Ferill 297. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 354  —  297. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um fullgildingu samnings milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um Nor­ræna fjárfestingarbankann.

(Lögð fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)

    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd samning milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um Norræna fjárfestingarbankann sem gerður var í Ósló 23. október 1998.


Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til þess að fullgilda samn­ing milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um Norræna fjárfestingar­bankann sem gerður var í Ósló 23. október 1998. Samningurinn er prentaður sem fylgiskjal með tillögu þessari.

1. Inngangur.
    Norræni fjárfestingarbankinn (NIB) var stofnaður árið 1975 sem sameiginleg alþjóðleg fjármálastofnun Norðurlanda til að styrkja norræna samvinnu og efnahag landanna með því að veita lán og ábyrgðir með bankakjörum til að örva fjárfestingar á Norðurlöndum og efla útflutning. Til grundvallar lá samningur milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Sví­þjóðar um stofnun Norræna fjárfestingarbankans sem gerður var í Kaupmannahöfn 4. desem­ber 1975. Samningurinn öðlaðist gildi 1. júní 1976, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 12/1976, og fengu ákvæði hans þá jafnframt lagagildi hér á landi, sbr. 2. gr. laga nr. 26/1976 um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að fullgilda samninginn.
    Með aukinni alþjóðavæðingu atvinnulífs á Norðurlöndum og stuðningi eigenda hans hefur starfsemi bankans orðið alþjóðlegri. Lán og ábyrgðir eru nú ekki aðeins veittar til verkefna á Norðurlöndum heldur og utan þeirra. Þannig er hlutverk bankans nú að nýta traust lánshæfi á alþjóðamarkaði til að veita lán á almennum bankakjörum til fjárfestingarverkefna einka­aðila og opinberra aðila, bæði í þágu Norðurlanda og þeirra ríkja utan Norðurlanda sem fá lán eða ábyrgðir frá bankanum. Í ljósi aukinnar alþjóðlegrar starfsemi bankans og þeirrar auknu áhættu sem því fylgir hefur verið talið mikilvægt að treysta með formlegum hætti al­þjóðlega stöðu bankans.

2. Nýr samningur.
    Nýr samningur um Norræna fjárfestingarbankann, sem hefur þetta meginmarkmið að leiðarljósi og leysa á eldri samninginn af hólmi, var undirritaður í Ósló 23. október 1998 af fulltrúum stjórnvalda allra norrænu ríkjanna með fyrirvara um fullgildingu. Samningurinn verður lagður fyrir þjóðþing allra ríkjanna og er stefnt að því að hann öðlist gildi í upphafi ársins 1999. Þegar samningurinn hefur öðlast gildi verða samþykktir bankans endurskoðaðar og lagðar fyrir norrænu ráðherranefndina til samþykktar.
    Samkvæmt 1. gr. laga nr. 98/1992, um friðhelgi og forréttindi alþjóðastofnana, njóta þær og tilgreindir aðilar þeim tengdir þeirrar friðhelgi og þeirra forréttinda hér á landi sem kveð­ið er á um í alþjóðasamningum sem öðlast hafa stjórnskipulegt gildi að því er Ísland varðar. Í ljósi þessa er ekki þörf á að lögfesta hinn nýja samning eins og gert var með áðurnefndum lögum nr. 26/1976 að því er eldri samninginn varðar. Síðarnefndi samningurinn fellur úr gildi við gildistöku nýja samningsins og þarf þá að fella lög nr. 26/1976 úr gildi.
    Samning þennan má rekja til ákvörðunar á fundi fjármála- og efnahagsráðherra Norður­landa í Helsinki 10. nóvember 1997 um að styrkja alþjóðlega stöðu bankans, einkum með því að skilgreina með skýrari hætti en áður samskipti bankans og gistilandsins, Finnlands, á sviði skatta-, lífeyris- og starfsmannamála.
    Ákveðið var á fundinum:
     a.      Að núgildandi reglur um beina skatta starfsmanna bankans verði óbreyttar gegn því að Finnland endurgreiði bankanum árlega skatttekjur af launum starfsmanna hans. Tekjurn­ar nema nú 17,6 milljónum finnskra marka.
     b.      Að fela embættismannanefnd fjármálaráðherranna að endurmeta þessa fjárhæð reglulega þannig að hún nemi sem svarar beinum skattgreiðslum starfsmanna bankans til finnska ríkisins.
     c.      Að lífeyrisskuldir vegna starfsmanna bankans við finnska ríkið, sem námu 7,8 milljónum finnskra marka hinn 31. desember 1997, komi til frádráttar fyrrnefndri endur­greiðslu.
     d.      Að bankinn og finnska ríkið komi sér saman um tilhögun lífeyrismála, atvinnuleysis- og almannatrygginga frá og með árinu 1998, en að önnur norræn ríki verði upplýst um gang mála.
     e.      Að bankinn verði undanþeginn greiðslu óbeinna skatta (virðisaukaskatts, fasteigna- og stimpilgjalda). Undanþágan tekur einnig til tolla. Þetta verði einnig viðmiðun hvað varðar aðra hliðstæða óbeina skatta, gjöld og tolla sem kunna að verða lagðir á síðar.
     f.      Að starfsmenn á vegum bankans njóti ákveðinnar friðhelgi. Finnland gerði ákveðinn fyrirvara um endanlegt orðalag þessara breytinga á samþykktum bankans.
     g.      Að bankinn og Finnland geri með sér gistilandssamning þar sem nánar verði kveðið á um samskipti bankans og finnska ríkisins í samræmi við þessar ákvarðanir. Önnur norræn ríki verði upplýst um þessa samningsgerð og geti komið sjónarmiðum sínum á framfæri.
     h.      Að fela embættismannanefnd fjármálaráðherranna að útfæra nýjan samning um Norræna fjárfestingarbankann á grundvelli þessara ákvarðana til að treysta stöðu bankans sem alþjóðlegrar fjármálastofnunar.
     i.      Að embættismannanefndin greini norrænu samstarfsnefndinni og embættismannanefnd umhverfisráðherra frá framvindu mála þannig að unnt verði að gera hliðstæðar breyting­ar á samningunum um Norræna þróunarsjóðinn (NDF) og Norræna fjármögnunarfélagið á sviði umhverfisverndar (NEFCO).
    Framangreindar ákvarðanir lágu til grundvallar við gerð hins nýja samnings um Norræna fjárfestingarbankann. Sem fyrr segir er meginmarkmið samningsins að skýra og treysta rétt­arstöðu bankans sem alþjóðlegrar fjármálastofnunar, meðal annars hvað varðar friðhelgi, undanþágu frá tollum og óbeinum sköttum, svo og tiltekin ferðafríðindi. Með þessu móti verður bankanum gert kleift að starfa sem alþjóðleg fjármálastofnun, innan Norðurlanda sem utan, með sömu stöðu og aðrar sambærilegar alþjóðlegar stofnanir sem bankinn starfar með. Með samningnum er réttarstaða bankans treyst, bæði út á við gagnvart lánveitendum og lánþegum og inn á við gagnvart stjórnvöldum og löggjöf í hverju norrænu ríkjanna.

