Ferill 612. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 1195  —  612. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Frá sjávarútvegsnefnd.



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna, sbr. 2. gr. laga nr. 1/1999:
     a.      Í stað dagsetningarinnar „30. september“ í 2. mgr. kemur: 31. október.
     b.      Í stað orðanna „lögum þessum“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: lögum nr. 1/1999.
     c.      Í stað hlutfallstölunnar „25%“ í lokamálslið 3. mgr. kemur: 10%.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðbirgða XXIII í lögunum, sbr. ákvæði til bráðabirgða I í lögum nr. 1/1999:
     a.      Í stað dagsetningarinnar „1. mars 1999“ í 14. mgr. kemur: 15. apríl 1999.
     b.      Við ákvæðið bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
             Þrátt fyrir ákvæði þessa bráðabirgðaákvæðis er heimilt að veita báti sem stundað hef­ur veiðar með tilteknum fjölda sóknardaga og kýs að stunda veiðar með krókaaflamarki frá og með fiskveiðiárinu 2000/2001 leyfi til að stunda veiðar með þorskaflahámarki frá og með 15. apríl 1999 og til upphafs fiskveiðiársins 2000/2001. Úthlutað þorskafla­hámark báts þann tíma skal vera hið sama og reiknað krókaaflamark hans samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 1/1999. Á tímabilinu skulu að öðru leyti gilda sömu reglur og takmarkanir um veiðar þessara báta og annarra báta sem stunda veiðar með þorskaflahámarki, þar með talið um framsal þorskaflahámarksins. Á fiskveiðiárinu 1998/1999 skal draga frá úthlutuðu þorskaflahámarki þann þorskafla sem bátar skv. 1. málsl. þessarar málsgreinar hafa aflað fram til 15. apríl 1999. Hafi bátur aflað meira á því tímabili en sem nemur úthlutuðu þorskaflahámarki er honum óheimilt að stunda veiðar fyrr en flutt hefur verið á hann þorskaflahámark sem samsvarar umframveiði. Til­kynna skal Fiskistofu fyrir 15. apríl 1999 hvort óskað er eftir því að nýta heimild skv. 1. málsl. Um ákvörðun aflahlutdeildar þeirra báta, sem kjósa að stunda veiðar með þorskaflahámarki samkvæmt þessari málsgrein, í ýsu, ufsa og steinbít skal fara sam­kvæmt þeim reglum sem gilda um úthlutun til báta sem stundað hafa veiðar með daga­takmörkunum, sbr. 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 1/1999.

3. gr.

