Ferill 230. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Nr. 6/123

Þskj. 957  —  230. mál.Þingsályktun


um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1999–2001.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að vinna að framkvæmd stefnumótandi áætlunar um byggðamál fyrir árin 1999–2001 sem hafi að markmiði að treysta búsetu á landsbyggðinni. Stefnt verði að því að fólksfjölgun þar verði ekki undir landsmeðaltali og nemi 10% til ársins 2010.
     Helstu aðgerðir sem gripið verði til eru eftirfarandi:
I. Nýsköpun í atvinnulífinu.
     1.      Unnið verði markvisst að aukinni fjölbreytni atvinnulífs á landsbyggðinni. Þróunarstofur verði efldar og þannig treystur grundvöllur til nýsköpunar og aukinnar fjölbreytni. Hlutverk þeirra verði meðal annars að auka samkeppnishæfni atvinnulífs á landsbyggðinni og aðstoða fyrirtæki við öflun verkefna og styrkja innan lands sem utan. Tryggt verði að aðstoðin skili sér til starfandi fyrirtækja jafnt sem nýrrar atvinnustarfsemi. Til að treysta þessi markmið verði leitað samstarfs við háskóla og rannsóknastofnanir.
                  Unnið verði að samvinnu einstakra stofnana, félaga og þróunarstofa sem vinna að byggða- og atvinnuþróunarmálum. Í því sambandi verði þær stofnanir sem helst tengjast nýsköpun í atvinnulífinu tengdar starfsemi þróunarstofa með beinum samstarfssamningi með það að markmiði að bæta þekkingu og ráðgjöf vegna nýsköpunar.
     2.      Lánastarfsemi Byggðastofnunar verði rekin á arðsemisgrundvelli. Þannig verði byggður upp traustur byggðasjóður er hafi sérstaklega að markmiði að efla nýsköpun og auka hagkvæmni í rekstri fyrirtækja á landsbyggðinni. Reikningslegur aðskilnaður verði á milli lánastarfsemi stofnunarinnar og annarrar starfsemi.
     3.      Til þess að tryggja nauðsynlegt eigið fé í nýsköpunarverkefnum verði komið á fót eignarhaldsfélögum á landsbyggðinni með aðild Byggðastofnunar. Stefnt verði að því að til þeirra verkefna verði sérstaklega varið allt að 300 millj. kr. á fjárlögum hvers árs á áætlunartímabilinu samkvæmt nánari reglum sem forsætisráðherra setur í reglugerð um Byggðastofnun. Þátttaka Byggðastofnunar geti þó mest numið 40% af hlutafé viðkomandi félags.
                  Byggðastofnun leitist við að taka þátt í uppbyggingu eignarhaldsfélaga þegar á árinu 1998. Getur ríkið lagt fram eignarhlut í félögum sem það á nú aðild að til eignarhaldsfélaga á landsbyggðinni. Leitað verði eftir samstarfi við framtakssjóð Nýsköpunarsjóðs um fjármögnun einstakra verkefna.
     4.      Sköpuð verði skilyrði til þess að styðja sérstaklega aðgerðir á afmörkuðum svæðum þar sem veruleg röskun verður á atvinnuháttum og búsetu. Sérstaklega verði hugað að aðgerðum í byggðum þar sem atvinnulíf er fábreytt og útgerð á í vök að verjast. Í þeim sveitum sem byggja nær eingöngu á sauðfjárrækt og samgöngur hindra atvinnusókn í önnur byggðarlög verði hugað að aðgerðum sem gætu meðal annars falist í breyttum áherslum í ráðstöfun beingreiðslna með tilliti til byggðasjónarmiða.
     5.      Forsendur traustra byggða og þar með vaxtarsvæða eru öruggar samgöngur, öflug sveitarfélög, samstarf byggðarlaga um þjónustu og góð skilyrði til atvinnusóknar. Þessi grundvöllur verði treystur með því að örva fjárfestingar í samgöngum, menntun, byggingum og fjarskiptum. Samvinna fyrirtækja við innlendar og erlendar rannsóknastofnanir verði efld, erlend tengsl fyrirtækja á landsbyggðinni aukin og störf sköpuð með fjarvinnslu.
