Sérstaða framhaldsskóla með bekkjakerfi

Mánudaginn 03. apríl 2000, kl. 15:28:05 (5801)

2000-04-03 15:28:05# 125. lþ. 87.1 fundur 416#B sérstaða framhaldsskóla með bekkjakerfi# (óundirbúin fsp.), KolH
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 125. lþ.

[15:28]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Mér er fullkunnugt um hvernig nám Verslunarskólans hefur verið byggt upp og þær óskir sem hafa verið settar fram af þeirra hálfu. Mér er einnig fullkunnugt um að nú verða engar breytingar eins og hæstv. menntmrh. var búinn að óska eftir eða láta í veðri vaka að þyrftu að verða á námsbraut Verslunarskólans til stúdentsprófs. Það er sams konar óánægja uppi varðandi þessa aðalnámskrá í bekkjakerfisskólunum á Akureyri og í Reykjavík. Hæstv. ráðherra fer eins og köttur í kringum heitan graut í því að svara spurningu minni.

Menntaskólinn í Reykjavík og Menntaskólinn á Akureyri hafa látið í ljós óskir um ákveðna sérstöðu. Ég vil fá að heyra það frá hæstv. ráðherra hvort þeim óskum verður sinnt á sama hátt og óskum Verslunarskólans hefur verið sinnt.