Ferill 356. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 1046  —  356. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um undirbúning jarðganga milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið á fundum sínum. Umsagnir bárust nefndinni frá Stöðvar­hreppi, Fjarðabyggð, Austur-Héraði, Seyðisfjarðarkaupstað, Búðahreppi, Fáskrúðsfjarðar­hreppi, Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, samgöngunefnd Sambands sveitar­félaga í Austurlandskjördæmi, Breiðdalshreppi, Borgarfjarðarhreppi, Þróunarstofu Austur­lands, Hornafjarðarbæ, Vopnafjarðarhreppi og samgönguráðuneyti.
    Tillagan gerir ráð fyrir að samgönguráðherra verði falið að hefja nú þegar undirbúning að gerð jarðganga milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar og að miðað verði við að fram­kvæmdir hefjist 2003.
    Flestar umsagnir sem bárust nefndinni voru jákvæðar. Í umsögn Vegagerðar ríkisins frá 11. febrúar sl. var farið nokkrum orðum um forsögu málsins og þar kom m.a. fram að á árun­um 1983–84 og 1989–93 hafi Vegagerðin látið vinna nokkuð að frumathugun á aðstæðum til jarðgangagerðar á Austurlandi. Einkum var þar um jarðgangarannsóknir að ræða. Gögn úr rannsóknunum voru síðan notuð við vinnu nefndar sem skipuð var árið 1988 en hún átti að vinna að framgangi jarðgangagerðar á Austurlandi og gera tillögur um leiðir til fjármögn­unar. Nefndin skilaði tillögum sínum árið 1993 og samkvæmt þeim skyldi í fyrsta áfanga byggja göng sem ryfu vetrareinangrun Seyðisfjarðar og Norðfjarðar, í öðrum áfanga göng milli Vopnafjarðar og Héraðs annars vegar og Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar hins vegar og í þriðja áfanga jarðgöng milli Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar annars vegar og Stöðv­arfjarðar og Breiðdalsvíkur hins vegar. Jafnframt kom fram að síðan þessar tillögur voru lagðar fram hafi verið töluverð umræða á Austurlandi um þessa áfangaröðun, án þess að niðurstaða hafi fengist.
    Með þeim umbótum og aukinni vetrarþjónustu sem orðið hafa á þessum vegleiðum á Aust­urlandi hafa aðstæður breyst. Er það meginástæða tillögunnar í þskj. 488.
    Í langtímaáætlun í vegagerð fyrir árin 1999–2010, sem samþykkt var á Alþingi 2. júní 1998, var ekki fjallað um framkvæmdir við jarðgöng. Í athugasemdum við þingsályktunar­tillöguna sagði að ef til slíkra framkvæmda kæmi á áætlunartímabilinu væri gert ráð fyrir að það yrði samkvæmt sérstakri ákvörðun stjórnvalda þar sem einnig yrði tekin afstaða til fjár­mögnunar. Í langtímaáætluninni var jafnframt ákveðið að verja 120 millj. kr. til jarðganga­rannsókna á Austurlandi, Norðurlandi og Vestfjörðum. Ætla verður að sú mótun langtíma­áætlunar um jarðgangagerð sem hér er lögð til taki mið af því.
    Mikil umræða hefur verið um gerð jarðganga um nokkurt skeið. Því telur samgöngunefnd að jafnframt því að vinna að rannsóknum á jarðgangakostum þurfi að hyggja að mótun lang­tímastefnu um jarðgangagerð í landinu. Með því móti er stuðlað að skipulegum undirbúningi framkvæmda sem nauðsynlegt er að ráðast í. Því varð að ráði hjá samgöngunefnd að hafa afgreiðslu málsins almennari og víðtækari en tillaga í þskj. 488 gaf tilefni til og er það raunar í samræmi við tillögu til þingsályktunar um langtímaáætlun um jarðgangagerð sem nú liggur fyrir Alþingi og Magnús Stefánsson o.fl. eru flutningsmenn að. Í tillögugreininni, eins og samgöngunefnd leggur til að hún verði, er að talsverðu leyti stuðst við fyrrgreinda tillögu.
    Jarðgöng gegna margvíslegu hlutverki, m.a. í mótun byggðastefnu, eins og Vegagerðin bendir réttilega á í umsögn sinni. Markmið með jarðgangagerð geta verið að stytta vega­lengdir, stækka atvinnusvæði, koma í stað annarrar kostnaðarsamrar vegagerðar eða rjúfa vetrareinangrun. Við mat á forgangsröðun framkvæmda þarf að skoða alla þessa þætti eins og kveðið er á um í tillögugreininni.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með svofelldum

BREYTINGUM:


     1.      Tillögugreinin orðist svo:
             Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að vinna langtímaáætlun um gerð jarðganga á Íslandi. Áætlunin feli í sér úttekt á kostum sem taldir eru á jarðgangagerð á landinu, kostnaðarmat og arðsemismat einstakra framkvæmda og forgangsröðun verkefna. Sér­staklega verði horft til framkvæmda sem rjúfa vetrareinangrun, koma í stað annarrar kostnaðarsamrar vegagerðar, stytta vegalengdir eða stækka atvinnusvæði. Áætlunin liggi fyrir áður en lokið verður við næstu reglulegu endurskoðun vegáætlunar.
     2.      Fyrirsögn tillögunnar verði: Tillaga til þingsályktunar um langtímaáætlun í gerð jarðganga á Íslandi.

    Stefán Guðmundsson og Ásta R. Jóhannesdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 4. mars 1999.



Einar K. Guðfinnsson,


form., frsm.


Guðmundur Árni Stefánsson.


Egill Jónsson.



Ragnar Arnalds.


Árni Johnsen.


Magnús Stefánsson.



Kristján Pálsson.