Mat á umhverfisáhrifum

Föstudaginn 12. maí 2000, kl. 15:37:24 (7587)

2000-05-12 15:37:24# 125. lþ. 117.12 fundur 386. mál: #A mat á umhverfisáhrifum# (heildarlög) frv. 106/2000, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 125. lþ.

[15:37]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég get sannarlega tekið undir orð hv. varaformanns umhvn., hv. þm. Kristjáns Pálssonar, þegar hann talar um vinnuandann í nefndinni. Þar var vel á tekið og við komumst yfir ansi mikið.

Mig langar aðeins að fá svar hjá hv. þm. við einu. Það tengist þeim orðum hans þegar hann sagði eitthvað á þá leið að við yrðum að standa frammi fyrir umbjóðendum okkar og geta svarað fyrir það hvers vegna við gerðum þetta svona en ekki hinsegin. Því langar mig að heyra frá hv. þm. um afstöðu hans til landshlutabundinnar skógræktar sem, eins og kom fram í ræðu minni, mér er mikið í mun að komi inn í 1. viðauka. Hvernig ætlar hv. þm. Kristján Pálsson að skýra það fyrir kjósendum sínum að hann sætti sig ekki við að setja landshlutabundna skógrækt undir 1. viðauka frv. vitandi að í lögunum um landshlutabundna skógrækt fellur niður það ákvæði sem þar er við samþykkt þessara nýju laga um mat á umhverfisáhrifum.

Mig langaði líka aðeins að nefna í sambandi við ítarlegra mat hvort hv. þm. líti svo á að skipulagsstjóri geti hafnað framkvæmd vegna þess að einhverjar af þeim rannsóknum sem fyrir liggja í frummatsskýrslu séu ófullnægjandi eða vegna þess að ófullnægjandi eða ónógra gagna hafi verið aflað þegar frummatsskýrslan er lögð fram.

Það er einungis þetta tvennt sem mig langaði til að fá afstöðu þingmannsins til.