3. Einstök ákvæði samningsins.
    Samningurinn hefur að geyma ýmist óbreytt, endurskoðuð eða ný ákvæði.
    Í 1. gr. samningsins er fjallað um hlutverk og alþjóðlega stöðu bankans.
    Samkvæmt 2. gr. skal starfsemi bankans fara fram í samræmi við samþykktir hans.
    3. gr. lýtur að stofnfé bankans.
    Samkvæmt 4. gr. skulu höfuðstöðvar bankans áfram vera í Helsinki.
    Í 5. gr. er fjallað um málshöfðun á hendur bankanum o.fl.
    Í 6.–8. gr. samningsins er kveðið á um friðhelgi eigna bankans og opinber samskipti hans. Þessi ákvæði samsvara þeim reglum sem gilda almennt um alþjóðlegar fjármálastofnanir. Í gistilandssamningnum eru nánari ákvæði um undanþágu frá friðhelgi ef nauðsynlegt reynist til að halda uppi röð og reglu.
    9. gr. fjallar um skatta og gjöld. Ein af grundvallarforsendum hins nýja samnings er að það land, sem hýsir höfuðstöðvar bankans, skuli ekki njóta sérstakra skatttekna af bankan­um. Af þessum sökum, svo og vegna styrktrar réttarstöðu bankans sem fullgildrar alþjóðlegr­ar fjármálastofnunar, skulu hann, eignir hans og tekjur vera undanþegin allri skattlagningu. Reglurnar um skatta og gjöld gilda ekki aðeins gagnvart gistilandinu heldur einnig öðrum aðildarríkjum á sama hátt. Nánari ákvæði um þetta efni er að finna í gistilandssamningnum.
    Í 10. gr. er kveðið á um friðhelgi starfsmanna bankans.
    11. gr. fjallar um undanþágu frá innflytjendatakmörkunum og ferðafríðindi starfsmanna bankans. Undanþága frá innflytjendatakmörkunum felur í sér að viðkomandi einstaklingar fá dvalarleyfi og/eða atvinnuleyfi án þess að beitt sé innflytjenda- eða flóttamannakvótum eða athugun á vinnuaflsþörf. Undanþágan nær þó ekki til kröfu um vegabréfsáritun.
    Í 12. og 13. gr. samningsins er kveðið á um rétt bankans hvað varðar eign á peningum og gjaldeyri, yfirfærslur og gjaldeyrisskipti.
    Í 14. gr. er mælt fyrir um heimild stjórnar bankans til að afnema friðhelgi og sérréttindi.
    15. gr. lýtur að ákvörðun um starfslok bankans.
    16. gr. hefur að geyma ákvæði um gildistöku samningsins og skyld efni.
    Í 17. gr. er loks kveðið á um uppsögn samningsins og réttaráhrif hennar.




