Ferill 343. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 656  —  343. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta sjávarútvegsnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ara Edwald, aðstoðarmann sjávar­útvegsráðherra, og Kristján Skarphéðinsson og Árna Kolbeinsson frá sjávarútvegsráðuneyti, en Árni mætti einnig sem fulltrúi í sérfræðinganefnd sjávarútvegsráðherra. Þá komu á fund nefndarinnar Eiríkur Tómasson, Þorgeir Örlygsson og Baldur Guðlaugsson úr sérfræðinga­nefnd sjávarútvegsráðherra, Hólmgeir Jónsson og Sævar Gunnarsson frá Sjómannasambandi Íslands, Ágúst H. Elíasson, Arnar Sigurmundsson og Gunnar Tómasson frá Samtökum fisk­vinnslustöðva, Björn Jónsson og Kristján Ragnarsson frá Landssambandi íslenskra útvegs­manna og Hinrik Greipsson frá Þróunarsjóði sjávarútvegsins. Einnig komu á fund nefndar­innar Benedikt Valsson og Guðjón A. Kristjánsson frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Hilmar Baldursson, Yngvi Harðarson, Jón Árnason og Arnar Kristjánsson frá Lands­sambandi útgerðarmanna kvótalítilla skipa, Sturla Erlendsson, Jón Steinn Elíasson, Kristján Guðmundsson og Óskar Þór Karlsson frá Samtökum fiskvinnslu án útgerðar og Árni Múli Jónasson, Þórður Ásgeirsson, Snorri Pálmason og Guðmundur Kristmundsson frá Fiskistofu. Loks komu á fund nefndarinnar Örn Pálsson og Arthur Bogason frá Landssambandi smábáta­eigenda, Sigurður Líndal prófessor, Magnús Jóhannesson og Halldór Þorgeirsson frá um­hverfisráðuneyti, Helgi Laxdal frá Vélstjórafélagi Íslands, Júlíus Magnússon, Bragi Sigurðs­son, Þórður Ásgeirsson og Sigurður Kristjánsson frá svæðisfélaginu Kletti, Norðurlandi eystra, Friðrik Már Baldursson og Ásgeir Daníelsson frá Þjóðhagsstofnun og Guðmundur Malmquist og Bjarki Bragason frá Byggðastofnun.
    Umsagnir um málið bárust nefndinni frá Þjóðhagsstofnun, Verslunarráði Íslands, Strand­veiðifélaginu Króki, Vélstjórafélagi Íslands, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Sjó­mannasambandi Íslands, Vinnumálasambandinu, Samtökum fiskvinnslu án útgerðar, Far­manna- og fiskimannasambandi Íslands, Landssamtökum útgerðarmanna kvótalítilla skipa, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Hafrannsóknastofnun, ASÍ og Landssambandi smábátaeig­enda.
    Í dómi Hæstaréttar 3. desember sl. í máli nr. 145/1998: Valdimar Jóhannesson gegn ís­lenska ríkinu var dæmd ógild sú ákvörðun sjávarútvegsráðuneytisins 10. desember 1996 að hafna umsókn Valdimars um almennt og sérstakt veiðileyfi. Kemur fram í forsendum dómsins að ákvæði 5. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, sé í andstöðu við jafnræðisreglu 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar og þau sjónarmið um jafnræði sem gæta þarf við takmörkun á atvinnufrelsi skv. 1. mgr. 75. gr. hennar að því leyti sem leyfi til veiða í fiskveiðilandhelgi Íslands séu til frambúðar bundin við skip sem haldið var til veiða á ákveðnum tíma.
    Í ljósi dóms þessa þótti nauðsynlegt að leggja til breytingar á lögum um stjórn fiskveiða og skipaði sjávarútvegsráðherra nefnd sérfræðinga sem skilaði til hans tillögum að breyting­um. Í framhaldi af því lagði ríkisstjórnin fram frumvarp þetta.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með umfangsmiklum breytingum sem gerðar eru tillögur um í sérstöku þingskjali. Þær helstu eru eftirfarandi:
     1.      Meiri hlutinn leggur til að einungis verði heimilt að veita fiskiskipi eina gerð veiðileyfis, þ.e. veiðileyfi með almennu aflamarki, veiðileyfi með aflamarki sem úthlutað verði sam­kvæmt ákvæði til bráðabirgða II (krókaaflamarki), veiðileyfi með sóknardögum eða leyfi með þorskaflahámarki, sem falla mun úr gildi að loknum aðlögunartíma 1. september 2000.
     2.      Meiri hlutinn leggur til að frá og með 1. september 2000 skuli bátar fá leyfi til handfæraveiða með dagatakmörkunum að nánari skilyrðum uppfylltum. Verða þeir sem þá leið velja að tilkynna Fiskistofu um það val sitt fyrir 1. mars 1999. Heimilt verði að flytja sóknardaga innan hvers fiskveiðiárs eða varanlega milli báta sem leyfi hafa til veiða í handfærakerfi með dagatakmörkunum. Þó verði óheimilt að flytja hlutfallslega fleiri sóknardaga frá báti umfram þá daga sem fluttir hafa verið til báts en nemur hlutfallslegri nýtingu bátsins á úthlutuðum sóknardögum á fiskveiðiárunum 1996/1997 og 1997/1998. Skuli í því sambandi miðað við meðaltal af sóknardaganýtingu fiskveiðiáranna. Verði sóknardagar fluttir frá báti skuli þeir sóknardagar sem báturinn hefur eftir flutninginn ekki vera fleiri en mismunur þess fjölda sóknardaga sem heimilt var að flytja frá bátnum og þeirra sóknardaga sem fluttir voru, að teknu tilliti til sóknardaga sem fluttir hafa verið til bátsins. Verði sóknardagar fluttir til stærri báts í brúttótonnum talið en sá sem sóknar­dagar verði fluttir af skuli skerða flutta sóknardaga í hlutfalli við stærðarmun bátanna og broti sleppt. Á sama hátt skuli skerða sóknardagafjölda báts sem er stækkaður. Þá skuli með sama hætti fjölga sóknardögum sem fluttir eru til minni báts. Í öllum tilvikum verði skylt að tilkynna Fiskistofu um flutning sóknardaganna. Þá leggur meiri hlutinn til að óheimilt verði að veita nýjum bátum sem eru 6 brúttótonn eða stærri leyfi til hand­færaveiða með dagatakmörkunum. Einnig leggur meiri hlutinn til að óheimilt verði að stækka bát sem hefur leyfi til handfæraveiða með dagatakmörkunum þannig að hann verði 6 brúttótonn eða stærri. Meiri hlutinn leggur til að sameiginlegur þorskafli þessara báta verði á hverju fiskveiðiári sama hlutfall af 13,75% af heildarþorskafla hvers fisk­veiðiárs og nam samanlagðri hlutdeild þessara báta í 21.000 lestum miðað við reiknað þorskaflahámark skv. 2. gr. laga nr. 83/1995, auk aflaheimilda sem úthlutað skal sam­kvæmt ákvæði til bráðabirgða II. Leyfilegur fjöldi sóknardaga slíkra báta á hverju fisk­veiðiári verði ákveðinn fyrir hvert fiskveiðiár með því að reikna meðalþorskafla á hvern leyfðan sóknardag næstliðins fiskveiðiárs og deila þeirri tölu í hámarksþorskafla þessara báta á fiskveiðiárinu. Skuli sóknardögum fækka eða fjölga um heila daga og broti sleppt. Þó leggur meiri hlutinn til að sóknardögum skuli aldrei fækka meira en 25% milli fiskveiðiára. Meiri hlutinn leggur til að á yfirstandandandi fiskveiðiári og því næsta verði þeim er þessa leið velja heimilt að stunda veiðar í 23 daga, án takmarkana á heildarafla.
     3.      Meiri hlutinn leggur til að heimilt verði að flytja aflamark milli skipa sem nú stunda veiðar með dagatakmörkunum án undangenginna viðskipta á kvótaþingi. Þá leggur meiri hlutinn til að einungis verði heimilt að framselja aflamark báts sem er minni en 6 brl. eða brúttótonn til báts eða báta undir þeim stærðarmörkum. Ef bátur minni en 6 brl. eða brúttótonn verði stækkaður umfram þau mörk verði einungis heimilt að framselja þann hluta aflamarks bátsins sem leiddur verði af þeirri aflahlutdeild sem báturinn hafði fyrir stækkun til báta sem eru undir sömu stærðarmörkum.
