Ferill 291. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 541  —  291. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um hafnaáætlun 1999–2002.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hermann Guðjónsson, Jón Leví Hilmarsson og Kristján Helgason frá Siglingastofnun Íslands. Þá komu Magnús Gunnarsson bæjarstjóri, Már Sveinbjörnsson framkvæmdastjóri og Valgerður Sigurðardóttir, formaður hafnarstjórnar, frá Hafnarfjarðarhöfn, Ingimundur Sigurpálsson bæjarstjóri, Smári Hermanns­son og Eyþór Þórhallsson frá Garðabæjarhöfn og Sigurður Geirdal bæjarstjóri og Hörður Jó­hannsson frá Kópavogshöfn.
    Samkvæmt 24. gr. hafnalaga, nr. 23/1994, með síðari breytingum, skal Siglingastofnun Íslands gera sérstaka fjögurra ára áætlun um hafnaframkvæmdir á tveggja ára fresti. Við áætl­unargerðina og forgangsröðun framkvæmda skal leggja til grundvallar mat á þörf fyrir fram­kvæmdir í einstökum höfnum, landshlutum og landinu í heild og ber Siglingastofnun við áætlunargerðina að hafa samráð og samstarf við viðkomandi hafnarstjórn, Hafnasamband sveitarfélaga og hafnaráð. Áætlunin skal síðan lögð fyrir Alþingi til samþykktar í formi þingsályktunartillögu.
    Við gerð þessarar hafnaáætlunar var höfð hliðsjón af niðurstöðum reiknilíkans sem Sigl­ingastofnun hefur útbúið. Í stórum dráttum er aðferðin sú að fyrst er höfnum landsins skipt í flokka og hverjum flokki sniðinn stakkur eftir vexti þannig að ekki er samþykkt að taka inn framkvæmd nema hún sé í samræmi við stærðarflokk hafnarinnar. Líkanið byggist á því að reiknaðar eru tvær megineinkunnir. Annars vegar svokölluð umsvifaeinkunn, sem tekur tillit til umferðar, aflamagns og aflaverðmætis í höfninni, auk þess sem tekið er tillit til kostnaðar við viðkomandi framkvæmd og mikilvægis útvegs og fiskvinnslu fyrir byggðarlagið. Þannig hlýtur ódýr framkvæmd hærri einkunn en dýr í sömu höfn. Hins vegar er tekið tillit til áhrifa af framkvæmdinni. Þá er reiknað út hversu mikið hún bætir aðstöðu í höfninni. Ef fram­kvæmdin hefur áhrif umfram viðmiðunarmörk Siglingastofnunar fær hún ekki einkunn. Þann­ig fær bryggja ekki einkunn (þ.e. 0,0) ef þarfir fyrir viðlegu og löndun eru þegar uppfylltar. Þessar tvær einkunnir fyrir umsvif og hafnarbætur sem hver framkvæmd fær eru að lokum margfaldaðar saman. Þetta þýðir að jafnvel þótt mikil umsvif séu í höfninni dugir það ekki til að framkvæmdin komist ofarlega á lista. Nefndin telur rétt að halda áfram að þróa reikni­líkanið í samvinnu við Siglingastofnun Íslands.
    Gildandi hafnaáætlun er sú fyrsta sem Alþingi hefur samþykkt. Við afgreiðslu hennar mót­aði samgöngunefnd ákveðnar verklagsreglur sem koma fram í nefndaráliti. Reynslan af þeim hefur verið góð og skapað nauðsynlega festu sem m.a. sést af því að skuldbindingar ríkisins vegna hafnaframkvæmda hafa minnkað. Nefndin vísar til umfjöllunar í nefndaráliti frá 121. löggjafarþingi, þskj. 1177, þar sem þessi mál eru útskýrð. Nefndin telur mikilvægt að verk­lagsreglurnar verði áfram í heiðri hafðar til þess að skapa festu við framkvæmd á samþykkt­um Alþingis og að unnt sé að bregðast við aðstæðum sem ávallt geta komið upp og orðið til þess að nauðsynlegt verði að flýta einstökum framkvæmdum.
    Nefndin mælir með samþykkt tillögunnar með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali. Breytingarnar taka allar mið af því að framlag ríkisins til hafnaframkvæmda verði hið sama og tillagan gerir ráð fyrir en um nokkrar tilfærslur verkefna er að ræða, fyrst og fremst innan sveitarfélaga. Reynt hefur verið að taka tillit til athugasemda hafnarstjórna þar sem það hefur verið hægt. Breytingarnar eru eftirfarandi:
     1.      Lagt er til að verkefni verði flutt á milli ára í Rifshöfn og Ólafsvík. Þannig verði slitlag á tengibraut og breikkun þekju á Rifi unnin árið 1999 í stað 2001 og nýir björgunarstigar á bátabryggju unnir árið 1999 í stað 2001.
