Utandagskrárumræða og fjarvera sjávarútvegsráðherra

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 13:57:37 (6550)

2000-04-13 13:57:37# 125. lþ. 101.91 fundur 455#B utandagskrárumræða og fjarvera sjávarútvegsráðherra# (aths. um störf þingsins), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 125. lþ.

[13:57]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég get ekki tekið undir það að stjórnarliðið sé ævinlega tilbúið í þessar umræður. Mér þótti það koma þannig út þegar þessi dómur hafði verið kveðinn upp að menn hefðu ekki áhuga á að taka þátt í umræðum um sjávarútvegsmál. Hæstv. sjútvrh. neitaði t.d. að taka þátt í umræðuþætti á Stöð 2 þá um kvöldið. Mér finnst líka að það sé fullkomin afsökun fyrir því að fá að hafa þessa umræðu á öðrum tíma að hæstv. forsrh. var ekki til staðar þegar hún stóð til boða. Hann hafði haft þvílík orð um það ef dómurinn félli öðruvísi en hann gerði. Það hefði því verið ástæða til þess að hann kæmi að þessari umræðu.

Mér finnst satt að segja að þetta beri keim af því, hvernig svörin hafa verið og hvernig menn hafa staðið að í umræðum eftir að þessi dómur lá fyrir, að stjórnarliðið hafi ekki haft nokkurn skapaðan áhuga á að taka þátt í þeirri umræðu. Menn hafa ekki verið til staðar alla þessa viku, hvorki hæstv. forsrh. eða hæstv. sjútvrh. Samt er þetta einhver stærsti atburður sem hefur gengið yfir, a.m.k. miðað við þau orð sem hæstv. forsrh. lét falla í vetur. Ég held að verið sé að koma sökinni á aðra með því að halda því fram að aðeins hafi verið einn möguleiki, bara föstudagurinn var, til að fara í þessa umræðu. Sé einungis einn dagur til þess ætlaður þá verður þröngt um svona umræður. Ég skora á menn að reyna að finna leiðir til að þessi umræða fái framgang. Það er auðséð að hún verður ekki fyrr en eftir páska en ég er á þeirri skoðun að hún eigi fullt erindi þá líka.