Ferill 510. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 822  —  510. mál.
Frumvarp til lagaum Háskólann á Akureyri.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)I. KAFLI
Hlutverk.
1. gr.

    Háskólinn á Akureyri er vísindaleg mennta- og rannsóknastofnun. Hann veitir stúdentum sínum menntun til að sinna sjálfstætt vísindalegum verkefnum og til að gegna ýmsum ábyrgð­arstörfum í atvinnulífinu, sem einkum tengjast sjávarútvegi, rekstri, menntun og heilbrigði. Háskólanum er heimilt að veita framhaldsmenntun og endurmenntun í þeim fræðum sem stunduð eru í deildum hans.

II. KAFLI
Kennarar og stúdentar.
2. gr.

    Kennarar við Háskólann á Akureyri eru prófessorar, dósentar, lektorar, aðjúnktar og stundakennarar.
    Prófessorar, dósentar og lektorar hafa einir kennslu og rannsóknir að aðalstarfi. Aðjúnkt­ar eru ráðnir til eins árs hið skemmsta. Stundakennarar eru ráðnir til eins árs eða skemmri tíma.
    Háskólaráð setur nánari reglur um starfsskyldur kennara.

3. gr.

    Rektor ræður prófessora, dósenta, lektora, aðjúnkta og stundakennara.
    Umsóknum um prófessorsstarf, dósents- og lektorsstörf skulu fylgja upplýsingar um háskólamenntun, vísindastörf og önnur störf, svo og ritsmíðar og rannsóknir umsækjenda.
    Rektor skal skipa þriggja manna dómnefnd eftir tilnefningu háskólaráðs og menntamála­ráðherra til tveggja ára í senn, til þess að dæma um hæfi umsækjenda til að gegna starfi pró­fessors, dósents eða lektors. Háskólaráð tilnefnir tvo menn í nefndina og er annar þeirra for­maður. Annar fulltrúa háskólaráðs skal starfa utan háskólans. Menntamálaráðherra tilnefnir einn mann í nefndina. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt.
    Í dómnefnd má skipa þá eina sem lokið hafa meistaraprófi úr háskóla.
    Að ábendingu viðkomandi deildar skal rektor hverju sinni tilnefna sérfræðing til ráðgjafar fyrir dómnefnd um mat á fræðistörfum umsækjenda.
    Dómnefnd skal gefa rökstutt álit um hvort ráða megi af vísindagildi rita og rannsókna um­sækjenda, svo og af námsferli hans og störfum, að hann sé hæfur til að gegna starfinu. Engum manni má veita starf prófessors, dósents eða lektors nema meiri hluti dómnefndar hafi látið það álit í ljós að hann sé til þess hæfur.
    Háskólaráði er heimilt að setja reglur sem kveða á um að ákvæði 3. mgr. gildi við ráðningu sérfræðinga á sviði rannsókna og annarra fræðistarfa við háskólann.
    Heimilt er að flytja lektor úr lektorsstarfi í dósentsstarf og dósent úr dósentsstarfi í pró­fessorsstarf, enda liggi fyrir hæfnisdómur dómnefndar.
    Háskólaráð setur nánari reglur um nýráðningar og framgang í starfi þar sem einnig er kveðið á um störf dómnefnda og meðferð umsókna.

4. gr.

    Háskólaráð skal, að fengnum tillögum deilda, staðfesta reglur um skráningu stúdenta í einstakar deildir þar sem kveðið er á nánar um inntökuskilyrði í viðkomandi deild. Þeir einir teljast stúdentar við Háskólann á Akureyri sem skrásettir hafa verið til náms samkvæmt regl­um þessum.
    Við skrásetningu til náms greiðir stúdent skrásetningargjald, 25.000 kr. Heimilt er að taka 15% hærra gjald af þeim sem fá leyfi til skrásetningar utan auglýstra skrásetningartímabila.

III. KAFLI
Stjórnskipulag.
5. gr.

    Háskólaráð er æðsti ákvörðunaraðili innan skólans nema annað sé berum orðum tekið fram í lögum.
    Í háskólaráði eiga sæti:
     1.      Rektor, sem er sjálfkjörinn í ráðið og er jafnframt forseti þess.
     2.      Tveir fulltrúar kennara sem ráðnir eru ótímabundið við skólann og tveir til vara, kosnir á almennum fundi þeirra til tveggja ára í senn.
     3.      Einn fulltrúi stúdenta og einn til vara, kosnir til tveggja ára í senn samkvæmt reglum stúdentafélags háskólans.
     4.      Einn fulltrúi skipaður af menntamálaráðherra og einn til vara til tveggja ára í senn.
    Varaforseta kýs ráðið úr hópi háskólaráðsfulltrúa kennara.
.

