Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 709, 123. löggjafarþing 343. mál: stjórn fiskveiða (veiðileyfi o.fl.).
Lög nr. 1 14. janúar 1999.

Lög um breyting á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.


1. gr.

     5. gr. laganna orðast svo:
     Við veitingu leyfa til veiða í atvinnuskyni koma aðeins til greina þau fiskiskip sem hafa haffærisskírteini og skrásett eru á skipaskrá Siglingastofnunar Íslands eða sérstaka skrá stofnunarinnar fyrir báta undir 6 metrum. Skulu eigendur þeirra og útgerðir fullnægja skilyrðum til að stunda veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands sem kveðið er á um í lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri og í lögum um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands. Á sama fiskveiðiári er þó aðeins heimilt að veita fiskiskipi eina gerð leyfis til veiða í atvinnuskyni, þ.e. veiðileyfi með almennu aflamarki, veiðileyfi með þorskaflahámarki, sbr. ákvæði til bráðabirgða I í lögum þessum, veiðileyfi með aflamarki sem úthlutað er samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II í lögum þessum (krókaaflamarki) eða veiðileyfi með sóknardögum.

2. gr.

     6. gr. laganna orðast svo:
     Bátar sem fá leyfi til handfæraveiða með dagatakmörkunum skulu frá og með 1. september 2000 stunda veiðar samkvæmt ákvæðum þessarar greinar.
     Þessum bátum er einungis heimilt að stunda veiðar á tímabilinu 1. apríl til 30. september ár hvert. Þeim er einungis heimilt að stunda veiðar með handfærum. Þó er sjávarútvegsráðherra heimilt að veita þeim leyfi til að stunda veiðar á botndýrum og háffiskum með sérhæfðum veiðarfærum og til hrognkelsaveiða í net.
     Sameiginlegur hámarksþorskafli þeirra báta sem stunda veiðar samkvæmt þessari grein skal á hverju fiskveiðiári vera sama hlutfall af 13,75% af heildarþorskafla hvers fiskveiðiárs og nam samanlagðri hlutdeild þessara báta í 21.000 lestum miðað við reiknað þorskaflahámark skv. 2. gr. laga nr. 83/1995, auk aflaheimilda sem úthlutað er samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II í lögum þessum. Fjöldi sóknardaga skal ákveðinn fyrir hvert fiskveiðiár, í fyrsta sinn fyrir fiskveiðiárið sem hefst 1. september 2000, með því að reikna meðalþorskafla á hvern leyfðan sóknardag næstliðins fiskveiðiárs og deila þeirri tölu í hámarksþorskafla þessara báta á fiskveiðiárinu. Sóknardögum skal fækka eða fjölga um heila daga og sleppa broti. Sóknardögum skal þó aldrei fækka um meira en 25% milli fiskveiðiára.
     Sóknardagur telst vera allt að 24 klst. frá upphafi veiðiferðar. Sóknardegi telst lokið þegar bátur landar afla. Ráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um fyrirkomulag sóknardaga og eftirlit með þeim. Utan sóknardaga eru allar veiðar bannaðar. Ráðherra getur þó heimilað að veiðar samkvæmt lokamálslið 2. mgr. séu utan sóknardaga.
     Heimilt er að flytja sóknardaga innan hvers fiskveiðiárs eða varanlega milli báta sem hafa leyfi til handfæraveiða með dagatakmörkunum. Sé sá bátur sem sóknardagar eru fluttir til stærri, í brúttótonnum talið, en sá sem sóknardagar eru fluttir frá skal skerða flutta sóknardaga í hlutfalli við stærðarmun bátanna og sleppa broti. Þá skal með sama hætti fjölga sóknardögum sem fluttir eru til minni báts. Á sama hátt skal skerða sóknardagafjölda báts sem er stækkaður. Miða skal við stærð báta 1. janúar 1999. Óheimilt er að flytja hlutfallslega fleiri sóknardaga frá báti, umfram þá daga sem fluttir hafa verið til báts, en nemur hlutfallslegri nýtingu bátsins á úthlutuðum sóknardögum á fiskveiðiárunum 1996/1997 og 1997/1998. Í því sambandi skal miðað við meðaltal af sóknardaganýtingu fiskveiðiáranna. Séu sóknardagar fluttir frá báti skulu þeir sóknardagar sem báturinn hefur eftir flutninginn vera mismunur þess fjölda sóknardaga sem heimilt er að flytja frá bátnum og þeirra sóknardaga sem fluttir hafa verið, að teknu tilliti til sóknardaga sem fluttir hafa verið til bátsins. Tilkynna skal Fiskistofu fyrir fram um flutning sóknardaga milli báta og öðlast flutningurinn ekki gildi fyrr en Fiskistofa hefur staðfest hann.
     Óheimilt er að veita bátum 6 brúttótonn eða stærri, sem ekki hafa haft leyfi til handfæraveiða með dagatakmörkunum, leyfi til að stunda veiðar samkvæmt þessari grein. Þá er óheimilt að stækka bát sem hefur leyfi til handfæraveiða með dagatakmörkunum þannig að hann verði 6 brúttótonn eða stærri.

