Bréfasendingar alþingismanna

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 10:46:48 (6982)

2000-05-08 10:46:48# 125. lþ. 107.91 fundur 485#B bréfasendingar alþingismanna# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 125. lþ.

[10:46]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég hef ávallt gætt þess að kannað sé hvaða reglur gildi hvort heldur um útsendingu pósts eða annars. Ég vildi óska þess að flokksbundnir fulltrúar flokks míns í Reykjanesi væru svo margir að sú tala gæti verið rétt sem þingmenn eru að bera fram að við höfum verið að senda út 18 þúsund eintök.

Varðandi síðara bréfið, sem ég vísaði til, þá sendu aðrir þingmenn sama bréf í kjördæmi sitt. Herra forseti. Ég hef ósjaldan sent bréf í kjördæmi mitt þar sem mér hefur fundist að vafi léki á því að það færi á kostnað þingsins og ég hef keypt frímerki undir það. Ég get mætt á fund hjá forseta með þær upplýsingar og tekið þátt í hvort heldur þarf að setja siðareglur eða skoða hverjar reglur gilda um póst þingmanna. Ég fullyrði það úr þessum ræðustól að ekki mun halla á Samfylkinguna í þeim efnum.