Ferill 351. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 913  —  351. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940, með síðari breytingum (reynslulausn o.fl.).

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Benedikt Bogason frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti.
    Umsagnir bárust frá Fangelsismálastofnun ríkisins, Vernd, ríkislögreglustjóra, ríkissak­sóknara og lögreglustjóranum í Reykjavík.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á nokkrum ákvæðum í V. og VI. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Þær helstu eru eftirfarandi:
     1.      Lagt er til að fellt verði úr lögum skilyrði um lágmarkseftirstöðvar refsitíma svo að reynslulausn verði veitt og hún verði því veitt þótt eftirstöðvar fangelsisvistar sé skemmri en 30 dagar. Með lögum nr. 82/1998 varð sú breyting á hegningarlögum að refsivist verður ekki dæmd til skemmri tíma en 30 daga, en fyrir gildistöku þeirra var unnt að dæma sakborning til refsivistar allt niður í fimm daga. Verður því, ef frumvarpið nær fram að ganga, ekki veitt reynslulausn fyrr en dómþoli hefur afplánað í það minnsta 15 daga refsivist. Þá verður bætt úr þeirri mismunun að fanga sem hlotið hefur tveggja mánaða fangelsisdóm sé heimilt að fá reynslulausn er hann hefur afplánað 30 daga í fangelsi, en reynslulausn verði ekki veitt þegar fangi hefur hlotið 45 daga fangelsisdóm.
     2.      Lögfest verði sú venjubundna framkvæmd að ekki verði veitt reynslulausn þegar hluti fangelsisrefsingar er skilorðsbundinn.
     3.      Þá verði lögfest sú venjubundna framkvæmd að ekki verði veitt reynslulausn þegar vararefsing fésekta er afplánuð. Verði með því leyst úr réttaróvissu sem ríkt hefur um þetta efni í kjölfar tveggja álita umboðsmanns um þetta efni.
     4.      Felld verði úr lögunum heimild stjórnvalda til að ákveða að aðili taki út refsingu vegna brots á hegningarlögum á reynslutíma. Þess í stað verði lögfest að dómari taki tillit til óafplánaðrar fangelsisrefsingar er hann ákveður refsingu vegna síðara brotsins.
     5.      Þá er lagt til að eftirlit á skilorðstíma verði á vegum Fangelsismálastofnunar eða þess sem stofnunin felur umsjónina en það er nú í höndum ákæranda.
    Nefndin leggur til eina breytingu á frumvarpinu, að 4. mgr. 56. gr. laganna verði breytt til samræmis við aðrar breytingar sem frumvarpið gerir ráð fyrir.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

    Á eftir 3. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
    4. mgr. 56. gr. laganna, sbr. 3. gr. laga nr. 22/1955, orðast svo:
    Mál aðila má taka upp að nýju ef rannsókn hefst hjá lögreglu gegn honum sem sakborningi áður en skilorðstíma lýkur út af nýju broti sem hann hefur framið á skilorðstímanum eða áður en máli var frestað, svo og ef hann rýfur ella í veigamiklum atriðum skilyrði þau sem honum voru sett.

Alþingi, 24. febr. 1999.



Sólveig Pétursdóttir,


form., frsm.


Valgerður Sverrisdóttir.


Jón Kristjánsson.



Hjálmar Jónsson.


Kristján Pálsson.


Árni R. Árnason.



Ögmundur Jónasson.


Kristín Halldórsdóttir.


Bryndís Hlöðversdóttir.