Fylgiskjal.



SAMNINGUR
milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar
um Norræna fjárfestingarbankann.


    Ríkisstjórnir Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar, sem vilja efla og þróa frekar norræna samvinnu með Norræna fjárfestingarbankann sem sameiginlega alþjóðlega fjármögnunarstofnun með sömu stöðu og aðrar lögpersónur er stunda sambærilega starfsemi á Norðurlöndum eða utan þeirra, hafa orðið sammála um eftirfarandi:

1. gr.

    Norræni fjárfestingarbankinn, hér á eftir nefndur „bankinn“, hefur það hlutverk að veita lán og ábyrgðir með bankakjörum og í samræmi við þjóðhagsleg sjónarmið til að hrinda í framkvæmd fjárfestingaráformum í þágu bæði Norðurlanda og þeirra ríkja utan Norðurlanda sem fá lán eða ábyrgðir.
    Bankinn skal vera alþjóðleg lögpersóna með fullt gerhæfi, einkum rétt til að gera samn­inga, kaupa og selja fasteignir og lausafjármuni sem og að skjóta málum til dómstóla eða annarra yfirvalda.

2. gr.

    Starfsemi bankans skal fara fram í samræmi við samþykktir hans sem Norræna ráðherra­nefndin hefur staðfest. Norræna ráðherranefndin getur með ákvörðun breytt þessum sam­þykktum að tillögu eða að fengnu áliti bankastjórnarinnar. Tillögur til breytinga á samþykkt­um, sem skipta meginmáli fyrir hlutverk, starfsemi og rekstur bankans, skulu lagðar fyrir Norðurlandaráð til umsagnar.

3. gr.

    Samningsaðilar leggja fram stofnfé bankans. Norræna ráðherranefndin tekur ákvörðun um hækkun stofnfjár að fengnum tillögum stjórnar bankans.
    Í samþykktum bankans er greint frá upphæð stofnfjár, mögulegri hækkun þess og skipt­ingu þess á milli samningsaðila.

4. gr.

    Höfuðstöðvar bankans skulu vera í Helsinki.

5. gr.

    Aðeins má höfða mál gegn bankanum fyrir bærum dómstóli í landi þar sem bankinn hefur skrifstofu eða þar sem hann hefur skipað umboðsmann til að taka við stefnu eða sem bankinn hefur samþykkt berum orðum. Aðeins er þó unnt að höfða mál af hálfu samningsaðila eða einstaklinga sem eru fulltrúar samningsaðila eða eiga kröfur sem eiga rætur að rekja til samningsaðila að því tilskildu að bankinn hafi samþykkt það berum orðum.
    Ekki má framfylgja ákvörðun dómsvalds eða stjórnsýsluvalds varðandi eignir bankans fyrr en ákvörðunin hefur tekið gildi að lögum.

6. gr.

    Eignir bankans skulu vera undanþegnar húsleit, upptöku heryfirvalda, eignaupptöku og eignarnámi.
    Ekki er unnt að beita bráðabirgðatryggingaráðstöfunum, svo sem kyrrsetningu, gegn bankanum.

7. gr.

    Húsnæði bankans og skjalasafn, svo og þau gögn sem tilheyra bankanum eða hann á, skulu njóta friðhelgi.

8. gr.

    Sérhver samningsaðili skal veita opinberum samskiptum bankans sömu meðferð og hann veitir opinberum samskiptum annars samningsaðila.

9. gr.

    Bankinn, tekjur hans og eignir skulu vera undanþegin allri skattlagningu eins og nánar er kveðið á um í þessari grein.
    Bankinn skal vera undanþeginn skattlagningu vegna kaupa og framsals fasteigna og verð­bréfa þegar um er að ræða opinbera notkun bankans.
    Lántaka og útlán bankans, svo og lántaka hjá bankanum og hækkun stofnfjár hans, skulu undanþegin allri skattlagningu og gjöldum skattalegs eðlis.
    Þegar bankinn, eða sjóðir sem eru beint tengdir starfsemi bankans og bankinn rekur beint, kaupa vöru eða þjónustu, sem er nauðsynleg vegna opinberrar starfsemi bankans, fyrir um­talsverða fjárhæð og skattur eða tollur er innifalinn í verðinu skal sá samningsaðili, sem lagði á skattinn eða tollinn, gera viðeigandi ráðstafanir til að veita undanþágu frá þeim eða sjá til þess að þeir séu endurgreiddir, ef unnt er að ákvarða upphæðina.
    Ákvæði þessarar greinar taka ekki til skatta og gjalda sem eru eingöngu greiðsla vegna þjónustu sem hið opinbera veitir.

