Ferill 230. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 917  —  230. mál.




Nefndarálit



um tillögu til þingsályktunar um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1998–2001.

Frá 1. minni hluta allsherjarnefndar.



    Markmið tillögunnar er að treysta búsetu á landsbyggðinni með það fyrir augum að fólks­fjölgun verði þar ekki undir landsmeðaltali og verði 10% allt til ársins 2010. Með tilliti til þróunar síðustu ára eru engin líkindi til þess að þetta markmið náist nema ráðist verði í rót­tækar aðgerðir, vörn snúið í sókn eftir markvissri áætlun og varið til þess verulegum fjármun­um. Þrátt fyrir fögur orð og fyrirheit í tillögunni er þar ekki að finna neitt sem tryggir slíka sókn heldur er þar eingöngu óljóst orðalag á borð við: „Unnið verði markvisst að …“, „Tryggt verði að …“, „Stefnt verði að því að …“, „Sköpuð verði skilyrði til þess að …“, „Sérstaklega verði hugað að …“ o.s.frv. Engar upplýsingar er að finna um hvernig og hvenær eigi að ráðast í verkin þrátt fyrir að tímabilið sem tillagan er miðuð við sé þegar nær hálfnað. Tillögunni fylgir engin framkvæmdaáætlun, engin áætlun um fjárframlög og ekkert kostnað­armat. Fullyrðingar í greinargerð um ný vinnubrögð og skýr markmið verka því sem öfug­mæli.
    Allt ber málið þess vott að stjórnarflokkarnir hafi vaknað upp við vondan draum og áttað sig á því að stefna þeirra í efnahags- og atvinnumálum annars vegar og stefnuleysi í byggða­málum hins vegar á stóran þátt í þeirri geigvænlegu byggðaröskun sem orðið hefur. Þeir vilja nú með þessum ómarkvissu fyrirheitum freista þess að slá ryki í augu kjósenda sem dæma munu verk þeirra í vor. Í því sambandi er rétt að minna á byggðaáætlun 1994–97 sem sam­þykkt var á Alþingi í maí 1994 en þar voru m.a. gefin fyrirheit um aukna opinbera þjónustu og starfsemi opinberra stofnana á landsbyggðinni á því tímabili. Árangur þeirrar stefnu hefur nýlega verið kynntur í skýrslu frá Byggðastofnun og þar kemur fram að þetta markmið hefur síður en svo náðst. Stöðugildum hjá ríkisstofnunum og ríkisfyrirtækjum hefur fjölgað um 225 í Reykjavík á tímabilinu og um 112 í Reykjaneskjördæmi en fækkað um 32 í öðrum kjördæm­um. Af heildarfjölda stöðugilda hjá stofnunum og fyrirtækjum á vegum ríkisins eru 62,1% í Reykjavík, þar sem hlutfall íbúa er 39,2%. Í öðrum kjördæmum er hlutfall stöðugilda 37,9% og hlutfall íbúa 60,8% en allar þessar tölur eru miðaðar við árið 1997. Sérstaka athygli vekur reyndar rýr hlutur Reykjaneskjördæmis í þessu efni þar sem t.d. á Norðurlandi vestra eru um tvöfalt fleiri stöðugildi á hverja 1.000 íbúa en í Reykjaneskjördæmi og í Reykjavík eru stöðugildin um fjórfalt fleiri en í Reykjaneskjördæmi. Í skýrslunni er bent á að nýjar stofnanir og fyrirtæki hafi verið sett á stofn á tímabilinu án opinberrar umræðu um staðsetningu þeirra. Þannig virðast fyrirheit í byggðaáætlun 1994–97 ekki hafa verið ráðamönnum ofarlega í huga lengi. Þessi niðurstaða er staðfest í greinargerð með tillögunni þar sem segir: „Ályktun Al-


Prentað upp.