6. gr.

    Rektor boðar til fundar í háskólaráði eftir þörfum. Óski tveir háskólaráðsfulltrúar eftir fundi er rektor skylt að boða til hans. Rektor stýrir fundum ráðsins.
    Háskólaráðsfundur er ályktunarhæfur, ef helmingur atkvæðisbærra fulltrúa sækja fund hið fæsta. Afl atkvæða ræður úrslitum mála. Ef atkvæði eru jöfn sker atkvæði forseta úr. Varafulltrúar skulu sitja fundi háskólaráðs í forföllum aðalfulltrúa.

7. gr.

    Menntamálaráðherra skipar rektor til fimm ára samkvæmt tilnefningu háskólaráðs. Skal staðan auglýst laus til umsóknar. Háskólaráð setur reglur um hvernig staðið skuli að tilnefn­ingu rektors.

8. gr.

    Háskólaráð ákvarðar deildarskipan háskólans og afmarkar aðrar stjórnunareiningar innan skólans. Háskólaráð setur reglur um yfirstjórn deilda og um val á deildarforsetum. Störf deildarforseta skulu auglýst laus til umsóknar. Háskólaráð setur deildum starfsreglur og regl­ur um hvert skuli vera verksvið, vald og ábyrgð hverrar stjórnunareiningar innan hverrar deildar.
    Stofnanir og einstakir starfsmenn háskólans, sem ekki lúta sérstakri stjórn, heyra beint undir embætti rektors.

9. gr.

    Fyrir hverja deild háskólans eða skilgreinda námsbraut skal setja námskrá, sem kveður á um markmið, inntak og meginviðfangsefni námsins, þar með talda starfsþjálfun á vettvangi þar sem það á við.
    Á grundvelli námskrár skal árlega gefa út kennsluskrá þar sem m.a. er gerð grein fyrir til­högun náms, kennsluháttum og námsmati. Í kennsluskrá eða öðrum starfsáætlunum einstakra deilda skal enn fremur kveðið á um missira- eða annaskiptingu, kennslutíma, próftímabil, leyfi og önnur atriði er varða skipulag náms.
    Háskólaráð staðfestir námskrár og kennsluskrár, en deildarráð ber ábyrgð á gerð þeirra.

IV. KAFLI

Kennsla, framkvæmd prófa, agaviðurlög.

10. gr.

    Háskólaráð skal setja reglur um prófgráður, prófgreinar, próftíma, prófdómara, endur­tekningu prófa, viðurkenningu erlendra prófa, skiptingu fullnaðarprófs í fleiri en einn hluta, undirbúningspróf, einkunnir og annað er að prófum lýtur. Heimilt er í reglum háskólaráðs að kveða á um hámarkstímalengd í námi eða einstökum hlutum þess og um afleiðingar ef þeim ákvæðum er ekki fullnægt.
    Stúdent á rétt til að fá útskýringar kennara á mati skriflegrar úrlausnar sinnar ef hann æskir þess innan 15 daga frá birtingu einkunnar. Vilji stúdent sem ekki hefur staðist próf þá eigi una mati kennarans getur hann snúið sér til viðkomandi deildarforseta. Skal þá prófdóm­ari skipaður í hverju tilviki. Einnig getur kennari eða meiri hluti stúdenta, telji þeir til þess sérstaka ástæðu, óskað skipunar prófdómara í einstöku prófi. Háskólarektor skipar prófdóm­endur að fengnum tillögum háskóladeildar.

11. gr.

