Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1514, 122. löggjafarþing 348. mál: almannatryggingar (lögheimilisskilyrði, slysatrygging sjómanna o.fl.).
Lög nr. 59 12. júní 1998.

Lög um breytingu á lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum.


1. gr.

     Á eftir I. kafla laganna kemur nýr kafli, I. kafli A, Tryggðir samkvæmt lögunum, með fjórum nýjum greinum, 9. gr. a – 9. gr. d, er orðast svo:
     
     a. (9. gr. a.)
     Sá sem búsettur er hér á landi telst tryggður, sbr. þó 24. gr., að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna, nema annað leiði af milliríkjasamningum.
     Með búsetu skv. 1. mgr. er átt við lögheimili í skilningi lögheimilislaga.
     Tryggingastofnun ríkisins ákvarðar hvort einstaklingur telst tryggður hér á landi samkvæmt lögunum. Um málskot fer skv. 7. gr.
     
     b. (9. gr. b.)
     Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að ákveða samkvæmt umsókn að einstaklingur, sem tryggður er samkvæmt lögunum, sé áfram tryggður þótt hann uppfylli ekki skilyrði 9. gr. a, enda starfi viðkomandi erlendis fyrir aðila sem hafi aðsetur og starfsemi á Íslandi og tryggingagjald, sbr. lög um tryggingagjald, sé greitt hér á landi af launum hans. Sama gildir um maka hans og börn undir 18 ára aldri sem dveljast með honum.
     Umsókn um tryggingu samkvæmt þessari grein skal berast Tryggingastofnun ríkisins eigi síðar en fjórum vikum fyrir brottför af landinu.
     
     c. (9. gr. c.)
     Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að ákveða samkvæmt umsókn að einstaklingur, sem tryggður er samkvæmt lögunum, sé áfram tryggður, sbr. þó 24. gr., í allt að eitt ár frá brottför af landinu þótt hann uppfylli ekki skilyrði 9. gr. a eða 9. gr. b, enda leiði milliríkjasamningar ekki til annars. Skilyrði þessa er að viðkomandi hafi haft samfellda fasta búsetu hér á landi eigi skemur en fimm ár fyrir brottför og að það sé ekki tilgangur farar að leita læknismeðferðar.
     Umsókn um tryggingu samkvæmt þessari grein skal berast Tryggingastofnun ríkisins eigi síðar en fjórum vikum fyrir brottför af landinu.
     
     d. (9. gr. d.)
     Ráðherra setur reglugerð um einstök atriði er varða framkvæmd þessa kafla, m.a. um skráningu Tryggingastofnunar ríkisins á tryggingaréttindum einstaklinga og hvað telja skuli viðurkennt nám erlendis.

2. gr.

     Síðari málsliður 2. mgr. 24. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 32. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Sá sem átt hefur lögheimili í landinu í sex mánuði í skilningi lögheimilislaga og laga um tilkynningar aðsetursskipta, sbr. og ákvæði I. kafla A laga þessara, telst sjúkratryggður, nema annað leiði af milliríkjasamningum. Heimilt er að greiða nauðsynlega þjónustu í skyndilegum sjúkdómstilfellum þótt biðtíminn sé ekki liðinn.
  3. 4. mgr. orðast svo:
  4.      Ráðherra getur sett reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd sjúkratrygginga, um starfsemi sjúkratryggingadeildar og um undanþágur frá sex mánaða lögheimilisskilyrði og framkvæmd þeirra.


4. gr.

     53. gr. laganna fellur brott.

5. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1999. Ákvæði b-liðar 3. gr. öðlast þó þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að ákveða samkvæmt umsókn að einstaklingur, sem uppfyllti skilyrði 9. gr. b 1. janúar 1994 eða síðar, teljist tryggður hér á landi.
     Umsókn um tryggingu samkvæmt heimild í þessu ákvæði skal berast Tryggingastofnun ríkisins eigi síðar en 1. júlí 2000.

Samþykkt á Alþingi 4. júní 1998.