Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1152, 123. löggjafarþing 281. mál: leigubifreiðar (skilyrði til aksturs).
Lög nr. 30 19. mars 1999.

Lög um breyting á lögum um leigubifreiðar, nr. 61/1995.


1. gr.

     2. tölul. 3. gr. laganna orðast svo: hafa ekki verið dæmdir til refsivistar eða framið alvarleg eða ítrekuð brot á lögum og reglugerðum sem um starfsgreinina gilda; hafi brot verið smávægilegt eða langt er um liðið frá því að brot var framið getur umsækjandi þó öðlast leyfi samkvæmt lögum þessum.

2. gr.

     Í stað 2. málsl. 5. mgr. 7. gr. laganna koma fjórir nýir málsliðir, svohljóðandi: Þó er heimilt að framlengja atvinnuleyfi til eins árs í senn allt til 75 ára aldurs leyfishafa ef hann telst hæfur til að stunda leiguakstur. Hæfi leyfishafa skal metið á grundvelli árlegrar læknisskoðunar og hæfnisprófs sem þreyta skal tvisvar sinnum eftir lok 70 ára aldurs leyfishafa. Hæfnispróf skal fyrst þreyta við fyrstu framlengingu leyfis og aftur innan þriggja ára frá þeim degi. Nánar skal kveðið á um þessi atriði í reglugerð.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 10. mars 1999.