    Við ákvæði til bráðabirgða XXIV í lögunum, sbr. ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 1/1999, bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Veiðar krókabáta á krókaaflamarki úr öðrum stofnum en tilgreindum eru ekki bundnar aflatakmörkunum.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða XXV í lögunum, sbr. ákvæði til bráðabirgða III í lögum nr. 1/1999:
     a.      Í stað orðanna „árlega 4.000 lestum af þorski, að frádregnum 601 lest sem úthlutað er skv. 3. og 4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II og úthlutun skv. 2. mgr. þessa bráðabirgða­ákvæðis“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: árlega 3.000 lestum af þorski.
     b.      Í stað orðanna „og eru“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: og voru þann dag.
     c.      Við 1. mgr. bætast þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Endurnýi útgerð bát sem á rétt á úthlutun samkvæmt þessari málsgrein, með nýsmíði eða kaupum á öðrum bát, skal út­hluta til þess báts er í staðinn kemur, enda hafi allar aflaheimildir verið fluttar yfir á hinn nýja bát af þeim sem verið er að endurnýja og ekki samið um annað. Tilkynna skal Fiskistofu um slíka endurnýjun og hvorum bátnum skal fylgja úthlutun samkvæmt þess­ari málsgrein. Jafnframt skal sjávarútvegsráðherra heimilt að úthluta samkvæmt reglum þessarar málsgreinar viðbótaraflaheimildum til báta sem hafa komið í stað annarra á tímabilinu frá 1. september 1997 til gildistöku þessara laga, enda hafi allar aflaheimildir verið fluttar yfir á hinn nýja bát af þeim sem endurnýjaður var og skerðir slík úthlutun ekki rétt annarra samkvæmt málsgreininni.
     d.      Í stað orðanna „sem eru minni en 10 brl. eða 10 brúttótonn“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: sem voru minni en 10 brl. eða 10 brúttótonn 1. janúar 1991 eða 1. desember 1998.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Breytingarnar lúta að veiðum krókabáta og er markmið þeirra að ná frekari sátt um fiskveiðistjórnun þeirra og gera mönnum kleift að halda áfram útgerð þessa bátaflota. Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru eftirfarandi:
          Að bátum sem veiða samkvæmt sóknardagakerfi á grundvelli 6. gr. laganna verði heimilað að stunda veiðar fram til 31. október ár hvert í stað 30. september eins og nú­gildandi lög gera ráð fyrir.
          Að sett verði þrengri mörk fyrir fækkun sóknardaga milli fiskveiðiára þannig að þeim verði aldrei fækkað um meira en 10% á milli ára.
          Að bátum sem nú stunda veiðar samkvæmt sóknardagakerfi og hafa valið að stunda veiðar með krókaaflamarki frá og með fiskveiðiárinu 2000/2001 verði heimilað að fá úthlutað þorskaflahámarki og stunda veiðar samkvæmt því frá og með 15. apríl 1999 til 31. ágúst 2000. Um úthlutun á þorskaflahámarki fer ekki samkvæmt ákvæðum laga nr. 83/1995 heldur skal þeim úthlutað sama magni og þeir hlytu samkvæmt úthlutun króka­aflamarks. Að öðru leyti munu sömu reglur gilda um þessa báta og gilda nú um þorsk­aflahámarksbátana. Þessi tímabundna úthlutun hefur hvorki áhrif á heildaraflahlutdeild né skiptingu aflahlutdeilda í ýsu, ufsa og steinbít. Þetta val mun einungis geta átt sér stað einu sinni og bátar geta ekki horfið frá vali sínu eftir að það hefur verið tilkynnt. Gert er ráð fyrir að Fiskistofu verði tilkynnt fyrir 15. apríl nk. hyggist bátar nýta sér þessa heimild.
          Að eigendum báta verði gefinn kostur á því að endurskoða val milli sóknardagakerfis og krókaaflamarks. Með þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu breytast forsendur og því er réttlætismál og í samræmi við góða stjórnsýsluhætti að gefa mönnum kost á að velja að nýju við þessar aðstæður. Fresturinn er framlengdur og verða menn að velja fyrir 15. apríl 1999, þ.e. tilkynning að berast í síðasta lagi 14. apríl.
          Að við ákvæði til bráðabirgða XXIV í lögunum verði bætt reglu um að veiðar krókaaflamarksbáta úr öðrum stofnum en þar eru tilgreindir séu ekki bundnar aflatakmörkun­um.
          Að jöfnunarúthlutun samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XXV í lögunum verði ákveðin 3.000 tonn á ári og sé sú úthlutun óháð öðrum úthlutunum samkvæmt lögunum.
          Að ákveðin verði viðmiðunardagsetning um hvenær bátar þurfi að hafa verið minni en 200 brúttótonn til að eiga rétt á úthlutun samkvæmt bráðbirgðaákvæði XXV. Þetta er gert til að koma í veg fyrir að menn fari að laga báta að lagaákvæðinu en engin vísiregla er um við hvaða tímamark á að miða, hvort miða eigi við stærð ár hvert eða í upphafi eins og frumvarpið gengur út á.
          Á sama hátt verði fastákveðið við hvaða tíma miða skuli 5% aukningu aflahlutdeildar báta minni en 10 brl. eða 10 brúttótonn.
          Að jöfnunarúthlutun verði flutt milli báta við endurnýjun með kaupum eða nýsmíði, enda sé ekki samið um annað. Auk þess verði sjávarútvegsráðherra veitt heimild til að rétta hlut þeirra sem endurnýjað hafa skip sín frá 1. september 1997 og fram til gildis­töku þessara laga þannig að sambærilegar reglur gildi um þá báta og aðra sem endur­nýjaðir eru síðar. Er gert ráð fyrir því að sjávarútvegsráðherra setji hlutlægar reglur um þessa úthlutun.
    Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi.