Ferill 350. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 473  —  350. mál.
Frumvarp til lagaum breyting á lögum um fangelsi og fangavist, nr. 48 19. maí 1988, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)

1. gr.

    1. mgr. 6. gr. laganna, sbr. 24. gr. laga nr. 83/1997, orðast svo:
    Í fangelsum skal starfa hæfilegur fjöldi fangavarða og annars starfsliðs. Ráðherra skipar yfirfangaverði til fimm ára í senn. Forstjóri fangelsismálastofnunar skipar fangaverði til fimm ára í senn. Áður en fangavörður er skipaður til starfa skal hann hafa lokið prófi frá Fanga­varðaskóla ríkisins. Forstöðumaður fangelsis ræður aðra starfsmenn.

2. gr.

    Við 11. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Einnig getur fangelsismálastofnun leyft fanga að ljúka afplánun utan fangelsis enda stundi hann vinnu eða nám sem fangelsismálastofnun hefur samþykkt, búi á sérstakri stofnun eða heimili þar sem hann er undir eftirliti og vinnan eða námið er liður í aðlögun hans að sam­félaginu á ný. Fangi skal greiða gjöld sem slíkar stofnanir eða heimili innheimta hjá vist­mönnum.

3. gr.

    2. málsl. 2. mgr. 24. gr. laganna orðast svo: Ef sérstakar ástæður mæla með er þó heimilt að víkja frá 1. og 2. tölul. 1. mgr. 23. gr.

4. gr.

    Á eftir IV. kafla laganna, sbr. 4. gr. laga nr. 123/1997, kemur nýr kafli, IV. kafli A, Fullnusta vararefsingar með samfélagsþjónustu, með tveimur nýjum greinum, 26. gr. a og 26. gr. b, svohljóðandi:

    a. (26. gr. a.)
    Nú innheimtist fésekt ekki og lögreglustjóri hefur ákveðið að maður skuli afplána vara­refsingu hennar og er þá heimilt, ef almannahagsmunir mæla ekki gegn því, að fullnusta vara­refsinguna með ólaunaðri samfélagsþjónustu, minnst 20 klukkustundir og mest 480 klukku­stundir.
    Hafi dómþoli í einni eða fleiri refsiákvörðun verið dæmdur í óskilorðsbundið fangelsi og gert að greiða fésekt verður vararefsing ekki fullnustuð með samfélagsþjónustu ef samanlögð fangelsisrefsing og vararefsing er lengri en eitt ár. Sama gildir ef fullnusta á í einu lagi vara­refsingu samkvæmt fleiri en einni sektarákvörðun.

    b. (26. gr. b.)
    Ákvæði 23.–26. gr. laganna gilda um fullnustu vararefsingar samkvæmt þessum kafla að öðru leyti en því að í stað þess að umsókn um afplánun vararefsingar með samfélagsþjónustu sé send fangelsismálastofnun skal sektarþoli senda lögreglustjóra slíka beiðni skriflega eigi síðar en sjö dögum eftir að honum barst tilkynning um fyrirhugaða afplánun vararefsingar.
    Þegar lögreglustjóra berst beiðni um fullnustu vararefsingar með samfélagsþjónustu skal hann framsenda fangelsismálastofnun beiðnina til ákvörðunar ásamt gögnum máls og umsögn sinni.

5. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1999.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið á vegum refsiréttarnefndar að tilhlutan dómsmálaráðherra. Með frumvarpinu er lögð til sú breyting á lögum um fangelsi og fangavist, nr. 48/1988, að heimilt verði að fullnusta vararefsingu með samfélagsþjónustu. Þá er lagt til að forstjóri Fangelsis­málastofnunar ríkisins skipi fangaverði og að lögfest verði heimild til að ljúka afplánun refs­ingar utan fangelsis.
    Með lögum nr. 55/1994 var lögfest heimild til að afplána þriggja mánaða óskilorðsbundna refsivist með ólaunaðri samfélagsþjónustu. Ákvæði um samfélagsþjónustu eru nú að finna í IV. kafla laganna um fangelsi og fangavist, svo sem þeim lögum var breytt með lögum nr. 123/1997, en þau lög rýmkuðu heimild til afplánunar með samfélagsþjónustu, þannig að hún getur tekið til dóma þar sem refsing er allt að sex mánaða óskilorðsbundið fangelsi. Sam­kvæmt þessum lagaákvæðum hefur hvorki verið heimilt að fullnusta fésekt né vararefsingu hennar með samfélagsþjónustu.
    Samkvæmt 53. gr. almennra hegningarlaga skal fangelsi koma í stað fésektar verði hún ekki greidd, nema háttsemi hafi verið manni ósaknæm og er vararefsing þá eigi ákveðin. Fé­sekt er vægasta tegund refsingar og því er þungbært fyrir sektarþola að þurfa að þola fulln­ustu sektar með vararefsingu í fangelsi. Einnig orkar tvímælis að sá sem hlotið hefur óskil­orðsbundin fangelsisdóm geti fullnustað refsingu sína að fullu utan fangelsa með samfélags­þjónustu meðan mildari refsing leiðir til afplánunar vararefsingar í fangelsi af þeirri ástæðu að sekt fæst ekki greidd. Þegar þannig stendur á þykir rétt að sektarþola verði með öðru móti en skerðingu á frjálsræði sínu gert kleift að þola fullnustu refsingar sinnar og er því lagt til að heimilt verði að afplána vararefsingu með samfélagsþjónustu. Þó verður áfram að búa við að vararefsing verði fullnustuð með fangelsi þegar sektarþoli fullnægir ekki skilyrðum fyrir samfélagsþjónustu eða sinnir henni ekki. Að öðrum kosti yrði verulega dregið úr varnaðar­áhrifum refsinga ef ekki væri unnt að fullnusta sektarrefsingu af þeirri ástæðu einni að hún fæst ekki greidd.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Með greininni er lagt til að í stað dómsmálaráðherra skipi forstjóri fangelsismálastofnunar fangaverði. Þó er áfram gert ráð fyrir að ráðherra skipi yfirfangaverði. Þetta er hliðstætt við ákvæði lögreglulaga, nr. 90/1996, svo sem þeim var breytt með lögum nr. 29/1998, en þar segir í 3. mgr. 28. gr. að ríkislögreglustjóri skipi lögreglumenn en ráðherra skipi yfirlögreglu­þjóna og aðstoðaryfirlögregluþjóna.
    Þá er lagt til að próf frá Fangavarðaskóla ríkisins verði lögbundið skilyrði skipunar í emb­ætti fangavarðar.

Um 2. gr.

    Í 11. gr. laganna er að finna heimild til að vista dómfelldan mann á sjúkrahúsi eða annarri stofnun þar sem hann nýtur sérstakrar meðferðar eða forsjár, enda sé slíkt talið henta vegna heilsu hans, aldurs eða annarra sérstakra ástæðna. Með vísan til þessarar heimildar hefur fangelsismálastofnun um nokkurt skeið veitt föngum heimild til að ljúka afplánun með dvöl á áfangaheimili, enda stundi þeir vinnu eða nám sem stofnunin viðurkennir. Þetta hefur gefið góða raun og er lagt til að í lögunum verði beinlínis gert ráð fyrir vistun af þessu tagi svo að hún eigi sér ótvíræða lagastoð. Þá er lagt til að mælt verði fyrir um skyldu fanga til að greiða gjöld sem slíkar stofnanir eða heimili innheimta hjá vistmönnum.

Um 3. gr.

    Lagt er til að heimilt verði að víkja frá skilyrði 2. tölul. 1. mgr. 23. gr. um að dómþoli eigi ekki mál til meðferðar hjá lögreglu, ákæruvaldi eða dómstólum þar sem hann er kærður fyrir refsiverðan verknað. Þykir ekki rétt að dómfelldur maður sé útilokaður frá því að geta fulln­ustað refsingu sína með samfélagsþjónustu vegna þess að minni háttar máli á hendur honum sé ólokið, svo sem máli vegna brota á umferðarlögum, sem sýnt er að ljúki með sektarrefs­ingu. Sama á við ef óeðlilegur dráttur hefur orðið á afgreiðslu máls. Ekki er gert ráð fyrir að þessari heimild verði beitt nema í undantekningartilvikum.

Um 4. gr.