    Rektor getur veitt stúdent áminningu eða vikið honum úr skóla um tiltekinn tíma eða að fullu, ef hann hefur gerst sekur um brot á lögum eða öðrum reglum háskólans, eða framkoma hans gagnvart starfsmönnum háskólans eða öðrum stúdentum er ósæmileg eða óhæfileg. Áð­ur en ákvörðun um brottrekstur er tekin skal leita umsagnar háskóladeildar og gefa stúdentin­um kost á að tjá sig um málið. Stúdent er heimilt að skjóta ákvörðun rektors til áfrýjunar­nefndar samkvæmt lögum um háskóla. Málskot frestar framkvæmd ákvörðunar rektors. Rektor getur að hæfilegum tíma liðnum heimilað stúdent sem vikið hefur verið að fullu úr skóla að skrá sig aftur til náms í háskólanum ef aðstæður hafa breyst. Stúdent er heimilt að skjóta synjun rektors um skráningu til áfrýjunarnefndar.

V. KAFLI
Rannsóknir, bókasafn o.fl.
12. gr.

    Háskólanum er heimilt að starfrækja rannsóknastofnun á eigin vegum eða í samvinnu við aðra. Kennarar háskólans geta fullnægt rannsóknarskyldu sinni að nokkru eða öllu leyti með störfum í þágu rannsóknastofnunarinnar. Heimilt er að ráða sérfræðinga til starfa við hana.
    Rannsóknastofnunin skal eftir því sem aðstæður leyfa veita stúdentum skólans ráðgjöf og fræðslu um skipulagningu og framkvæmd rannsókna.
    Háskólaráð skal setja reglur, sem menntamálaráðherra staðfestir, um starfsemi rann­sóknastofnunarinnar, um skipan stjórnar og gjaldtöku fyrir þjónustu sem rannsóknastofnunin veitir.
    Heimilt er háskólaráði að stofna sérstaka rannsóknasjóði. Skal um þá sett skipulagsskrá.

13. gr.

    Við háskólann er rannsókna- og sérfræðibókasafn sem tengist fræðasviðum skólans. Hlut­verk þess er að veita stúdentum og kennurum háskólans og öðrum lánþegum safnsins sér­hæfða þjónustu vegna kennslu, náms og rannsókna. Háskólaráð skal setja nánari reglur um starfsemi bókasafnsins.

14. gr.

    Háskólanum á Akureyri skal heimilt að taka gjald fyrir þjónustu sem telst utan þeirrar lögmæltu þjónustu sem háskólanum er skylt að veita. Háskólaráð setur nánari reglur um gjaldtöku og ráðstöfun gjalda samkvæmt ákvæði þessu.
    Háskólaráði er heimilt að semja við félög stúdenta, hollvinasamtök, einstaklinga, samtök þeirra og fyrirtæki eða opinberar stofnanir um að taka að sér þjónustu fyrir hönd Háskólans á Akureyri enda sé farið að ákvæðum í 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins.

15. gr.

    Háskólanum er heimilt að gera samstarfssamninga við aðrar stofnanir og fyrirtæki sem tengjast starfssviði háskólans, t.d. um kennslu, rannsóknir og ráðningu kennara og annara starfsmanna. Háskólaráð setur nánari reglur um stöðu þeirra starfsmanna innan háskólans sem þannig eru ráðnir til starfa við skólann.

16. gr.

    Að fenginni tillögu viðkomandi deildarfundar hefur háskólaráð rétt til þess að veita dokt­orsnafnbót. Slíka nafnbót má veita í heiðursskyni, að undangengnu doktorsnámi eða með vörn doktorsritgerðar.
    Háskólaráð setur sérstakar reglur um veitingu doktorsnafnbótar, þ.m.t. um doktorsnám og um vörn doktorsritgerða.

VI. KAFLI
Gildistaka, reglugerð o.fl.
17. gr.

    Menntamálaráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga.

18. gr.

    Allar reglur sem háskólaráð setur á grundvelli þessara laga skulu birtar í Stjórnartíðind­um.

19. gr.

    Lög þessi, sem sett eru með hliðsjón af lögum um háskóla, nr.136/1997, öðlast gildi 1. janúar 1999, og falla þá jafnframt úr gildi lög nr. 51/1992, um Háskólann á Akureyri, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Núverandi forstöðumenn deilda skulu gegna starfi deildarforseta þar til gildandi ráðning­arsamningar þeirra renna út.
    Núverandi rektor Háskólans á Akureyri situr út yfirstandandi kjörtímabil sitt, en að því loknu skal skipa rektor til fimm ára skv. 7. gr. laga þessara.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I.

