Verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóðir

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 17:09:36 (7226)

2000-05-09 17:09:36# 125. lþ. 110.23 fundur 420. mál: #A verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóðir# (menntunarkröfur, tryggingar, afleiðusamningar o.fl.) frv. 99/2000, Frsm. minni hluta JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 125. lþ.

[17:09]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel ástæðu til að þakka hæstv. ráðherranum vegna þess að nú talaði hæstv. ráðherra skýrt. Samkeppnislögin verða afgreidd frá efh.- og viðskn. og þau verða gerð að lögum í þessari viku og er mjög gott til þess að vita.

Það er líka mjög gott að fá fram það sem fram kom hjá ráðherranum varðandi þau sex fyrirtæki sem hafa brotið verklagsreglur. Ég skil það svo að þessum málum sé enn ólokið og verið sé að vinna að því að fullnusta tilmæli Fjármálaeftirlitsins um það að þessi viðskipti verði látin ganga til baka þar sem þess er kostur og þar sem það er hægt. Þegar niðurstaða liggur fyrir í því ætlast ég til að a.m.k. efh.- og viðskn. fái einhverja vitneskju um hana. Auðvitað ætti þetta ekki að fara neitt dult þannig að það ætti að liggja fyrir opinberlega hver niðurstaðan verður í að fullnusta þau tilmæli sem koma fram hjá Fjármálaeftirlitinu varðandi brot þessara sex fyrirtækja. Verði því ekki mótmælt lít ég svo á að hæstv. viðskrh. muni beita sér fyrir því að niðurstaðan varðandi lyktir málsins verði gerð opinber.