    Í IV. kafla laganna eru ákvæði um samfélagsþjónustu og er lagt til að nýr kafli bætist við lögin þar næst á eftir og hafi að geyma ákvæði um fullnustu vararefsingar með samfélags­þjónustu. Þykir heppilegra að þessi ákvæði verði í sérstökum kafla, enda geta reglur um fullnustu vararefsingar með samfélagsþjónustu ekki í öllum efnum verið samhljóða þeim reglum sem gilda um samfélagsþjónustu til fullnustu á óskilorðsbundinni fangelsisrefsingu.
     Um a-lið (26. gr. a).
    Í 1. mgr. er lagt til að heimilt verði að afplána vararefsingu fésektar með ólaunaðri samfélagsþjónustu og að þjónustan verði minnst að vara í 20 klukkustundir en geti lengst orðið 480 klukkustundir. Þetta eru rýmri mörk en gilda um samfélagsþjónustu vegna óskilorðs­bundinnar fangelsisrefsingar, en hún getur minnst varað í 40 klukkustundir og mest í 240 klukkustundir, sbr. 1. mgr. 22. gr. laganna. Með hliðsjón af varnaðaráhrifum refsinga og til­gangi samfélagsþjónustu þykir nauðsynlegt að henni sé markað 20 klukkustunda lágmark þótt tímalengd vararefsingar sé styttri en fangelsi í 15 daga. Á hinn bóginn er lagt til að há­marksvararefsing í eitt ár verði fullnustuð með 480 klukkustunda samfélagsþjónustu. Þó svo að ekki sé unnt að fullnusta þyngri dóm en sex mánaða óskilorðsbundið fangelsi með sam­félagsþjónustu þykir ekki óvarlegt að þessi heimild taki til vararefsingar allt að einu ári, enda eru sektir ávallt vægari refsing en óskilorðsbundið fangelsi.
    Samkvæmt 2. mgr. verður vararefsing ekki fullnustuð með samfélagsþjónustu ef dómþoli hefur í einni eða fleiri refsiákvörðunum verið dæmdur í óskilorðsbundið fangelsi og gert að greiða sekt og samanlögð fangelsisrefsing og vararefsing er lengri en eitt ár. Sama gildir ef fullnusta á í einu lagi vararefsingu samkvæmt fleiri en einni sektarákvörðun. Þykir ekki rétt að heimila fullnustu vararefsingar með samfélagsþjónustu þegar refsing vegna brotastarfsemi í heild sinni er þyngri en fangelsi í eitt ár. Þetta ákvæði tekur vitanlega aðeins til fullnustu vararefsingar með samfélagsþjónustu og því gildir eftir sem áður skilyrði 1. mgr. 22. gr. um að þyngri refsing en sex mánaða óskilorðsbundið fangelsi verður ekki fullnustuð með samfé­lagsþjónustu.
     Um b-lið (26. gr. b).
    Lagt er til að ákvæði 23.–26. gr. laganna gildi um fullnustu vararefsingar með samfélags­þjónustu að öðru leyti en því að í stað fangelsismálastofnunar ber að senda lögreglustjóra umsókn um samfélagsþjónustu, enda fer hann með innheimtu sekta, sbr. 2. mgr. 52. gr. hegn­ingarlaga. Lögreglustjóri sendir síðan fangelsismálastofnun beiðnina ásamt umsögn sinni til ákvörðunar. Þykir heppilegast að fangelsismálastofnun taki einnig ákvörðun um fullnustu vararefsingar með samfélagsþjónustu þannig að stofnunin fari í heild sinni með þau mál sem lúta að samfélagsþjónustu.

Um 5. gr.

    Lagt er til að lögin öðlist gildi 1. júlí 1999 þannig að svigrúm gefist til að undirbúa gildis­töku þeirra.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Frumvarp til laga um breyting á lögum um fangelsi og fangavist,
nr. 48 19. maí 1988, með síðari breytingum.

    Frumvarp þetta gerir ráð fyrir að heimilt verði að fullnusta vararefsingu með samfélags­þjónustu og að lögfest verði heimild til að ljúka afplánun refsingar utan fangelsis. Enn frem­ur gerir frumvarpið ráð fyrir að forstjóri Fangelsismálastofnunar ríkisins skipi fangaverði. Heimildir frumvarpsins munu að öllum líkindum leiða til lækkunar útgjalda ríkissjóðs, að því marki sem þeim verður beitt. Ekki verður séð að önnur ákvæði frumvarpsins leiði til auk­inna útgjalda ríkissjóðs, verði það óbreytt að lögum.