Notkun íslenskra veðurhugtaka

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 13:57:31 (7424)

2000-05-10 13:57:31# 125. lþ. 114.12 fundur 615. mál: #A notkun íslenskra veðurhugtaka# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[13:57]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Mér þykir miður að hæstv. umhvrh., sem er ung kona og vösk, skuli vera að verja þetta dellumál veðurstofustjóra. Staðreyndin er að það voru mistök, ég held að nánast allir séu sammála um það, það voru mistök að vera að breyta lýsingu á vindstyrk úr vindstigum í metra á sekúndu í veðurlýsingu og hætta að nota þessi gömlu góðu orð eins og gola og stormur. Ég hef hitt ansi marga, sérstaklega í kjördæmi mínu, sem nota mikið veðurspárnar og veðurlýsingarnar. Ég hef varla hitt neinn og eiginlega ekki einn einasta mann sem er sammála þessari breytingu. Fólk sem notar þetta mikið eins og bílstjórar, bændur, sjómenn o.fl. spyrja allir: Af hverju var þetta gert og fyrir hvern? Ég hef ekki fengið nein svör við því. Það sem hefur gerst er að veðurstofustjóri eða einhverjir í kringum hann hafa talið sig fá þarna snilldarhugmynd sem þeir geta svo ekki bakkað með en eiga auðvitað að gera því þetta voru mistök. Þetta fer ekkert vel í þjóðina og menn eiga bara að viðurkenna það þegar þeir gera mistök, þeir eiga að breyta þessu aftur.

Ég lenti í Gallup-könnuninni og svaraði nú rétt, held ég, en hvort menn svara því nákvæmlega rétt hvað er stinningskaldi, sex vindstig eða sjö vindstig, það er ekki marktækt.