Ferill 471. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 1009  —  471. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um raforkuver, nr. 60/1981, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta iðnaðarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Ingimarsson frá iðnaðarráðu­neyti, Friðrik Sophusson, Örlyg Þórðarson og Agnar Olsen frá Landsvirkjun, Steinar Frið­geirsson og Kristján Jónsson frá Rafmagnsveitum ríkisins, Ólaf Pétursson og Einar Pálsson frá Hollustuvernd ríkisins, Árna Bragason frá Náttúruvernd ríkisins, Árna Einarsson frá Náttúrurannsóknarstöðinni við Mývatn, Ólöfu G. Valdimarsdóttur frá Náttúruverndarráði, Ásgrím Guðmundsson frá Orkustofnun og Leif Hallgrímsson og Birki Fanndal frá sveitar­stjórn Skútustaðahrepps.
    Umsagnir um málið bárust frá Rafveitu Sauðárkróks, Orkustofnun, Landvernd, Um­hverfissamtökum Íslands, Hinu íslenska náttúrufræðifélagi, Náttúruvernd ríkisins, Raf­magnsveitum ríkisins, Náttúruverndarráði, Landsvirkjun, Skipulagsstofnun, Þjóðhags­stofnun, Hollustuvernd ríkisins og sveitarstjórn Djúpárhrepps.
    Frumvarpið er flutt til að afla lagaheimilda fyrir nýjum virkjunum, Vatnsfellsvirkjun og Búðarhálsvirkjun. Er þeim ætlað að mæta aukinni raforkuþörf á almennum markaði og vegna hugsanlegra stóriðjuframkvæmda á næstu árum, en samningaviðræður standa nú yfir um aukna orkusölu Landsvirkjunar, m.a. til Norðuráls hf. á Grundartanga. Undirbúningur þess­ara virkjunarkosta er langt kominn og því ástæða til að afla lagaheimilda fyrir þeim. Þykja þessir kostir hagkvæmir og áhrif þeirra á umhverfi og landnýtingu eru fremur lítil.
    Þá er lagt til í frumvarpinu að heimild Landsvirkjunar til að reisa og reka Villinganes­virkjun verði felld niður, en Rafmagnsveitum ríkisins eða félagi sem þær eiga aðild að verði veitt heimildin þess í stað. Er þessi breyting lögð til með hliðsjón af breyttum áherslum stjórnvalda í raforkumálum sem lúta m.a. að því að raforka úr nýjum virkjunum nýtist fyrst þeim byggðarlögum þar sem hún er unnin.
    Við meðferð málsins í nefndinni kom fram ósk Landsvirkjunar þess efnis að nefndin beitti sér fyrir breytingu á frumvarpinu á þá leið að leyfð yrði virkjun jarðgufuorku til rafmagns­framleiðslu í Bjarnarflagi við Námafjall með allt að 40 MW afli. Kom fram að sveitarstjórn Skútustaðahrepps væri einhuga um stuðning við málið og hefði m.a. lýst áhuga á því að tvinna saman virkjunina og þjónustu við ferðamenn á svæðinu. Nefndin tók þessa beiðni til ítarlegrar skoðunar og komst meiri hlutinn að þeirri niðurstöðu að rétt væri að fallast á hana. Telur meiri hlutinn ljóst að um er að ræða góðan virkjunarkost sem gæti orðið byggðinni á staðnum til verulegra hagsbóta.
    Meiri hlutinn telur sérstaklega mikilvægt að veiting virkjanaleyfa samkvæmt frumvarpinu sé háð niðurstöðu um mat á umhverfisáhrifum og treystir því að vel verði vandað til verka í því efni. Telur meiri hlutinn að við mat á umhverfisáhrifum vegna Bjarnarflagsvirkjunar verði m.a. að kanna áhrif virkjunarinnar á landslag svæðisins, hveravirkni, efnistöku og frárennsli. Þá bendir meiri hlutinn á að um svæðið gilda sérstök lög, þ.e. lög um verndun Mý­vatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, nr. 36/1974.
    Aðrar breytingar sem meiri hlutinn leggur til eru eftirfarandi:
     1.      Í stað þess að heimilt verði að veita Rafmagnsveitum ríkisins eða félagi með aðilum í Skagafirði sem þær eiga aðild að leyfi til að reisa og reka Villinganesvirkjun verði gert ráð fyrir að leyfið verði veitt Rafmagnsveitum ríkisins í félagi með aðilum í Skagafirði.
     2.      Breytt verði tilvísunum til lagagreina í tveimur greinum laganna.
     3.      Þá verði bætt við frumvarpið ákvæði þar sem lagt er til að sama breyting og lögð er til í frumvarpinu verði felld inn í lög um Landsvirkjun, nr. 42/1983. Verði því samræmi milli laganna um þetta.
    Meiri hlutinn mælir með samþykkt frumvarpsins með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 4. mars 1999.



Stefán Guðmundsson,


form., frsm.


Guðjón Guðmundsson.


Pétur H. Blöndal.



Magnús Á. Magnússon.


Katrín Fjeldsted.


Sigríður A. Þórðardóttir.



Ragnar Arnalds.


Hjálmar Árnason.