Ferill 331. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 525  —  331. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um málefni fatlaðra, nr. 59/1992, sbr. l. nr. 161/1996.

Frá félagsmálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sturlaug Tómasson frá félagsmála­ráðuneyti. Málið var ekki sent til umsagnar.
    Með frumvarpinu er lagt til að frestað verði yfirfærslu á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga sem koma átti til framkvæmda 1. janúar 1999.
    Með lögum nr. 161/1996, um breytingu á lögum um málefni fatlaðra, var sett bráðabirgða­ákvæði þar sem tekið var fram að félagsmálaráðherra skyldi gera ráðstafanir til að undirbúa yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaga. Var jafnframt tekið fram í ákvæðinu að yfir­færslan kæmi til framkvæmda 1. janúar 1999, enda hefði Alþingi þá samþykkt þrenn ný lög, þ.e. lög um félagsþjónustu sveitarfélaga sem tækju til þeirrar þjónustu sem veitt er samkvæmt gildandi lögum um málefni fatlaðra, sérstök lög um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og lög um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga.
    Á yfirstandandi ári hafa félagsmálaráðuneytinu borist beiðnir frá fjölda sveitarfélaga þar sem farið er fram á að yfirfærslunni verði frestað. Er ástæðan fyrir því fyrst og fremst sú að ekki hafa náðst samningar milli ríkis og sveitarfélaga um breytingar á fjármálalegum sam­skiptum þeirra.
    Í máli fulltrúa félagsmálaráðuneytis kom fram að markvisst er unnið að yfirfærslunni sem er mikið og vandasamt verk. Fellst nefndin á að þó að mikilvægt sé að því starfi verði lokið sem fyrst er þó aðalatriðið að þjónusta við fatlaða verði sem best tryggð til frambúðar.
    Nefndin mælir með að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 16. des. 1998.



Kristín Ástgeirsdóttir,


form., frsm.


Einar K. Guðfinnsson.


Siv Friðleifsdóttir.



Kristján Pálsson.


Pétur H. Blöndal.


Magnús Stefánsson.



Guðný Guðbjörnsdóttir.


Arnbjörg Sveinsdóttir.


Rannveig Guðmundsdóttir,


með fyrirvara.