    Frumvarp til laga um Háskólann á Akureyri var lagt fram á Alþingi, 122. löggjafarþingi, veturinn 1997–98 en varð þá eigi útrætt. Það er nú lagt fram á nýjan leik með fáeinum breyt­ingum, sbr. 4. mgr. 4. gr., ákvæði IV. kafla og 16. gr.
    Með frumvarpi þessu er verið að samræma lög um Háskólann á Akureyri lögum um háskóla, nr. 136/1997, en þau lög kveða á um að sérlög, sem nú eru í gildi um einstakar há­skólastofnanir, verði endurskoðuð og efni þeirra aðlagað nýju lögunum. Háskólinn á Akur­eyri var formlega stofnaður með lögum nr. 18/1988 og hafa þau lög verið endurskoðuð, sbr. núgildandi lög nr. 51/1992. Frumvarp þetta hefur verið unnið í náinni samvinnu við yfirstjórn háskólans, bæði rektor og háskólanefnd. Við samningu frumvarpsins var höfð hliðsjón af nýsettum lögum nr. 137/1997, um Kennaraháskóla Íslands.
    Lög nr. 136/1997, um háskóla, setja háskólastofnunum almennan ramma varðandi stjórn­sýslu stofnunarinnar og fjárveitingar af hálfu ríkisins auk þess sem sett eru meginskilyrði sem skólastofnun þarf að uppfylla til þess að geta talist háskóli.
    Ákvæði frumvarpsins um stjórnsýslu Háskólans á Akureyri eru í samræmi við lög um háskóla og hafa verið aðlöguð þeim auknu völdum og ábyrgð sem fylgja í kjölfar aukins sjálfstæðis stofnunarinnar. Lagt er til að háskólaráð komi í stað háskólanefndar samkvæmt gildandi lögum og að um skipun þess fari samkvæmt lögum um háskóla. Tillögur frumvarps­ins fela það í sér að fulltrúar í ráðinu verða fimm í stað níu áður. Frumvarpið gerir ráð fyrir að sú tilhögun verði óbreytt að störf deildarforseta séu auglýst laus til umsóknar í samræmi við þá skipan sem verið hefur hjá Háskólanum á Akureyri.
    Lög nr. 136/1997, um háskóla, kveða m.a. á um fjárveitingar af hálfu ríkisins til háskóla­stofnana. Skulu þær ákveðnar á grundvelli fjárhags- og starfsáætlunar hvers skóla. Mennta­málaráðherra er heimilt að gera samning við viðkomandi háskólastofnun um þjónustu og verkefni og greiðslur ríkisins fyrir þau í þeim tilgangi að skólarnir taki á sig aukna rekstrar­ábyrgð. Slíkur samningur tryggir að námsframboð viðkomandi stofnunar sé í samræmi við vilja stjórnvalda og að ákvarðanir þar að lútandi séu teknar á grundvelli heildaryfirlits um þörf fyrir háskólamenntun í landinu. Gera lög um háskóla ráð fyrir að skilgreindar verði almennar hlutlægar grundvallarreglur sem fjárveitingar til háskóla skulu taka mið af, sbr. 20. gr. laganna. Gerð sérstakra reiknireglna fyrir fjárveitingar til háskóla er nú á lokastigi og munu þar mótaðar meginreglur um fjárveitingar ríkisins til háskólastofnana.

II.

