Skattfrelsi forseta Íslands

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 10:18:36 (7710)

2000-05-13 10:18:36# 125. lþ. 118.7 fundur 652. mál: #A skattfrelsi forseta Íslands# (breyting ýmissa laga) frv. 84/2000, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[10:18]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. virðist alltaf telja að raunlaun skipti ekki máli, að einungis nafnlaun skipti máli. Það er enginn að tala um að hækka raunlaun. Raunlaunin skipta máli. Það er það sem kemur í budduna. Þetta hlýtur fyrrv. ráðherra að vita. Nafnlaunin breytast ekki.

Varðandi laun forsrh. var það þannig að mörgum fannst laun forsrh. of lág á tímabili. Þau hafa breyst mjög. Ég tel að laun forsrh. séu, án þess að ég eigi kannski að leggja dóm á það, a.m.k. hæfileg og alls ekki of lág. Mér finnst laun forsrh. ekki of lág. Ég held að forsrh. hver sem hann er sé vel haldinn af þeim launum sem hann hefur núna. Þar hefur orðið breyting á og meira að segja verið gagnrýnt að Kjaradómur hefur hækkað laun ráðherra og þingmanna. Ég ætla ekki að leggja dóm á laun þingmanna en ég tel að laun forsrh. séu sanngjörn, það sé ekki nein efnisleg ástæða til þess að hækka laun forsrh.

Ef laun forsetans hækka ekki þó að þau séu öðruvísi skráð, bara vegna þess að skattleysi eigi ekki lengur við, getur það að mínu viti ekki leitt til að laun forsrh. eða annarra ráðherra hækki. Það er bara ekki nokkur minnsta ástæða til þess. Það má vel vera að þetta fyrirkomulag hafi haldið niðri launum þingmanna og ráðherra áður fyrr. Um það var talað og ég heyrði svoleiðis tal, að það væri réttara að hafa laun forsetans hærri en ráðherranna, sem væri að vísu bara plat því að þau væru miklu hærri, og það héldi niðri launum þingmanna og ráðherra. Ég held að þetta eigi ekki við lengur. Ég held að ráðherrar a.m.k., ég skal ekki dæma um þingmennina, séu vel haldnir núorðið miðað við það sem gerist annars staðar í heiminum. Í stærri löndum eru laun þeirra auðvitað aðeins hærri en hér en miðað við alla aðra hluti finnst mér ráðherrar hér núorðið ágætlega haldnir.

Ég tel ekki minnstu ástæðu til að Kjaradómur hækki laun annarra út frá því að úreltu ákvæði um skattalög, sem tengist því að við yfirfærðum á forsetaembættið aðstæður konungsembættis í Danmörku sem var talið vera komið frá guði, sé breytt. Ég sé ekki að það hafi nokkur áhrif á laun annarra. Það á ekki að gera það og þarf ekki að gera það.