10. gr.

    Allir stjórnarmenn, varamenn þeirra, starfsmenn bankans og sérfræðingar skipaðir af hon­um skulu, án tillits til þjóðernis, undanþegnir málsókn vegna starfa sinna á vegum bankans. Bankinn getur þó aflétt þessari friðhelgi skv. 14. gr. Friðhelgi gildir þó ekki ef um er að ræða einkaréttarlega ábyrgð á tjóni sem áðurnefndir einstaklingar valda í umferðarslysi.

11. gr.

    Allir stjórnarmenn, varamenn þeirra, starfsmenn bankans og sérfræðingar skipaðir af hon­um sem sinna opinberum verkefnum á vegum bankans
     1.      skulu vera undanþegnir innflytjendatakmörkunum og gildir það einnig um maka þessara einstaklinga og ættingja þeim háðum,
     2.      geta, ef sérstök þörf krefur, notið ferðafríðinda í samræmi við alþjóðavenju hjá stofnunum með sambærilega starfsemi.

12. gr.

    Bankinn getur tekið við og átt fé í öllum tegundum gjaldmiðla og átt reikninga í öllum teg­undum gjaldmiðla. Bankanum er og frjálst að flytja fé sitt, þ.m.t. erlendan gjaldmiðil, til og frá ríki samningsaðila, innan þess og skipta sérhverjum gjaldmiðli sem hann á í hvaða annan gjaldmiðil sem er.

13. gr.

    Bankinn skal vera undanþeginn greiðsluhöftum og aðgerðum í lánamálum sem á einhvern hátt hindra eða torvelda bankanum að standa við skuldbindingar sínar, lántöku eða útlán.

14. gr.

    Sérréttindi og friðhelgi samkvæmt samningi þessum eru einungis til þess ætluð að gera bankanum kleift að sinna hlutverki sínu en ekki til hagsbóta fyrir aðra aðila.
    Þegar stjórn bankans telur það bankanum fyrir bestu getur hún, í þeim mæli og með þeim skilyrðum sem hún setur, aflétt þeirri friðhelgi og afnumið þau sérréttindi sem samningur þessi felur í sér.

15. gr.

    Norræna ráðherranefndin getur ákveðið að bankinn hætti störfum samkvæmt þeim reglum sem samþykktir hans kveða á um.

16. gr.

    Samningur þessi skal fullgiltur og öðlast hann gildi 30 dögum eftir að allir samningsaðilar hafa komið fullgildingarskjölum sínum í vörslu hjá norska utanríkisráðuneytinu, þó þannig að ákvæðum 9. gr. er beitt frá 1. janúar 1998. Norska utanríkisráðuneytið tilkynnir hinum samningsaðilunum um afhendingu fullgildingarskjala og gildistöku samningsins.
    Samningurinn skal vera í vörslu norska utanríkisráðuneytisins sem skal senda staðfest eftirrit til allra samningsaðila.
    Samningurinn frá 4. desember 1975 um stofnun Norræna fjárfestingarbankans fellur úr gildi um leið og samningur þessi tekur gildi.

17. gr.

    Sérhver samningsaðili getur sagt samningnum upp með yfirlýsingu þar að lútandi til norsku ríkisstjórnarinnar sem tilkynnir hinum samningsaðilunum, Norrænu ráðherranefnd­inni og stjórn bankans umsvifalaust um uppsögnina.
    Uppsögnin tekur gildi í fyrsta lagi í lok næsta reikningsárs eftir að hún var tilkynnt.
    Taki Norræna ráðherranefndin, að fenginni uppsögninni, ekki ákvörðun um að bankinn skuli hætta störfum skal hún áður en uppsögnin tekur gildi taka ákvörðun um hvernig haga skuli uppgjöri bankans og þess samningsaðila sem sagði samningnum upp. Í því sambandi skal tryggt að það ríki, sem hættir aðild, beri áfram ábyrgð eins og aðrir samningsaðilar á þeim skuldbindingum bankans sem eru fyrir hendi þegar viðkomandi ríki hættir aðild.

    Þessu til staðfestu hafa fulltrúar samningsaðilanna fimm, sem til þess hafa fullgilt umboð, undirritað þennan samning.

    Gjört í Ósló 23. október 1998 í einu eintaki á dönsku, finnsku, íslensku, norsku og sænsku og eru allir textarnir jafngildir.