Ferill 331. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 413  —  331. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um málefni fatlaðra, nr. 59/1992, sbr. lög nr. 161/1996.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)

1. gr.

    1. málsl. 3. mgr. 6. gr. laganna orðast svo: Í svæðisráði sitja sjö fulltrúar skipaðir af ráð­herra til þess tíma er yfirfærsla málefna fatlaðra til sveitarfélaga kemur til framkvæmda, þó eigi lengur en til fjögurra ára.


2. gr.

    1. málsl. 2. mgr. 12. gr. laganna orðast svo: Félagsmálaráðherra skipar framkvæmdastjóra svæðisskrifstofa, að fenginni umsögn svæðisráða, til þess tíma er yfirfærsla málefna fatlaðra til sveitarfélaga kemur til framkvæmda, þó eigi lengur en til fimm ára.


3. gr.

    2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða III með lögunum, sbr. lög nr. 161/1996, orðast svo:
    Áður en yfirfærsla málaflokksins kemur til framkvæmda hafi Alþingi m.a. samþykkt:
     a.      ný lög um félagsþjónustu sveitarfélaga sem taka til þeirrar þjónustu sem veitt er samkvæmt gildandi lögum um málefni fatlaðra, nr. 59/1992, þó ekki starfsemi Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins,
     b.      breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga,
     c.      sérstök lög um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.


4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Við breytingar á lögum um málefni fatlaðra, nr. 161 31. desember 1996, var sett bráða­birgðaákvæði við lögin sem fól í sér að gerðar skyldu ráðstafanir til að undirbúa yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaga. Í ákvæðinu var tekið fram að yfirfærsla málaflokksins kæmi til framkvæmda 1. janúar 1999, enda hefði Alþingi þá samþykkt þrenn ný lög, þ.e. lög um félagsþjónustu sveitarfélaga sem tækju til þeirrar þjónustu sem veitt er samkvæmt gild­andi lögum um málefni fatlaðra, sérstök lög um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og lög um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga.
    Fljótlega var á það bent af hálfu félagsmálaráðuneytis að nokkur hætta væri á að undir­búningur sveitarstjórnarkosninga vorið 1998 gæti truflað þá tímaáætlun sem upphaflega var sett varðandi yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaganna. Sérstaklega átti þetta við um samninga milli ríkis og sveitarfélaga um breytingar á fjármálalegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Ljóst þótti að það gæti orðið erfiðleikum háð fyrir sveitarstjórnir að ganga frá þeim samningum á sama tíma og kjörtímabil þeirra væri að renna út.
    Í janúar 1998 barst beiðni frá borgarstjóranum í Reykjavík um að fresta yfirfærslunni. Svipaðar beiðnir bárust frá fleiri sveitarfélögum. Eftir samráð við Samband íslenskra sveit­arfélaga og verkefnisstjórn, sem hefur yfirumsjón með yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitar­félaga, var talið rétt að verða við áðurgreindri beiðni og fresta yfirfærslunni.
    Frestunin breytir engu um það að unnið er markvisst að undirbúningi yfirfærslunnar sem er viðamikið og vandasamt verk. Aðalatriðið er að þjónusta við fatlaða verði sem best tryggð til frambúðar, en ekki hitt hvort yfirfærslan á sér stað árinu fyrr eða síðar.


Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í lögum nr. 161/1996 er kveðið á um að fulltrúa í svæðisráð málefna fatlaðra skuli skipa til 1. janúar 1999. Sú dagsetning var sett þar sem áætlað var að yfirfærsla málefna fatlaðra miðaðist við þá dagsetningu. Eftir að henni hefur verið frestað um óákveðinn tíma verður skipunartími svæðisráða að taka mið af því. Svæðisráð getur þó ekki verið skipað til lengri tíma en fjögurra ára sem er skipunartími svæðisráða samkvæmt lögum um málefni fatlaðra, nr. 59/1992.


Um 2. gr.

    Skv. 2. gr. laga nr. 161/1996 skulu framkvæmdastjórar svæðisskrifstofa skipaðir til 1. janúar 1999. Sú dagsetning á ekki við lengur eftir að yfirfærslu málefna fatlaðra var frestað um óákveðinn tíma. Fimm ára viðmiðunin er sett með hliðsjón af lögum um réttindi og skyld­ur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996.


Um 3. gr.

    Fellt er brott ákvæði um að yfirfærsla málaflokksins komi til framkvæmda 1. janúar 1999. Að öðru leyti er efni ákvæðisins óbreytt.


Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.





Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni fatlaðra,
nr. 59/1992, sbr. lög nr. 161/1996.

    Við breytingar á lögum um málefni fatlaðra, nr. 161/1996, var gert ráð fyrir að samn­ingum milli ríkis og sveitarfélaga um að sveitarfélögin annist þjónustu við fatlaða að hluta eða öllu leyti yrði lokið fyrir 1. janúar 1999. Ljóst er að þessum markmiðum laganna verður ekki náð á tilskildum tíma. Samkvæmt núgildandi lögum miðast skipunartími svæðisráða og framkvæmdastjóra svæðisskrifstofa við framangreind tímamörk en með frumvarpinu er tekið mið af frestun samninga við sveitarfélögin um óákveðinn tíma. Gert hefur verið ráð fyrir fyrrgreindum kostnaði í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1999 eins og undanfarin ár. Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi annan kostnað í för með sér, verði það óbreytt að lögum.