2000-03-13 15:04:30# 125. lþ. 77.92 fundur 370#B ummæli forsætisráðherra í umræðu um starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka# (aths. um störf þingsins), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 125. lþ.

[15:04]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég vakti athygli á því að gefnu tilefni að í umræðum um fjármál stjórnmálaflokka hefði aðeins einn formaður stjórnmálaflokks verið viðstaddur. Ég nefndi þar að vísu að formaður Alþfl. hefði ekki verið þar og reyndar ekki varaformaðurinn, ekki formaður vinstri grænna, ekki formaður Alþb. eða talsmaður Alþb. Þetta gerði ég sérstaklega vegna þess að því var haldið fram að ég hefði rokið út úr þinghúsinu, eins og því var svo smekklega haldið fram, eftir ræðu mína. Ég hlustaði á tvær ræður eftir það. Aðrir formenn flokka gátu ekki rokið út og reyndar var hygg ég varaformaður Alþfl. ekki mættur við þessa umræðu heldur. Frv. var um fjármál stjórnmálaflokka og ég lét þess getið. Ég mundi reyndar ekki sérstaklega eftir því að hv. þm. væri fjarri vegna veikinda.

Ég sagði þetta, lýsti þeim staðreyndum að enginn formaður stjórnmálaflokks hefði verið hér viðstaddur nema ég. Var ég þá að ráðast á hæstv. utanrrh. sem var erlendis? Ég bara tók þetta fram. Sá eini sem ráðist var á fyrir að hafa rokið út úr þinghúsinu, eins og það var orðað svo ósmekklega eða smekklega eftir atvikum, hafi verið sá sem hér stendur. Aðrir hefðu ekki tekið þátt í umræðunni og það var staðreyndin. En þessi mál hafa öll verið afgreidd með þeim hætti að menn hafa aldrei séð annað eins. Mér þykir miður ef ég hef sært hv. þm. Sighvat Björgvinsson, gamlan samstarfsmann minn og ágætan vin.