3. gr.

     Í stað orðanna „eða þorskaflahámarks“ í 2. mgr. 6. gr. a laganna kemur: eða krókaaflamarks.

4. gr.

     1. tölul. 3. mgr. 7. gr. laganna orðast svo: Áætlaðan afla báta sem stunda veiðar með dagatakmörkunum.

5. gr.

     2. málsl. 6. mgr. 11. gr. laganna orðast svo: Aflahlutdeild sem stafar af ákvæði til bráðabirgða II í lögum þessum (krókaaflahlutdeild) verður aðeins flutt til báts sem er undir 6 brl. eða 6 brúttótonnum.

6. gr.

     Eftirtaldar breytingar verða á 12. gr. laganna:
  1. 2. málsl. 1. mgr. fellur brott.
  2. Við 2. mgr. bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Þegar um er að ræða flutning krókaaflamarks.
  3. 1. málsl. 5. mgr. orðast svo: Veiði fiskiskip minna en 50% af samanlögðu aflamarki sínu í þorskígildum talið tvö fiskveiðiár í röð fellur aflahlutdeild þess niður og skal aflahlutdeild annarra skipa í viðkomandi tegundum hækka sem því nemur.
  4. Orðin „eða veiðileyfis“ í 6. mgr. falla brott.
  5. Við 7. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þó er heimilt með samþykki Fiskistofu að víkja frá þessari takmörkun á heimild til flutnings aflamarks í þeim tilvikum að um breytingar á skipakosti viðkomandi útgerðar sé að ræða og aflahlutdeildin sé jafnframt flutt milli viðkomandi skipa.
  6. Við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  7.      Krókaaflamark verður aðeins flutt til báta sem eru undir 6 brl. eða 6 brúttótonnum.


7. gr.

     3. mgr. 18. gr. laganna orðast svo:
     Innheimta skal sérstakt veiðieftirlitsgjald vegna báta sem stunda handfæraveiðar með dagatakmörkunum. Gjald samkvæmt þessari málsgrein skal innheimt árlega. Skal gjaldið vera jafnhátt gjaldi vegna tilkynningar um aflamark skv. 2. mgr. og gilda ákvæði þeirrar málsgreinar um gjald þetta eftir því sem við getur átt. Gjald samkvæmt þessari málsgrein skal innheimt samhliða gjaldi vegna almenns veiðileyfis skv. 4. mgr. Skal gjaldið miðast við landaðan afla á undanfarandi tímabili frá 1. ágúst til 31. júlí og skráningu landaðs afla í aflaupplýsingakerfi Fiskistofu.

8. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Bátar sem stundað hafa veiðar með línu og handfærum með dagatakmörkunum eða þorskaflahámarki, krókabátar, skulu á fiskveiðiárunum 1998/1999 og 1999/2000 stunda veiðar samkvæmt þessu ákvæði.
     Krókabátum er einungis heimilt að stunda veiðar með línu og handfærum eða einungis með handfærum. Þó er sjávarútvegsráðherra heimilt að veita þeim leyfi til að stunda veiðar á botndýrum með þeim veiðarfærum sem til þarf, svo sem plógum og gildrum, svo og til hrognkelsaveiða í net.
     Heildarþorskaflaviðmiðun krókabáta er 13,75% af ákvörðuðum heildarþorskafla. Þar af er samanlagt þorskaflahámark þeirra báta sem þann kost hafa valið 12,64%, heildarþorskaflaviðmiðun þeirra báta sem stunda veiðar með dagatakmörkunum og nota línu og handfæri 0,18% og heildarþorskaflaviðmiðun þeirra báta sem stunda veiðar með dagatakmörkunum og nota handfæri eingöngu 0,93%.
     Heimilt er að framselja varanlega þorskaflahámark krókabáts til annars krókabáts eða báta sem stunda veiðar með þorskaflahámarki. Innan fiskveiðiárs er heimilt að flytja allt að 30% af úthlutuðu þorskaflahámarki krókabáts til annars krókabáts eða báta sem stunda veiðar með þorskaflahámarki. Heimilt er að flytja allt að 20% af þorskaflahámarki frá fiskveiðiárinu 1998/1999 yfir á fiskveiðiárið 1999/2000. Enn fremur er heimilt að flytja til krókabáts á þorskaflahámarki aflamark af þorski skv. 7. gr. Um þann flutning gilda almennar reglur um flutning aflamarks. Tilkynna skal Fiskistofu fyrir fram um flutning þorskaflahámarks milli báta og öðlast hann ekki gildi fyrr en Fiskistofa hefur staðfest flutninginn. Heimilt er að veita báti, sem stundað hefur veiðar með tilteknum fjölda sóknardaga síðastliðin tvö fiskveiðiár, leyfi til að stunda veiðar með þorskaflahámarki þess í stað, en reiknað þorskaflahámark bátsins verður þá áfram hluti sameiginlegs hámarksþorskafla báta sem stunda veiðar samkvæmt dagatakmörkunum.
     Sóknardagur telst vera allt að 24 klukkustundir frá upphafi veiðiferðar. Sóknardegi telst lokið þegar bátur landar afla. Ráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um fyrirkomulag sóknardaga og eftirlit með þeim. Utan sóknardaga eru allar veiðar bannaðar. Ráðherra getur þó heimilað að veiðar í sérhæfð veiðarfæri samkvæmt síðari málslið 2. mgr. þessa ákvæðis, sem og veiðar með sérhæfðri línu til veiða á háffiskum, séu utan sóknardaga.
     Fjöldi sóknardaga þeirra báta sem stunda veiðar með dagatakmörkunum og nota línu og handfæri skal vera 32 á hvoru fiskveiðiári 1998/1999 og 1999/2000. Ef bátur rær með línu skal margfalda fjölda nýttra daga með tölunni 1,9 á tímabilinu frá 1. maí til 1. september en með tölunni 1,35 á öðrum tíma. Þorskafli hvers báts má þó eigi vera meiri en 30 lestir á hvoru fiskveiðiári miðað við óslægðan fisk.
     Sé einn maður í áhöfn krókabáts er óheimilt að róa með og eiga í sjó fleiri en 12 bala alls af línu fyrir hvern sóknardag en 20 bala séu tveir eða fleiri í áhöfn. Miðað er við að 500 krókar séu á línu í hverjum bala.
     Fjöldi sóknardaga þeirra báta sem veiðar stunda með dagatakmörkunum og nota handfæri eingöngu skal vera 40 á hvoru fiskveiðiári 1998/1999 og 1999/2000. Þó skal þorskafli hvers báts eigi vera meiri en 30 lestir á hvoru fiskveiðiári miðað við óslægðan fisk.
     Heimilt er að flytja veiðileyfi frá krókabáti sem leyfi hefur til að veiða samkvæmt þessu ákvæði til annars jafnstórs krókabáts miðað við rúmtölu. Óheimilt er að flytja veiðileyfi til krókabáts sem er stærri en sá krókabátur sem veiðileyfi lætur nema jafnframt sé flutt veiðileyfi af öðrum krókabáti sem er þrefalt stærri að rúmtölu en sem stækkuninni nemur. Slíkur bátur má þó ekki verða stærri en 6 brúttótonn. Óheimilt er að flytja veiðileyfi frá báti sem stundar veiðar með þorskaflahámarki til báts sem stundar veiðar með tilteknum fjölda sóknardaga.
     Óheimilt er að stækka krókabát nema flutt sé veiðileyfi af öðrum báti sem er þrefalt stærri að rúmtölu en sem stækkuninni nemur. Óheimilt er að flytja veiðileyfi frá báti sem stundar veiðar með þorskaflahámarki til báts sem stundar veiðar með tilteknum fjölda sóknardaga. Slíkum báti má þó aldrei breyta svo að hann verði stærri en 6 brúttótonn.
     Ráðherra getur ákveðið að afli teljist ekki til þorskaflahámarks og veiðidagar ekki til sóknardaga á tilteknum fjölda opinberra sjóstangaveiðimóta á fiskveiðiárunum 1998/1999 og 1999/2000.
     Áætlaðan afla krókabáta á fiskveiðiárinu 1999/2000 skal draga frá leyfðum heildarafla áður en honum er skipt á grundvelli aflahlutdeildar.
     Innheimta skal sérstakt veiðieftirlitsgjald vegna báta sem stunda veiðar samkvæmt þessu bráðabirgðaákvæði. Skal gjaldið vera jafnhátt gjaldi vegna tilkynningar um aflamark skv. 2. mgr. 18. gr. laganna og gilda ákvæði þeirrar málsgreinar um gjald þetta eftir því sem við getur átt. Gjald samkvæmt þessari málsgrein skal innheimt samhliða gjaldi vegna almenns veiðileyfis skv. 4. mgr. 18. gr. Skal gjaldið miðast við landaðan afla á undanfarandi tímabili frá 1. ágúst til 31. júlí og skráningu landaðs afla í aflaupplýsingakerfi Fiskistofu.
     Þrátt fyrir ákvæði þessa bráðabirgðaákvæðis skal þeim bátum sem stundað hafa veiðar með línu og handfærum eða handfærum eingöngu með dagatakmörkunum gefast kostur á að velja að stunda veiðar samkvæmt ákvæðum 6. gr. laganna, enda hafi þeir tilkynnt Fiskistofu um val sitt fyrir 1. mars 1999. Á fiskveiðiárunum 1998/1999 og 1999/2000 skal þessum bátum heimilt að stunda veiðar í 23 sóknardaga án takmarkana á heildarafla. Að öðru leyti gildir bráðabirgðaákvæði þetta um veiðar þessara báta.

II.
     Fyrir upphaf fiskveiðiársins 1999/2000 skal krókabátum úthlutað aflahlutdeild sam kvæmt þessu ákvæði.
     Bátar sem stundað hafa veiðar með þorskaflahámarki skulu fá úthlutað aflahlutdeild í þorski miðað við þá hlutdeild sem aflahámark bátsins er í þeim 12,64% af hámarksþorskafla sem í hlut þessa bátaflokks hefur komið.
     Þeirri 0,18% hlutdeild í hámarksþorskafla sem komið hefur í hlut báta sem stunda veiðar með línu og handfærum með dagatakmörkunum, auk aflahlutdeildar í þorski sem nemur 95 lestum miðað við óslægðan fisk, skal skipt milli báta á grundvelli aflareynslu þannig að 80% séu miðuð við aflareynslu fiskveiðiárin 1996/1997 og 1997/1998 og 20% séu miðuð við reiknað þorskaflahámark skv. 2. gr. laga nr. 83/1995. Þó skal enginn bátur fá minni aflaheimild en 500 kg, miðað við óslægðan fisk.
     Þeirri 0,93% hlutdeild í hámarksþorskafla sem komið hefur í hlut báta sem stunda veiðar með handfærum eingöngu með dagatakmörkunum, auk aflahlutdeildar í þorski sem nemur 506 lestum miðað við óslægðan fisk, skal skipt milli báta á grundvelli aflareynslu þannig að 80% séu miðuð við aflareynslu fiskveiðiárin 1996/1997 og 1997/1998 og 20% séu miðuð við reiknað þorskaflahámark skv. 2. gr. laga nr. 83/1995. Þó skal enginn bátur fá minni aflaheimild en 500 kg, miðað við óslægðan fisk.
     Samanlögð hlutdeild krókabáta í hámarksafla af ýsu, ufsa og steinbít skal vera jöfn meðalhlutdeild þeirra í heildarafla af hverri þessara tegunda almanaksárin 1996, 1997 og 1998 og skal hún skiptast milli veiðikerfa þeirra í sömu innbyrðis hlutföllum og þorskur skv. 2.–4. mgr. Í flokki báta sem stundað hafa veiðar með þorskaflahámarki skal hlutdeild af ýsu, ufsa og steinbít skiptast í hlutfalli við veiðar hvers báts um sig á þessum árum og skal í þeim samanburði miðað við tvö bestu ár hvers báts af árunum 1996, 1997 og 1998. Við útreikning þennan skal afli árið 1998 margfaldaður með tveimur. Í flokkum báta sem stundað hafa veiðar með dagatakmörkunum skal hlutdeild af ýsu, ufsa og steinbít skiptast jafnt milli báta innan hvors flokks um sig.
     Það aflamark sem úthlutað er á grundvelli aflahlutdeildar samkvæmt þessu ákvæði (krókaaflamark) er óheimilt að nýta á annan hátt en við línu- og handfæraveiðar. Aflahlutdeild og aflamark samkvæmt þessu ákvæði verður ekki flutt til báts sem hefur aðra gerð veiðileyfis.

III.
     Á fiskveiðiárunum 1999/2000 til og með 2005/2006 skal úthluta árlega 4.000 lestum af þorski, að frádregnum 601 lest sem úthlutað er skv. 3. og 4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II og úthlutun skv. 2. mgr. þessa bráðabirgðaákvæðis. Þessum aflaheimildum skal úthlutað til báta sem höfðu aflahlutdeild 1. desember 1998 og eru minni en 200 brúttótonn, enda hafi þeir landað þorskafla á fiskveiðiárinu 1996/1997 eða 1997/1998. Aflaheimildir þessar miðast við óslægðan fisk og skulu þær dregnar frá leyfðum heildarafla þorsks áður en honum er skipt á grundvelli aflahlutdeildar. Úthlutun til einstakra báta skal miðast við heildaraflamark þeirra í þorskígildum talið. Við útreikning þennan skal miða við aflahlutdeildarstöðu þeirra 1. desember 1998, úthlutað heildaraflamark fiskveiðiársins 1998/1999 og verðmætastuðla á því fiskveiðiári, þó þannig að enginn bátur fái meira en 100% aukningu á þorskaflamarki og enginn hærri úthlutun en 10 lestir miðað við óslægðan fisk. Aldrei skal þó úthlutun samkvæmt þessari málsgrein leiða til þess að heildaraflaheimildir einstakra skipa verði meiri en 450 þorskígildislestir samtals.
     Þá skal úthluta aflahlutdeild í þorski til aflamarksbáta sem eru minni en 10 brl. eða 10 brúttótonn, enda hafi þeir sömu eða meiri aflahlutdeild í þorski 1. september 1999 en 1. desember 1998 og hafi landað þorskafla á fiskveiðiárinu 1996/1997 eða 1997/1998. Þorskaflahlutdeild þessara báta skal aukin um 5% miðað við aflahlutdeildarstöðu þeirra 1. desember 1998.
     Við upphaf fiskveiðiársins 1999/2000 skal endurreikna aflahlutdeildir einstakra fiskiskipa að teknu tilliti til þeirra breytinga sem leiðir af ákvæðum til bráðabirgða II og III.

IV.
     Á fiskveiðiárunum 1999/2000 til og með fiskveiðiársins 2005/2006 hefur Byggðastofnun árlega til ráðstöfunar aflaheimildir sem nema 1.500 þorskígildislestum, miðað við óslægðan fisk, til að styðja byggðarlög sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Skal þeim úthlutað í samráði við viðkomandi sveitarstjórnir. Aflaheimildir skulu vera í þorski, ýsu, steinbít og ufsa í hlutfalli við leyfðan heildarafla af þessum tegundum. Aflaheimildir þessar miðast við óslægðan fisk og skulu þær dregnar frá leyfðum heildarafla þessara tegunda áður en honum er skipt á grundvelli aflahlutdeildar.

V.
     Sjávarútvegsráðherra skal skipa nefnd til að endurskoða lög um stjórn fiskveiða. Skal þeirri endurskoðun lokið fyrir lok fiskveiðiársins 2000/2001.

Samþykkt á Alþingi 13. janúar 1999.