Ferill 92. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 1018  —  92. mál.




Nefndarálit



um till. til. þál. um hvalveiðar.

Frá meiri hluta sjávarútvegsnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón B. Jónasson, Kristján Skarphéð­insson, Arnór Halldórsson og Kristínu Haraldsdóttur frá sjávarútvegsráðuneyti, Magnús Oddsson frá Ferðamálaráði, Svein Hjört Hjartarsson og Guðrúnu Lárusdóttur frá Landssam­bandi íslenskra útvegsmanna, Ásbjörn Björnsson frá SÍF hf., Jóhann Sigurjónsson og Gísla Víkingsson frá Hafrannsóknastofnuninni, Kristján Loftsson frá Hval hf., Tómas H. Heiðar frá utanríkisráðuneyti, Árna Finnsson frá Náttúruverndarsamtökum Íslands, Guðmund Har­aldsson frá Félagi hrefnuveiðimanna, Ásbjörn Björgvinsson frá Hvalamiðstöðinni á Húsa­vík, Jón Gunnar Ottósson frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Ernu Hauksdóttur, Einar Bolla­son og Hörð Sigurbjörnsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Friðrik Pálsson frá Sölumið­stöð hraðfrystihúsanna, Jón Gunnarsson frá Sjávarnytjum, Guðjón A. Kristjánsson frá Far­manna- og fiskimannasambandi Íslands, Helga Laxdal frá Vélstjórafélagi Íslands og Sævar Gunnarsson frá Sjómannasambandi Íslands.
    Umsagnir um málið bárust frá Akraneskaupstað, Öldunni, skipstjóra og stýrimannafélagi, Alþýðusambandi Íslands, Samtökum verslunarinnar, Hólmavíkurhreppi, Landssambandi smábátaeigenda, Leirár- og Melahreppi, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum fisk­vinnslustöðva, Sjóferðum Arnars Sigurðssonar, Sjóferðum ehf., Sjómannafélagi Ísfirðinga, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Verkalýðsfélagi Akraness. Í vinnu sinni studdist nefndin jafnframt við umsagnir um 577. mál, hvalveiðar, sem lagt var fram á 122.löggjafarþingi en varð ekki útrætt. Þá bárust umsagnir frá Dagsbrún-Framsókn, Farmanna- og fiskimannasam­bandinu, Ferðamálaráði, Félagi hrefnuveiðimanna, Félagi íslenskra ferðaskrifstofa, Fisk­markaði Suðurnesja, Hafrannsóknastofnuninni, Hvalamiðstöðinni Húsavík ehf., Hval hf., Innri-Akraneshreppi, Konráð og sonum, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Sjómanna­félagi Eyjafjarðar, Sjómannafélagi Reykjavíkur, Sjómannasambandi Íslands, Verkakvenna­félaginu Framtíðinni, Verkalýðsfélaginu Jökli og Vélstjórafélagi Íslands. Í meiri hluta um­sagna var mælt með samþykkt málsins. Tillagan var einnig send utanríkismálanefnd til um­sagnar og gerir hún ekki athugasemdir við þingmálið eftir athugun á því.
    Tillagan felur í sér að hvalveiðar verði hafnar hér við land á þessu ári innan þeirra marka sem Hafrannsóknastofnunin leggur til og að sjávarútvegsráðherra verði falin framkvæmd veiðistjórnar á grundvelli gildandi laga.
    Meiri hluti nefndarinnar tekur undir meginefni tillögunnar og leggur til við Alþingi að ályktað verði um að hefja skuli hvalveiðar hið fyrsta og að ríkisstjórninni verði falið að standa fyrir nauðsynlegri kynningu á þessari ákvörðun Alþingis og hrinda henni í fram­kvæmd þannig að veiðarnar geti hafist sem fyrst. Miðað er við að það geti orðið eigi síðar en á næsta ári.
    Að málinu hefur verið unnið á undanförnum árum og er tillaga meiri hlutans nú í samræmi við álit starfshóps um hvalveiðar frá febrúar 1997 og samþykkt ríkisstjórnarinnar í framhaldi af því.
    Verði tillagan samþykkt hefur Alþingi upphafið ályktun sína frá 2. febrúar 1983, en þar var ályktað að ekki yrði mótmælt samþykkt Alþjóðahvalveiðiráðs um takmörkun hvalveiða, og markað nýja stefnu þar sem skýrt og skorinort er kveðið á um að hvalveiðar skuli hefjast og það hið fyrsta.
    Meiri hlutinn mælir með samþykkt tillögunnar með svofelldri

BREYTINGU:


    Tillögugreinin orðist svo:
    Alþingi ályktar að hefja skuli hið fyrsta hvalveiðar hér við land og tekur fram að ályktun þess frá 2. febrúar 1983 stendur ekki í vegi fyrir því. Veiðarnar fari fram á grundvelli vís­indalegrar ráðgjafar Hafrannsóknastofnunarinnar og undir eftirliti stjórnvalda.
    Alþingi leggur áherslu á óskoraðan fullveldisrétt Íslands við nýtingu hvalastofna á ís­lensku hafsvæði í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar um sjálfbæra nýtingu lifandi auð­linda.
    Alþingi felur ríkisstjórninni að undirbúa hvalveiðar, meðal annars með því að kynna mál­stað og sjónarmið Íslendinga meðal viðskiptaþjóða okkar. Undirbúningur miði að því að veiðar geti hafist sem fyrst. Kostnaður við kynninguna verði greiddur úr ríkissjóði. Öllu kynningarstarfi verði flýtt svo sem auðið er.

Alþingi, 2. mars 1999.



Kristinn H. Gunnarsson,


form., frsm.


Árni R. Árnason.



Guðmundur Hallvarðsson.




Vilhjálmur Egilsson.     


Hjálmar Árnason.     


Einar Oddur Kristjánsson.


                        


Stefán Guðmundsson.