg að leyfðri heildarþyngd ætti ekki að gera erlendum aðilum erfitt fyrir út frá sjónarmiðum um ökumælisskyldu. Samkvæmt reglugerð nr. 136/1995, um aksturs- og hvíldartíma ökumanna o.fl. í innanlandsflutningum og við flutn­ing innan Evrópska efnahagssvæðisins, er skylt að útbúa flest ökutæki, sem eru stærri en 3.500 kg og nýtt eru í atvinnuskyni, ökurita, til eftirlits með aksturs- og hvíldartíma öku­manna. Gildir sú regla á Evrópska efnahagssvæðinu. Í 6. mgr. B-liðar 4. gr. kemur fram að ökuriti skuli notaður sem þungaskattsmælir ef skylt er að búa ökutæki ökurita. Með því móti eru aðilar á Evrópska efnahagssvæðinu jafnt í sveit settir hvað ökumælisskyldu varðar. Ef ökutæki er undanþegið ökuritaskyldu skulu notaðir annars konar ökumælar. Verður þá að gera þá kröfu til innlendra jafnt sem erlendra aðila að ökutækið sé útbúið viðhlítandi öku­mælisbúnaði, sem settur er í á kostnað þeirra, sbr. 5. mgr. B-liðar 4. gr.

Um 5. og 6. gr.

    Í 5. og 6. gr. frumvarpsins er lagt til að lágmarkstími sem gefur rétt til lækkunar eða end­urgreiðslu á föstu gjaldi þungaskatts verði styttur úr þrjátíu dögum í fimmtán daga. Breyting­in tekur til bifreiða á föstu gjaldi, sem eru 0–4.000 kg, og til ökutækja (bifreiða og eftir­vagna), sem eru 14.000 kg og stærri, og greitt er af 100.000 kr. fast árgjald. Skilyrði til lækkunar eða endurgreiðslu samkvæmt núgildandi lögum er að skráningarmerki ökutækja séu lögð inn til geymslu hjá Skráningarstofunni hf. í a.m.k. 30 daga samfellt eða að ökutæki séu flutt tímabundið úr landi í jafnlangan tíma. Gert er ráð fyrir í frumvarpinu að þessi tími verði styttur í a.m.k. fimmtán daga. Yrði þá heimilt að lækka eða endurgreiða þungaskatt sem nemur skatti í fimmtán daga og hlutfallslega eftir það, ef skráningarmerki eru lögð inn til geymslu í fimmtán daga samfellt eða ökutæki er erlendis í jafnlangan tíma. Breytingin hefur í för með sér rýmri rétt til lækkunar eða endurgreiðslu fasts gjalds þungaskatts og kemur til móts við gjaldendur, þ.e. ekki þurfi að greiða þungaskatt af ökutækjum sem standa mikið ónotuð. Ekki þykir ráðlegt að stytta tímann frekar þar sem gera má ráð fyrir að fjölgun númerainnlagna verði það mikil að ekki sé mögulegt að hafa eftirlit með því auk þess sem kostnaður af slíku fyrirkomulagi yrði mikill. Þá hefur rýmri réttur ófyrirsjáanleg áhrif á tekjur ríkissjóðs.
    Ef tekið er mið af 100.000 kr. föstu árgjaldi af ökutæki sem er 14.000 kg og stærra er gjald fyrir hverja viku 1.923 kr. Gjald í tvær vikur eru því 3.846 kr. Innlögn skráningar­merkja í a.m.k. fimmtán daga samfellt eða tímabundinn útflutningur í jafnlangan tíma gefur gjaldendum því rétt til lækkunar eða endurgreiðslu sem nemur 3.846 kr. og svo hlutfallslega eftir það. Af bifreiðum á föstu gjaldi sem eru 0–4.000 kg að eigin þyngd er u.þ.b. 60% þeirra í stærðarflokknum 1.500–1.999 kg að eigin þyngd. Fast gjald fyrir hvern mánuð af ökutæki sem er 1.500–1.999 kg er 11.004 kr. og gjald fyrir hverja viku því 2.751 kr. Innlögn skrán­ingarmerkja í a.m.k. fimmtán daga samfellt eða tímabundinn útflutningur í jafnlangan tíma gefur gjaldendum því rétt til lækkunar eða endurgreiðslu sem nemur 5.502 kr. og svo hlut­fallslega eftir það.