                  Gripið verði til aðgerða til að auðvelda fólki í strjálbýli atvinnusókn og hugað að leiðum til að lækka kostnað því samfara. Til að treysta búsetu og þróun vaxtarsvæða verði stuðlað að bættum og öruggari almenningssamgöngum.
     6.      Lögð verði áhersla á að opinberum störfum fjölgi eigi minna hlutfallslega á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Því markmiði verði meðal annars náð með því að leitast við að staðsetja nýja starfsemi hins opinbera utan höfuðborgarsvæðisins. Skilgreind verði eftir föngum þau verkefni einstakra ráðuneyta, stofnana og opinberra fyrirtækja sem unnt er að sinna á landsbyggðinni. Hvert ráðuneyti fyrir sig leggi fram tillögur þar að lútandi sem meðal annars geri ráð fyrir að möguleikar upplýsingatækninnar verði nýttir til hins ýtrasta.
     7.      Nýjum stóriðjuverkefnum verði fundinn staður utan athafnasvæða höfuðborgarinnar og þannig stuðlað að varanlegri fólksfjölgun og fjölbreyttara framboði atvinnutækifæra þar. Lögð verði áhersla á að staðsetja ný stóriðjuverkefni sem víðast á landinu og þeim valinn staður með tilliti til orkuþarfa þannig að bæði sé um að ræða orkufreka stóriðju í nálægð við meginorkuöflunarsvæði hennar og önnur iðjuver sem ekki eru eins orkufrek utan þeirra svæða. Umhverfissjónarmiða verði gætt í hvívetna.
                  Staðarvalsrannsóknir verði auknar og markvisst unnið að skipulagsmálum og umhverfisathugunum á þeim stöðum sem helst þykja koma til greina fyrir meðalstór og stærri atvinnufyrirtæki. Til að treysta framgang þessara áforma og til að stuðla að þátttöku erlendra fjárfesta í þeim verði nauðsynlegt fé veitt til undirbúningsstarfa.
     8.      Fram fari greining á möguleikum einstakra landshluta, meðal annars með tilliti til auðlindanýtingar, iðnaðar og verslunar, fiskveiða og -vinnslu, samgangna og þjónustustarfsemi. Opinberar aðgerðir miðist við að nýta styrkleika hvers svæðis til atvinnusköpunar. Nýjar lausnir í upplýsingatækni verði nýttar til að skapa störf í hátæknigreinum án tillits til búsetu.
II. Menntun, þekking, menning.
     9.      Menntun á landsbyggðinni verði stórefld, sérstaklega hvað varðar verklegar greinar tengdar atvinnulífinu og tölvunám. Jafnframt verði bætt skilyrði þess fólks sem sækja verður nám utan heimabyggðar sinnar. Námsráðgjöf verði aukin. Komið verði á samstarfi atvinnulífs og skóla á landsbyggðinni um endur- og símenntun og stuðlað að því að allir eigi tækifæri á að afla sér nýrrar þekkingar, meðal annars í samræmi við breytingar í atvinnuháttum. Möguleikar fjarkennslu verði að fullu nýttir.
                  Menntun á háskólastigi verði tekin upp þar sem kostur er, meðal annars með samningum milli framhalds- og háskóla. Háskólinn á Akureyri og Háskóli Íslands hafi á boðstólum fjölþættar námsgreinar sem taki mið af þörfum atvinnulífsins, þar með talið í ferðaþjónustu. Enn fremur verði rannsóknir efldar er stuðli að nauðsynlegri fjölgun háskóla- og sérskólamenntaðs fólks í fyrirtækjum, meðal annars með stofnun atvinnudeildar við Háskólann á Akureyri . Tekin verði upp kennsla á háskólastigi í byggðamálum með stofnun sérstakrar námsbrautar eða sem hluti af kennslu við námsbraut sem fyrir er. Á Austurlandi og Vestfjörðum verði nám á háskólastigi í boði svo fljótt sem verða má.
