Ferill 521. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 835  —  521. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum, og um breytingu á lögum nr. 118/1993, um félagslega aðstoð, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)I. KAFLI
Breytingar á lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar,
með síðari breytingum.

1. gr.

    2. og 3. mgr. 6. gr. laganna falla brott.

2. gr.

    Í stað 7. gr. laganna koma þrjár nýjar greinar, 7. gr.–7. gr. b, svohljóðandi:

    a. (7. gr.)     
    Rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða upphæð bóta samkvæmt lögum þessum leggur sjálfstæð og óháð nefnd, úrskurðarnefnd almannatrygginga, úrskurð á málið.
    Ráðherra skipar nefndarmenn og varamenn þeirra til sex ára í senn. Í nefndinni eiga sæti þrír menn. Formaður nefndarinnar og varamaður hans skulu uppfylla skilyrði sem sett eru um embættisgengi héraðsdómara. Varaformaður nefndarinnar og varamaður hans skulu vera læknar.
    Heimilt er að endurskipa nefndarmenn.

    b. (7. gr. a.)
    Kæra til úrskurðarnefndar almannatrygginga skal vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun. Á skrifstofu Trygg­ingastofnunar ríkisins og umboðsmanna hennar skulu liggja frammi eyðublöð í þessu skyni og skulu starfsmenn stofnunarinnar veita nauðsynlega aðstoð við útfyllingu þeirra.
    Tryggingastofnun ríkisins skal láta nefndinni í té öll gögn máls, svo og þær upplýsingar og skýringar er nefndin telur þörf á að afla frá stofnuninni.
    Nefndinni skal heimilt að ráða sér starfsmenn til undirbúnings úrlausnum mála og til al­mennra skrifstofustarfa eftir nánari ákvörðun Alþingis á fjárlögum hverju sinni.
    Nefndinni er heimilt að kveðja sér til ráðgjafar og aðstoðar sérfróða menn ef hún telur þörf á. Skulu þeir starfa með nefndinni við undirbúning og meðferð máls eftir ákvörðun for­manns.
    Nefndarmönnum, starfsmönnum og ráðgjöfum nefndarinnar er bannað að viðlagðri ábyrgð eftir ákvæðum almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi að skýra óviðkom­andi aðilum frá persónuupplýsingum sem þeir komast að í starfi sínu og leynt eiga að fara. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.
    Nefndin skal kveða upp úrskurð svo fljótt sem unnt er og eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að henni berst mál.
    Formaður stýrir störfum nefndarinnar. Þegar nefndarmenn eru ekki sammála ræður meiri hluti niðurstöðu máls.
    Um málsmeðferð nefndarinnar fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.

    c. (7. gr. b.)
    Úrskurðarnefnd almannatrygginga er sjálfstæð í störfum sínum og verður úrskurðum hennar ekki skotið til annarra stjórnvalda.
    Að kröfu tryggingaráðs getur nefndin ákveðið að fresta réttaráhrifum úrskurðar telji hún ástæðu til þess. Krafa þess efnis skal gerð eigi síðar en 10 dögum frá birtingu úrskurðar. Skal frestun á réttaráhrifum úrskurðar vera bundin því skilyrði að tryggingaráð beri málið undir dómstóla innan 30 daga frá frestunarúrskurði og óski þá eftir að það hljóti flýti­meðferð. Frestun réttaráhrifa úrskurðar fellur úr gildi ef mál er ekki höfðað innan 30 daga frestsins. Sé mál höfðað vegna úrskurðar nefndarinnar er henni heimilt að fresta afgreiðslu sambærilegra mála, sem til meðferðar eru hjá nefndinni, þar til dómur gengur.
    Nefndin skal birta helstu úrskurði sína með aðgengilegum og skipulegum hætti. Úr­skurðirnir skulu birtir án nafna, kennitalna eða annarra persónugreinanlegra auðkenna.
    Ráðherra ákveður þóknun nefndarmanna. Kostnaður vegna nefndarinnar greiðist úr ríkis­sjóði.

3. gr.