    Í frumvarpinu er eftirfarandi m.a. lagt til grundvallar:
     1.      Lög þessi ásamt háskólalögunum mynda ramma um starfsemi stofnunarinnar. Yfirstjórn skólans verður fengið sjálfdæmi innan þeirra marka sem lög þessi og háskólalögin setja, verði frumvarpið að lögum. Skólinn ákvarðar sjálfur deildaskiptingu og aðrar stjórnun­areiningar. Rektor ræður alla kennara, þar með talda prófessora. Í tengslum við aukið sjálfstæði um innri málefni kemur ákvæði um að í háskólaráði sitji fulltrúar sem ekki starfa innan stofnunarinnar og er það í samræmi við lög um háskóla.
     2.      Ekki er í frumvarpinu nákvæmlega skilgreint hvaða nám skuli vera í boði innan háskólans þó að tilgreind séu tiltekin menntunarsvið sem Háskólanum á Akureyri ber að leggja sérstaka áherslu á. Tekið er fram að skólanum sé heimilt að annast framhaldsmenntun á þeim sviðum sem hann starfar á. Lengd náms verður ákveðin í námskrá háskólans.
     3.      Ekki er tilgreint í frumvarpinu hvernig deildarskipan skólans skuli vera og er það hlutverk háskólaráðs að ákveða það.
     4.      Í lögum nr. 136/1997, um háskóla, er skýrt afmarkað hverjir fara með formleg völd og ábyrgð í háskólum og því þarf ekki að tilgreina þá í frumvarpi þessu.
     5.      Í frumvarpinu er lagt til að háskólaráð komi í stað háskólanefndar og að í háskólaráði sitji fimm fulltrúar.
     6.      Í lögum nr. 136/1997, um háskóla, er nákvæmlega tilgreint hvernig fjárveitingar til háskóla skulu ákvarðaðar og því er ekki fjallað um það í frumvarpinu.
     7.      Frumvarpið gerir ráð fyrir að Háskólinn á Akureyri hafi heimild til þess að semja við aðrar stofnanir og fyrirtæki, sem tengjast starfssviði skólans, um kennslu, rannsóknir, ráðningu kennara og annarra starfsmanna. Háskólinn hefur haft heimild til þess að gera slíka samninga við stofnanir og hefur það gefist vel. Með frumvarpinu er lagt til að heimild þessi verði rýmkuð þannig að háskólanum verði einnig heimilt að semja við fyrirtæki og enn fremur til þess að gera samstarfssamninga um ráðningu kennara. Er það í samræmi við þá þróun sem orðið hefur á þessu sviði.
     8.      Í frumvarpinu er lagt til að haldið verði í það fyrirkomulag núgildandi laga um Háskólann á Akureyri að stöður deildarforseta verði auglýstar lausar til umsóknar. Jafnframt er lagt til að það verði undir háskólaráði komið hvernig yfirstjórn deilda verði háttað. Hvort æðsta ákvörðunarvald verði í höndum deildarráðs eða deildarfunda og hver verði verkaskipting deildarforseta og yfirstjórnar deildarinnar. Þannig er skólanum auðveldað að móta sjálfur starfsemi sína.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Hér er hlutverk eða markmið háskólans almennt orðað, svo sem gert er í lögum um Há­skóla Íslands og núgildandi lögum um Háskólann á Akureyri. Felld er brott vísun til tiltek­innar deildarskipunar samkvæmt núgildandi lögum, enda gert ráð fyrir því að háskólaráð ákveði hana. Í greininni er tekið fram að skólinn sinni einkum menntun á tilteknum sviðum svo sem verið hefur, þó að hér sé ekki um tæmandi upptalningu að ræða. Umfang starfsemi skólans ræðst af fjárveitingum og þeim samningum sem gerðir eru við menntamálaráðuneytið um þær. Hér er sérstaklega tekið fram að Háskólinn á Akureyri er rannsóknaskóli og að skólanum sé heimilt að annast framhaldsmenntun og endurmenntun í þeim fræðum sem kennd eru við skólann.

Um 2. gr.

    Hér er starfsheitum kennara skólans lýst. Gert er ráð fyrir að háskólaráð setji almennar reglur um hvernig starfsskyldur kennara skiptast á einstaka þætti (kennslu, rannsóknir, þjón­ustu og stjórnun) og geti einnig hlutast til um aðra skiptingu vegna einstakra kennara. Í regl­um þessum skal einnig kveðið á um veitingu rannsóknarleyfa, sem eftir atvikum geta einnig náð til annarra starfsmanna. Starfsskylda háskólakennara er nú um það bil þessi: kennsla 50%, rannsóknir 40% og stjórnun 10%.

Um 3. gr.

