Ferill 341. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 437  —  341. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um rannsóknir á vetrarafföllum rjúpu.

Flm.: Ólafur Örn Haraldsson, Össur Skarphéðinsson, Svavar Gestsson,


Steingrímur J. Sigfússon, Kristín Halldórsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að láta gera ítarlegar rannsóknir á vetrarafföllum rjúpu með það að markmiði að stuðla að skynsamlegri nýtingu rjúpnastofnsins. Tilgangur rannsóknanna verði að kanna umfang og áhrif skotveiða á stofninn, viðkomu hans eftir svæð­um, samhengi veiða og náttúrulegra affalla og að gera samanburð á rjúpnastofninum undir mismiklu veiðiálagi.

Greinargerð.


    Rjúpan er lykiltegund í íslensku vistkerfi og einn einkennisfugla íslenskrar náttúru. Hún er afkastamikill grasbítur og þýðingarmikil fæða ýmissa rándýra, m.a. er heilbrigður rjúpna­stofn forsendan fyrir tilvist íslenska fálkans. Rjúpnaveiðar verða æ vinsælla tómstundagaman almennings og rjúpnasteik er orðin hluti af jólahefð landsmanna. Mikilvægt er að þessum veiðum sé stillt þannig í hóf að þær hafi ekki áhrif á stöðu og hlutverk rjúpunnar í vistkerfinu.
    Rjúpnastofninn er sveiflóttur og um tíu ár hafa liðið á milli toppa, þessar sveiflur eru taldar vera náttúrulegar og að skotveiðar stjórni þeim ekki. Rannsóknir hafa sýnt að stofnbreyt­ingarnar, þ.e. hvort stofninn vex eða minnkar, ráðast af vetrarafföllum. Til skamms tíma hafa litlar rannsóknir legið fyrir um hver hlutur skotveiða er í afföllum rjúpu. Nýlegar rannsóknir í nágrenni Reykjavíkur sýna að þar er rjúpnastofninn ofveiddur. Rjúpnatalningar á nokkrum svæðum á Suðvestur- og Vesturlandi benda til þess að þetta ástand geti átt við miklu víðar þar sem lítið er af rjúpum á þessum talningasvæðum, fuglum hefur fækkað þar síðustu ár eða fjöldinn staðið í stað og stofnbreytingar eru ekki lengur í takt við stofnsveiflu rjúpunnar í öðrum landshlutum, en þar hefur rjúpnastofninn verið í uppsveiflu síðustu árin. Ýmsum brennandi spurningum um áhrif skotveiða hefur þó ekki verið svarað fyllilega og er nauð­synlegt að afla gagna sem leitt geta hið sanna í ljós. Að auki munu þessar rannsóknir sem hvatt er til hafa vísindalegt gildi á sviði atferlisfræði og vistfræði.
    Margvíslegar rannsóknir hafa verið gerðar á rjúpnastofninum síðustu áratugi og mikilvæg­ar upplýsingar hafa bæst við frá skotveiðimönnum með tilkomu veiðikorta og veiðiskýrslna. Athuganir á veiðiafföllum hafa þó verið svo staðbundnar og náð yfir svo stuttan tíma að ekki er hægt að draga víðtækar ályktanir af þeim. Nauðsynlegt er að efla rannsóknirnar nú við ríkj­andi veiðiálag. Ef veiðiálagi er breytt, svo sem með einhvers konar takmörkunum, er mikil­vægt að fyrir liggi áreiðanlegar upplýsingar um áhrif og gagn slíkra aðgerða áður en gripið er til ráðstafana.
    Það er kappsmál veiðimanna að rjúpnastofninn sé sterkur og ekki sé gengið of nærri hon­um, jafnframt því sem taka þarf tillit til náttúruverndarsjónarmiða. Skotveiðimenn hafa lagt mikið af mörkum til rannsókna á veiðidýrum með veiðiskýrslum og eflingu veiðikortasjóðs­ins sem meðal annars hefur staðið undir rjúpnarannsóknum síðustu ár.
    Ef nauðsynlegt reynist að takmarka veiðar svæðisbundið eða tímabundið verður slíkt ekki gert nema í góðri samvinnu veiðimanna, landráðenda, vísindamanna og yfirvalda í umhverfis­málum. Allir viðkomandi aðilar þurfa að eiga aðild að skipulagi og undirbúningi rannsókn­anna og þeim ákvörðunum sem kunna að vera teknar er niðurstöður liggja fyrir.