Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1150, 123. löggjafarþing 226. mál: aðgerðir gegn peningaþvætti (gjaldsvið o.fl.).
Lög nr. 38 19. mars 1999.

Lög um breytingu á lögum nr. 80/1993, um aðgerðir gegn peningaþvætti.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
  1. Í stað 1. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
  2.      Lög þessi gilda um starfsemi einstaklinga og lögaðila sem heimild hafa til að veita almenningi þjónustu hér á landi eða erlendis samkvæmt alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að og fellur undir einn eða fleiri eftirtalinna liða:
    1. Móttöku innlána og annarra endurgreiðanlegra fjármuna frá almenningi.
    2. Útlánastarfsemi, m.a.:
      1. neytendalán,
      2. veðlán,
      3. kröfukaup og kaup skuldaskjala og
      4. viðskiptalán.
    3. Eignarleigu.
    4. Greiðslumiðlun.
    5. Útgáfu og umsýslu greiðslukorta, svo og annarra greiðslumiðla.
    6. Að veita ábyrgðir eða veðtryggingar vegna lántöku.
    7. Viðskipti fyrir eigin reikning eða fyrir viðskiptavini með:
      1. greiðsluskjöl á peningamarkaði (ávísanir, víxla, önnur sambærileg greiðsluskjöl o.s.frv.),
      2. erlendan gjaldeyri,
      3. framvirka samninga og skiptirétt (vilnanir),
      4. gengisbundin bréf og vaxtabéf og
      5. verðbréf.
    8. Þátttöku í útboðum verðbréfa og þjónustuviðskipti tengd slíkum útboðum.
    9. Móttöku fjármuna í tengslum við uppbyggingu höfuðstóls í fyrirtækjum eða í tengslum við kaup, yfirtöku eða samruna atvinnufyrirtækja.
    10. Peningamiðlun, þar með taldar skiptistöðvar (bureaux de change).
    11. Geymslu, umsjón og ávöxtun verðbréfa, þar með talinna rafbréfa.
    12. Leigu á geymsluhólfum.
    13. Verðbréfaviðskipti samkvæmt lögum nr. 113/1996.
    14. Líftryggingarstarfsemi, svo og starfsemi lífeyrissjóða.

         Ákvæði laganna taka einnig til þeirra sem hlotið hafa starfsleyfi á grundvelli laga nr. 6/1926, um happdrætti (lotterí) og hlutaveltur (tombólur), eða til reksturs fjársafnana og happdrætta á grundvelli sérlaga þegar greiddir eru út vinningar.
  3. Í stað tilvísunarinnar „7. og 8. gr.“ í 2. mgr. kemur: 7., 8. og 9. gr.


2. gr.

     2. gr. laganna orðast svo:
     Með peningaþvætti er í lögum þessum átt við þegar einstaklingur eða lögaðili tekur við eða aflar sér eða öðrum ávinnings með broti sem er refsivert samkvæmt almennum hegningarlögum, svo sem auðgunarbroti eða stórfelldu skatta- eða fíkniefnabroti, tollalögum, lögum um ávana- og fíkninefni, áfengislögum og lyfjalögum. Einnig er átt við þegar einstaklingur eða lögaðili tekur að sér að geyma eða flytja slíkan ávinning, aðstoðar við afhendingu hans eða stuðlar á annan sambærilegan hátt að því að tryggja öðrum ávinning af slíkum refsiverðum brotum.
     Skylt er þeim sem falla undir ákvæði þessara laga að veita alla nauðsynlega aðstoð til að ákvæðum laganna verði framfylgt.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Við upphaf viðskipta, einkum við opnun reiknings og eignavörslu, skal einstaklingur eða lögaðili sem nefndur er í 1. gr. krefjast þess af viðskiptamanni að hann sanni á sér deili með framvísun persónuskilríkja um nafn, lögheimili og kennitölu samkvæmt vottorði útgefnu af Hagstofu Íslands. Sama gildir um prókúruhafa eftir því sem við getur átt.
  3. Í stað orðanna „föstu viðskiptasambandi“ í fyrri málslið 2. mgr. kemur: föstum viðskiptum.
  4. Í stað orðanna „með hærri fjárhæð en 1.100.00 kr.“ í fyrri málslið 2. mgr. kemur: með hærri fjárhæð en sem nemur 15.000 evrum miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni.
  5. Í stað orðanna „á almennum hegningarlögum eða lögum um ávana- og fíkniefni“ í 3. mgr. kemur: sem lýst er í 2. gr.


4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „fjármálastofnun sem starfar innan Evrópska efnahagssvæðisins“ í fyrri málslið kemur: lána- eða fjármálastofnun sem hlotið hefur starfsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu til að veita þjónustu, sbr. 1.–12. og 14. tölul. 1. mgr. 1. gr.
  2. Í stað orðanna „á almennum hegningarlögum eða lögum um ávana- og fíkniefni“ í síðari málslið kemur: sem lýst er í 2. gr.


5. gr.

     Í stað orðanna „starfsmaður fjármálastofnunar“ í 5. gr. laganna kemur: einstaklingur eða starfsmaður lögaðila sem nefndur er í 1. gr.