     2.      Í Vesturbyggð er lagt til að bætt verði inn liðnum þekja á Brjánslæk að upphæð 1 millj. kr. árið 1999 og enn fremur liðnum flotbryggja á Bíldudal að upphæð 3 millj. kr. árið 2001 en í stað þess verði lækkað framlag til lagfæringar á innsiglingu á Patreksfirði sem því nemur.
     3.      Lagt er til að uppsátur fyrir smábáta á Tálknafirði verði fært til ársins 1999 frá 2001 en í stað þess verði steyptri þekju skipt upp og hluti verksins færður til ársins 2001 þannig að fjárframlög verði óbreytt.
     4.      Gert er ráð fyrir að bætt verði við verkinu viðgerðarbryggja á Ísafirði. Áætlað er að bryggjan kosti 18,5 millj. kr. en í staðinn verði hluta af endurbyggingu á Ásgeirsbakka frestað þannig að framlög verði óbreytt.
     5.      Lagt er til að stálþil við Norðurgarð á Sauðárkróki verði lengt um 60 metra í stað 40 metra. Þá er lagt til að ný verk bætist við á Hofsósi og Haganesvík. Á Hofsósi verði skjólgarður fyrir smábáta lengdur og í Haganesvík verði dýpkað.
     6.      Þá er lagt til að skerðing framlaga til framkvæmda í Hafnasamlagi Norðurlands á árunum 2001 og 2002 gangi til baka. Þar sem framlög eru ekki aukin verður lenging Odd­eyrarbryggju felld niður. Við bætist nýtt verk, stálþil við Krossanes, 2. áfangi, undirbún­ingsframkvæmdir. Áætlun um dýpkun fiskihafnar er endurskoðuð til lækkunar.
     7.      Lagt er til að verkefninu styrking grjótvarnar á hafnargarði, grjót úr landi (500 m ) í Grímsey verði flýtt um eitt ár.
     8.      Á Húsavík er lagt til að við bætist nýr liður, smábátaaðstaða. Á móti verði dregið úr framlagi til frágangs og þekju á Bökubakka. Þá er áfangaskiptum í framkvæmdinni brim­varnargarður við Böku breytt lítils háttar.
     9.      Áætlun um þekju við II. og III. áfanga stálþils á Þórshöfn er endurskoðuð til lækkunar.
     10.      Lagt er til að landgangur fyrir ferjur á Seyðisfirði verði felldur niður, en í stað hans komi aukin dýpkun við bryggjur, sandfangari og frágangur bryggju í Fjarðarhöfn.
     11.      Lagt er til að steypt þekja á Breiðdalsvík verði færð fram til ársins 1999 frá árinu 2000. Hlutur ríkisins er að mestu fjármagnaður með eldri fjárveitingu sem ekki hefur verið not­uð þannig að ekki er þörf á framlögum til þessa.
     12.      Áætlun um þekju við löndunarkant í Gleðivík á Djúpavogi er endurskoðuð til lækkunar.
     13.      Einnig er lagt til að ekki komi til skerðingar framlaga til framkvæmda í Vestmannaeyjum árin 2001 og 2002 eins og fyrirhugað var. Þar sem framlög eru ekki aukin verður tekinn fyrir minni áfangi í endurbyggingu stálþils við norðurkant Friðarhafnar. Einnig er lögð til nokkur tilfærsla verkefna innan tímabilsins. Þar er fyrst og fremst um að ræða að endurbygging Nausthamarsbryggju getur hafist árið 1999 í stað ársins 2000, en endur­byggingu ískants í Friðarhöfn er frestað á móti. Enn fremur eru framkvæmdir í smábáta­höfn færðar til ársins 1999 frá árunum 2000 og 2001.
     14.      Áætlun um löndunarbryggju við fiskmarkað í Sandgerði er endurskoðuð til lækkunar.
     15.      Lagt er til að við bætist nýtt verkefni hjá Hafnasamlagi Suðurnesja, undirbúningur að lengingu grjótgarðs í Njarðvík.
     16.      Loks er lagt til að undir liðnum Reykjanes, Hafnarfjörður verði bætt við lið, Háibakki, lenging, stálþil. Gert er ráð fyrir að greiðsluþátttaka ríkissjóðs verði 30% eins og í gild­andi hafnaáætlun. Jafnframt verði frestað fram yfir lok áætlunartímans uppgjöri á 19 millj. kr. skuld ríkissjóðs við Hafnarfjarðarhöfn. Þetta hefur í för með sér að heildarskuld ríkissjóðs við hafnarsjóðina við lok áætlunartímabilsins mun hækka úr 464,6 millj. kr. í 483,6 millj. kr.
    Stefán Guðmundsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 16. des. 1998.



Einar K. Guðfinnsson,


form., frsm.


Guðmundur Árni Stefánsson,


með fyrirvara.


Egill Jónsson.



Ragnar Arnalds,


með fyrirvara.


Árni Johnsen.


Magnús Stefánsson.



Ásta R. Jóhannesdóttir,


með fyrirvara.


Kristján Pálsson.