Ferill 378. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 605  —  378. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um rannsóknir á gerð vöruhafnar í Þorlákshöfn.

Flm.: Árni Johnsen.



    Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að hlutast til um að Siglingastofnun Íslands hefji sem fyrst rannsóknir á gerð vöruhafnar í Þorlákshöfn.

Greinargerð.


    Við suðurströnd Íslands er algjör hafnleysa. Eina skjólið fyrir suðvestanöldunni er í Skötubótinni í Þorlákshöfn. Þessar aðstæður nýttu menn sér upp úr 1960 þegar hafist var handa við byggingu fiskiskipahafnar í Þorlákshöfn. Höfnin var hönnuð fyrir algenga gerð vertíðarbáta á þeim tíma.
    Í Vestmannaeyjagosinu 1973 varð ljóst að stækka þyrfti höfnina og var fengið lán hjá Al­þjóðabankanum til að standa undir gerð fiski- og ferjuhafnar í Þorlákshöfn. Alþjóðabankinn gerði m.a. þá kröfu fyrir lánveitingu til Þorlákshafnar að höfnin þjónaði fiskiskipum og flutn­ingaskipum sem væru allt að 100 m löng.
    Lokið var við stækkun hafnarinnar árið 1976. Síðan hefur verið unnið að gerð löndunar- og viðlegumannvirkja innan hafnar. Þannig var aðstaða fyrir Herjólf gerð á árunum 1991–92 og nýr vörukantur tekinn í notkun á árinu 1997.
    Núverandi hafnarsvæði er nær fullnýtt og annar höfnin að öllu leyti núverandi fiskiskipa­flota Þorlákshafnar og flutningaskipum sem eru allt að 3.000 tonn að stærð. Dýpi er þó tak­markað fyrir djúprist fiskiskip (loðnuskip).
    Siglingastofnun hefur að ósk hafnarstjórnar Þorlákshafnar unnið að gerð frumdraga að stækkun hafnarinnar miðað við annars vegar 10.000 tonna og hins vegar allt að 20.000 tonna vöruflutningaskip.
    Vegna þess hve hafnarsvæðið er grunnt og takmörkuð stöðvunarvegalengd innan hafnar er ekki talið mögulegt að gera ráð fyrir stærri skipum en 20.000 tonn í reglulegum siglingum.

Stækkun I, viðmiðunarskip 10.000 tonn og 130 m langt.
    Reiknaður hefur verið kostnaðar við eina útfærslu á aðstöðu fyrir þetta viðmiðunarskip innan marka núverandi hafnar. Til að skapa 230 m snúningssvæði þarf að fjarlægja Norður­vararbryggju þannig að aðeins standi eftir 60–70 m (næst landi). Byggð yrði ný bryggja fyrir 10.000 tonna skip við Suðurvararbryggju. Löndunarbryggja fyrir nótaveiðiskip kæmi við þann hluta Norðurvararbryggju sem eftir stæði. Dýpkað yrði í innsiglingu í 8,5 m, snúnings­svæði í 8 m og 9 m við bryggjuna.
    Áætlaður heildarkostnaður er um 600 millj. kr.

Stækkun II, viðmiðunarskip 20.000 tonn og 160 m langt.
    Lengja þarf syðri brimvarnargarðinn um u.þ.b. 280 m svo að skjól haldist innan hafnar og í innsiglingu. Snúningssvæði innan hafnar þarf að vera 270 m og nýja stálþilið við Suður­vararbryggju 160 m langt. Dýpka þarf í innsiglingu í 10,5 m, í snúningssvæði í 10 m og 10 m við bryggjuna.
    Reiknaður hefur verið kostnaður við tvær útfærslur á stækkun hafnarinnar fyrir þetta við­miðunarskip.
    Gerir önnur útfærslan ráð fyrir að snúningssvæðið innan núverandi hafnar sé stækkað úr 230 m í 270 m en hin að snúningssvæðið verði utan við Norðurvarargarð. Í síðara tilvikinu þarf að taka Norðurgarðinn upp alveg að Svartaskersbryggju og byggja nýjan skjólgarð utan við snúningssvæðið. Einnig þarf að fjarlægja um 40 m framan af L-inu til að rýmka aðkomu að Suðurvararbryggju.
    Áætlaður heildarkostnaður við báðar tillögurnar er á bilinu 1.800–1.900 millj. kr.

Rök heimamanna.
    Helstu rök fyrir stækkun hafnarinnar eru m.a. að við lengingu Suðurgarðs mun sog í höfn­inni minnka og hún þar með verða mun öruggari en áður. Þá mundi aðkoma flutningaskipa og stærri fiskiskipa batna mjög. Nú er þar lítið athafnapláss, of mikil þrengsli til að koma stórum flutningaskipum með góðu móti upp að bryggjum og mjög erfitt getur verið að hemja stærri skip og báta þegar brimar. Lenging Suðurgarðs gefur einnig möguleika á fjölgun bryggjukanta við hann.
    Þar sem landrými innan hafnar er mjög takmarkað og veruleg þrengsli sem takmarka um­ferð stærri skipa telur hafnarstjórn að skoða eigi vandlega þann möguleika að nýr grjótgarð­ur komi austan núverandi Norðurgarðs og nái nýi garðurinn alveg upp í land í Skötubót. Þannig myndast mikið landrými innan hafnar sem gerbyltir möguleikum hafnarinnar til fram­tíðar og gerir Þorlákshöfn að öruggri lífhöfn fyrir stór og smá skip á einu erfiðasta hafsvæði veraldar. Einnig opnast ótal möguleikar á hvers konar hafnsækinni starfsemi. Höfnin gæti t.d. nýst til ferjusiglinga og hvers konar vöruflutninga til og frá landinu. Lega hafnarinnar gefur kost á styttri siglingu til Evrópuhafna og gætu inn- og útflytjendur sem að öðrum kosti nýttu sér hafnir við Faxaflóa notfært sér það. Akstursleiðir frá höfninni eru mjög greiðar og góðir vegir til allra átta að ekki sé talað um þegar „Suðurstrandarvegurinn“ hefur verið lag­aður. Nú eru athafnasvæði nálægt bryggjuköntum af skornum skammti. Ekki hefur verið hægt að verða við óskum aðila sem sótt hafa um lóðir og þeir því þurft að sækja annað. Er það miður þar sem hvert atvinnutækifæri er mikilvægt.
    Stór og örugg höfn í Þorlákshöfn styrkir byggðir Suðurlands. Þá kæmi í Þorlákshöfn vel til greina við staðarval fyrir stóriðju og frekari útflutning og vinnslu á ýmiss konar jarðefnum svo að dæmi séu tekin. Auk þess eiga sér nú stað viðræður við erlent stórfyrirtæki í grófiðn­aði og þurfa að liggja fyrir upplýsingar um möguleika á stækkun hafnarinnar svo að niður­staða fáist í þeim.




Fylgiskjal.

Stækkun I. Hafnaraðstaða fyrir 10.000 tonna skip.



(1 bls. mynduð)


Stækkun II. Hafnaraðstaða fyrir 20.000 tonna skip.

Tillaga A.



(1 bls. mynduð)

Stækkun II. Hafnaraðstaða fyrir 20.000 tonna skip.
Tillaga B.


(1 bls. mynduð)