    2. málsl. 3. mgr. 9. gr. a laganna orðast svo: Um málskot fer skv. 7. gr.–7. gr. b.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Rétt til ellilífeyris eiga þeir sem eru 67 ára eða eldri og hafa verið búsettir hér á     landi, sbr. I. kafla A, a.m.k. þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Fullur     árlegur elli­lífeyrir, 181.476 kr., greiðist þeim einstaklingum sem hafa verið búsettir hér á landi, sbr. I. kafla A, a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs, sbr. þó 2. mgr. Sé um skemmri tíma að ræða greiðist ellilífeyrir í hlutfalli við búsetutímann.
     b.      3. mgr. orðast svo:
                  Lífeyrir hjóna, sem bæði fá lífeyri, skal nema 90% af lífeyri tveggja einstaklinga. Heimilt er þó að miða lífeyri beggja við búsetutíma þess sem á lengri réttindatíma, sbr. síðasta málslið 2. mgr. Þá er og heimilt að úrskurða hvoru hjónanna um sig einstak­lingslífeyri ef þau eru eigi samvistum af heilsufarsástæðum.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
     a.      1. málsl. og a-liður 1. mgr. orðast svo: Rétt til örorkulífeyris eiga þeir sem hafa verið búsettir á Íslandi, sbr. I. kafla A, eru á aldrinum 16 til 67 ára og:
                  a.      hafa verið búsettir á Íslandi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka var óskert er þeir tóku hér búsetu,
     b.      Í stað orðsins „lögheimilistíma“ í 2. málsl. 3. mgr. kemur: búsetutíma.

6. gr.

    Í stað orðanna „átt hér lögheimili“ 1. málsl. 1. mgr. 14. gr. laganna kemur: búið hér á landi.

7. gr.

    3. og 4. málsl. 1. mgr. 15. gr. laganna orðast svo: Að jafnaði skal móðir hafa búsetu hér á landi, sbr. I. kafla A, við fæðingu barns og hafa búið hér á landi síðustu 12 mánuðina fyrir fæðinguna. Nánar skal kveðið á um búsetuskilyrði í reglugerð.

8. gr.

    1. og 2. málsl. a-liðar 16. gr. laganna orðast svo: Foreldrar, sem leggja niður launuð störf í fæðingarorlofi, eiga rétt á fæðingardagpeningum samkvæmt grein þessari, enda hafi þeir að jafnaði haft búsetu hér á landi, sbr. I. kafla A, síðustu 12 mánuði fyrir fæðinguna og séu búsettir hér á landi við fæðingu barnsins. Nánar skal kveðið á um búsetuskilyrði í reglugerð.

9. gr.

    3. mgr. 16. gr. a laganna orðast svo:
    Faðir í fæðingarorlofi á rétt á greiðslu fæðingarstyrks í hlutfalli við lengd orlofsins og að uppfylltum skilyrðum um búsetu, sbr. 1. mgr. 15. gr. Þá á hann rétt á hlutfallslegri greiðslu fæðingardagpeninga í samræmi við búsetuskilyrði í a-lið 16. gr. og ákvæði d-liðar 16. gr.

10. gr.

    2. málsl. 2. mgr. 23. gr. laganna orðast svo: Heimilt er þó að greiða bætur samkvæmt nán­ari reglum sem tryggingaráð setur, þótt liðið sé ár frá því að slys bar að höndum, ef atvik eru svo ljós að drátturinn torveldar ekki gagnaöflun um atriði er máli skipta.

11. gr.

    1. málsl. 2. mgr. 24. gr. laganna orðast svo: Heimilt er að veita undanþágu frá slysatrygg­ingu skv. a-lið 1. mgr. eftir nánari reglum er tryggingaráð setur ef hlutaðeigandi er sannan­lega tryggður samkvæmt erlendri slysatryggingalöggjöf.

12. gr.

    2. mgr. 27. gr. laganna orðast svo:
    Tryggingaráð setur reglur um endurgreiðslu að nokkru eða öllu leyti fyrir sjúkrahjálp sem sérstakir samningar sjúkratrygginga samkvæmt framansögðu ná ekki yfir.

13. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 32. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Sá sem verið hefur búsettur hér á landi í sex mánuði, sbr. I. kafla A, telst sjúkratryggður, nema annað leiði af milliríkjasamningum.
     b.      Í stað orðsins „lögheimilisskilyrði“ í 4. mgr. kemur: búsetuskilyrði.