     4.      Meiri hlutinn leggur til að þeir bátar sem stundað hafa veiðar með línu og handfærum með dagatakmörkunum eða þorskaflahámarki, aðrir en þeir sem velja fyrir 1. mars 1999 að fara inn í nýtt dagakerfi með framseljanlegum sóknardögum, skuli fá lengri aðlögun að aflamarkskerfi en frumvarpið gerir ráð fyrir. Þá verði sóknardagar þeirra fleiri en frumvarpið gerir ráð fyrir, þ.e. 32 fyrir báta sem stunda veiðar með línu og handfærum en 40 fyrir báta sem nota handfæri eingöngu.
     5.      Meiri hlutinn leggur til að við reikning aflahlutdeildar hvers báts sem stundar veiðar með dagatakmörkunum verði skipt milli þeirra á grundvelli aflareynslu þannig að 80% ákvarðist á grundvelli fiskveiðiáranna 1996/1997 og 1997/1998 og 20% á grundvelli reiknaðs þorskaflahámarks skv. 2. gr. laga nr. 83/1995. Þó skuli enginn bátur fá minni aflahlutdeild en 500 kg, miðað við óslægðan fisk.
     6.      Meiri hlutinn leggur til að hlutur báta sem veiða með línu og handfærum eða handfærum eingöngu verður aukinn um 601 lest af þorski eða um liðlega 20% og skiptist þessi afla­hlutdeild milli þeirra sem velja veiðar með krókaaflamarki og þeirra sem velja veiðar með handfærum með dagatakmörkunum. Verður hlutdeildinni skipt milli þeirra í sam­ræmi við aflareynslu.
     7.      Meiri hlutinn leggur til að á fiskveiðiárunum 1999/2000 til og með 2005/2006 skuli úthluta tilteknu magni aflamarks til báta sem höfðu aflahlutdeild 1. desember 1998 og eru minni en 200 brúttótonn, enda hafi þeir landað þorski á fiskveiðiárunum 1996/1997 eða 1997/1998. Skuli úthlutun til einstakra báta miðast við heildaraflamark þeirra í þorsk­ígildum talið. Skuli við útreikning miðað við aflahlutdeildarstöðu bátanna 1. desember 1998, úthlutað heildaraflamark fiskveiðiársins 1998/1999 og verðmætastuðla á því fisk­veiðiári, þó þannig að enginn bátur fái meira en 100% aukningu á þorskaflahámarki og enginn hærri úthlutun en 10 lestir miðað við óslægðan fisk. Skuli heildaraflaheimildir einstakra skipa aldrei verða meiri en 450 þorskígildislestir eftir úthlutun. Meiri hlutinn leggur einnig til að óháð úthlutun samkvæmt framansögðu skuli úthlutað til aflamarks­báta minni en 6 brl. eða 6 brúttótonn, sem 1. september nk. hafa jafnháa eða hærri afla­hlutdeild og 1. desember sl. og hafi landað þorskafla á fiskveiðiárunum 1996/1997 og 1997/1998, hækkun á aflahlutdeild þeirra um 15% í þorski.
     8.      Meiri hlutinn leggur til að á fiskveiðiárunum 1999/2000 til og með 2005/2006 hafi Byggðastofnun til ráðstöfunar aflaheimildir sem nemi 1.500 þorskígildislestum, miðað við óslægðan fisk, til að styðja byggðarlög sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarúvegi. Skuli þeim úthlutað í samráði við viðkomandi sveitarstjórnir. Skuli um­ræddar aflaheimildir dragast frá leyfðum heildarafla af þeim tegundum er þar um ræðir.
     9.      Meiri hlutinn leggur til að sjávarútvegsráðherra skipi nefnd til að endurskoða lög um stjórn fiskveiða og skuli þeirri endurskoðun lokið fyrir lok fiskveiðiársins 2000/2001. Gerir meiri hlutinn ráð fyrir að nefndin verði skipuð á breiðum grunni.

Alþingi, 9. jan. 1999.



Kristinn H. Gunnarsson,


form., frsm.


Árni R. Árnason.


Vilhjálmur Egilsson.



Einar Oddur Kristjánsson.


Hjálmar Árnason.


Guðmundur Hallvarðsson.



Stefán Guðmundsson.