Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 548, 122. löggjafarþing 289. mál: lögskráning sjómanna (öryggisfræðsla).
Lög nr. 119 18. desember 1997.

Lög um breytingu á lögum um lögskráningu sjómanna, nr. 43/1987, með síðari breytingum.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
  1. 7. tölul. 1. mgr. orðast svo: Yfirlýsingu um að skipverji hafi hlotið öryggisfræðslu í Slysavarnaskóla sjómanna eða á annan hátt. Veita má skipverja sem skráður er í fyrsta sinn sex mánaða frest til að fullnægja ákvæðinu.
  2. Við bætist ný málsgrein sem orðast svo:
  3.      Samgönguráðherra er heimilt með reglugerð að setja það skilyrði fyrir lögskráningu að skipverjar sæki öryggisfræðslunámskeið skv. 7. tölul. 1. mgr. þessarar greinar eigi sjaldnar en á fimm ára fresti.


2. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
     Skipstjórnarmenn og aðrir skipverjar sem hafa skráð sig á námskeið hjá Slysavarnaskóla sjómanna fyrir 1. janúar 1998 fá frest til 1. apríl 1999 til að fullnægja skilyrðum 7. tölul. 1. mgr. 7. gr. laganna.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 15. desember 1997.