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verði á 33. gr. laganna:
     a.      F-liður 1. mgr. orðast svo: Að greiða kostnað vegna psoriasissjúklinga sem að mati sérfræðinga þurfa að leita læknishjálpar á meðferðarstofnunum psoriasissjúklinga sem komi í stað sjúkrahúsvistar. Tryggingaráð setur reglur um greiðslu kostnaðar samkvæmt þessum staflið.
     b.      2. mgr. fellur brott.

15. gr.

    2. mgr. 40. gr. laganna orðast svo:
    Tryggingaráð skal setja reglur um að hvaða marki Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að endurgreiða manni kostnað, vegna veikinda eða slyss erlendis, sem hann fengi ella ekki endurgreiddan frá stofnuninni.

16. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 43. gr. laganna:
     a.      2. málsl. 5. mgr. orðast svo: Heimilt er þó að víkja frá þessum tímamörkum samkvæmt reglum er tryggingaráð setur.
     b.      Við 5. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Tryggingaráð setur nánari reglur um greiðslu slíkra dagpeninga.

17. gr.

    2. málsl. 1. mgr. 64. gr. laganna orðast svo: Í slíkum samningum má m.a. kveða svo á að búsetutímabil, atvinnutímabil eða tryggingatímabil í öðru samningsríki skuli talin jafngilda búsetutíma á Íslandi, hvort sem um er að ræða íslenska þegna eða þegna annarra samnings­ríkja.


II. KAFLI
Breytingar á lögum nr. 118/1993, um félagslega aðstoð,
með síðari breytingum.

18. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „eiga lögheimili“ 1. málsl. 1. mgr. kemur: eru búsett.
     b.      2. málsl. 3. mgr. orðast svo: Heimilt er að greiða maka einstaklings sem sætir gæsluvist eða afplánar fangelsi mæðra- eða feðralaun samkvæmt reglum er tryggingaráð setur, enda hafi vistin varað a.m.k. þrjá mánuði.

19. gr.

    9.–12. málsl. 3. gr. laganna orðast svo: Nú verður úrskurði skv. 1. mgr. 13. gr. barnalaga eigi við komið vegna efnaleysis foreldris eða ekki tekst að hafa uppi á því og er þá heimilt að greiða barnalífeyri með ungmenni er stundar sannanlegt nám, í samræmi við þessa máls­grein, eftir reglum er tryggingaráð setur. Tryggingastofnun getur krafist framlagningar skatt­framtala með umsóknum um barnalífeyri. Heimilt er að greiða barnalífeyri með ungmenni er stundar sannanlegt nám, samkvæmt reglum er tryggingaráð setur, ef ljóst er að ungmenn­inu er ókleift að innheimta greiðslur samkvæmt úrskurði á grundvelli 1. mgr. 13. gr. barna­laga. Í reglum sem tryggingaráð setur um rétt til barnalífeyris samkvæmt framansögðu er heimilt að líta til efnahags barns og annarra tekna sem það hefur.

20. gr.

    Lokamálsliður 1. mgr. 4. gr. laganna orðast svo: Þegar sérstaklega stendur á er heimilt að hækka umönnunargreiðslur um allt að 25% eftir reglum sem tryggingaráð setur.

21. gr.

    Orðin „á lögheimili hér á landi og“ í 1. mgr. 6. gr. laganna falla brott.

22. gr.

    1. mgr. 13. gr. laganna orðast svo:
    Ákvæði laga um almannatryggingar gilda um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á, m.a. um kærurétt til úrskurðarnefndar almannatrygginga og um hækkun bóta.

23. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1999.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Í fyrsta skipti er skipað verður í úrskurðarnefnd almannatrygginga skal formaður skipaður til sex ára, varaformaður til fjögurra ára og þriðji nefndarmaðurinn til tveggja ára. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Almannatryggingalöggjöf þarf eðli málsins samkvæmt að taka breytingum í samræmi við þjóðfélagsbreytingar og jafnframt þarf að tryggja að hún sé hverju sinni í fullu samræmi við aðra löggjöf, svo sem varðandi meðferð mála innan stjórnsýslunnar.
    Með stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, voru lögfestar reglur um það hvernig stjórnvöld eigi að standa að ákvörðunum og úrskurðum um réttindi og skyldur hins almenna borgara. Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um almannatryggingar og lögum um fé­lagslega aðstoð til að færa stjórnkerfi Tryggingastofnunar ríkisins nær nútímaviðhorfum stjórnsýsluréttar. Breytingarnar eru í raun eingöngu stjórnkerfisbreytingar og breyta því ekki efnislegum rétti einstaklinga. Eiga breytingarnar að auka réttaröryggi viðskiptavina Trygg­ingastofnunar ríkisins, sem kæra vilja ákvarðanir í málum sínum, og að gera fjárhagslega yfirstjórn Tryggingastofnunar ríkisins virkari en nú er.
    Samkvæmt almannatryggingalögum hefur tryggingaráð aðallega tvenns konar hlutverk. Annars vegar hefur ráðið ákveðna stjórn og eftirlit með starfsemi Tryggingastofnunar ríkis­ins. Hins vegar er ráðið úrskurðaraðili í deilumálum sem upp koma varðandi ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins um grundvöll, skilyrði eða upphæð bóta samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð.
    Í frumvarpinu er lagt til að sett verði á fót sérstök úrskurðarnefnd almannatrygginga er úrskurði um réttindi einstaklinga í málum þar sem deilt er um grundvöll, skilyrði eða upphæð bóta. Frumvarpið gerir ráð fyrir að tryggingaráð hafi nú eingöngu á hendi stjórn og eftirlit með Tryggingastofnun ríkisins eins og nánar er mælt fyrir um í lögum um almannatryggingar.
    Í frumvarpinu er orðinu lögheimili á ýmsum stöðum í lögunum breytt í búsetu í samræmi við lög nr. 59/1998, um breytingu á lögum um almannatryggingar, með síðari breytingum. Þá er ákvæðum í lögunum þar sem tryggingaráð skal veita undanþágu eða skera úr um hvort heimilt sé að greiða bætur breytt á þann veg að tryggingaráð skuli setja reglur samkvæmt ákvæðunum.
    Helstu breytingar samkvæmt frumvarpi þessu eru:
     1.      Stofnuð verður sérstök úrskurðarnefnd almannatrygginga sem tekur við því hlutverki tryggingaráðs að úrskurða um grundvöll, skilyrði eða upphæð bóta samkvæmt almanna­tryggingalögum og lögum um félagslega aðstoð.
     2.      Ákvæðum um að tryggingaráð veiti undanþágur eða skeri úr um greiðslu bóta er breytt þannig að tryggingaráð skuli setja reglur samkvæmt ákvæðunum.
     3.      Orðinu lögheimili á ýmsum stöðum í lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð er breytt í búsetu í samræmi við breytingar sem taka gildi 1. júlí 1999.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    2. og 3. mgr. 6. gr. laganna eru felldar brott þar sem ekki er talin þörf á að telja upp þau atriði sem leita skal samþykkis tryggingaráðs á. Er hér verið að breyta til samræmis við breytingar sem orðið hafa á framkvæmd hjá tryggingaráði og Tryggingastofnun ríkisins.

Um 2. gr.