    Hér er lagt til í samræmi við ákvæði laga um háskóla og lög um réttindi og skyldur starfs­manna ríkisins að forstöðumaður stofnunarinnar, rektor, annist sjálfur ráðningu allra kenn­ara. Þetta samræmist auknu sjálfstæði háskólastofnana og þar með aukinni ábyrgð. Hér er einnig lagt til að rektor skipi dómnefnd eftir tilnefningu háskólaráðs og menntamálaráðherra til tveggja ára í senn til þess að dæma um hæfi umsækjenda um prófessorsstörf, lektors- og dósentsstörf. Vísað er til hæfniskrafna til kennara samkvæmt lögum um háskóla. Í því sam­bandi þarf dómnefndin að meta ýmis atriði, m.a. miðað við hæfni kennara til að afla nýrrar þekkingar á atvinnulífinu og í ljósi sérstöðu Háskólans á Akureyri. Dómnefndin á að meta allar umsóknir um nýráðningar í störf kennara við háskólann, sem og umsóknir um framgang í starfi, en í hverju tilviki á nefndin að njóta leiðsagnar ráðgjafa sem rektor tilnefnir eftir ábendingu frá viðkomandi deild. Þannig er tryggt að dómnefndarkerfið sé skilvirkt og einfalt en jafnframt að í hverju tilviki sé hægt að meta hæfni umsækjenda út frá reynslu og þekkingu þeirra sem starfa á viðkomandi fræðasviði. Gert er ráð fyrir að kennarar skólans geti flust úr lektorsstarfi í dósentsstarf og úr dósentsstarfi í prófessorsstarf eftir ákveðnum reglum er háskólaráð setur. Það ákvæði verður þó að skýra með hliðsjón af því að engan má skipa í umræddar stöður án hæfnisdóms meiri hluta dómnefndar. Jafnframt er hér lagt til að háskólaráð setji reglur um nýráðningar og framgang, sem og reglur um ráðningu sérfræðinga á sviði rannsókna og annarra fræðistarfa. Í þeim reglum verði kveðið á um störf dómnefnda og meðferð umsókna.

Um 4. gr

    Samkvæmt lögum um háskóla geta háskólar ákveðið sérstök inntökuskilyrði til viðbótar þeim almennu, sem eru stúdentspróf eða sambærileg menntun. Hér er lagt til að háskólaráð setji nánari reglur um inntökuskilyrði eftir tillögum einstakra deilda. Þannig geta inntöku­skilyrði verið mismunandi eftir deildum. Hér er þó gert ráð fyrir að háskólaráð hafi síðasta orðið.
    Í 2. mgr. 4. gr. er ákvæði um skrásetningargjald. Það er sambærilegt við ákvæði 6. mgr. 21. gr. gildandi laga um Háskóla Íslands, nr. 131/1990, sbr. 1. gr. laga nr. 29/1996, en þó með tveimur breytingum.
    Í fyrsta lagi er lagt til að upphæð skrásetningargjaldsins, sem kemur til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert, verði hækkuð úr 24.000 kr. í 25.000 kr. Er það gert til að fylgja eftir verðlagshækkunum frá þeim tíma er skrásetningargjald við Háskóla Íslands var síðast ákveðið og enn fremur til samræmis við 4. gr. laga um Kennaraháskóla Íslands, nr. 137/1997. Skrásetningargjaldið og kostnaðarliðir sem undir það falla voru skýrðir í greinargerð með tillögu um lagabreytingu, sbr. lög nr. 29/1996. Gjaldið er bókfært hjá yfirstjórn háskól­ans í samræmi við fjárlög og stendur undir hluta kostnaðar við háskólastarfið. Þar má sem dæmi nefna margvíslega þjónustu sem stúdentum er veitt á námstímanum utan formlegra kennslustunda, svo sem skráningu þeirra í námskeið og próf, varðveislu upplýsinga um náms­feril stúdenta, upplýsingar um námsferil sem sendar eru stúdentum, auglýsing og miðlun upp­lýsinga vegna skráningar, skipulag kennslu og prófa, kennsluskrá, stúdentaskírteini, aðgang að þjónustu stúdentaskrár, deildaskrifstofum, alþjóðaskrifstofu, námsráðgjöf, bókasafni og tölvum og prenturum háskólans.
    Samkvæmt lögum um háskóla á háskólaráð að samþykkja fjárhagsáætlun allra deilda skólans og skólans í heild og síðan að semja við menntamálaráðherra um fjárveitingar til skólans á grundvelli langtímaáætlunar, sbr. ákvæði 19. og 20. gr. laga um háskóla. Þannig hefur menntamálaráðherra tök á því að hafa áhrif á menntastefnu skólans.


Um 5. gr.