þingis um stefnumótandi byggðaáætlun frá 1994, sem kveður meðal annars á um fjölgun starfa í þjónustustörfum á landsbyggðinni, hefur ekki skilað árangri nema síður sé.“ Rétt er enn fremur að minna á að í einkageiranum er þróunin svipuð, fjölgun starfa á þessu kjörtíma­bili hefur þar einnig orðið að mestum hluta á höfuðborgarsvæðinu.
    Stórfelld röskun byggðar í landinu er mikið áhyggjuefni. Allar götur síðan 1979 hefur landsbyggðin misst fólk til höfuðborgarsvæðisins og síðastliðin tíu ár hafa brottfluttir af landsbyggðinni umfram aðflutta verið 12.541. Þessi þróun hefur á margan hátt haft neikvæð félagsleg og menningarleg áhrif á allt þjóðfélagið en nú fer einnig vaxandi skilningur á þjóðhagslegum kostnaði sem er samfara þessari röskun. Talið er að það kosti sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu a.m.k. 3–5 millj. kr. á hvern íbúa sem þangað flyst að byggja upp þá aðstöðu og þjónustu sem þarf og er þá rekstrarkostnaður ekki meðtalinn. Á móti verður fjárfesting og uppbygging á landsbyggðinni vannýtt. Skólar, heilbrigðisstofnanir og aðrar þjónustustofnanir standa hálftómar og tekjur sveitarfélaganna minnka, auk félagslegra erfið­leika sem skapast. Er þá ónefndur mikill kostnaður fjölskyldna og einstaklinga sem oftar en ekki yfirgefa eignir sínar verðlitlar eða verðlausar og þurfa að kosta miklu til að útvega sér húsnæði og koma sér fyrir á nýjum stað.
    Miklar upplýsingar liggja fyrir um orsakir og undirrót þessarar óheillavænlegu byggða­röskunar. Þær eru m.a. í fylgiskjölum með tillögunni svo og í umsögnum sem allsherjarnefnd bárust þegar hún fjallaði um málið. Orsakirnar felast ekki síst í óhagstæðri atvinnuþróun og einhæfni atvinnulífs víða um land. Þar ber að hafa í huga að búseta ræðst ekki lengur aðeins af atvinnu heimilisföður heldur þarf að taka tillit til þess að konur eru einnig virkir þátt­takendur í atvinnulífinu. Þær mennta sig ekki síður en karlar og eiga bæði þær sjálfar og þjóðfélagið rétt til þess að sú menntun og starfskraftar nýtist. Orsakir byggðaröskunar felast einnig í margháttuðum aðstöðumun eftir byggðarlögum hvað varðar samgöngur, verslun og vöruverð, orkukostnað, aðstöðu til menntunar, heilsugæslu og margvíslegrar félagslegrar þjónustu. Þá er ekki hægt að líta fram hjá því að fjölbreytni á sviði menningar og afþreyingar vegur þungt og skiptir nútímafólk æ meira máli. Fjölbreytni, jöfn lífsskilyrði og öryggi eru því lykilorðin við markmiðssetningu í byggðamálum. Síðast en ekki síst snýst málið um að efla tiltrú fólks á búsetu til framtíðar í byggðum utan höfuðborgarsvæðisins. Um vilja þess hefur verið spurt í skoðanakönnun sem staðfestir að fjölmargir kysu búsetu á landsbyggðinni ef öryggi og allar aðstæður væru þar í góðu lagi. Því liggur beint við að álykta að róttækar aðgerðir til úrbóta gætu snúið við þeirri öfugþróun sem verið hefur í flutningum fólks af landsbyggð til höfuðborgarsvæðis.
    Fyrsti minni hluti telur að tillagan hefði þurft mun ítarlegri meðferð í allsherjarnefnd en raun varð á. Margar umsagnir bárust með hugmyndum og ábendingum sem meiri hlutinn hefur í engu tekið tillit til. Það er nokkuð sammerkt með umsögnunum að lögð er áhersla á nauðsyn þess að efndir fylgi orðum og fjármagn fyrirheitum. Vantrú umsagnaraðila á efndirnar er augljós. Ekkert hefur verið gert til að eyða óvissu í þessu efni.
    Ljóst er að taka þarf miklu fastar á málum en gert er ráð fyrir í tillögunni. Orðin ein duga ekki. Setja þarf fram áætlun með tímasetningum og kostnaðarmati um aðgerðir í samgöngu­málum og fjarskiptum, í menntamálum, heilbrigðisþjónustu og annarri félagslegri þjónustu, jöfnun námskostnaðar, jöfnun orkukostnaðar o.fl. Styðja þarf markvisst við þróun fjölbreyttra atvinnukosta með hliðsjón af aðstæðum á hverjum stað og á forsendum sjálfbærrar þróunar. Fyrst og fremst þarf þó að sýna viljann til góðra hluta í verki. Það stoðar lítið að móta stefnu, gera áætlun og meta kostnað ef ákvörðun skortir um afl þeirra hluta sem gera skal. Fjármagn verður að fylgja.
    Fyrsti minni hluti tekur undir margt af því sem fram kemur í tillögunni en gagnrýnir lausa­tök og skort á markvissri áætlanagerð. 1. minni hluti telur hér í besta falli um að ræða atrennu stjórnarflokkanna til að gera sér grein fyrir ástandinu og tilraun til að setja sér markmið. 1. minni hluti getur ekki fallist á að hér sé um trúverðuga úrlausn að ræða og mun því sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 26. febr. 1999.



Kristín Halldórsdóttir,


frsm.


Ögmundur Jónasson.