    Frumvarpið gerir ráð fyrir að í 7. gr. laganna verði ákvæði um sjálfstæða og óháða úrskurðarnefnd sem hafi það eina hlutverk að úrskurða um ágreining um grundvöll, skilyrði eða upphæð bóta. Víða hafa verið settar upp sérstakar úrskurðarnefndir af þessum toga í stjórnsýslukerfinu. Má þar t.d. nefna úrskurðarnefnd félagsþjónustu sveitarfélaga, úrskurð­arnefnd skipulags- og byggingamála og úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Þar sem fjöldi þeirra mála sem tryggingaráð úrskurðar í árlega hefur verið hátt á fjórða hundrað, þykir full ástæða til að sérstök nefnd hafi þetta hlutverk á sviði almannatrygginga. Til samanburðar skal þess getið að á sl. ári úrskurðaði úrskurðarnefnd um upplýsingamál í 36 málum.
    Lagt er til að í nefndinni sitji lögfræðingur, er uppfyllir það skilyrði að vera embættis­gengur sem héraðsdómari, og læknir, en mjög oft reynir á sérfræðisvið þessi við úrskurð mála um grundvöll, skilyrði eða upphæð bóta. Í ákvæði til bráðabirgða er mælt svo fyrir að þegar nefndin verður skipuð í fyrsta skipti skuli formaður skipaður til sex ára, varaformaður til fjögurra ára og þriðji nefndarmaðurinn til tveggja ára. Eftir það er ætlunin að nefndar­menn verði skipaðir til sex ára. Með því að tryggja hægfara breytingar á skipan nefndarinnar er ætlunin að þekking og reynsla hverfi ekki úr nefndinni eins og hætta er á að geti gerst þegar nefnd er í heild skipuð á sex ára fresti.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að í 7. gr. a í lögunum verði ákvæði um málsmeðferð nefndarinnar. Ákvæðin eru nokkuð ítarlegri en núgildandi ákvæði um tryggingaráð. Þar er ein meginbreytingin að kæra til úrskurðarnefndar skal vera skrifleg. Einnig skulu eyðublöð liggja á skrifstofum Tryggingastofnunar ríkisins og umboðsmanna hennar og skulu starfs­menn stofnunarinnar veita alla nauðsynlega aðstoð við útfyllingu þeirra.
    Að lokum gerir frumvarpið ráð fyrir að í 7. gr. b verði heimild fyrir tryggingaráð til þess að óska eftir frestun á réttaráhrifum. Svipað ákvæði er að finna í lögum um úrskurðarnefnd um upplýsingamál, svo og í lögum um yfirskattanefnd. Telji tryggingaráð að úrskurður úr­skurðarnefndar, sem hafi í för með sér verulegar breytingar á fyrri framkvæmd Trygginga­stofnunar ríkisins, sé augljóslega andstæður lögum getur ráðið óskað eftir því að nefndin fresti réttaráhrifum úrskurðarins. Verði nefndin við því verður framkvæmd Trygginga­stofnunar ríkisins óbreytt allt þar til dómur liggur fyrir. Þá kemur í ljós hvort breyta þarf framkvæmdinni allt eftir því hvort úrskurði úrskurðarnefndar hefur verið hnekkt eða ekki.

Um 3. gr.

    Ákvæði 9. gr. a taka gildi 1. júlí 1999 samkvæmt lögum nr. 59/1998, um breytingu á lög­um nr. 117/1993. Miðað er við að frumvarpið öðlist gildi á sama tíma.

Um 4. gr.

    Um a-lið:
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ákvæði 1. mgr. 11. gr. laganna verði efnislega óbreytt en tilvísun í lögheimili felld brott og orðin búsettur og búsetutími notuð í staðinn og vísað í I. kafla A, sbr. lög nr. 59/1998, um breytingu á lögum nr. 117/1993, um almannatrygging­ar, með síðari breytingum.
    Um b-lið:
    Í 3. mgr. 11. gr. laganna er orðinu lögheimilistíma breytt í búsetutíma í samræmi við I. kafla A, sbr. lög nr. 59/1998, um breytingu á lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum.

Um 5. gr.

     Um a-lið:
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ákvæði 1. málsl. og a-liðar 1. mgr. 12. gr. verði efnislega óbreytt en tilvísun í lögheimili og lögheimilislög felld brott og orðin búsettur og búseta notuð í staðinn og vísað í I. kafla A, sbr. lög nr. 59/1998, um breytingu á lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum.
    Um b-lið:
    Í 2. málsl. 3. mgr. 12. gr. laganna er orðinu lögheimilistíma breytt í búsetutíma í samræmi við I. kafla A, sbr. lög nr. 59/1998, um breytingu á lögum nr. 117/1993, um almannatrygg­ingar.

Um 6. gr.

    Í 1. málsl. 1. mgr. 14. gr. laganna er tilvísun í lögheimili breytt í búsetu í samræmi við I. kafla A, sbr. lög nr. 59/1998, um breytingu á lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar.
    

Um 7. gr.

    Í 3. og 4. málsl. 1. mgr.15. gr. laganna er orðunum lögheimili og lögheimilisskilyrði breytt í orðin búseta og búsetuskilyrði og vísað til I. kafla A, sbr. lög nr. 59/1998, um breytingu á lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar.

Um 8. gr.

    Í 1. og 2. málsl. a-liðar 16. gr. laganna er orðunum lögheimili og lögheimilisskilyrði breytt í orðin búseta og búsetuskilyrði og vísað til I. kafla A, sbr. lög nr. 59/1998, um breytingu á lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar.