    Hér er kveðið á um skipan háskólaráðs. Lagt er til að fimm menn verði í háskólaráði og er því nokkuð fækkað í yfirstjórn skólans frá því sem nú er. Samkvæmt frumvarpinu er rektor sjálfkjörinn í ráðið og jafnframt forseti þess, en um skipan ráðsins að öðru leyti er byggt á ákvæðum laga um háskóla. Tveir verði kjörnir fulltrúar kennara sem ráðnir eru tímabundið. Stúdentar kjósi einn fulltrúa og er gert ráð fyrir því að stúdentafélag skólans setji sér sérstakar reglur um kjör þeirra. Lagt er til að menntamálaráðherra skipi einn fulltrúa í ráðið. Rökin fyrir því að utanaðkomandi aðilar eigi sæti í æðstu stjórn skólans eru af þrennum toga: það styrkir stjórnsýslu stofnunarinnar, eflir tengsl hennar við samfélagið og veitir henni aukið aðhald.


Um 6. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 7. gr.

    Verksvið og ábyrgð rektors er skýrt afmarkað í lögum um háskóla. Einnig er þar að finna skýrar reglur um skipan rektors. Menntamálaráðherra skipar rektor eftir tilnefningu háskóla­ráðs. Hér er lagt til að háskólaráð setji nánari fyrirmæli um hvernig staðið skuli að tilnefn­ingu rektors. Greinin þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 8. gr.

    Lagt til að háskólaráð taki ákvörðun um deildarskipan skólans og aðrar stjórnunarein­ingar. Er þetta breyting frá ákvæðum núgildandi laga þar sem deildarskipan er lögbundin. Þessi tillaga er í samræmi við lög um háskóla sem m.a. er ætlað að tryggja aukið sjálfstæði háskólanna. Tilhögunin felur ekki í sér að stofnunin hafi sjálfdæmi um að ákvarða hvaða menntun er í boði eða á hvaða sviðum stofnunin veitir menntun, heldur tengist ákvörðun þar að lútandi samningi við stjórnvöld um fjármögnun stofnunarinnar í samræmi við ákvæði V. kafla laga nr. 136/1997, um háskóla.
    Í greininni er kveðið á um að háskólaráð setji reglur um yfirstjórn deilda og hvernig deildarforseti er valinn. Hliðstætt gildir um aðrar stjórnunareiningar sem háskólaráð telur nauðsynlegt að afmarka sérstaklega. Þeir starfsmenn eða stofnanir sem ekki lúta sérstakri stjórn heyra beint undir rektor. Þetta ákvæði breytir engu um að rektor ræður alla starfsmenn skólans.

Um 9. gr.

    Þessi grein kveður á um skyldur skólans til að gefa út nám- og kennsluskrár fyrir það nám sem í boði er. Háskólaráði ber að staðfesta námskrár í samræmi við opinbera stefnumörkun skólans um það nám sem í boði er samkvæmt reglugerð, sbr. 2. málsl. 1. gr. Námskrár gefa því aðilum utan skólans færi á að koma á framfæri tillögum um skipan námsins eða gera athugasemdir við einstaka þætti þess. Einnig má líta á þær sem hluta af upplýsingaskyldu stofnunarinnar til stjórnvalda, hagsmunaaðila og almennings. Kennsluskrár eru nánari út­færsla á ákvæðum námskrár um tilhögun náms. Háskólaráði ber einnig að staðfesta kennslu­skrá.

Um 10. gr.

    Í 11. gr. eru dregnar saman reglur sem varða prófgráður, framkvæmd prófa, prófdómara og fleira. Miðað er við að háskólaráð setji reglur um þessi efni en reynslan hefur kennt að brýnt er að enginn vafi leiki á um þetta atriði. Vakin er athygli á því að samkvæmt frumvarp­inu er það rektor sem skipar prófdómendur en ekki menntamálaráðherra svo sem verið hefur.

Um 11.gr.

    Efni greinar þessarar er í samræmi við meðferð kærumála sem verið hefur. Þó er í frum­varpinu sérstaklega kveðið á um rétt stúdenta til þess að skjóta ákvörðun um viðurlög til áfrýjunarnefndar samkvæmt lögum um háskóla. Með því að stúdent geti skotið álitamálum sem að þessu lúta til sjálfstæðs úrskurðaraðila er mikilvægt að agaviðurlög styðjist við heim­ildir í lögum þar sem um íþyngjandi ákvarðanir er að ræða af hálfu háskólayfirvalda.

Um 12. gr.

    Sambærilega lagagrein er að finna í núgildandi lögum um Háskólann á Akureyri. Grein­inni er m.a. ætlað að árétta mikilvægi rannsókna sem órjúfanlegs hluta af starfsemi háskól­ans, sbr. 1. gr. frumvarpsins um hlutverk háskólans.