Um 7. gr.

    Hér er lagt til að kærufrestur verði lengdur úr þrjátíu dögum í þrjá mánuði til samræmis við breytingar sem gerðar voru á 5. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. lög nr. 96/1998.

Um 8. gr.

    Eins og fram kemur í almennum athugasemdum eru lagðar til hækkanir á gjaldskrá þunga­skatts með tilliti til hækkunar á mörkuðum tekjustofnum Vegagerðarinnar í vegáætlun sem samþykkt var á Alþingi í vor. Í vegáætluninni var samþykkt hækkun sem koma átti til fram­kvæmda frá og með 1. júní 1998, um 3,5% auk verðlagshækkana eftir það. Jafnframt var gert ráð fyrir 2% hækkun frá og með 1. júní 1999. Í 6. gr. frumvarpsins er lagt til að 2% hækk­unin komi til framkvæmda um mitt ár 1999. Þar sem gjaldtímabil fasts gjalds þungaskatts ökutækja 0–4.000 kg og gjaldtímabil kílómetragjalds eru ekki þau sömu er gert ráð fyrir að hækkanirnar komi til framkvæmda miðað við gjaldtímabilin. Þar sem annað gjaldtímabil kílómetragjalds hefst 11. júní tekur hækkunin mið af þeim tíma, en frá 1. júlí 1999 vegna annars gjaldtímabils fasts gjalds ökutækja 0–4.000 kg, sem er frá 1. júlí til 31. desember. Lagt er til að hækkunin um mitt ár 1999 nái ekki til 100.000 kr. fasts árgjalds stærri ökutækj­anna og fasts gjalds ökutækja sem eru 0–1.499 kg að eigin þyngd.

Um 9. gr.

    Í 1., 2. og 3. tölul. greinarinnar er lagt til að lögfest verði hlutfallstala vörugjalds af til­teknum ökutækjum. Þessi hlutfallstala er nú ákvörðuð í reglugerð nr. 254/1993, um vöru­gjald af ökutækjum, með stoð í 2. mgr. 5. gr. laganna. Eins og fram kemur í almennum athugasemdum er hér einkum verið að tryggja að reglurnar samrýmist skattlagningarheimild­um stjórnarskrárinnar.
    Í 4. tölul. er lögð til nokkur lækkun á vörugjaldi af leigubifreiðum til fólksflutninga.
    Í almennum athugasemdum kemur fram að vörugjald af hópferðabifreiðum er nú 10%. Einnig kemur fram að með þessu frumvarpi sé minnkaður sá munur sem nú er á vörugjaldi af hópferðabifreiðum og leigubifreiðum. Þó er lagt til að vörugjald af leigubifreiðum verði nokkuð hærra þar sem þeir eru almennt frekar fallnir til einkanota en hópferðabifreiðar.
    Vörugjald af leigubifreiðum til fólksflutninga er reiknað þannig að það er lækkað um 4/ 5hluta þess sem það er umfram 10%. Fyrir gildistöku laga nr. 83/1998 var vörugjald af leigubifreiðum reiknað á þennan hátt nema þá var miðað við 30%, í stað 10% nú, þar sem lágmarksvörugjald af hópferðabifreiðum var þá 30%.
    Með breytingum á 3. mgr. 5. gr. er einungis skotið styrkari stoðum undir heimild ráðherra til að setja reglugerð um skilyrði til lækkunar bifreiðagjalda. Hér er því ekki um efnisbreyt­ingu að ræða.

Um 10. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.
Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald, lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, og lögum nr. 29/1993,
um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum.

    Frumvarp þetta snýr að breytingum á lögum um tekjur ríkissjóðs af gjöldum af bifreiðum og er ekki gert ráð fyrir að það hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.