     10.      Auknu fé verði varið til hvers konar menningarstarfsemi. Menningararfur verði varðveittur innan héraðs eftir því sem tök eru á og verði sýnilegur innlendum og erlendum ferðamönnum. Bókasöfnum á landsbyggðinni verði gert kleift að notfæra sér upplýsingatækni með því að efla tækjakost. Sérstakt átak verði gert til endurbyggingar og varðveislu gamalla húsa á landsbyggðinni.
     11.      Ríkisfjölmiðlar efli starfsemi á landsbyggðinni, meðal annars með aukinni dagskrárgerð og útsendingum frá starfsstöðvum Ríkisútvarpsins þar. Aðstaða til miðlunar og útsendinga fjölmiðla verði jöfnuð og hin sama um land allt, meðal annars með breytingum á gjaldskrá Landssíma Íslands hf.
III. Jöfnun lífskjara – bætt samkeppnisstaða.
     12.      Áfram verði unnið að því að lækka kostnað við hitun íbúðarhúsnæðis. Verð á orku til hitunar íbúðarhúsnæðis verði á næstu þremur árum fært til samræmis við meðaldýrar hitaveitur með aukinni þátttöku Landsvirkjunar og ríkissjóðs. Heimilt verði að nýta fé sem ætlað er til niðurgreiðslu rafhitunar í fimm ár til þess að lækka stofnkostnað nýrra hitaveitna og stuðla þannig að aukinni notkun á jarðvarma til húshitunar. Áhersla verði lögð á að upplýsa þá sem nota mikla orku til að hita hús sín um leiðir til að draga úr orkunotkun, meðal annars með fræðslu og ráðgjöf.
     13.      Gert verði átak í uppbyggingu vega í þeim landshlutum þar sem samgöngur eru ófullnægjandi (jaðarsvæði) svo að þær verði í samræmi við nútímaþarfir.
     14.      Þar sem félagslegt íbúðarhúsnæði er meira en þörf er á vegna fólksfækkunar, og það veldur erfiðri fjárhagsstöðu sveitarfélaga, verði heimilt að selja þetta húsnæði í áföngum á almennum markaði. Ríkissjóður og sveitarfélög beri sameiginlega þann kostnað sem af þessu kann að hljótast.
     15.      Í ljósi þeirrar reynslu sem fæst af flutningi grunnskólans til sveitarfélaga verði að því stefnt að auka hlut sveitarfélaga í opinberum rekstri. Miðað verði við að hlutur sveitarfélaga verði eigi minni en ríkis.
     16.      Lagt verði mat á kostnað samfélagsins vegna þeirrar búsetuþróunar sem orðið hefur frá árinu 1986. Byggðastofnun meti reglulega áhrif lagasetningar, fjárlagagerðar og einstakra stjórnvaldsaðgerða á byggðaþróunina í landinu.
IV. Bætt umgengni við landið.
     17.      Gert verði átak til að stöðva hraðfara landeyðingu þar sem náttúruöfl hindra ekki framkvæmdir.
     18.      Sveitarfélög verði aðstoðuð við gerð framkvæmdaáætlunar í umhverfismálum.
     19.      Með hliðsjón af aukinni ferðamennsku og kröfum um óspillt umhverfi verði gert átak til umhverfisbóta.
     20.      Rannsökuð verði langtímaáhrif stofnvega á miðhálendinu með tilliti til umhverfis, hagkvæmni, ferðaþjónustu, atvinnumála og búsetu.
     21.      Lögð verði áhersla á að hraða gerð stafrænna korta fyrir landið og byggja upp landfræðileg upplýsingakerfi.

Samþykkt á Alþingi 3. mars 1999.