Um 9. gr.

    Í 3. mgr. 16. gr. a laganna er gert ráð fyrir að faðir þurfi að uppfylla skilyrði um búsetu hér á landi eins og móðir.

Um 10. gr.

    Í 2. málsl. 2. mgr. 23. gr. laganna er gert ráð fyrir að tryggingaráð setji reglur um þau tilvik þar sem bætur eru greiddar þó að lengri tími sé liðinn en ár frá því að slys bar að hönd­um. Er breyting þessi í samræmi við breytt hlutverk tryggingaráðs samkvæmt frumvarpinu.

Um 11. gr.

    Í 1. málsl. 2. mgr. 24. gr. laganna er gert ráð fyrir að tryggingaráð setji reglur um þau tilvik þar sem veita skal undanþágu frá slysatryggingu ef hlutaðeigandi er sannanlega tryggður samkvæmt erlendri slysatryggingalöggjöf. Er breyting þessi í samræmi við breytt hlutverk tryggingaráðs samkvæmt frumvarpinu.
    2. málsl. 2. mgr. 24. gr. laganna er felldur brott með lögum nr. 59/1998, um breytingu á lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, en þau lög taka gildi 1. júlí 1999, þ.e. á sama tíma og frumvarpið, verði það að lögum.

Um 12. gr.

    Í 2. mgr. 27. gr. laganna er gert ráð fyrir að tryggingaráð setji reglur um endurgreiðslu vegna sjúkrahjálpar ef sérstakir samningar sjúkratrygginga ná ekki til tilviksins. Er breyting þessi í samræmi við breytt hlutverk tryggingaráðs samkvæmt frumvarpinu.

Um 13. gr.

     Um a-lið:
    Í 1. málsl. 1. mgr. 32. gr. laganna eru felld út orðin lögheimili og tilvísun í lög nr. 21/1990 og 73/1952.
    Einnig er vísað til I. kafla A, sbr. lög nr. 59/1998, um breytingu á lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar. Að öðru leyti eru ákvæði 1. mgr. 32. gr. óbreytt.
    Um b-lið:
    Orðinu lögheimilisskilyrði í 4. mgr. 32. gr. laganna er breytt í frumvarpinu í búsetu­skilyrði í samræmi við lög nr. 59/1998, um breytingu á lögum nr. 117/1993, um almanna­tryggingar.

Um 14. gr.

    Í f-lið 1. mgr. 33. gr. laganna er kveðið á um að kostnaður skuli greiddur samkvæmt nánari ákvörðun tryggingaráðs. Lagt er til að tryggingaráð setji reglur um greiðslu kostnaðar samkvæmt þessum staflið. Að öðru leyti er ákvæðið óbreytt.
    Ákvæði 2. mgr. 33. gr. laganna er fellt brott þar sem eftir tilkomu Bláa lónsins er ekki þörf á sérákvæðum um læknishjálp psoriasissjúklinga á meðferðarstofnunum erlendis. Um hana gilda almennar reglur almannatryggingalaga um læknishjálp erlendis.

Um 15. gr.


    Í 2. mgr. 40. gr. laganna er samkvæmt frumvarpinu gert ráð fyrir að tryggingaráð setji reglur um að hvaða marki Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að endurgeiða manni kostnað vegna veikinda eða slyss erlendis sem hann fengi ella ekki endurgreiddan frá stofnuninni. Er þetta í samræmi við breytt hlutverk tryggingaráðs samkvæmt frumvarpinu. Að öðru leyti er ákvæðið efnislega óbreytt.

Um 16. gr.

    Í 2. málsl. 5. mgr. 43. gr. laganna er samkvæmt frumvarpinu gert ráð fyrir að tryggingaráð setji reglur um hvenær sé heimilt að víkja frá tímamörkum þegar lífeyrir fellur niður ef elli- eða örorkulífeyrisþegi dvelst lengur en mánuð samfellt á stofnun eða vistheimili sem er á föstum fjárlögum eða þar sem sjúkratryggingar greiða fyrir hann. Er þetta í samræmi við breytt hlutverk tryggingaráðs samkvæmt frumvarpinu.
    Frumvarpið gerir einnig ráð fyrir að tryggingaráð setji reglur um dagpeninga (vasapen­inga) utan stofnana.

