Ferill 594. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 1014  —  594. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 43/1987, um lögskráningu sjómanna, með síðari breytingum.

Frá samgöngunefnd.



1. gr.

    Við ákvæði til bráðabirgða bætist: Þó er heimilt fram til 1. apríl 2001 að lögskrá þann sem ekki hefur hlotið öryggisfræðslu í Slysavarnaskóla sjómanna, enda liggi fyrir hjá lög­skráningarstjóra staðfesting Slysavarnaskóla sjómanna á að viðkomandi hafi látið skrá sig á námskeið og hvenær það fari fram. Mæti skipstjórnarmaður eða aðrir skipverjar ekki á námskeið sem þeir eru skráðir á er lögskráningarstjóra óheimilt að lögskrá þá, nema við­komandi hafi haft fullgildar ástæður fyrir forföllum sínum að mati Slysavarnaskóla sjó­manna, hafi skráð sig að nýju á öryggisfræðslunámskeið skólans og muni ljúka því eins fljótt og kostur er og eigi síðar en 1. apríl 2001.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Árið 1994 urðu tímamót í öryggismálum sjómanna þegar lögfest var öryggisfræðsla fyrir sjómenn. Samkvæmt lögunum var yfirlýsing um að skipverji hefði hlotið öryggisfræðslu í Slysavarnaskóla sjómanna eða á annan sambærilegan hátt gerð að skilyrði fyrir lögskráningu hans. Skipstjórnarmönnum var veittur frestur til 31. desember 1995 til að fullnægja ákvæð­inu, en öðrum skipverjum til 31. desember 1996.
    Með lögum nr. 119/1997, um breytingu á lögum um lögskráningu sjómanna, var fram­lengdur aðlögunartíminn og kveðið á um að þeir skipstjórnarmenn og aðrir skipverjar sem höfðu skráð sig á námskeið hjá Slysavarnaskólanum fyrir 1. janúar 1998 fengju frest til 1. apríl 1999 til að fullnægja skilyrðum 7. tölul. 1. mgr. 7. gr. laganna um öryggisfræðslunám­skeið.
    Með frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að lögskrá þann sem ekki hefur hlotið örygg­isfræðslu í Slysavarnaskóla sjómanna, enda liggi fyrir staðfesting skólans á að viðkomandi hafi látið skrá sig á námskeið og hvenær það fari fram. Ef skipstjórnarmaður eða aðrir skip­verjar mæta ekki á námskeið sem þeir eru skráðir á er lögskráningarstjóra óheimilt að lögskrá þá, nema viðkomandi hafi haft fullgildar ástæður fyrir forföllum sínum að mati Slysavarnaskóla sjómanna, hafi skráð sig að nýju á öryggisfræðslunámskeið skólans og muni ljúka námskeiði fyrir 1. apríl 2001.
    Samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnaskóla sjómanna og Siglingastofnun Íslands hafa ekki staðist áætlanir um fjölda sjómanna sem ekki höfðu undirgengist námskeið og ljóst er að töluverður hópur skipstjórnarmanna og annarra skipverja munu ekki eiga þess kost að gangast undir námskeið fyrir 1. apríl 1999 þótt þeir hafi skráð sig fyrir síðustu áramót.
    Með hliðsjón af þeim fjölda sjómanna sem nú er skráður á öryggisfræðslunámskeið Slysa­varnaskóla sjómanna og að ekki hefur verið hægt að henda reiður á nýliðun í sjómannastétt þykir rétt að hafa frestinn rúman eða til 1. apríl 2001 þannig að þeir sem hefja sjómennsku á tímabilinu fái hæfilegan viðbótarfrest til að uppfylla skyldur sínar.