Um 13. gr.

    Sambærileg ákvæði er að finna í núgildandi lögum um Háskólann á Akureyri. Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 14. gr.

    Í grein þessari er fjallað um annars vegar gjöld fyrir þjónustu sem Háskólinn á Akureyri veitir og hins vegar gjöld sem hann greiðir fyrir þjónustu.
    Í 14. gr. er kveðið á um að heimilt sé að taka gjald fyrir þjónustu sem háskólinn lætur í té. Með hliðsjón af 3. mgr. 19. gr. laga um háskóla, nr. 136/1997, er hér einkum átt við þjón­ustu sem háskólinn veitir og er fyrir utan hina lögboðnu þjónustu sem háskólanum er skylt að veita. Rökin fyrir gjaldtökuheimildinni eru þau að háskólinn hefur ekki heimild í lögum til að taka gjald fyrir margvíslega þjónustu utan þeirrar lögmæltu þjónustu sem honum er skylt að veita. Dæmi um slíkt gæti verið aukin þjónusta vegna tölvuaðgangs og innhringi­sambanda fyrir þá stúdenta sem þess óska. Einnig gæti hér fallið undir gjaldtaka fyrir veit­ingu vottorða um námsástundun og próf sem er utan reglulegrar upplýsingagjafar um þetta efni. Með þessu ákvæði er lagt til að þessi möguleiki verði rýmkaður, en um leið er lögð áhersla á að ákvarðanir um slík þjónustugjöld verða að byggjast á þeim kostnaði sem felst í því að veita þjónustuna.
    2. mgr. 14. gr. er ætlað að tryggja með ótvíræðum hætti að háskólaráði sé heimilt að ganga til samninga við félög stúdenta eða önnur félög um tiltekin afmörkuð rekstrarverkefni sem falla ekki undir þá lögmæltu þjónustu sem háskólanum er skylt að veita. Eins má fela fyrirtækjum, samtökum eða stofnunum að sinna þessum verkefnum. Hér undir geta fallið ýmis verkefni er varða til dæmis stoðþjónustu við stúdenta. Gert er ráð fyrir því að það sé á valdi háskólaráðs að semja við félög stúdenta um þjónustu af þessu tagi.

Um 15. gr.

    Með þessari grein er heimild Háskólans á Akureyri til þess að gera samstarfssamninga við stofnanir rýmkuð. Lagt er til að heimildin nái til fyrirtækja og taki til ráðningar kennara og annarra starfsmanna.

Um 16. gr.

    Ákvæði greinar þessarar eru í samræmi við ákvæði laga sem gilt hafa um Háskóla Íslands um veitingu doktorsnafnbótar frá háskólanum og þarfnast ekki skýringa. Eðlilegt þykir að Háskólinn á Akureyri hafi sambærilegar heimildir til að veita doktorsnafnbót.

Um 17.–20 gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Núverandi forstöðumenn deilda gegna sömu störfum og deildarforsetar samkvæmt frum­varpi þessu. Í ákvæði til bráðabirgða er lagt til að ekki verði hreyft við ráðningu þeirra sem nú gegna forstöðumannsstörfum. Því verði störf deildarforseta ekki auglýst fyrr en ráðning­artími þeirra rennur út.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um Háskólann á Akureyri.

    Frumvarpið felur í sér breytingar á gildandi lögum til samræmis við lög, nr. 136/1997, um háskóla, sem kveða á um sérlög um að einstakar háskólastofnanir verði endurskoðuð. Í frum­varpinu er gert ráð fyrir breytingum á verkaskiptingu og samskiptum milli menntamálaráðu­neytisins og skólans. Svigrúm hans til að stjórna eigin málum er aukið og ábyrgð hans gerð skýrari. Kveðið er á um meðferð kærumála stúdenta og gert ráð fyrir heimild til að taka gjald vegna þjónustu sem skólinn veitir og honum er ekki skylt að veita lögum samkvæmt.
    Að því séð verður hefur frumvarpið óveruleg áhrif á kostnað ríkissjóðs verði það að lög­um. Gera má ráð fyrir að skýrari gjaldtökuheimildir geri skólanum kleift að auka þjónustu við stúdenta og aðra í samræmi við eftirspurn.