6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „Fjármálastofnun skal“ kemur: Einstaklingur og lögaðilar sem nefndir eru í 1. gr. skulu.
  2. Orðin „eða viðskiptasambandi“ falla brott.


7. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „Fjármálastofnun skal“ í fyrri málslið 1. mgr. kemur: Einstaklingum og lögaðilum sem nefndir eru í 1. gr. ber skylda til þess að.
  2. Í stað orðanna „á almennum hegningarlögum eða lögum um ávana- og fíkniefni“ í fyrri málslið 1. mgr. kemur: sem lýst er í 2. gr.
  3. Í stað orðsins „ríkissaksóknara“ í fyrri málslið 1. mgr. kemur: ríkislögreglustjóra.
  4. Orðin „ríkissaksóknara eða“ í síðari málslið 1. mgr. falla brott.
  5. Í stað orðsins „rannsóknarinnar“ í síðari málslið 1. mgr. kemur: tilkynningarinnar.
  6. Í stað orðanna „á almennum hegningarlögum eða lögum um ávana- og fíkniefni þar til ríkissaksóknara hefur verið tilkynnt um viðskiptin“ í fyrri málslið 2. mgr. kemur: sem lýst er í 2. gr. og tilkynna um það til ríkislögreglustjóra, sbr. 8. gr. Í tilkynningu skal taka fram innan hvaða frests einstaklingum og lögaðilum sem nefndir eru í 1. gr. er skylt að framkvæma viðskiptin.
  7. Í stað orðsins „ríkissaksóknara“ í síðari málslið 2. mgr. kemur: ríkislögreglustjóra.


8. gr.

     Við lögin bætist ný grein, 8. gr., sem orðast svo, og breytast greinatölur samkvæmt því:
     Ríkislögreglustjóra ber að staðfesta skriflega móttöku tilkynningar skv. 7. gr. Ríkislögreglustjóra er heimilt ef brýn nauðsyn krefur að óska eftir því að viðskipti sem tilkynnt hefur verið um skv. 7. gr. verði ekki framkvæmd fyrr en að loknum þeim fresti sem tilgreindur er í tilkynningunni. Ríkislögreglustjóri skal tafarlaust gera viðvart sé ekki talin þörf á hindrun viðskipta.
     Einstaklingar og lögaðilar sem nefndir eru í 1. gr., svo og starfsmenn þeirra, bera ábyrgð á því að ákvæðum laga þessara og reglugerðar, og reglum settum samkvæmt þeim, sé framfylgt. Þeim er skylt að tilnefna einstakling sem sérstakan ábyrgðarmann sem að jafnaði annast tilkynningar í samræmi við ákvæði 7. gr. og sjá til þess að mótaðar séu samræmdar starfsaðferðir er stuðli að framkvæmd laganna. Ríkislögreglustjóra skal tilkynnt um tilnefningu ábyrgðarmanns.

9. gr.

     8. gr. laganna, er verður 9. gr., orðast svo:
     Einstaklingar, stjórnendur, starfsmenn og aðrir sem vinna í þágu lögaðila sem lög þessi taka til eru skyldir til að sjá til þess að viðskiptamaður eða annar utanaðkomandi aðili fái ekki vitneskju um að ríkislögreglustjóra hafi verið sendar upplýsingar skv. 7. gr. eða að rannsókn sé hafin vegna gruns um brot sem lýst er í 2. gr.

10. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna er verður 10. gr.:
  1. Í stað orðanna „Fjármálastofnun skal“ í fyrri málslið kemur: Einstaklingum og lögaðilum sem nefndir eru í 1. gr. ber skylda til þess að.
  2. Í stað orðsins „stofnunin“ í fyrri málslið kemur: starfsemi þeirra.
  3. Í stað orðanna „skal stofnunin“ í síðari málslið kemur: skulu þeir.


11. gr.

     Fyrirsögn II. kafla laganna verður: Hlutverk einstaklinga og lögaðila.

12. gr.

     10. gr. laganna, er verður 11. gr., orðast svo:
     Fái Fjármálaeftirlitið eða önnur stjórnvöld sem hafa eftirlit með þeirri starfsemi sem talin er upp í 1. gr. í störfum sínum vitneskju um viðskipti sem tengjast broti sem lýst er í 2. gr. eða upplýsingar um viðskipti sem grunur leikur á að tengist broti sem lýst er í 2. gr. skal það tilkynnt til ríkislögreglustjóra.

13. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna er verður 12. gr.:
  1. Í stað orðanna „Þegar stjórnandi eða starfsmaður fjármálastofnunar veitir ríkissaksóknara eða lögreglu“ í fyrri málslið kemur: Þegar einstaklingur eða lögaðili sem lög þessi taka til, sbr. 1. gr., veitir lögreglu.
  2. Í stað orðanna „stofnunum, stjórnendum þeirra eða starfsmönnum“ í síðari málslið kemur: einstaklingum, lögaðilum eða starfsmönnum.


14. gr.

     12. gr. laganna fellur brott og breytast greinatölur samkvæmt því.

15. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
  1. Í stað tilvísunarinnar „8. og 9. gr.“ í fyrri málslið 1. mgr. kemur: 8., 9. og 10. gr.
  2. Orðin „ríkissaksóknara eða“ í síðari málslið 1. mgr. falla brott.


16. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 10. mars 1999.