Ferill 356. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 488  —  356. mál.
Tillaga til þingsályktunarum undirbúning jarðganga milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar.

Flm.: Arnbjörg Sveinsdóttir, Egill Jónsson.         Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að hefja nú þegar undirbúning að gerð jarð­ganga milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar. Miðað verði við að framkvæmdir hefjist árið 2003.

Greinargerð.


    Í skýrslunni „Jarðgöng á Austurlandi — nefndarálit 1993“ sem Vegagerð ríkisins sá um útgáfu á segir svo m.a.:
    „Á veginum milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar var meðalumferð ársins 1991 180 bíl­ar og sumardagsumferð 240 bílar. Með tilkomu jarðganga styttist vegalengdin um 32 km og umferð mundi vafalaust aukast, enda Fáskrúðsfjörður þá kominn inn á sama þjónustu- og at­vinnusvæði og kjarninn á Mið-Austurlandi (áfangi 1). Vegalengdin frá Fáskrúðsfirði til Reyðarfjarðar yrði um 20 km og til Egilsstaða um 48 km.
    Heildarkostnaður við framkvæmdir er áætlaður 2.250 m.kr. (miðað við verðlag 1998). Þar er reiknað með 5,3 km löngum jarðgöngum, 100 m löngum forskálum og 11,5 km af nýj­um vegum utan ganga.
    Fyrir arðsemisreikninga var gerð lausleg umferðarspá. Þar var reiknað með að samkvæmt lágspá ykist umferðin um 25%, samkvæmt meðalspá um 50% og samkvæmt háspá um 100%. Þegar jarðgangaframkvæmdir voru bornar saman við kostnað við að endurbyggja núverandi veg og leggja á hann bundið slitlag (140 m.kr.) reiknaðist arðsemin verða um 4% fyrir lágspá um umferð, 5,4% fyrir meðalspá og rúm 8% fyrir háspá. Reiknað er með 30 ára afskriftar­tíma og áætlaðir skattar (20%) dregnir frá kostnaðaráætlun. Ef reiknað er með að göng verði ekki byggð fyrr en búið verður að fjárfesta í endurbótum á núverandi vegi reiknast arðsemin verða 4,6% fyrir meðalspá í umferð. Til að ná 5% arðsemi þarf þannig meðalumferð ársins að aukast frá 180 bílum eins og hún er í dag og upp í um 300 bíla, eða um tæp 70%.“
    Þessi tilvitnun sýnir hversu hér er um hagkvæman kost í vegaframkvæmdum að ræða. Af jarðgöngum sem gerð hafa verið hér á landi eða skýrslur liggja fyrir um eru það einungis jarðgöng milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar og Hvalfjarðargöng sem teljast arðbær. Ekki er þá tekið með í reikninginn að einungis munar 13 km hvort ekið er um Breiðdal og Skriðdal eða Fjarðarleiðina til Egilsstaða. Enginn vafi leikur á að jarðgöngin mundu því draga að sér mun meiri umferð en fram kemur í skýrslunni sem hér er vitnað til. Þá er enn fremur vert að benda á að vegurinn um Vattarnes og Reyðarfjarðarströnd er stundum var­hugaverður, einkum hvað varðar grjóthrun, snjóflóð og hálku, og eru því jarðgöng af þeirri ástæðu einnig mikilvæg umferðarbót.
    Samkvæmt skýrslu Vegagerðarinnar mundi kostnaður við þessar vegaframkvæmdir nema 2.250 millj. kr. á verðlagi þessa árs. Ef dreginn væri frá kostnaður við vegaframkvæmdir milli Breiðdalsvíkur og Egilsstaða og með ströndinni frá Fáskrúðsfirði til Reyðarfjarðar stæðu einungis eftir u.þ.b. 1.300 millj. kr. sem nettókostnaður við framkvæmdina. Mundi það enn frekar auka arðsemi þessarar framkvæmdar en þau atriði sem að framan er getið.
    Augljóst er að jarðgöng milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar eru einkar ákjósanlegur kostur í vegaframkvæmdum, auk þess sem hringleið með fjörðum mundi styttast um u.þ.b. 35 km og Suðurfirðir Austfjarða kæmust inn í sama atvinnu- og þjónustusvæði og kjarni byggðarinnar á Mið-Austurlandi. Vegurinn frá Fáskrúðsfirði til Reyðarfjarðar yrði um 20 km og til Egilsstaða um 48 km. Þessar umbætur í vegamálum eru því í fullu samræmi við þær áherslur sem uppi eru í byggðamálum hér á landi, að ekki sé talað um þegar til stórfram­kvæmda kemur eins og stóriðju við Reyðarfjörð.
    Það er því von flutningsmanna að máli þessu, sem er eitt brýnasta framfaramál á Austur­landi um þessar mundir, verði vel tekið og framgangur þess tryggður á yfirstandandi þingi.

Fylgiskjal.


(Kort, ein síða mynduð.)