Um 17. gr.

    Í 2. málsl. 1. mgr. 64. gr. laganna er orðunum lögheimilistímabil og lögheimilistíma breytt í búsetutímabil og búsetutíma í samræmi við I. kafla A í lögunum, sbr. lög nr. 59/1998, um breytingu á lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar.

Um 18. gr.


    Í 2. gr. laganna er samkvæmt frumvarpinu gert ráð fyrir að tryggingaráð setji reglur um hvenær heimilt sé að greiða maka einstaklings sem sætir gæslu- eða refsivist mæðra- eða feðralaun. Er þetta í samræmi við breytt hlutverk tryggingaráðs samkvæmt breytingu á al­mannatryggingalögum. Einnig er felld brott tilvísun í lögheimili og vísað í búsetu.

Um 19. gr.

    Ákvæðum 9.–12. málsl. 3. gr. laganna er breytt í frumvarpinu á þann veg að tryggingaráð setur reglur um það hvenær heimilt sé að greiða barnalífeyri þegar úrskurði skv. 1. mgr. 13. gr. barnalaga verður eigi við komið. Sama gildir ef ungmenni er ókleift að innheimta greiðsl­ur samkvæmt úrskurði á grundvelli 1. mgr. 13. gr. barnalaga. Er þetta í samræmi við breytt hlutverk tryggingaráðs samkvæmt breytingu á almannatryggingalögum.

Um 20. gr.

    Ákvæðum síðasta málsliðar 1. mgr. 4. gr. laganna er breytt í frumvarpinu á þann veg að tryggingaráð setur reglur um hvenær heimilt er að hækka umönnunargreiðslur um allt að 25%. Er þetta í samræmi við breytt hlutverk tryggingaráðs samkvæmt breytingu á almanna­tryggingalögum.

Um 21. gr.

    Í 1. mgr. 6. gr. laganna er í frumvarpinu felld brott tilvísun í lögheimili.

Um 22. gr.

    Í frumvarpinu er ákvæðum 1. mgr. 13. gr. laganna breytt þannig að nú verði miðað við nýja úrskurðarnefnd almannatrygginga samkvæmt frumvarpinu.

Um 23. gr.

    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að lögin taki gildi 1. júlí 1999 en það er gildistími laga nr. 59/1998, um breytingu á lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar. Ástæða þessa er að í frumvarpinu er vísað til I. kafla A í almannatryggingalögum en ákvæði hans taka ekki gildi fyrr en 1. júlí 1999. Þá er heppilegt að breytingar á hlutverki tryggingaráðs taki gildi að loknum alþingiskosningum þar sem tryggingaráð er kosið eftir hverjar almennar alþingis­kosningar.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Vísað er til athugasemda við 2. gr. frumvarpsins.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 117/1993,
um almannatryggingar, með síðari breytingum, og um breytingu á
lögum nr. 118/1993, um félagslega aðstoð, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að orðinu lögheimili verði á viðeigandi stöðum breytt í búsetu í samræmi við lög nr. 59/1998, um breytingu á lögum nr. 117/1993, um al­mannatryggingar, með síðari breytingum. Enn fremur gerir frumvarpið ráð fyrir að komið verði á fót sérstakri úrskurðarnefnd almannatrygginga er úrskurði um réttindi einstaklinga í málum þar sem deilt er um skilyrði eða upphæð bóta. Í úrskurðarnefndinni skulu sitja þrír menn og skal formaður uppfylla skilyrði héraðsdómara og varaformaður skal vera læknir. Nefndinni er heimilt að ráða sér starfsmenn til undirbúnings úrlausn mála auk almennra skrifstofustarfa. Frumvarpið gerir ráð fyrir að tryggingaráð hafi eingöngu á hendi stjórn og eftirlit með Tryggingastofnun ríkisins og setji reglur um afgreiðslu mála. Úrskurðarnefndin tekur í raun yfir hluta af fyrri verkefnum tryggingaráðs og er því ekki um verulegan kostn­aðarauka að ræða utan kostnaðar við úrskurðarnefndina sjálfa sem má ætla að verði um 2–2,5 m.kr. á ári.