Aðgerðir gegn ofbeldi og ránum

Mánudaginn 06. desember 1999, kl. 14:27:43 (2317)

1999-12-06 14:27:43# 125. lþ. 36.1 fundur 182#B aðgerðir gegn ofbeldi og ránum# (óundirbúin fsp.), KPál
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 125. lþ.

[14:27]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Allt sem þarf að segja verður náttúrlega aldrei sagt í þessum ræðustól á einni mínútu eða svo. Eins og við þekkjum þá kemur ekki upp á yfirborðið nema lítill hluti af því sem er að gerast í þjóðfélagi okkar. Þegar fíkniefnavandinn er orðinn jafngríðarlegur og hann er þá gefur það nokkurn veginn augaleið.

Auðvitað er verið að vinna vel á mörgum sviðum í þessu máli. Ég tek undir það með hæstv. dómsmrh. að margt gott hefur verið gert. En ég held að það sem birtist okkur núna bendi einmitt til að við þurfum að gera miklu meira. Það þarf að setja á fót miklu öflugri deildir sem geta tekið á þessum málum. Þessir ólánsmenn fara í meðferð og koma svo til baka. Þá á allt að vera klappað og klárt, það er bara ekki þannig. Þessir menn eru stórhættulegir margir hverjir og kannski þarf að endurskoða þessi mál frá grunni.